Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

17. KAFLI

Styrktu tengslin við Guð með bæninni

Styrktu tengslin við Guð með bæninni
  • Af hverju ættum við að biðja til Guðs?

  • Hvað þurfum við að gera til að Guð heyri bænir okkar?

  • Hvernig bænheyrir Guð okkur?

Skapari himins og jarðar er fús til að heyra bænir okkar.

1, 2. (a) Af hverju ættum við að líta á það sem mikinn heiður að mega leita til Jehóva í bæn? (b) Af hverju þurfum við að vita hvað Biblían kennir um bænina?

JÖRÐIN er ósköp smá í samanburði við víðáttur alheimsins. Þjóðirnar eru rétt eins og dropi í vatnsfötu í augum Jehóva, „skapara himins og jarðar“. (Sálmur 115:15; Jesaja 40:15) Samt segir í Biblíunni: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ (Sálmur 145:18, 19) Hugsaðu þér hvað þetta þýðir. Alvaldur skapari alheims er nálægur okkur og heyrir til okkar ef við áköllum hann í einlægni. Hvílíkur heiður að eiga aðgang að Guði í bæn!

2 Ef við viljum að Jehóva hlusti á bænir okkar verðum við hins vegar að biðja á hans forsendum. Til að gera það þurfum við að sjálfsögðu að skilja það sem Biblían kennir um bænina. Við þurfum að kynna okkur hvað orð Guðs segir um þetta mál því að bænin hjálpar okkur að styrkja tengslin við Guð.

HVERS VEGNA AÐ BIÐJA TIL JEHÓVA?

3. Nefndu mikilvæga ástæðu fyrir því að biðja til Jehóva.

3 Við höfum ríka ástæðu til að biðja til Jehóva vegna þess að hann býður okkur það. Við fáum eftirfarandi hvatningu í orði hans: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Ekki viljum við virða að vettugi þetta vingjarnlega boð alheimsdrottins.

4. Hvernig styrkja reglulegar bænir sambandið við Jehóva?

4 Önnur ástæða til biðja er sú að við styrkjum tengslin við Jehóva með reglulegu bænasambandi við hann. Sannir vinir tala ekki bara saman ef þá vantar eitthvað. Þeir láta sér annt hver um annan og styrkja vináttuböndin með því að tjá hver öðrum hugsanir sínar, áhyggjur og tilfinningar að vild. Að sumu leyti má segja hið sama um samband okkar við Jehóva Guð. Með hjálp þessarar bókar hefurðu kynnt þér margt sem Biblían kennir um Jehóva, persónuleika hans og fyrirætlanir. Þú hefur kynnst honum sem raunverulegri persónu. Með bæninni hefurðu tækifæri til að segja föðurnum á himnum frá hugsunum þínum og leyndustu tilfinningum. Þannig styrkirðu sambandið við hann. — Jakobsbréfið 4:8.

HVAÐA SKILYRÐI SETUR JEHÓVA?

5. Hvað sýnir að Jehóva hlustar ekki á allar bænir?

5 Skyldi Jehóva hlusta á allar bænir? Hann sagði uppreisnargjörnum Ísraelsmönnum á dögum Jesaja spámanns: „Þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.“ (Jesaja 1:15) Viss verk geta sem sagt komið í veg fyrir að Guð hlusti á bænir okkar. Við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði til að hann heyri bænir okkar.

6. Hvaða frumskilyrði þarf að uppfylla til að Guð heyri bænir okkar og hvernig getum við uppfyllt það?

6 Það er grundvallaratriði að trúa. (Lestu Markús 11:24.) Páll postuli skrifaði: „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Sönn trú er meira en að vita að Guð sé til og hann heyri bænir og verði við þeim. Trú birtist í verkum. Við þurfum að sýna greinilega með daglegu líferni okkar að við höfum trú. — Jakobsbréfið 2:26.

7. (a) Hvers vegna ættum við að sýna virðingu þegar við tölum við Jehóva í bæn? (b) Hvernig getum við sýnt auðmýkt og einlægni þegar við biðjum til Guðs?

