Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

47. KAFLI

Hvernig vitum við að harmagedón er í nánd?

Hvernig vitum við að harmagedón er í nánd?

ÞÚ VEIST hvað tákn er, er það ekki? — Í 46. kafla lásum við að Guð hafi gefið merki eða tákn um að hann ætlaði aldrei framar að eyða heiminum í flóði. Postularnir báðu líka um tákn svo að þeir gætu vitað hvenær Jesús væri kominn aftur og hvenær endir heimsins eða heimskerfisins væri nærri. — Matteus 24:3.

Þar sem Jesús yrði ósýnilegur á himnum myndi þurfa sýnilegt tákn til að fólk vissi að hann væri byrjaður að ríkja. Hann sagði þess vegna frá ýmsu sem lærisveinar hans áttu að vera vakandi fyrir hér á jörðinni. Þegar táknið kæmi fram merkti það að hann væri snúinn aftur og byrjaður að ríkja sem konungur á himnum.

Til að kenna lærisveinum sínum hversu mikilvægt væri að halda vöku sinni sagði hann við þá: ,Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þið sjáið þau farin að bruma þá vitið þið að sumarið er í nánd.‘ Þú veist hvenær sumarið er í nánd. Og þú veist líka hvenær Harmagedónstríðið er í nánd þegar þú sérð allt gerast sem Jesús talaði um. — Lúkas 21:29, 30.

Hvað var Jesús að kenna þegar hann talaði um fíkjutréð?

Á þessari síðu og þeirri næstu skulum við skoða myndir af því sem Jesús sagði að væri hluti af tákninu um að Guðsríki væri í nánd. Þegar allt þetta kemur fram mun Guðsríki, með Krist sem stjórnanda, eyða öllum öðrum stjórnum eins og við lásum um í 46. kafla.

Skoðaðu nú vel myndirnar á síðustu tveim blaðsíðum og við skulum ræða um þær. Í Matteusi 24:6-14 og Lúkasi 21:9-11 geturðu lesið um það sem þú sérð á þessum myndum. Taktu líka eftir litla tölustafnum á hverri mynd. Þú finnur sama tölustaf fremst í þeirri efnisgrein sem fjallar um myndina. Nú skulum við athuga hvort hinir ýmsu þættir táknsins, sem Jesús gaf, séu að uppfyllast nú á dögum.

(1) Jesús sagði: „Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. . . . Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ Hefurðu heyrt fréttir af styrjöldum? — Fyrri heimsstyrjöldin var háð frá 1914 til 1918 og síðari heimsstyrjöldin frá 1939 til 1945. Aldrei áður höfðu verið háðar heimsstyrjaldir. Núna eru stríð út um allan heim. Á hverjum degi er sagt frá stríðsátökum í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum.

(2) Jesú sagði líka: „Þá verður hungur . . . á ýmsum stöðum.“ Eins og þú veist kannski hafa ekki allir nóg að borða. Daglega deyja þúsundir manna vegna matarskorts.

(3) Jesús bætti við: ,Þá verða drepsóttir á ýmsum stöðum.‘ Veistu hvað drepsótt er? — Það er veiki eða sjúkdómur sem dregur marga til dauða. Ein slík drepsótt var kölluð spánska veikin. Á aðeins einu ári dóu um 20 milljónir manna af völdum hennar. Á okkar tímum eiga líklega enn fleiri eftir að deyja úr alnæmi. Þúsundir manna deyja á hverju ári af völdum krabbameins, hjartasjúkdóma og annarra sjúkdóma.

(4) Jesús segir svo frá öðrum þætti táknsins: ,Þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum.‘ Veistu hvað landskjálfti er? — Landskjálfti er það sama og jarðskjálfti en þá hristist jörðin undir fótum okkar. Hús hrynja og oft deyr fólk. Frá árinu 1914 hafa orðið margir jarðskjálftar á hverju ári. Hefurðu heyrt um jarðskjálfta? —

(5) Jesús sagði líka að ,lögleysi myndi magnast‘. Það er ástæðan fyrir öllum þjófnuðunum og ofbeldinu. Fólk er alls staðar hrætt við að einhver brjótist inn hjá sér. Aldrei hefur verið eins mikið um glæpi og ofbeldi í heiminum og núna.

(6) Jesús talaði um mjög mikilvægan þátt táknsins þegar hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Ef þú trúir þessu „fagnaðarerindi“ ættirðu að segja öðrum frá því. Þannig geturðu lagt þitt af mörkum til að uppfylla þennan þátt táknsins.

Sumir segja kannski að það sem Jesús spáði hafi alltaf verið að gerast. En aldrei fyrr hefur allt þetta átt sér stað á svo mörgum stöðum í heiminum og á sama tíma. Skilurðu núna hvað táknið merkir? — Það merkir að þegar við sjáum allt þetta eiga sér stað er stutt í það að nýr heimur Guðs komi í staðinn fyrir þennan óguðlega heim.

Þegar Jesús sagði frá þessu tákni talaði hann líka um ákveðna árstíð. Hann sagði: ,Biðjið að flótti ykkar verði ekki um vetur.‘ (Matteus 24:20) Hvað heldurðu að hann hafi átt við með þessu? —

Hvað gæti gerst ef einhver neyddist til að flýja hörmungar um vetur þegar erfitt eða jafnvel hættulegt væri að ferðast vegna veðurs? — Það gæti verið mjög erfitt að flýja ef það væri yfirleitt hægt. Væri ekki dapurlegt ef einhver myndi deyja í óveðri bara af því að hann var svo upptekinn af einhverju öðru að hann lagði ekki nógu snemma af stað? —

Hvað var Jesús að kenna þegar hann talaði um að flýja að vetrarlagi?

Skilurðu hvað Jesús átti við þegar hann talaði um að bíða ekki fram á vetur með að flýja? — Hann var að segja okkur að við ættum ekki að fresta því að sanna að við elskum Guð og viljum þjóna honum. Við vitum nefnilega að Harmagedón er í nánd og ef við bíðum gæti það orðið um seinan. Þá yrðum við alveg eins og fólkið á tímum flóðsins mikla sem heyrði viðvörun Nóa en fór ekki inn í örkina.

Næst skulum við tala um það hvernig lífið verður þegar stríðið mikla við Harmagedón er afstaðið. Þá sjáum við hvað Guð ætlar að gefa öllum sem elska hann og þjóna honum núna.

Hér eru ritningarstaðir sem sýna að stutt er í Harmagedón: 2. Tímóteusarbréf 3:1-5 og 2. Pétursbréf 3:3, 4.