Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

4. KAFLI

Hver er Jesús Kristur?

Hver er Jesús Kristur?
  • Hvaða sérstöku hlutverki gegnir Jesús?

  • Hvaðan kom hann?

  • Hvers konar maður var hann?

1, 2. (a) Hvers vegna er ekki þar með sagt að maður þekki fræga manneskju þó að maður viti að hún er til? (b) Hvaða ólíkar hugmyndir eru uppi um Jesú?

ÞAÐ er fullt af frægu fólki í heiminum. Sumir eru frægir í bænum, borginni eða landinu þar sem þeir búa og aðrir eru heimsfrægir. En þó að þú þekkir nafnið á frægri manneskju er ekki þar með sagt að þú þekkir hana í raun og veru. Það er ekki víst að þú vitir nokkuð um uppruna hennar eða hafir hugmynd um hvaða mann hún hefur að geyma.

2 Fólk um allan heim hefur heyrt getið um Jesú Krist þó að um 2000 ár séu liðin síðan hann var á jörðinni. Hins vegar hafa menn mjög ólíkar hugmyndir um það hver hann hafi verið í raun og veru. Sumir segja að hann hafi ekki verið annað en góður maður. Aðrir halda því fram að hann hafi einungis verið spámaður og enn aðrir trúa að hann sé Guð og að það eigi að tilbiðja hann. Er það rétt?

3. Af hverju er mikilvægt fyrir þig að vita sannleikann um Jesú?

3 Það er mikilvægt fyrir þig að vita sannleikann um Jesú. Af hverju? Af því að Biblían segir: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Þú getur sem sagt hlotið eilíft líf í paradís á jörð ef þú þekkir sannleikann um Jehóva Guð og Jesú Krist. (Jóhannes 14:6) Jesús er auk þess besta fyrirmyndin um hvernig við eigum að lifa og koma fram við aðra. (Jóhannes 13:34, 35) Í fyrsta kafla ræddum við um það hver Guð er. Nú skulum við kanna hvað Biblían kennir um Jesú Krist.

HINN FYRIRHEITNI MESSÍAS

4. Hvað merkja titlarnir „Messías“ og „Kristur“?

4 Löngu áður en Jesús fæddist hafði því verið spáð í Biblíunni að Guð myndi senda Messías eða Krist. Titlarnir „Messías“ (komið af hebresku orði) og „Kristur“ (komið af grísku orði) merkja báðir „hinn smurði“. Sá sem koma átti yrði smurður en það merkir að Guð myndi skipa hann í sérstaka stöðu. Síðar í bókinni er fjallað nánar um mikilvægan þátt Messíasar í að uppfylla fyrirheit Guðs. Við kynnum okkur líka hvaða blessun Jesús getur veitt okkur hér og nú. En áður en Jesús fæddist hljóta margir að hafa velt fyrir sér hver Messías yrði.

5. Um hvað voru lærisveinar Jesú alveg sannfærðir?

5 Lærisveinar Jesú frá Nasaret á fyrstu öld voru sannfærðir um að hann væri hinn fyrirheitni Messías. (Jóhannes 1:41) Einn þeirra, Símon Pétur að nafni, sagði opinskátt við Jesú: „Þú ert Kristur.“ (Matteus 16:16) Hvernig gátu þeir verið svona öruggir um að Jesús væri Messías og hvernig getum við fullvissað okkur um það?

6. Lýstu hvernig Jehóva hefur hjálpað trúuðu fólki að bera kennsl á Messías.

6 Spámenn Guðs, sem voru uppi áður en Jesús fæddist, sögðu fyrir fjöldamargt varðandi Messías og það átti að hjálpa fólki að bera kennsl á hann. Við skulum lýsa þessu með dæmi: Setjum sem svo að þú værir beðinn um að fara á fjölfarna umferðarmiðstöð eða flugstöð til að sækja mann sem þú hefðir aldrei séð áður. Þú ættir auðveldara með að þekkja hann ef þú hefðir fengið lýsingu á honum. Jehóva lét spámenn sína gefa nokkuð ítarlega lýsingu á því hvað Messías myndi gera og hvað myndi henda hann. Þegar þessir spádómar rættust myndi trúað fólk eiga auðvelt með að bera kennsl á hann.

