Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Ættum við að halda hátíðir?

Ættum við að halda hátíðir?

MARGAR hátíðir, trúarlegar sem og aðrar, eru vinsælar víða um lönd en þær eru ekki af biblíulegum uppruna. Hver er þá uppruni þessara hátíða? Það getur verið athyglisvert fyrir þig að skoða handbækur í bókasafni til að kanna hvað þær segja um vinsælar hátíðir og hátíðisdaga. Lítum á örfá dæmi.

Páskar. Í tímans rás hafa verið teknir upp margir heiðnir siðir í tengslum við páska, en páskar voru upphaflega haldnir til að minnast brottfarar Ísraelsmanna frá Egyptalandi. „Ýmis algeng tákn um frjósemi og nýtt líf tengjast [páskum], s.s. egg, hérar og kanínur,“ að sögn Íslensku alfræðiorðabókarinnar.

Áramótafagnaður. Áramótafagnaður er með breytilegu sniði frá einu landi til annars og tímasetningin sömuleiðis. Um upphaf þessa fagnaðar segir alfræðibók: „Júlíus Sesar Rómarkeisari ákvað árið 46 f.Kr. að nýársdagur skyldi vera 1. janúar. Rómverjar helguðu daginn guðinum Janusi en hann var guð dyra, hliða og upphafs. Janúarmánuður er nefndur eftir honum. Janus hafði tvö andlit. Horfði annað fram á við en hitt til baka.“ (The World Book Encyclopedia) Áramótafagnaður er því byggður á heiðnum hefðum.

Hrekkjavaka. Alfræðibókin The Encyclopedia Americana segir: „Rekja má ýmsa þætti hrekkjavöku til trúarathafna drúída [forn-keltneskra presta] frá því fyrir daga kristninnar. Keltar héldu hátíðir sem voru helgaðar tveim höfuðguðum — guði sólarinnar og guði dauðra . . . en hátíð hans var haldin 1. nóvember sem var nýársdagur kelta. Hátíð dauðra var smám saman felld inn í helgisiði kristinna manna.“

Aðrir hátíðisdagar. Ekki eru tök á að fjalla um allar þær hátíðir sem haldnar eru út um heiminn. Rétt er þó að nefna að hátíðisdagar, sem haldnir eru til heiðurs mönnum eða stofnunum manna, eru Jehóva ekki að skapi. (Jeremía 17:5-7; Postulasagan 10:25, 26) Þá ber einnig að hafa í huga að uppruni trúarlegra hátíða ræður miklu um það hvort þær eru Guði þóknanlegar eða ekki. (Jesaja 52:11; Opinberunarbókin 18:4) Þær biblíulegu meginreglur, sem nefndar eru í 16. kafla bókarinnar, ættu að auðvelda þér að ákvarða hvernig Guð lítur á þátttöku í hátíðum sem eru ekki trúarlegs eðlis.