7 Jehóva setur líka það skilyrði að þeir sem leita til hans í bæn geri það í auðmýkt og einlægni. Höfum við ekki fulla ástæðu til að vera auðmjúk þegar við tölum við Jehóva? Þegar fólk fær viðtal við forseta eða annan þjóðhöfðingja viðurkennir það yfirleitt háa stöðu valdhafans með því að sýna tilhlýðilega virðingu. Við ættum auðvitað að sýna enn dýpri virðingu þegar við göngum fram fyrir Jehóva! (Sálmur 138:6) Hann er „Almáttugur Guð“. (1. Mósebók 17:1) Við ættum að biðja til hans með þeim hætti að það sé ljóst að við viðurkennum stöðu okkar frammi fyrir honum. Ef við höfum slíka auðmýkt til að bera biðjum við með einlægum orðum en ekki með endurtekningasömum bænaþulum. — Matteus 6:7, 8.

8. Hvernig getum við breytt í samræmi við bænir okkar?

8 Annað skilyrði, sem Jehóva setur fyrir því að hlusta á bænir okkar, er að við breytum í samræmi við þær. Jehóva væntir þess að við gerum allt sem við getum til að vinna sjálf að því sem við biðjum um. Segjum til dæmis að við biðjum: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matteus 6:11) Þá verðum við að vera dugleg að vinna við hver þau störf sem eru í boði og við erum fær um að vinna. (2. Þessaloníkubréf 3:10) Ef við biðjum Jehóva að hjálpa okkur að sigrast á veikleikum þurfum við að forðast aðstæður sem gætu leitt okkur í freistni. (Kólossubréfið 3:5) Þetta eru helstu skilyrðin en auk þeirra þurfum við að fá svör við ýmsum spurningum um bænina.

SPURNINGAR OG SVÖR UM BÆNINA

9. Hvert eigum við að beina bænum okkar og í nafni hvers eigum við að biðja?

9 Hvert eigum við að beina bænum okkar? Jesús kenndi fylgjendum sínum að ávarpa ‚föður vorn sem er á himnum‘. (Matteus 6:9) Við megum því aðeins beina bænum okkar til Jehóva Guðs. En Jehóva gerir þá kröfu að við viðurkennum stöðu eingetins sonar hans, Jesú Krists. Eins og fram kom í 5. kafla var Jesús sendur til jarðar til að greiða lausnargjald og kaupa okkur undan synd og dauða. (Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:12) Hann er bæði æðsti prestur og dómari. (Jóhannes 5:22; Hebreabréfið 6:20) Þess vegna segir Biblían að við eigum að biðja bæna okkar í nafni Jesú. Sjálfur sagðist hann vera „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ og bætti við: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ (Jóhannes 14:6) Til að fá bænheyrslu þurfum við að biðja til Jehóva og í nafni sonar hans.

10. Af hverju er ekki nauðsynlegt að vera í sérstökum stellingum þegar við biðjum?

10 Þurfum við að vera í sérstökum stellingum þegar við biðjum? Nei, Jehóva gerir ekki kröfu til þess að við séum með hendurnar eða líkamann allan í sérstakri stellingu. Biblían kennir að margs konar stellingar séu við hæfi þegar við biðjum, þar á meðal að sitja, standa, krjúpa og lúta höfði. (1. Samúelsbók 1:26; 1. Kroníkubók 17:16; Nehemíabók 8:6; Daníel 6:11) Aðalatriðið er rétt hugarfar, ekki sérstök stelling sem aðrir geta séð. Í dagsins önn eða ef mikið liggur við getum við meira að segja borið fram hljóða bæn hvar sem er og hvenær sem er. Jehóva heyrir slíkar bænir þó að enginn nærstaddur taki eftir því að við erum að biðja. — Nehemíabók 2:1-6.

