Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. KAFLI

Hver er sannleikurinn um Guð?

Hver er sannleikurinn um Guð?
  •  Er Guði annt um okkur mennina?

  • Hvernig er Guð? Heitir hann eitthvað?

  • Er hægt að eiga náið samband við Guð?

1, 2. Af hverju er oft gott að spyrja spurninga?

HEFURÐU tekið eftir hvernig börn spyrja spurninga? Oft byrjar spurningaflóðið um leið og þau læra að tala. Þau horfa á þig stórum augum og spyrja: Af hverju er himinninn blár? Úr hverju eru stjörnurnar búnar til? Hver kenndi fuglunum að syngja? Þú svarar eins vel og þú getur en það er ekki alltaf auðvelt. Þó að þú svarir prýðilega máttu alltaf búast við að barnið spyrji áfram: Af hverju?

2 Það eru ekki bara börnin sem spyrja spurninga. Við höldum áfram að spyrja þegar við vöxum úr grasi, til að rata rétta leið, þekkja inn á hættur sem við þurfum að forðast og svala forvitninni. Margir virðast hins vegar hætta að spyrja með tímanum, einkum þeirra spurninga sem skipta mestu máli. Þeir hætta að minnsta kosti að leita svara.

3. Af hverju hætta margir að leita svara við þeim spurningum sem mestu máli skipta?

3 Líttu á spurninguna á bókarkápunni, spurningarnar í formálanum eða  spurningarnar í byrjun þessa kafla. Þetta eru meðal þýðingarmestu spurninga sem hægt er að spyrja. Margir hafa samt gefist upp á að leita svara við þeim. Af hverju? Svarar Biblían þeim? Sumum finnst erfitt að skilja svör hennar. Aðrir hika við að spyrja af ótta við að verða sér til skammar. Og sumir hugsa sem svo að það sé verkefni guðfræðinga og trúarbragðakennara að svara svona spurningum. Hvað finnst þér?

4, 5. Nefndu dæmi um einhverjar af mikilvægustu spurningum lífsins. Hvers vegna ættum við að leita svara við þeim?

4 Að öllum líkindum hefurðu áhuga á að fá svör við stóru spurningunum í lífinu. Sennilega veltirðu stundum fyrir þér hver sé tilgangur lífsins, hvort þetta líf sé allt og sumt og hvernig Guð sé í raun og veru. Það er skynsamlegt að spyrja slíkra spurninga og mikilvægt að hætta ekki fyrr en maður fær góð og áreiðanleg svör. Jesús Kristur, sem var sjálfur frægur kennari, sagði: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.“ — Matteus 7:7.

5 Þú uppskerð árangur erfiðis þíns ef þú heldur áfram að leita svara við mikilvægu spurningunum og gefst ekki upp. (Orðskviðirnir 2:1-5) Þótt sumir haldi öðru fram þá er hægt að fá svör og þú getur fundið þau — í Biblíunni. Svörin eru ekki ofvaxin skilningi þínum heldur geta þau glatt þig og gefið þér von. Og þau geta veitt þér lífsfyllingu hér og nú. Við skulum byrja á því að leita svars við spurningu sem hefur vafist fyrir mörgum.

ER GUÐ AFSKIPTALAUS OG HARÐBRJÓSTA?

6. Hvers vegna halda margir að Guði standi á sama um þjáningar mannanna?

6 Margir halda að svo hljóti að vera. Þeir hugsa sem svo að heimurinn hlyti að vera allt öðruvísi ef Guð léti sér annt um mennina. Styrjaldir, hatur og eymd blasa við okkur hvert sem litið er. Við veikjumst, þjáumst og missum ástvini í dauðann. Margir spyrja hvort Guð myndi ekki koma í veg fyrir svona lagað ef hann léti sér annt um okkur.

7. (a) Hvernig hafa kennarar ýmissa trúflokka talið mörgum trú um að Guð sé harðbrjósta? (b) Hvað kennir Biblían um prófraunir sem við lendum í?

7 Ekki bætir það úr skák að kennarar í ýmsum trúflokkum koma þeirri hugmynd stundum inn hjá fólki að Guð sé harðbrjósta. Hvernig gera þeir það? Þeir segja að það sé vilji Guðs þegar harmleik ber að garði. Í raun réttri eru þeir að kenna Guði um bágindi mannanna. Er þetta sannleikurinn um Guð? Kennir Biblían þetta virkilega? Í Jakobsbréfinu 1:13 er svarað: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu [eða prófraunum og erfiðleikum]: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ Illskan, sem við sjáum í kringum okkur í heiminum, er aldrei Guði að kenna. (Lestu Jobsbók 34:10-12.) Hann leyfir að vísu að margt gerist sem er miður gott en það er mikill munur á því að leyfa eitthvað og valda því.

