Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður“

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður“

„Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 5:18.

1, 2. Um hvaða spurningu ætlum við að ræða og af hverju?

ERTU í hjónabandi? Eruð þið hjónin hamingjusöm eða eigið þið í alvarlegum erfiðleikum? Hafið þið fjarlægst hvort annað? Þraukið þið í hjónabandinu en er það gleðisnautt? Þá saknið þið eflaust hlýjunnar sem einu sinni var. Þið elskið Jehóva og viljið örugglega að hjónaband ykkar sé honum til sóma. Þess vegna má vera að núverandi aðstæður séu ykkur áhyggjuefni og valdi hugarangri. En þið þurfið ekki að óttast að staðan sé vonlaus.

2 Fjöldi kristinna hjóna býr nú í hamingjuríku hjónabandi þrátt fyrir að illa hafi gengið um tíma. En þeim tókst að styrkja hjónabandið. Þið getið líka fundið hamingjuna að nýju. Hvernig?

STYRKTU TENGSLIN VIÐ GUÐ OG MAKA ÞINN

3, 4. Hvernig styrkist hjónabandið við það að styrkja sambandið við Guð? Lýstu með dæmi.

3 Þið hjónin styrkið samband ykkar ef þið leggið ykkur fram um að styrkja tengslin við Guð. Af hverju? Lítum á dæmi: Sjáðu fyrir þér keilulaga fjall. Neðsti hlutinn er breiður en tindurinn mjór. Maður stendur við fjallsræturnar norðanmegin og kona sunnanmegin. Þau byrja að klífa fjallið. Þegar þau eru nýlögð af stað er langt á milli þeirra. En eftir því sem þau klífa hærra og nálgast tindinn styttist vegalengdin milli þeirra. Áttarðu þig á samlíkingunni?

4 Það sem þú leggur á þig í þjónustu Jehóva er sambærilegt við erfiðið sem fylgir því að klífa fjall. Þar sem þú elskar Jehóva leggurðu nú þegar hart að þér að klífa ef svo má að orði komast. En ef þið hjónin hafið fjarlægst hvort annað eruð þið kannski að klífa fjallið hvort sínum megin. Hvað gerist ef þið haldið áfram fjallgöngunni? Í fyrstu er talsvert langt á milli ykkar. En því meira sem þið styrkið sambandið við Guð — því hærra sem þið komist — því nánari verða böndin milli ykkar hjónanna. Lykillinn að því að styrkja hjónabandið er að styrkja sambandið við Guð. En hvernig geturðu gert það?

Biblíuþekking getur styrkt hjónabandið.

5. (a) Nefndu eina leið til að styrkja sambandið við Jehóva og maka þinn. (b) Hvernig lítur Jehóva á hjónaband?

5 Ein mikilvæg leið til að klífa fjallið, ef svo má segja, er að þið farið eftir leiðbeiningum Biblíunnar um hjónaband. (Sálmur 25:4; Jesaja 48:17, 18) Við skulum nú líta á ákveðnar leiðbeiningar sem Páll postuli gaf. Hann sagði: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum.“ (Hebreabréfið 13:4) Hvað merkir það? Orðasambandið „í heiðri hafður“ gefur til kynna virðingu og verðmæti. Það er einmitt þannig sem Jehóva lítur á hjónabandið — það er verðmætt í augum hans.

HVÖTIN — STERKUR KÆRLEIKUR TIL JEHÓVA

6. Hvað má sjá af orðalagi Páls um hjúskapinn og af hverju er mikilvægt að hafa það í huga?

6 Ef þið hjónin eruð bæði þjónar Guðs vitið þið að sjálfsögðu að hjónabandið er dýrmætt, meira að segja heilagt. Jehóva er höfundur hjónabandsins. (Matteus 19:4-6) En ef þið eigið í erfiðleikum er kannski ekki nóg að vita bara að þið eigið að hafa hjónabandið „í heiðri“. Það er ekki víst að það nægi til að hjálpa ykkur að sýna hvort öðru ást og virðingu. Hvað getur þá verið ykkur hvöt til þess? Tökum eftir hvernig Páll tók til orða. Hann sagði ekki „hjúskapurinn er í heiðri hafður“ heldur „hjúskapurinn í heiðri hafður“. Hann var ekki bara að benda á staðreynd heldur hvetja. * Þessi greinarmunur getur kannski vakið hjá þér sterkari hvöt til að hafa sömu mætur á maka þínum og áður. Hvernig þá?

