Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

1914 — mikilvægt ár í spádómum Biblíunnar

1914 — mikilvægt ár í spádómum Biblíunnar

BIBLÍUNEMENDUR höfðu boðað nokkrum áratugum áður að þýðingarmiklir atburðir myndu eiga sér stað árið 1914. Hvaða atburðir voru þetta og hvað bendir til þess að árið 1914 sé svona sérstakt?

Jesús sagði í Lúkasi 21:24: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ Jerúsalem hafði verið höfuðborg Gyðinga, stjórnarsetur konunga af ætt Davíðs. (Sálmur 48:2, 3) Þessir konungar höfðu sérstöðu meðal þjóðhöfðingja heims því að þeir voru ‚konungar Drottins í hásæti‘, það er að segja fulltrúar Jehóva Guðs. (1. Kroníkubók 29:23) Jerúsalem var því tákn um stjórn Jehóva.

Hvernig og hvenær bar það til að stjórn Guðs var „fótum troðin af heiðingjum“? Það gerðist árið 607 f.Kr. þegar Babýloníumenn unnu Jerúsalem. Nú sat enginn „konungur Drottins í hásæti“ lengur og hlé varð á stjórn konunga af ætt Davíðs. (2. Konungabók 25:1-26) Yrði „Jerúsalem . . . fótum troðin“ að eilífu? Nei, því að í spádómi Esekíels segir um Sedekía, síðasta konunginn í Jerúsalem: „Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! . . . Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.“ (Esekíel 21:26, 27) Jesús Kristur „hefir réttinn“ til hásætis Davíðs. (Lúkas 1:32, 33) Hætt yrði að ‚fótum troða Jerúsalem‘ þegar hann tæki við konungdómi.

Hvenær átti þessi merkisatburður að eiga sér stað? Jesús benti á að heiðnum þjóðum væri skammtaður ákveðinn tími. Í 4. kafla Daníelsbókar er að finna upplýsingar sem gera okkur kleift að reikna út tímalengdina. Þar segir frá spádómlegum draumi sem Nebúkadnesar konung í Babýlon dreymdi. Í draumnum sá hann risastórt tré sem var höggvið niður og stofninn var bundinn fjötrum af járni og eiri svo að hann gat ekki vaxið að nýju. Engill lýsti yfir: „Sjö tíðir skulu yfir hann líða.“ — Daníel 4:10-16.

Tré eru stundum notuð í Biblíunni til að tákna stjórnir. (Esekíel 17:22-24; 31:2-5) Með því að höggva hið táknræna tré var gefið til kynna að hlé yrði á stjórn Guðs sem konungarnir í Jerúsalem voru fulltrúar fyrir. Sýnin boðaði samt sem áður að ‚Jerúsalem yrði fótum troðin‘ aðeins um tíma eða í „sjö tíðir“. Hve langur tími er það?

Af Opinberunarbókinni 12:6, 14 má sjá að þrjár og hálf tíð samsvara ‚eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu dögum‘. (Sjá Biblíuna 1912) „Sjö tíðir“ hljóta þá að vera helmingi lengri eða 2520 dagar. En heiðnar þjóðir hættu ekki að ‚fótum troða‘ stjórn Guðs 2520 dögum eftir fall Jerúsalem. Ljóst er því að spádómurinn nær til mun lengri tíma. Sé miðað við 4. Mósebók 14:34 og Esekíel 4:6, þar sem talað er um eitt ár fyrir hvern dag, eru hinar „sjö tíðir“ 2520 ár.

Árin 2520 hófust í október árið 607 f.Kr. þegar Jerúsalem féll fyrir Babýloníumönnum og konunginum af ætt Davíðs var steypt af stóli. Þetta tímabil tók enda í október árið 1914. Þá lauk ‚tímum heiðingjanna‘ og Jesús Kristur settist að völdum sem himneskur konungur í umboði Guðs. * — Sálmur 2:1-6; Daníel 7:13, 14.

Rétt eins og Jesús spáði hefur tíminn eftir komu hans sem konungur á himnum einkennst af afdrifaríkum atburðum í heimsmálum, svo sem styrjöldum, hungursneyðum, jarðskjálftum og drepsóttum. (Matteus 24:3-8; Lúkas 21:11) Þessir atburðir sýna svo ekki verður um villst að himneskt ríki Guðs hafi tekið til starfa árið 1914 og ‚síðustu dagar‘ þessa illa heimskerfis, sem nú er, hafi hafist það ár. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

^ gr. 4 Frá október 607 f.Kr. til október árið 1 f.Kr. eru 606 ár. Ekki er til neitt núllár þannig að frá október árið 1 f.Kr. til október 1914 e.Kr. eru 1914 ár. Með því að leggja saman 606 og 1914 fáum við 2520 ár. Hægt er að lesa sér til um fall Jerúsalem árið 607 f.Kr. undir flettunni „Chronolgy“ (tímatal) í Insight on the Scriptures, gefin út af Vottum Jehóva.