Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. KAFLI

Þannig birtist „elskan til Guðs“

Þannig birtist „elskan til Guðs“

„Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:3.

1, 2. Hvers vegna elskarðu Jehóva Guð?

ELSKARÐU Jehóva Guð? Ef þú hefur vígt þig honum svararðu örugglega játandi — og það með réttu. Það er ekki nema eðlilegt að elska Jehóva. Við elskum hann af því að hann elskar okkur. Í Biblíunni er það orðað þannig: „Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:19.

2 Jehóva sýndi að hann elskaði okkur áður en við elskuðum hann. Hann gaf okkur undurfagurt heimili. Hann annast líkamlegar og efnislegar þarfir okkar. (Matteus 5:43-48) Hann fullnægir líka andlegum þörfum okkar og það er ekki síður mikilvægt. Hann gaf okkur orð sitt, Biblíuna. Og hann hvetur okkur til að biðja til sín og lofar að hlusta á okkur og hjálpa með heilögum anda sínum. (Sálmur 65:3; Lúkas 11:13) Síðast en ekki síst sendi hann ástkæran son sinn til að greiða lausnargjald svo að hægt væri að frelsa okkur úr fjötrum syndar og dauða. Hefur ekki Jehóva sýnt okkur óviðjafnanlegan kærleika? — Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8.

3. (a) Hvað þurfum við að gera til að kærleikur Guðs varðveiti okkur? (b) Hvaða mikilvægu spurningu þurfum við að skoða og hvar fáum við svar við henni?

3 Jehóva vill að við njótum góðs af kærleika hans að eilífu. En það er undir sjálfum okkur komið hvort sú verður raunin. Við fáum eftirfarandi hvatningu í Biblíunni: „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf . . . og [veita] ykkur eilíft líf.“ (Júdasarbréfið 21) Sögnin „látið“ gefur til kynna að við verðum að gera eitthvað til að kærleikur Guðs varðveiti okkur. Við þurfum að bregðast við kærleika hans með ákveðnum hætti. Það er því mikilvægt að spyrja sig að því hvernig við getum sýnt að við elskum Guð. Svarið er að finna í innblásnum orðum Jóhannesar postula: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Við ættum að kynna okkur vel hvað þessi orð merkja vegna þess að okkur langar til að sýna Guði hve heitt við elskum hann.

ÞANNIG BIRTIST „ELSKAN TIL GUÐS“

4, 5. Lýstu hvernig kærleikurinn til Jehóva kviknaði í hjarta þér.

4 Hvað hafði Jóhannes postuli í huga þegar hann skrifaði orðin „elskan til Guðs“? Manstu hvenær kærleikurinn til Jehóva kviknaði í hjarta þér og tók að vaxa?

Með því að vígjast og skírast erum við að ákveða að hlýða Jehóva alla ævi.

5 Rifjaðu aðeins upp hvernig þér var innanbrjósts þegar þú heyrðir fyrst sannleikann um Jehóva og fyrirætlun hans og byrjaðir að trúa. Þú áttaðir þig á því að enda þótt þú værir fæddur syndugur og fjarlægur Guði opnaði hann þér leið fyrir atbeina Krists til að hljóta fullkomleikann sem Adam glataði og öðlast eilíft líf. (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 5:12, 18) Þú fórst að skilja hve gríðarlega fórn Jehóva færði þegar hann sendi soninn, sem honum þótti vænst um, til að deyja fyrir þig. Þú varðst snortinn í hjarta þér og þér fór að þykja vænt um Jehóva Guð sem sýndi þér slíkan kærleika. — 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.