7. (a) Hvaða boðum Biblíunnar fylgjum við og af hverju? (b) Hvernig er þér innanbrjósts af því að þú hlýðir Guði?

7 Beinum huganum eitt andartak að því hvernig þú lítur á önnur fyrirmæli í Biblíunni, svo sem þau að gera fólk að lærisveinum og hvatninguna að sækja samkomur. (Matteus 28:19; Hebreabréfið 10:24, 25) Stundum er það auðvitað áskorun að fylgja þessum fyrirmælum. Fólkið, sem þú boðar fagnaðarerindið, er kannski neikvætt eða þú ert svo uppgefinn eftir vinnudaginn að það kostar heilmikið átak að fara á samkomu. Þú heldur samt áfram að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur. Enginn getur stöðvað þig — ekki einu sinni Satan. Af hverju? Af því að þú elskar Jehóva heitt og þig langar til að hlýða boðorðum hans. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Með því að taka þátt í boðunarstarfinu og sækja samkomur finnurðu hugarfrið og innri gleði af því að þú veist að þú ert að gera vilja Guðs. Og þessar tilfinningar gefa þér nýjan þrótt. (Nehemíabók 8:10) Hvaða lærdómur er fólginn í þessu?

8, 9. (a) Hvað getur verið okkur hvatning til að hafa hjónabandið í heiðri og af hverju? (b) Hvaða tvö atriði ætlum við nú að skoða?

8 Það er sterkur kærleikur til Jehóva sem er þér hvatning til að prédika og sækja samkomur þótt það sé ekki auðvelt. Kærleikurinn til Jehóva getur sömuleiðis verið þér hvatning til að hlýða fyrirmælunum að hafa hjúskapinn í heiðri, jafnvel þó að það virðist erfitt. (Hebreabréfið 13:4; Sálmur 18:30; Prédikarinn 5:4) Og Jehóva tekur eftir því sem þú leggur á þig til að hafa hjónabandið í heiðri og blessar þig fyrir, rétt eins og hann blessar þig þegar þú boðar fagnaðarerindið og sækir safnaðarsamkomur. — 1. Þessaloníkubréf 1:3; Hebreabréfið 6:10.

9 Hvernig geturðu þá haft hjónaband þitt í heiðri? Þú þarft að forðast hvers konar hátterni sem myndi skaða samband ykkar hjónanna. Þú þarft líka að gera vissar ráðstafanir til að styrkja hjónabandið.

FORÐASTU ORÐ OG FRAMKOMU SEM VANHEIÐRA HJÓNABANDIÐ

10, 11. (a) Hvers konar hegðun vanheiðrar hjónabandið? (b) Hvaða spurningar gætirðu spurt maka þinn?

10 Eiginkona í söfnuðinum sagði fyrir nokkru: „Ég bið Jehóva að gefa mér styrk til að þrauka.“ Þrauka hvað? „Maðurinn minn meiðir mig með orðum sínum,“ segir hún. „Það sér hvergi á mér en hann er sífellt að hreyta í mig stingandi orðum eins og: ‚Þú ert mér byrði!‘ og ‚Þú ert einskis nýt!‘ og það særir hjarta mitt.“ Þessi eiginkona vekur hér athygli á háalvarlegu máli — andlegu ofbeldi í hjónabandi.