7. Nefndu tvo spádóma sem rættust á Jesú.

7 Við skulum líta á tvö dæmi. Meira en 700 árum áður en Jesús fæddist sagði spámaðurinn Míka að Messías myndi fæðast í Betlehem sem var lítill bær í Júda. (Míka 5:1) Jesús fæddist einmitt í þeim bæ. (Matteus 2:1, 3-9) Í Daníelsbók 9:25 er annar spádómur sem benti á, mörgum öldum fyrir fram, hvaða ár Messías ætti að koma fram, það er að segja árið 29. * Uppfylling þessara spádóma og margra annarra sannar að Jesús var hinn fyrirheitni Messías.

Jesús varð Messías eða Kristur þegar hann skírðist.

8, 9. Hvernig sannaðist það við skírn Jesú að hann væri Messías?

8 Undir lok ársins 29 gerðist annað sem sannaði að Jesús væri Messías. Það var þá sem hann kom til Jóhannesar skírara til að láta skírast í ánni Jórdan. Jehóva hafði lofað að gefa Jóhannesi tákn þannig að hann gæti þekkt Messías, og Jóhannes sá þetta tákn þegar Jesús skírðist. Biblían lýsir því hvað gerðist: „Þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘ “ (Matteus 3:16, 17) Eftir að hafa séð þetta og heyrt var Jóhannes ekki í nokkrum vafa um að Jesús væri sendur af Guði. (Jóhannes 1:32-34) Þegar heilögum anda Guðs, starfskrafti hans, var úthellt yfir Jesú þennan dag varð hann Messías eða Kristur, það er að segja hinn útnefndi höfðingi og konungur. — Jesaja 55:4.

9 Uppfylltir biblíuspádómar og vitnisburður Jehóva Guðs sjálfs sýna ótvírætt að Jesús hafi verið hinn fyrirheitni Messías. Biblían svarar líka tveim mikilvægum spurningum um Jesú Krist: Hvaðan kom hann og hvernig maður var hann?

HVAÐAN KOM JESÚS?

10. Hvað kennir Biblían um tilveru Jesú áður en hann kom til jarðar?

10 Biblían kennir að Jesús hafi verið á himnum áður en hann kom til jarðar. Míka spáði því að Messías myndi fæðast í Betlehem og jafnframt að ætterni hans væri „frá fortíðar dögum“. (Míka 5:1) Jesús sagði margsinnis að hann hefði verið á himnum áður en hann fæddist hér á jörð. (Lestu Jóhannes 3:13; 6:38, 62; 17:4, 5) Hann átti mjög sérstakt samband við Jehóva sem andavera á himnum.

11. Hvað segir Biblían um Jesú sem sýnir að Jehóva þótti sérstaklega vænt um hann?

11 Af öllum sonum sínum þótti Jehóva vænst um Jesú og ekki að ástæðulausu. Jesús er kallaður „frumburður allrar sköpunar“ vegna þess að hann var fyrsta sköpunarverk Guðs. * (Kólossubréfið 1:15) Hann var líka sérstakur að því leyti að hann var ‚eingetinn sonur‘ Guðs. (Jóhannes 3:16) Það þýðir að Jesús er sá eini sem Jehóva skapaði beint og milliliðalaust. Jesús er sömuleiðis sá eini sem Guð notaði sér til aðstoðar þegar hann skapaði allt annað. (Kólossubréfið 1:16) Jesús er einnig kallaður „Orðið“. (Jóhannes 1:14) Það merkir að hann var talsmaður Guðs og hefur eflaust flutt boð og fyrirmæli frá honum til annarra sona hans, bæði engla og manna.

12. Hvernig vitum við að frumgetinn sonur Guðs er ekki jafn honum?

12 Er frumgetinn sonur Guðs jafn honum eins og sumir trúa? Biblían kennir það ekki. Eins og fram kom í greininni á undan var sonurinn skapaður. Það er því augljóst að hann á sér upphaf. Hins vegar á Jehóva Guð sér hvorki upphaf né endi. (Sálmur 90:2) Það hvarflaði aldrei að þessum eingetna syni að reyna að vera jafn föður sínum. Biblían segir skýrt og greinilega að faðirinn sé meiri en sonurinn. (Lestu Jóhannes 14:28; 1. Korintubréf 11:3) Jehóva einn er „Almáttugur Guð“ og á sér þess vegna engan jafningja. * — 1. Mósebók 17:1.