6. Hvernig birtist sannur kærleikur og hvað hefurðu gert vegna þess að þú elskar Guð?

6 Tilfinningin, sem hafði kviknað í hjarta þér, var þó aðeins upphaf þess að þú lærðir að elska Jehóva. Kærleikur er annað og meira en tilfinning og hann birtist í fleiru en orðum. Það er ekki nóg að segja bara: „Ég elska Jehóva.“ Sannur kærleikur er að því leyti eins og trú að hann birtist í verkum. (Jakobsbréfið 2:26) Hann sýnir sig sérstaklega í verkum sem gleðja þann sem maður elskar. Þegar kærleikurinn til Jehóva festi rætur í hjarta þínu langaði þig til að lifa þannig að hann hefði velþóknun á þér. Ertu skírður vottur? Þá hefurðu tekið mikilvægustu ákvörðun ævinnar. Þú vígðir þig Jehóva til að gera vilja hans vegna þess að þú elskaðir hann innilega, og þú gafst tákn um það með því að láta skírast. (Rómverjabréfið 14:7, 8) Til að halda þetta hátíðlega loforð sem þú gafst Jehóva þarftu að gera það sem Jóhannes postuli sagði í framhaldinu.

„VIÐ HÖLDUM BOÐORÐ HANS“

7. Hvaða boðorð gefur Guð meðal annars og hvernig höldum við þau?

7 Jóhannes útskýrir hvernig kærleikurinn til Guðs birtist: „Við höldum boðorð hans,“ segir hann. Hver eru boðorð Guðs? Í orði sínu, Biblíunni, gefur hann okkur ýmis bein fyrirmæli. Hann bannar til dæmis drykkjuskap, saurlifnað, skurðgoðadýrkun, þjófnað og lygar. (1. Korintubréf 5:11; 6:18; 10:14; Efesusbréfið 4:28; Kólossubréfið 3:9) Að halda boðorð Guðs felur í sér að lifa í samræmi við skýrar siðferðisreglur Biblíunnar.

8, 9. Hvernig getum við vitað hvað er Jehóva þóknanlegt á þeim sviðum sem ekki eru nein sérstök ákvæði um í Biblíunni? Nefndu dæmi.

8 Til að þóknast Jehóva þurfum við hins vegar að gera fleira en hlýða beinum boðorðum hans. Jehóva setur ekki boð og bönn til að stjórna daglegu lífi okkar í smáatriðum. Þess vegna megum við búast við því að það komi upp ýmiss konar aðstæður í dagsins önn sem engin sérstök ákvæði eru um í Biblíunni. Hvernig er hægt að vita í slíkum tilvikum hverju Jehóva hefur velþóknun á? Biblían hefur að geyma skýrar vísbendingar um viðhorf hans. Þegar við kynnum okkur Biblíuna kynnumst við hvað Jehóva elskar og hvað hann hatar. (Sálmur 97:10; Orðskviðirnir 6:16-19) Við áttum okkur á hvaða viðhorf og verk hann metur mikils. Því betur sem við kynnumst persónuleika og mælikvarða Jehóva þeim mun betur getum við látið sjónarmið hans ráða ákvörðunum okkar og framkomu. Þess vegna gerum við okkur oft grein fyrir „hver sé vilji Drottins“ þó að við getum ekki bent á nein ákveðin boð eða bönn í Biblíunni. — Efesusbréfið 5:17.

9 Í Biblíunni er til dæmis ekkert ákveðið boðorð þess efnis að við megum ekki horfa á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem sýna gróft ofbeldi eða kynferðislegt siðleysi. En þurfum við sérstakt lagaákvæði þar sem lagt er bann við því að horfa á slíkt efni? Við vitum hvernig Jehóva lítur á málin vegna þess að í Biblíunni stendur skýrum stöfum: Jehóva „hatar . . . þann, sem elskar ofbeldi“. (Sálmur 11:5, Biblían 1859) Þar segir enn fremur: „Hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Þegar við hugleiðum þessi innblásnu orð sjáum við greinilega hver vilji Jehóva er. Þess vegna skemmtum við okkur ekki við það að horfa á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem sýna það sem Guð hatar. Við vitum að hann hefur velþóknun á því að við forðumst siðspillinguna sem þessi heimur teflir fram undir því yfirskini að hún sé skaðlaus skemmtun. *

10, 11. Hvers vegna veljum við að hlýða Jehóva og hvers konar hlýðni er um að ræða?