11 Það er dapurlegt þegar hjón á kristnu heimili hreyta meiðandi orðum hvort í annað og valda tilfinningalegum sárum sem eru lengi að gróa. Það er augljóslega ekki verið að hafa hjónaband í heiðri ef það einkennist af meiðandi orðum. Hvernig gengur ykkur hjónunum á þessu sviði? Þú gætir kannað málið með því að spyrja maka þinn með hógværð: „Hvaða áhrif hef ég á þig með orðum mínum?“ Ef það gerist oft að maka þínum finnst orð þín særandi þarftu að vera fús til að breyta þér til hins betra. — Galatabréfið 5:15; Efesusbréfið 4:31.

12. Hvernig gæti tilbeiðsla manns orðið fánýt í augum Guðs?

12 Hafðu hugfast að þú hefur áhrif á samband þitt við Jehóva með því hvernig þú notar tunguna innan hjónabandsins. Í Biblíunni segir: „Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.“ (Jakobsbréfið 1:26) Þú getur ekki skilið á milli tilbeiðslu þinnar og orða. Biblían styður ekki þá hugmynd að það skipti ekki máli hvað maður geri heima hjá sér svo framarlega sem maður segist þjóna Guði. Blekktu ekki sjálfan þig. Þetta er alvarlegt mál. (1. Pétursbréf 3:7) Það getur vel verið að þú hafir ýmsa hæfileika og sért kappsamur en ef þú særir maka þinn vísvitandi með meiðandi orðum ertu að vanheiðra hjónabandið og það getur orðið til þess að tilbeiðsla þín sé fánýt í augum Guðs.

13. Hvernig er hægt að valda maka sínum sársauka?

13 Hjón þurfa einnig að vera vakandi fyrir því að særa ekki hvort annað með óbeinum hætti. Hugsum okkur tvö dæmi: Einstæð móðir hringir oft í giftan bróður í söfnuðinum til að leita ráða hjá honum og þau tala lengi saman. Einhleypur bróðir er alllengi í boðunarstarfinu í hverri viku með giftri systur í söfnuðinum. Gifta bróðurnum og giftu systurinni í þessum dæmum gengur eflaust gott eitt til en hvaða áhrif ætli þetta hafi á maka þeirra? Kona, sem var í slíkri aðstöðu, sagði: „Það særir mig að maðurinn minn skuli gefa annarri systur svona mikinn tíma og athygli. Mér finnst ég vera sett hjá.“

14. (a) Hvaða skyldu berum við gagnvart maka okkar samkvæmt 1. Mósebók 2:24? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

14 Það er skiljanlegt að þessi eiginkona og aðrir, sem eru í svipaðri stöðu, skuli vera sárir. Makinn fer ekki eftir grundvallarfyrirmælum Guðs um hjónabandið: „Maður [yfirgefur] föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni.“ (1. Mósebók 2:24) Þeir sem gifta sig halda auðvitað áfram að virða foreldra sína en samkvæmt fyrirmælum Guðs ber þeim nú fyrst og fremst að sinna maka sínum. Þjónum Guðs þykir líka innilega vænt um trúsystkini sín en þeir ættu þó öðru fremur að láta sér annt um maka sinn. Ef giftur einstaklingur eyðir óhóflegum tíma með öðru trúsystkini, ekki síst ef það er af hinu kyninu, eða er yfirmáta kumpánlegur veldur það spennu í hjónabandinu. Getur verið að eitthvað þess háttar valdi spennu í hjónabandi þínu? Spyrðu þig hvort þú gefir maka þínum þann tíma, athygli og ástúð sem hann á rétt á.

15. Af hverju ættu giftir þjónar Guðs að varast að sýna einhverjum af hinu kyninu óviðeigandi athygli, samkvæmt Matteusi 5:28?

15 Ef giftur þjónn Guðs er of upptekinn af einhverjum af hinu kyninu, öðrum en maka sínum, er hann kominn út á hálan ís. Því miður eru þess dæmi að giftir vottar hafi orðið hrifnir af einhverjum sem þeir áttu einum of náin samskipti við. (Matteus 5:28) Tilfinningatengslin urðu síðan til þess að þeir vanheiðruðu hjónabandið enn frekar með breytni sinni. Skoðum hvað Páll postuli sagði um málið.

