Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Nafn Guðs – notkun þess og merking

Nafn Guðs – notkun þess og merking

HVERNIG er Sálmur 83:19 þýddur í biblíunni þinni? New World Translation of the Holy Scriptures orðar versið (18. vers þar) svona: „Til að fólk megi vita að þú sem heitir Jehóva, þú einn ert hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ Versið er orðað svipað þessu í mörgum öðrum biblíuþýðingum. En algengt er að þýðendur felli nafnið Jehóva niður og setji titil á borð við „Drottinn“ eða „Eilífur“ í staðinn. Hvað á að standa í þessu versi? Á það að vera titill eða nafnið Jehóva?

Nafn Guðs með hebresku letri.

Versið talar um að Guð heiti ákveðnu nafni. Biblían er að stórum hluta skrifuð á hebresku, og í hebreska frumtextanum er notað sérstakt eiginnafn í þessu versi. Á hebresku er það ritað יהוה (JHVH). Oft er það umritað „Jehóva“ á íslensku. Stendur nafnið aðeins í þessu eina versi? Nei, það stendur næstum 7000 sinnum í frumtexta Hebresku ritninganna!

Hve miklu máli skiptir nafn Guðs? Lítum aðeins á faðirvorið, bænina sem Jesús gaf fylgjendum sínum sem fyrirmynd. Bænin hefst þannig: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Seinna sagði Jesús í bæn: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Guð svaraði þá af himni: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ (Jóhannes 12:28) Nafn Guðs er greinilega afar þýðingarmikið. Hvers vegna hafa þá sumir biblíuþýðendur fellt það niður og sett titla í staðinn?

Ástæðurnar virðast aðallega vera tvær. Annars vegar er því haldið fram að það eigi ekki að nota nafnið vegna þess að ekki sé vitað hvernig það var borið fram upphaflega. Til forna var hebreska rituð án sérhljóða. Þess vegna veit enginn með vissu hvernig nafnið JHVH var borið fram á biblíutímanum. En er það gild ástæða til að nota ekki nafn Guðs? Hugsanlegt er að nafnið Jesús hafi verið borið fram Jesjúa eða Jehosjúa á biblíutímanum, en enginn veit það með vissu. Þrátt fyrir það eru notaðar mismunandi framburðarmyndir af nafninu Jesús út um allan heim, allt eftir því sem hefðin býður í hverju tungumáli. Menn hika ekki við að nota nafnið þó að þeir viti ekki hvernig það var borið fram á fyrstu öld. Ef þú ferðast til annars lands er ekki ólíklegt að nafnið þitt hljómaði öðruvísi af vörum heimamanna en þú ert vanur. Það er því engin ástæða til að hætta að nota nafn Guðs þó að hinn forni framburður sé glataður.

Önnur ástæða, sem oft er nefnd fyrir því að nota ekki nafn Guðs, er tengd langstæðri erfðavenju meðal Gyðinga. Margir þeirra telja að það eigi aldrei að nefna nafn Guðs. Þessi skoðun mun vera byggð á mistúlkun boðorðs í Biblíunni sem segir: „Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“ — 2. Mósebók 20:7.

Með þessu boðorði er lagt bann við því að misnota nafn Guðs. En er verið að banna fólki að nota nafnið með tilhlýðilegri virðingu? Auðvitað ekki. Ritarar hebresku biblíunnar (Gamla testamentisins) voru allir trúfastir menn sem lifðu eftir þeim lögum sem Guð gaf Ísraelsmönnum forðum daga. Samt notuðu þeir nafn Guðs ríkulega. Nafnið kom til dæmis fyrir í fjölda sálma sem guðsdýrkendur sungu saman. Jehóva Guð sagði tilbiðjendum sínum jafnvel að ákalla nafn sitt og trúaðir menn hlýddu því. (Jóel 3:5; Postulasagan 2:21) Kristnir menn nú á tímum hika því ekki við að nota nafn Guðs með tilhlýðilegri virðingu, rétt eins og Jesús gerði. — Jóhannes 17:26.

Það eru alvarleg mistök af hálfu biblíuþýðenda að setja titla í stað nafns Guðs vegna þess að með því gera þeir Guð fjarlægan og ópersónulegan. Biblían hvetur menn hins vegar til að eiga náið samband við hann. (Jakobsbréfið 4:8) Hugsaðu um trúnaðarvin sem þú átt. Varla væru vináttuböndin náin ef þú þekktir vininn ekki með nafni. Getur fólk átt náið samband við Guð ef það fær ekki að þekkja hann með nafni? Og ef menn nota ekki nafnið vita þeir ekki heldur hvað það merkir. Hvað merkir nafnið Jehóva?

Guð útskýrði hrífandi merkingu nafnsins fyrir trúum þjóni sínum, Móse. Þegar Móse spurði Guð hvert nafn hans væri svaraði hann: „Ég verð sá sem ég verð.“ (2. Mósebók 3:14, New World Translation) Í þýðingu Rotherhams er versið orðað svona: „Ég verð hvað sem mér þóknast.“ Jehóva getur sem sagt orðið hvaðeina sem hann þarf til að hrinda vilja sínum í framkvæmd.

Segjum að þú gætir orðið hvað sem þú vildir. Hvað myndirðu gera fyrir vini þína? Ef einhver þeirra veiktist alvarlega gætirðu orðið fær læknir og læknað hann. Ef annar vinur lenti í fjárkröggum gætirðu orðið ríkur velgerðarmaður og hlaupið undir bagga með honum. En sannleikurinn er auðvitað sá að þú getur ekki orðið hvað sem er. Ekkert okkar getur það. En þegar þú kynnir þér Biblíuna kemstu að raun um að Jehóva verður hvaðeina sem hann þarf til að standa við loforð sín. Hann hefur yndi af því að beita mætti sínum í þágu þeirra sem elska hann. (2. Kroníkubók 16:9) Við sjáum ekki þennan fagra þátt í persónuleika Jehóva ef við þekkjum hann ekki með nafni.

Ljóst er að nafnið Jehóva á heima í Biblíunni. Við styrkjum sambandið við Jehóva, föður okkar á himnum, ef við vitum hvað nafnið merkir og notum það ríkulega í tilbeiðslu okkar. *

^ gr. 3 Nánari upplýsingar um nafn Guðs, merkingu þess og ástæðurnar fyrir því að nota það í tilbeiðslu sinni er að finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, gefinn út af Vottum Jehóva.