8, 9. (a) Geturðu lýst með dæmi hvaða munur er á því að leyfa eitthvað illt og valda því? (b) Af hverju er ekki sanngjarnt að ásaka Guð fyrir að leyfa mannkyninu að halda áfram á rangri braut?

8 Hugsum okkur vitran og ástríkan föður. Hann á fullvaxta son sem býr enn í föðurhúsum. Sonurinn gerist þrjóskur og þver og ákveður að flytja að heiman. Faðirinn reynir ekki að hindra hann. Sonurinn leggst í ólifnað og kemur sér í mikla erfiðleika. Eru vandræði sonarins föðurnum að kenna? Auðvitað ekki. (Lúkas 15:11-13) Guð hefur ekki heldur stöðvað mennina þegar þeir hafa valið að fara út á ranga braut, en erfiðleikar þeirra eru ekki honum að kenna. Það er alls ekki sanngjarnt að saka Guð um öll bágindi mannanna.

9 Guð hefur góðar og gildar ástæður fyrir því að leyfa mönnunum að halda áfram á rangri braut. Skapari okkar er vitur og voldugur og honum ber engin skylda til að gera okkur grein fyrir því hverjar ástæðurnar eru. En hann gerir það vegna þess að hann elskar mennina. Við fjöllum meira um þessar ástæður í 11. kaflanum. Þú mátt hins vegar treysta því að Guð á ekki sök á þeim erfiðleikum sem við eigum við að etja heldur veitir okkur einu áreiðanlegu vonina um að þeir taki enda. — Jesaja 33:2.

10. Hvers vegna megum við treysta að Guð geri að engu allar afleiðingar illskunnar?

10 Guð er líka heilagur. (Jesaja 6:3) Það merkir að hann er hreinn. Hann er algerlega laus við alla illsku þannig að við getum treyst honum fullkomlega. Það er meira en sagt verður um mennina sem eiga það til að verða spilltir. Heiðarlegustu leiðtogar ráða oft ekki við að bæta það tjón sem vondir menn valda. En Guð er almáttugur. Hann getur gert að engu þær afleiðingar sem illskan hefur haft fyrir mannkynið og hann mun gera það. Þegar Guð tekur í taumana gerir hann það þannig að illskan tekur enda fyrir fullt og allt! — Sálmur 37:9-11.

HVAÐ FINNST GUÐI UM RANGLÆTIÐ SEM VIÐ MEGUM ÞOLA?

11. (a) Hvernig lítur Guð á ranglæti? (b) Hvað finnst Guði um það að þú þjáist?

11 En hvað finnst Guði um það sem er að gerast núna í heiminum og í lífi þínu? Biblían kennir að Guð hafi „mætur á réttlæti“ þannig að hann hefur sterka tilfinningu fyrir því hvað sé rétt og rangt. (Sálmur 37:28) Hann hatar hvers kyns ranglæti. Í Biblíunni segir að honum hafi ‚sárnað í hjarta sínu‘ þegar heimurinn fylltist mannvonsku endur fyrir löngu. (1. Mósebók 6:5, 6) Guð hefur ekki breyst. (Malakí 3:6) Það tekur hann enn þá sárt að horfa upp á þjáningarnar sem eiga sér stað um allan heim. Hann vill ekki að fólk þjáist. Biblían segir að hann ‚beri umhyggju fyrir okkur‘. — Lestu 1. Pétursbréf 5:7.

Biblían kennir að Jehóva sé kærleiksríkur skapari alheimsins.

12, 13. (a) Af hverju höfum við góða eiginleika eins og kærleika og hvaða áhrif hefur það á okkur? (b) Hvers vegna getum við treyst að Guð bindi enda á vandamálin í heiminum?

12 Hvernig getum við verið viss um að Guði þyki sárt að horfa upp á þjáningar? Lítum á aðra sönnun fyrir því. Biblían kennir að maðurinn sé skapaður eftir mynd Guðs. (1. Mósebók 1:26) Við höfum sem sagt góða eiginleika af því að Guð hefur góða eiginleika. Finnst þér sárt að horfa upp á fólk þjást án þess að hafa nokkuð til saka unnið? Úr því að slíkt ranglæti fær á þig máttu vera viss um að það fær enn meira á Guð.