10 Hver er meginástæðan fyrir því að við höldum boðorð Guðs? Af hverju langar okkur til að lifa dag hvern í samræmi við vilja hans? Við gerum það ekki bara til að sleppa við refsingu eða forðast slæmar afleiðingar þess að hunsa vilja hans. (Galatabréfið 6:7) Við lítum svo á að með því að hlýða Jehóva fáum við verðmætt tækifæri til að sýna honum að við elskum hann. Okkur langar til að hljóta velþóknun hans rétt eins og barn þráir að gleðja pabba sinn. (Sálmur 119:108) Jehóva er faðir okkar og við elskum hann. Ekkert gleður okkur meira en vissan um að við lifum þannig að við hljótum „velþóknun Drottins“ Jehóva. — Orðskviðirnir 12:2.

11 Við hlýðum þess vegna ekki með ólund og ekki bara stundum eða setjum skilyrði fyrir því. * Við vinsum ekki úr hverju við hlýðum eða gerum það aðeins þegar það hentar okkur eða gerir litlar sem engar kröfur til okkar. Nei, við erum „af hjarta hlýðin“. (Rómverjabréfið 6:17) Okkur er innanbrjósts eins og sálmaskáldi Biblíunnar sem orti: „Ég finn unað í boðum þínum, þeim er ég elska.“ (Sálmur 119:47) Já, við höfum unun af því að hlýða Jehóva. Við viðurkennum að hann verðskuldar óskipta og skilyrðislausa hlýðni — og ætlast raunar til hennar. (5. Mósebók 12:32) Við viljum að Jehóva segi það sama um okkur og hann sagði um Nóa sem hlýddi honum áratugum saman og sýndi þannig að hann elskaði hann. Í Biblíunni stendur eftirfarandi um þennan trúa ættföður: „Nói gerði allt eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mósebók 6:22.

12. Með hvers konar hlýðni gleðjum við hjarta Jehóva?

12 Hvernig er Jehóva innanbrjósts þegar við hlýðum honum fúslega? Í orði hans segir að þá ,gleðjum við hjarta hans‘. (Orðskviðirnir 27:11) Gleðjum við virkilega Drottin alheims með því að hlýða honum? Já, og það er góð og gild ástæða fyrir því. Jehóva áskapaði okkur frjálsan vilja. Það merkir að við höfum valfrelsi. Við getum valið að hlýða Guði og við getum valið að gera það ekki. (5. Mósebók 30:15, 16, 19, 20) Þegar við hlýðum Jehóva af fúsu geði og þegar hvötin að baki því er hreinn og einlægur kærleikur, þá gleðjum við föðurinn á himnum. (Orðskviðirnir 11:20) Og þá veljum við líka bestu lífsstefnuna.

„BOÐORÐ HANS ERU EKKI ÞUNG“

13, 14. Af hverju getum við sagt að boðorð Guðs séu ekki þung og hvernig má lýsa því með dæmi?

13 Jóhannes postuli er ákaflega hughreystandi þegar hann ræðir um kröfur Jehóva. „Boðorð hans eru ekki þung,“ segir hann. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Í annarri biblíuþýðingu stendur: „Boðorð hans íþyngja okkur ekki.“ (New English Translation) Jehóva gerir ekki ósanngjarnar eða íþyngjandi kröfur til okkar. * Lög hans eru ekki svo ströng að ófullkomnir menn geti ekki fylgt þeim.

14 Lýsum þessu með dæmi. Góður vinur er að flytja búferlum og biður þig um að hjálpa sér. Það þarf að flytja fjöldann allan af kössum. Sumir eru svo léttir að einn maður ræður vel við þá en aðrir svo þungir að það þarf tvo til að lyfta þeim. Vinurinn segir þér hvaða kassa þú eigir að bera. Myndi hann biðja þig að rogast með kassa sem hann veit að þú ræður ekki við? Nei, hann vill auðvitað ekki að þú ofreynir þig með því að reyna að bera þá einn. Guð er ástríkur og góður og setur okkur ekki boðorð sem eru of þung til að við getum haldið þau. (5. Mósebók 30:11-14) Hann myndi aldrei biðja okkur að bera svo þungar byrðar. Hann skilur takmörk okkar því að „hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold“. — Sálmur 103:14.