13. Hvað er átt við þegar Biblían segir að sonurinn sé „ímynd hins ósýnilega Guðs“?

13 Jehóva og frumgetinn sonur hans unnu náið saman um milljarða ára — löngu áður en stjörnur himinsins og jörðin voru sköpuð. Þeim hlýtur að hafa þótt innilega vænt hvor um annan. (Jóhannes 3:35; 14:31) Sonurinn var lifandi eftirmynd föður síns. Þess vegna talar Biblían um hann sem „ímynd hins ósýnilega Guðs“. (Kólossubréfið 1:15) Þessi himneski sonur endurspeglaði eiginleika og persónuleika föðurins, rétt eins og mennskur sonur líkist gjarnan föður sínum á marga vegu.

14. Hvernig fæddist eingetinn sonur Jehóva sem mannsbarn?

14 Eingetinn sonur Jehóva yfirgaf fúslega bústað sinn á himnum og kom niður til jarðar til að verða maður. Þér er kannski spurn hvernig andavera hafi getað fæðst sem mannsbarn. Jehóva vann kraftaverk til að koma því í kring. Hann flutti líf frumgetins sonar síns frá himnum í móðurkvið ungrar konu af gyðingaættum sem hét María. Enginn mennskur faðir kom þar nærri, enda var María hrein mey. Þannig fæddi hún fullkominn son og nefndi hann Jesú. — Lúkas 1:30-35.

HVERS KONAR MAÐUR VAR JESÚS?

15. Af hverju getum við kynnst Jehóva með því kynnast Jesú?

15 Við getum kynnst Jesú vel með því að kynna okkur það sem hann sagði og gerði meðan hann var hér á jörð. Og með því að kynnast Jesú kynnumst við Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús er fullkomin eftirmynd föður síns eins og þú manst kannski. Það var þess vegna sem hann sagði einum af lærisveinunum: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Fjórar biblíubækur, guðspjall Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar, segja margt um ævi, starf og persónu Jesú Krists.

16. Hvað boðaði Jesús fyrst og fremst og hvaðan var kenning hans?

16 Jesús var þekktur sem „meistari“ eða kennari. (Jóhannes 1:38; 13:13) Hvað kenndi hann? Fyrst og fremst „fagnaðarerindið um ríkið“, Guðsríki, en það er himnesk stjórn sem á að ráða yfir allri jörðinni og færa mannkyninu óendanlega blessun. (Matteus 4:23) Jesús var þó ekki að flytja sinn eigin boðskap. „Kenning mín er ekki mín,“ sagði hann, „heldur hans, er sendi mig“, það er að segja Jehóva. (Jóhannes 7:16) Hann vissi að faðir hans vildi að menn heyrðu fagnaðarboðskapinn um ríkið. Við fjöllum nánar um ríki Guðs í 8. kafla og könnum hverju það kemur til leiðar.

17. Hvar kenndi Jesús og hvers vegna lagði hann svona mikið á sig til að kenna öðrum?

17 Jesús kenndi alls staðar þar sem fólk var að finna — jafnt til sveita sem í borgum og þorpum, á markaðstorgum og í heimahúsum. Hann ætlaðist ekki til þess að fólk kæmi til sín heldur fór sjálfur til fólksins. (Markús 6:56; Lúkas 19:5, 6) Hvers vegna lagði hann svona mikið á sig og notaði svona mikinn tíma til að prédika og kenna? Vegna þess að Guð hafði falið honum að gera það. Jesús gerði alltaf vilja föður síns. (Jóhannes 8:28, 29) En það var líka önnur ástæða fyrir því að hann prédikaði. Hann kenndi í brjósti um mannfjöldann sem kom til hans. (Lestu Matteus 9:35, 36.) Trúarleiðtogarnir, sem áttu að kenna sannleikann um Guð og fyrirætlanir hans, vanræktu almenning. Jesús vissi að fólk hafði mikla þörf á að heyra boðskapinn um ríkið.