11. Nefndu dæmi um persónuleg mál sem er viðeigandi að ræða í bæn.

11 Um hvað megum við biðja? „Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans [Guðs] vilja, þá heyrir hann oss,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 5:14) Við megum með öðrum orðum biðja um hvaðeina sem er í samræmi við vilja hans. Megum við ræða um persónuleg mál í bænum okkar? Já, auðvitað. Bænir okkar til Jehóva geta verið svipaðar og samtal við náinn vin. Við getum talað opinskátt og ‚úthellt hjörtum okkar fyrir honum‘. (Sálmur 62:9) Það er viðeigandi að biðja um heilagan anda því að hann hjálpar okkur að gera rétt. (Lúkas 11:13) Við getum líka beðið um leiðsögn til að taka réttar ákvarðanir og um styrk til að standast erfiðleika. (Jakobsbréfið 1:5) Þegar við syndgum ættum við að biðja Jehóva að fyrirgefa okkur á grundvelli fórnarinnar sem Kristur færði. (Efesusbréfið 1:3, 7) En bænir okkar ættu auðvitað að snúast um fleira en persónuleg mál. Við ættum einnig að biðja fyrir öðrum, svo sem ættingjum og trúsystkinum. — Postulasagan 12:5; Kólossubréfið 4:12.

12. Hvernig getum við haft mál, sem tengjast föðurnum á himnum, í fyrirrúmi í bænum okkar?

12 Mál sem tengjast Jehóva Guði ættu að vera okkur efst í huga þegar við biðjum. Við höfum ríka ástæðu til að lofa hann og þakka honum innilega fyrir gæsku hans við okkur. (1. Kroníkubók 29:10-13) Í Matteusi 6:9-13 gaf Jesús fylgjendum sínum fyrirmynd að því hvernig þeir ættu að biðja. Þar kennir hann okkur að biðja þess að nafn Guðs helgist. Síðan kemur bón um að ríki Guðs komi og vilji hans verði á jörð eins og á himni. Það er fyrst eftir að hafa nefnt þessi mikilvægu atriði, sem snúa að Jehóva Guði, að Jesús beinir athyglinni að persónulegum hugðarefnum okkar. Með því að hafa Guð í fyrirrúmi í bænum okkar sýnum við að við erum ekki aðeins að hugsa um velferð sjálfra okkar.

13. Hvað gefur Biblían í skyn varðandi lengd bæna?

13 Hve langar ættu bænir að vera? Biblían setur engin tímamörk á það hve langar bænir mega vera. Þetta gildir jafnt um bænir sem við förum með í einrúmi og í fjölmenni. Bænirnar geta verið allt frá stuttri borðbæn upp í langa bæn þar sem við úthellum hjarta okkar fyrir Jehóva í einrúmi. (1. Samúelsbók 1:12, 15) Jesús fordæmdi hins vegar sjálfsánægða menn sem fóru með langar bænir til að sýnast fyrir öðrum. (Lúkas 20:46, 47) Jehóva er ekki hrifinn af slíkum bænum. Aðalatriðið er að bænirnar séu einlægar. Lengdin getur verið breytileg eftir þörfum og aðstæðum.

Jehóva heyrir bænir hvenær sem þær eru bornar fram.

14. Hvað er átt við þegar Biblían hvetur okkur til að biðja „án afláts“ og af hverju er það hughreystandi?

14 Hve oft eigum við að biðja? Biblían hvetur okkur til að ‚vaka og biðja‘, vera „staðfastir í bæninni“ og biðja „án afláts“. (Matteus 26:41; Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Þetta merkir auðvitað ekki að við eigum að liggja á bæn til Jehóva allan daginn heldur er verið að hvetja til þess að biðja reglulega, þakka Jehóva oft fyrir gæsku hans og biðja hann aftur og aftur um að leiðbeina okkur, hughreysta og styrkja. Er ekki hughreystandi að Jehóva skuli ekki takmarka hve lengi eða oft við megum tala við hann í bæn? Ef við erum þakklát fyrir að mega biðja til föðurins á himnum finnum við mörg tilefni og tækifæri til þess.