15. Af hverju getum við treyst að boðorð Jehóva séu okkur fyrir bestu?

15 Boðorð Jehóva eru alls ekki íþyngjandi heldur til góðs fyrir okkur. (Jesaja 48:17) Móse gat þess vegna sagt Ísraelsmönnum forðum daga: „Drottinn bauð okkur að fara að öllum þessum lögum og óttast Drottin, Guð okkar, svo að okkur vegnaði ætíð vel og hann léti okkur lífi halda eins og allt til þessa.“ (5. Mósebók 6:24) Við getum líka treyst að Jehóva vilji okkur allt hið besta þegar hann setur okkur lög, að hann beri eilífa velferð okkar fyrir brjósti. Annað er auðvitað óhugsandi. Viska Jehóva er takmarkalaus. (Rómverjabréfið 11:33) Hann veit þess vegna hvað er okkur fyrir bestu. Hann er persónugervingur kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Innsta eðli hans, kærleikurinn, hefur áhrif á allt sem hann segir og gerir. Kærleikurinn er grundvöllur allra boðorða sem hann leggur fyrir þjóna sína.

16. Af hverju getum við verið hlýðin þrátt fyrir áhrif þessa spillta heims og ófullkomleika okkar?

16 Það er ekki þar með sagt að það sé alltaf auðvelt að hlýða Guði. Við þurfum að berjast gegn áhrifum þessa spillta heims sem er „á valdi hins vonda“. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Við eigum líka í baráttu við eigin ófullkomleika en hann veldur því að við höfum tilhneigingu til að brjóta lög Guðs. (Rómverjabréfið 7:21-25) En kærleikurinn til Guðs getur sigrað. Jehóva blessar þá sem hlýða honum af því að þá langar til að sýna að þeir elski hann. Hann gefur heilagan anda þeim sem hlýða honum. (Postulasagan 5:32) Og heilagur andi gefur af sér undurfagran ávöxt í fari okkar, verðmæta eiginleika sem geta hjálpað okkur að vera hlýðin. — Galatabréfið 5:22, 23.

17, 18. (a) Um hvað er fjallað í þessari bók og hvað ættum við að hafa í huga þegar við lesum hana? (b) Um hvað er rætt í næsta kafla?

17 Í þessari bók ætlum við að líta á meginreglur og siðferðisreglur Jehóva ásamt ýmsu fleiru sem gefur til kynna hver vilji hans er. Og þegar við gerum það þurfum við að hafa ýmis grundvallaratriði í huga, til dæmis að Jehóva neyðir engan til að fylgja lögum sínum og meginreglum heldur vill hann að við hlýðum sér af fúsu geði og heilum hug. Gleymum ekki að sú lífsstefna, sem Jehóva hvetur okkur til að taka, er okkur til mikillar blessunar núna og veitir okkur síðan eilíft líf. Og við skulum sjá hlýðni okkar við Jehóva Guð í réttu ljósi — sem einstakt tækifæri til að sýna honum hve innilega við elskum hann.

18 Jehóva hefur í kærleika sínum gefið okkur samviskuna til að hjálpa okkur að greina rétt frá röngu. En til að samviskan sé áreiðanlegur vegvísir þarf að uppfræða hana og þjálfa. Lítum nánar á málið í næsta kafla.

^ gr. 9 Í 6. kafla bókarinnar er fjallað um val á heilnæmu skemmtiefni.

^ gr. 11 Illu andarnir geta meira að segja hlýtt en þó með ólund. Þegar Jesús skipaði illum öndum að fara út af andsetnu fólki neyddust þeir til að viðurkenna vald hans og hlýða, þótt tregir væru. — Markús 1:27; 5:7-13.

^ gr. 13 Gríska orðið, sem þýtt er „þung“ í 1. Jóhannesarbréf 5:3, er notað í Matteusi 23:4 um „þungar byrðar“ fólgnar í smásmugulegum reglum og erfikenningum sem fræðimenn og farísear ætluðust til að almenningur fylgdi. Í Postulasögunni 20:29, 30 er orðið þýtt „skæðir“ og er þar notað um harðneskjulega fráhvarfsmenn sem myndu fara með „rangsnúna kenningu“ og reyna að leiða aðra afvega.