18. Hvaða eiginleikar Jesú höfða sterkast til þín?

18 Jesús var tilfinninganæmur, vingjarnlegur og hjartahlýr þannig að fólk átti auðvelt með að nálgast hann. Börn löðuðust að honum. (Markús 10:13-16) Hann var fordómalaus. Hann hataði ranglæti og spillingu. (Matteus 21:12, 13) Hann sýndi konum virðingu þó að þær væru almennt lítils virtar í samfélaginu og hefðu fá réttindi. (Jóhannes 4:9, 27) Hann var auðmjúkur. Einu sinni þvoði hann fætur postulanna en það var að jafnaði hlutverk lágt settra þjóna.

Jesús prédikaði alls staðar þar sem fólk var að finna.

19. Hvaða dæmi sýnir að Jesús hafði næma tilfinningu fyrir þörfum annarra?

19 Jesús hafði næma tilfinningu fyrir þörfum annarra. Það kom greinilega í ljós þegar hann vann kraftaverk undir áhrifum anda Guðs og læknaði fólk. (Matteus 14:14) Svo dæmi sé tekið kom til hans holdsveikur maður og sagði: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Jesús skynjaði kvöl og þjáningu mannsins. Hann kenndi í brjósti um hann, rétti út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Og maðurinn læknaðist! (Markús 1:40-42) Geturðu ímyndað þér hvernig manninum var innanbrjósts?

TRÚR ALLT TIL ENDA

20, 21. Hvaða fordæmi gaf Jesús um hollustu og hlýðni við Guð?

20 Jesús er besta dæmið um hollustu og hlýðni við Guð. Þrátt fyrir alls konar andstöðu og þjáningar sem hann leið var hann himneskum föður sínum trúr undir öllum kringumstæðum. Hann stóðst freistingar Satans með festu og einbeitni. (Matteus 4:1-11) Sumir af nánustu ættingjum Jesú trúðu ekki á hann framan af og sögðu jafnvel „að hann væri frá sér“. (Markús 3:21) En Jesús lét það ekki á sig fá heldur hélt ótrauður áfram að vinna verk Guðs. Þótt hann væri svívirtur og honum misþyrmt hafði hann fulla stjórn á sjálfum sér og reyndi aldrei að gera andstæðingum sínum mein. — 1. Pétursbréf 2:21-23.

21 Óvinir Jesú tóku hann af lífi með grimmilegum og kvalafullum hætti en hann var samt trúfastur allt til dauða. (Lestu Filippíbréfið 2:8.) Rennum yfir síðasta daginn sem hann lifði sem maður. Hann var handtekinn, ljúgvitni voru leidd fram gegn honum, spilltir dómarar sakfelldu hann, mannfjöldinn gerði gys að honum, hermenn pynduðu hann og hann var negldur á aftökustaur. „Það er fullkomnað,“ hrópaði hann um leið og hann dró andann í síðasta sinn. (Jóhannes 19:30) Á þriðja degi eftir að hann dó reisti himneskur faðir hans hann upp frá dauðum sem anda. (1. Pétursbréf 3:18) Fáeinum vikum síðar sneri hann aftur til himna. Þar settist hann „við hægri hönd Guðs“ og beið þess að taka við konungdómi. — Hebreabréfið 10:12, 13.

22. Hverju áorkaði Jesús með því að vera trúfastur allt til dauða?

22 Hverju áorkaði Jesús með því að vera trúfastur allt til dauða? Dauði hans opnar okkur möguleika á að hljóta eilíft líf í paradís á jörð eins og Jehóva ætlaði mönnunum í upphafi. Í næsta kafla fjöllum við um það hvernig dauði hans kemur þessu til leiðar.

^ gr. 7 Nánari upplýsingar um spádóm Daníels, sem rættist á Jesú, er að finna í viðaukanum „Spádomur Daníels um komu Messíasar“.

^ gr. 11 Jehóva er kallaður faðir vegna þess að hann er skapari alls. (Jesaja 64:7) Jesús er kallaður sonur Guðs af því að Guð skapaði hann. Af sömu ástæðu eru aðrar andaverur kallaðar synir Guðs, og sömuleiðis maðurinn Adam. — Jobsbók 1:6; Lúkas 3:38.

^ gr. 12 Frekari sannanir fyrir því að sonurinn sé ekki jafn Guði má finna í viðaukanum „Sannleikurinn um föðurinn, soninn og heilagan anda.