„HJÓNASÆNGIN SÉ ÓFLEKKUГ

16. Hvaða fyrirmæli gefur Páll varðandi hjónabandið?

16 Þegar Páll talaði um að ‚hjúskapurinn skyldi í heiðri hafður‘ lét hann fylgja viðvörun strax á eftir: „Hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Páll notar hér orðið ‚hjónasæng‘ í merkingunni kynmök. Þau eru því aðeins „óflekkuð“, það er að segja siðferðilega hrein, að þau eigi sér stað milli hjóna. Þess vegna þurfa kristnir menn að gefa gaum að hinum innblásnu orðum: „Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar.“ — Orðskviðirnir 5:18.

17. (a) Af hverju ætti það ekki að skipta máli fyrir kristna menn hvernig heimurinn lítur á framhjáhald? (b) Hvernig er hægt að líkja eftir Job?

17 Þeir sem eiga kynmök við annan en maka sinn sýna algert virðingarleysi fyrir siðferðislögum Guðs. Margir hugsa reyndar sem svo að það sé sjálfsagt að halda fram hjá maka sínum. En afstaða kristinna manna til framhjáhalds ætti ekki að ráðast af því hvernig menn hugsa. Þeir vita að það eru ekki menn heldur Guð sem dæmir „hórkarla og frillulífismenn“ að lokum. (Hebreabréfið 10:31; 12:29) Sannkristnir menn halda sig þess vegna við sjónarmið Jehóva í þessu máli. (Rómverjabréfið 12:9) Ættfaðirinn Job sagðist hafa gert ‚sáttmála við augu sín‘ eins og þú manst. (Jobsbók 31:1) Sannkristinn maður hefur stjórn á sér og gætir þess að renna ekki löngunaraugum til manneskju af hinu kyninu sem er ekki maki hans. Þannig gætir hann þess að stíga ekki eitt einasta skref sem gæti verið undanfari hjúskaparbrots. — Sjá viðaukann „Afstaða Biblíunnar til skilnaðar“.

18. (a) Hve alvarlegt er hjúskaparbrot í augum Guðs? (b) Hvað er líkt með hjúskaparbroti og skurðgoðadýrkun?

18 Hve alvarlegt er hjúskaparbrot í augum Jehóva? Móselögin varpa ljósi á hvernig Jehóva lítur á það. Hjúskaparbrot og skurðgoðadýrkun voru meðal þeirra brota sem dauðarefsing lá við í Ísrael. (3. Mósebók 20:2, 10) Sérðu hvað er hliðstætt með þessu tvennu? Ef Ísraelsmaður dýrkaði skurðgoð braut hann sáttmála sem hann hafði gert við Jehóva. Ef Ísraelsmaður drýgði hór braut hann sáttmála sem hann hafði gert við maka sinn. Í báðum tilfellum var um svik að ræða. (2. Mósebók 19:5, 6; 5. Mósebók 5:9; Malakí 2:14) Þess vegna var í báðum tilfellum um að ræða vítaverða hegðun í augum Jehóva, hins trausta og trúfasta Guðs. — Sálmur 33:4.

19. Hvað getur gert okkur enn ákveðnari í að fremja ekki hjúskaparbrot?

19 Kristnir menn eru auðvitað ekki settir undir Móselögin. Vitneskjan um það hve alvarlegt hjúskaparbrot var talið í Ísrael getur engu að síður styrkt kristinn mann í þeim ásetningi að gera ekkert slíkt. Hvernig þá? Lítum á dæmi til samanburðar: Myndirðu nokkurn tíma ganga inn í kirkju, krjúpa á kné og biðja frammi fyrir líkneski? „Auðvitað ekki,“ svarar þú. En myndirðu freistast til þess ef þér væri boðin há fjárhæð fyrir? „Kemur ekki til greina,“ svarar þú. Sannkristnum manni þykir það fráleit hugmynd að svíkja Jehóva með því að tilbiðja skurðgoð. Að sama skapi ætti kristnum manni að þykja fráleitt að svíkja Jehóva Guð og maka sinn með því að halda fram hjá — óháð því hver kynni að vera hvatinn til þess. (Sálmur 51:3, 6; Kólossubréfið 3:5) Ekki viljum við gera nokkuð sem myndi gleðja Satan en vanheiðra Jehóva og heilagt hjónaband.