15. Hvers vegna ættum við að segja „amen“ í lok bænar?

15 Af hverju ættum við að segja „amen“ í lok bænar? Orðið „amen“ merkir „vissulega“ eða „megi svo verða“. Af dæmum í Biblíunni má sjá að það er viðeigandi að segja „amen“ í lok bænar, hvort heldur hún er borin fram í einrúmi eða fjölmenni. (1. Kroníkubók 16:36; Sálmur 41:14) Með því að segja „amen“ í lok bænar, sem við biðjum sjálf, staðfestum við að hún var borin fram í einlægni. Þegar við segjum „amen“ upphátt eða í hljóði við bæn sem annar fer með látum við í ljós að við séum sammála því sem kom fram í bæninni. — 1. Korintubréf 14:16.

HVERNIG BÆNHEYRIR GUÐ OKKUR?

16. Hverju megum við treysta varðandi bænina?

16 Bregst Jehóva í raun og veru við bænum manna? Vissulega. Við höfum ríka ástæðu til að treysta að Guð sem „heyrir bænir“ verði við einlægum bænum milljóna manna. (Sálmur 65:3) Bænheyrsla Jehóva getur birst með ýmsum hætti.

17. Af hverju getum við sagt að Guð noti engla og þjóna sína á jörð til að verða við bænum okkar?

17 Jehóva notar bæði engla og þjóna sína á jörð til að verða við bænum manna. (Hebreabréfið 1:13, 14) Mörg dæmi eru um að fólk, sem bað Guð um hjálp til að skilja Biblíuna, hafi fengið heimsókn frá einhverjum þjóni Jehóva skömmu síðar. Slík dæmi eru til vitnis um að englar hafi umsjón með boðun fagnaðarerindisins. (Opinberunarbókin 14:6) Þegar við biðjum til Jehóva á neyðarstund getur hann sent einn af vottum sínum til að hjálpa okkur. — Orðskviðirnir 12: 25;Jakobsbréfið 2:16.

Jehóva getur bænheyrt okkur með því að senda einhvern þjón sinn til að hjálpa okkur.

18. Hvernig notar Jehóva heilagan anda og orð sitt til að bænheyra þjóna sína?

18 Jehóva Guð notar líka heilagan anda og orð sitt, Biblíuna, þegar hann bænheyrir þjóna sína. Ef við biðjum hann um hjálp til að standast prófraunir gefur hann okkur ef til vill heilagan anda til að styrkja okkur og leiðbeina. (2. Korintubréf 4:7) Þegar við biðjum um leiðsögn finnum við oft leiðbeiningar í Biblíunni þar sem Jehóva hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir. Við finnum kannski gagnlega ritningarstaði þegar við grúskum í Biblíunni eða lesum biblíufræðslurit eins og þessa bók. Við heyrum ef til vill ábendingu á safnaðarsamkomu um biblíuleg atriði sem við þurfum að íhuga, eða fáum hana frá safnaðaröldungi sem lætur sér annt um okkur. — Galatabréfið 6:1.

19. Hvað ættum við að hafa í huga ef okkur finnst við ekki fá bænheyrslu?

19 Ef okkur virðist sem Jehóva sé seinn að bænheyra okkur stafar það aldrei af því að hann sé ekki fær um það. Við þurfum að hafa hugfast að Jehóva bregst við bænum í samræmi við vilja sinn og þegar það er tímabært. Hann þekkir þarfir okkar og kann að sinna þeim betur en við. Oft leyfir hann okkur að ‚biðja, leita og knýja á‘ um tíma. (Lúkas 11:5-10) Með því að halda áfram að biðja sýnum við Guði að okkur er full alvara og trúin er ósvikin. Svo er ekki víst að bænheyrsla Jehóva sé okkur augljós. Ef við gerum ákveðna prófraun að bænarefni gæti hann til dæmis bænheyrt okkur með því að gefa okkur styrk til að standast hana í stað þess að taka hana burt. — Lestu Filippíbréfið 4:13.

20. Af hverju ættum við að biðja reglulega til Jehóva?

20 Við getum verið innilega þakklát fyrir að skapari alheims skuli vera nálægur öllum sem ákalla hann á réttan hátt í bæn. (Lestu Sálm 145:18.) Það er ómetanleg blessun að mega ganga fram fyrir hann og við skulum gera það reglulega. Þá styrkjum við jafnt og þétt tengslin við Jehóva sem „heyrir bænir“.