13 Eitt það besta í fari mannanna er hæfileikinn að elska. Hann endurspeglar líka eiginleika Guðs. Biblían kennir að ‚Guð sé kærleikur‘. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Við elskum vegna þess að Guð elskar. Myndi kærleikurinn fá þig til að binda enda á ranglætið í heiminum ef þú hefðir vald og mátt til þess? Auðvitað! Þú mátt vera jafnviss um að Guð bindur enda á þjáningar og ranglæti. Loforðin, sem eru nefnd í formála bókarinnar, eru engin óskhyggja eða draumórar. Það er algerlega öruggt að loforð Guðs rætist. En til að trúa á þau þarftu að vita meira um þann sem gaf þau.

GUÐ VILL AÐ ÞÚ VITIR HVER HANN ER

Ertu ekki vanur að segja hvað þú heitir þegar þú vilt gefa öðrum tækifæri til að kynnast þér? Guð opinberar okkur nafn sitt í Biblíunni.

14. Hvað heitir Guð og hvers vegna ættum við að nota nafn hans?

14 Hvað gerum við yfirleitt ef við viljum gefa annarri manneskju færi á að kynnast okkur? Erum við ekki vön að segja hvað við heitum? Heitir Guð eitthvað? Margir trúflokkar kenna að hann heiti „Guð“ eða „Drottinn“ en það eru ekki eiginnöfn heldur titlar, rétt eins og „konungur“ og „forseti“. Biblían kennir að Guð eigi sér marga titla, þeirra á meðal „Guð“ og „Drottin“. En hún kennir líka að Guð eigi sér nafn og nafnið er Jehóva. Í 2. Mósebók 6:3 (neðanmáls) segir: „Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Jahve [eða Jehóva] hefi ég eigi opinberast þeim.“ Ef nafn Guðs stendur ekki í biblíunni þinni gætirðu kynnt þér ástæðuna fyrir því, en hún er skýrð í viðaukanum „Nafn Guðs – notkun þess og merking“. Nafnið stendur mörg þúsund sinnum í fornum biblíuhandritum, þannig að Guð vill greinilega að þú þekkir það og notir. Það má orða það þannig að hann noti Biblíuna til að kynna sig fyrir þér.

15. Hvað merkir nafnið Jehóva?

15 Guð gaf sjálfum sér mjög merkingarríkt nafn. Nafnið Jehóva merkir að hann geti uppfyllt öll loforð sem hann gefur og gert hvaðeina sem hann ætlar sér. * Þetta nafn á sér engan sinn líka. Enginn ber það nema hann, enda er hann einstakur á margan hátt. Lítum á dæmi.

16, 17. Hvað lærum við af því að Jehóva skuli kallaður (a) ‚hinn alvaldi‘? (b) „konungur aldanna“? (c) „skapari“?

16 Í Sálmi 83:19 er sagt að Jehóva sé „Hinn hæsti yfir allri jörðunni“. Hann einn er kallaður „almáttugur“, „alvaldur“ og „hinn Almáttki“. Í Opinberunarbókinni 15:3 segir: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.“ Ávarpið „þú alvaldi“ gefur til kynna að Jehóva sé voldugasta og máttugasta vera sem til er. Hann fer með æðsta vald í alheimi. Og titillinn „konungur aldanna“ minnir á annað sem gerir Jehóva einstakan. Hann einn hefur alltaf verið til. Sálmur 90:2 segir: „Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ Þessi tilhugsun vekur óneitanlega með okkur lotningu.

17 Jehóva er sömuleiðis einstakur vegna þess að hann einn er skaparinn. Opinberunarbókin 4:11 segir: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Allt sem þú getur ímyndað þér — allt frá ósýnilegum andaverum á himnum til stjarna á næturhimni, ávaxta sem vaxa á trjánum og fiska sem synda í höfum og ám — allt er þetta til vegna þess að Jehóva er skaparinn!

GETURÐU ÁTT NÁIÐ SAMBAND VIÐ JEHÓVA?

18. (a) Hvers vegna óttast sumir að þeir geti aldrei eignast náið samband við Guð? (b) Hvað kennir Biblían?