AÐ STYRKJA HJÓNABANDIÐ

20. Hvað gerist í sumum hjónaböndum? Lýstu með dæmi.

20 Hvað geturðu gert til að glæða að nýju virðingu fyrir maka þínum auk þess að forðast hátterni sem vanheiðrar hjónabandið? Lítum nánar á málið. Hugsaðu þér hjónabandið sem hús. Hugsaðu þér síðan að vingjarnleg orð, hugulsemi og annað sem hjón gera til að heiðra hvort annað sé eins og hlutir og skraut sem fegra heimilið. Ef samband ykkar er náið er hjónabandið eins og hús með fallegum hlutum sem gera heimilið hlýlegt og gefa því lit. Ef ástúðin kulnar hverfa hlutirnir hver af öðrum og eftir stendur hjónaband sem er eins og drungalegt og kuldalegt hús. Þig langar til að hlýða þeim fyrirmælum Guðs að hafa ‚hjúskapinn í heiðri‘ og gerir þess vegna eitthvað til að bæta ástandið. Allt sem er dýrmætt og heiðvirt er þess virði að laga og bæta. Hvað geturðu gert til þess? Í orði Guðs segir: „Af speki er hús reist og af skynsemi verður það staðfast, fyrir þekkingu fyllast herbergin alls konar dýrum og fögrum gripum.“ (Orðskviðirnir 24:3, 4) Könnum hvernig þessi vers geta átt við hjónabandið.

21. Hvernig er hægt að styrkja hjónabandið smám saman? (Sjá einnig rammagreinina „ Hvernig get ég bætt hjónabandið?.“)

21 Meðal þeirra ‚dýrgripa‘, sem prýða hamingjuríkt heimili, eru sönn ást, guðsótti og sterk trú. (Orðskviðirnir 15:16, 17; 1. Pétursbréf 1:7) Þetta eru eiginleikar sem styrkja hjónabandið. En tókstu eftir hvernig herbergin í orðskviðnum fylltust dýrum gripum? Það var „fyrir þekkingu“. Biblíuþekking getur breytt hugsunarhætti hjóna og verið þeim hvatning til að endurlífga ástina hvort til annars. (Rómverjabréfið 12:2; Filippíbréfið 1:9) Þegar þið hjónin gefið ykkur tíma til að ræða saman í rólegheitum um biblíuvers svo sem dagstextann, eða biblíutengda grein um hjónaband í Varðturninum eða Vaknið! er eins og þið séuð að virða fyrir ykkur fallega hluti sem geta fegrað heimilið. Þegar kærleikurinn til Jehóva fær ykkur til að fara eftir leiðbeiningunum sem þið voruð að skoða er eins og þið séuð að færa hlutina inn í „herbergin“ á heimili ykkar. Og það getur endurvakið eitthvað af hlýjunni og fegurðinni sem þið nutuð áður í hjónabandinu.

22. Hvaða gleði getum við notið ef við gerum okkar ýtrasta til að styrkja hjónabandið?

22 Það getur auðvitað tekið sinn tíma og kostað talsverða fyrirhöfn að koma þessum fallegu hlutum aftur fyrir á heimilinu smátt og smátt. En ef þú leggur þitt af mörkum veistu að þú gerir eins og Biblían mælir fyrir í Rómverjabréfinu 12:10: „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Sálmur 147:11) En umfram allt stuðlarðu að því að kærleikur Guðs varðveiti þig ef þú gerir þitt ýtrasta til að halda hjónabandið í heiðri.

^ gr. 6 Það sem Páll segir um hjúskapinn er ein hvatning af nokkrum sem er að finna í Hebreabréfinu 13:1-5.