18 Sumir verða eilítið órólegir þegar þeir lesa um mikilfenglega eiginleika Jehóva. Þeir óttast að hann sé svo hátt yfir þá hafinn að þeir geti hvorki átt náið samband við hann né skipt hann nokkru máli. En er það svo? Biblían kennir raunar hið gagnstæða. Hún segir að Jehóva sé ‚eigi langt frá neinum af oss‘. (Postulasagan 17:27) Hún hvetur okkur jafnvel til að ‚nálægja okkur Guði‘ og segir að þá ‚muni hann nálgast okkur‘. — Jakobsbréfið 4:8.

19. (a) Hvað er það fyrsta sem við getum gert til að nálægja okkur Guði og hvaða blessun fylgir því? (b) Hvaða eiginleiki Guðs höfðar sterkast til þín?

19 Hvernig geturðu nálægt þig Guði? Fyrsta skrefið er að halda áfram að kynnast honum eins og þú ert að gera núna. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Biblían kennir að við getum hlotið eilíft líf ef við kynnumst Jehóva og Jesú. „Guð er kærleikur,“ eins og áður hefur komið fram en hann hefur marga fleiri aðlaðandi eiginleika. (1. Jóhannesarbréf 4:16) Biblían segir til dæmis að Jehóva sé „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur“. (2. Mósebók 34:6) Hann er „góður og fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) Hann er langlyndur og þolinmóður við okkur. (2. Pétursbréf 3:9) Þegar þú lest í Biblíunni kemstu að raun um hvernig Jehóva hefur sýnt alla þessa aðlaðandi eiginleika og marga fleiri.

20-22. (a) Þurfum við að sjá Guð til að eiga náið samband við hann? Skýrðu svarið. (b) Hvað gæti velviljað fólk hvatt þig til að gera? Hvað ættirðu samt að gera?

20 Þú sérð auðvitað ekki Guð því að hann er ósýnilegur andi. (Jóhannes 1:18; 4:24; 1. Tímóteusarbréf 1:17) Þú getur hins vegar kynnst honum sem persónu með því að lesa um hann í Biblíunni. Þú getur ‚skoðað yndisleik‘ Jehóva eins og sálmaritarinn orðaði það. (Sálmur 27:4; Rómverjabréfið 1:20) Því meira sem þú lærir um Jehóva, þeim mun raunverulegri verður hann þér, og þú ferð að elska hann og finna að hann er nærri þér.

Föðurástin endurspeglar þá sterku ást sem faðirinn á himnum ber til okkar.

21 Þú áttar þig smám saman á því hvers vegna Biblían hvetur okkur til að hugsa um Jehóva sem föður. (Matteus 6:9) Bæði er það vegna þess að hann er höfundur lífsins og eins vill hann að líf okkar verði farsælt, rétt eins og allir ástríkir feður vilja börnum sínum allt hið besta. (Sálmur 36:10) Biblían kennir einnig að menn geti orðið vinir Jehóva. (Jakobsbréfið 2:23) Hugsaðu þér — þú getur átt skapara alheimsins fyrir vin!

22 Hugsanlegt er að einhverjir, sem vilja þér vel, reyni að fá þig til að hætta að kynna þér Biblíuna. Þeir óttast kannski að þú skiptir um trú. En láttu engan hindra þig í að mynda verðmætustu vináttubönd sem þú getur eignast.

23, 24. (a) Af hverju ættirðu að halda áfram að spyrja spurninga um það sem þú ert að kynna þér? (b) Um hvað er fjallað í næsta kafla?

23 Ýmislegt á auðvitað eftir að vefjast fyrir þér í byrjun. Það getur kostað svolitla auðmýkt að biðja um hjálp en þú skalt ekki skammast þín fyrir að gera það. Jesús sagði að það væri gott að vera auðmjúkur eins og lítið barn. (Matteus 18:2-4) Og börnin eru óþreytandi að spyrja spurninga eins og við vitum. Guð vill að þú fáir svör. Biblían hrósar mönnum sem lögðu sig sérstaklega fram við að kynnast Guði en þeir rannsökuðu Ritninguna vandlega til að fullvissa sig um að það væri verið að kenna þeim sannleikann. — Lestu Postulasöguna 17:11.

24 Besta leiðin til að kynnast Jehóva er að kynna sér Biblíuna. Hún er ólík öllum öðrum bókum. Hvernig? Við lítum nánar á það í næsta kafla.

^ gr. 15 Nánari upplýsingar um merkingu og framburð nafns Guðs er að finna í viðaukanum „Nafn Guðs – notkun þess og merking“.