Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

16. KAFLI

Stattu gegn djöflinum og vélabrögðum hans

Stattu gegn djöflinum og vélabrögðum hans

„Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:7.

1, 2. Hverjir gleðjast yfir því að sjá nýja lærisveina skírast?

EF ÞÚ hefur þjónað Jehóva árum saman hefurðu líklega heyrt margar skírnarræður fluttar á mótum. En sennilega skiptir ekki máli hve oft þú hefur hlustað á slíkar ræður því að þú ert eftir sem áður snortinn þegar þú sérð þá sem sitja fremst í salnum standa upp og bjóða sig fram til skírnar. Allur áheyrendaskarinn í salnum fylgist spenntur með og síðan tekur við dynjandi lófatak. Kannski færðu tár í augun þegar þú horfir á nýjan hóp sem hefur tekið afstöðu með Jehóva. Þetta eru gleðilegar stundir.

2 Við erum kannski viðstödd skírn í nokkur skipti á ári en englarnir fá að horfa miklu oftar á skírn. Geturðu ímyndað þér ‚fögnuðinn á himni‘ sem hlýtur að fylgja því að horfa á þúsundir manna í hverri viku bætast við söfnuð Jehóva út um allan heim? (Lúkas 15:7, 10) Englarnir eru eflaust yfir sig hrifnir að horfa á þessa aukningu. — Haggaí 2:7.

DJÖFULLINN „GENGUR UM SEM ÖSKRANDI LJÓN“

3. Af hverju gengur Satan um eins og „öskrandi ljón“ og hvað reynir hann að gera?

3 En aðrar andaverur horfa með litlum fögnuði á þá sem láta skírast. Satan og illu öndunum er mikil skapraun af því að sjá fólk þúsundum saman snúa baki við þessum spillta heimi. Satan fullyrti nú einu sinni að enginn maður myndi þjóna Jehóva af ósviknum kærleika og enginn myndi vera honum trúr ef hann yrði fyrir alvarlegum prófraunum. (Jobsbók 2:4, 5) Í hvert sinn sem einhver ákveður að vígjast Jehóva sýnir það sig að Satan er lygari. Það er eins og hann fái þúsundir löðrunga í hverri viku allt árið um kring. Er nokkur furða að hann skuli ganga um eins og „öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt“? (1. Pétursbréf 5:8) Þetta ljón vill umfram allt gleypa okkur með því að spilla sambandi okkar við Guð eða eyðileggja það. — Sálmur 7:2, 3; 2. Tímóteusarbréf 3:12.

Í hvert sinn sem einhver vígist Jehóva og lætur skírast sýnir það sig að Satan er lygari.

4, 5. (a) Á hvaða tvo vegu hefur Jehóva sett Satan takmörk? (b) Hverju má sannkristinn maður treysta?

4 Þótt við hatramman óvin sé að etja er engin ástæða til að vera gagntekinn ótta. Af hverju? Af því að Jehóva hefur sett hinu ‚öskrandi ljóni‘ takmörk á tvo vegu. Í fyrsta lagi hefur hann sagt fyrir að „mikill múgur“ sannkristinna manna muni koma lifandi úr „þrengingunni miklu“. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Og spádómar Guðs bregðast aldrei. Þess vegna hlýtur Satan að vita að þjónar Guðs sem hópur eru utan seilingar fyrir hann.

5 Af orðum manns, sem þjónaði Guði dyggilega endur fyrir löngu, má álykta að óvininum séu önnur takmörk sett. Asarja spámaður sagði við Asa konung: „Drottinn er með ykkur á meðan þið eruð með honum.“ (2. Kroníkubók 15:2; 1. Korintubréf 10:13) Mörg skrásett dæmi gefa til kynna að Satan hafi aldrei tekist að hremma neinn sem þjónaði Guði og hélt sig fast við hann. (Hebreabréfið 11:4-40) Kristinn maður, sem heldur sig fast við Guð, getur staðið gegn Satan og meira að segja sigrað hann. „Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur,“ segir í Biblíunni. — Jakobsbréfið 4:7.

„BARÁTTAN SEM VIÐ EIGUM Í ER . . . VIÐ ANDAVERUR VONSKUNNAR“

6. Hvernig heyr Satan stríð gegn okkur sem einstaklingum?

6 Satan getur ekki unnið stríðið. Hann getur hins vegar tortímt okkur sem einstaklingum ef við erum ekki á verði. Hann veit að hann getur sigrað okkur ef honum tekst að veikja tengsl okkar við Jehóva. Hvernig reynir hann að gera það? Með því að gera harðar árásir, vega að okkur persónulega og beita lævísum brögðum gegn okkur. Lítum á þessar þrjár aðferðir Satans.

7. Af hverju herðir Satan árásir sínar á þjóna Jehóva?

7 Harðar árásir. Jóhannes postuli skrifaði: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í þessum orðum er fólgin viðvörun til allra sannkristinna manna. Satan er búinn að ná undir sig öllum hinum óguðlega mannheimi og getur nú einbeitt sér að þeim sem hafa sloppið undan honum hingað til — þjónum Jehóva. (Míka 4:1; Jóhannes 15:19; Opinberunarbókin 12:12, 17) Hann er öskureiður og fer hamförum af því að hann veit að hann hefur nauman tíma. Hann herðir árásir sínar og reynir allt hvað hann getur að eyðileggja samband okkar við Guð. Við þurfum því meira en nokkru sinni fyrr að ‚kunna skil á sérhverri tíð og vita hvað okkur ber að gera‘. — 1. Kroníkubók 12:33.

8. Hvað á Páll postuli við þegar hann segir að við eigum í ‚baráttu‘ við illar andaverur?

8 Persónuleg barátta. Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Baráttan sem við eigum í er . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Gríska orðið, sem er þýtt ‚barátta‘, merkir beinlínis ‚glíma‘ og lýsir átökum í návígi, augliti til auglitis. Þannig bendir Páll á að við eigum í persónulegum átökum við illa anda. Hvort sem trú á illa anda er útbreidd þar sem við búum eða ekki skulum við aldrei gleyma að þegar við vígðum okkur Jehóva gengum við út á glímuvöllinn ef svo má að orði komast. Allir kristnir menn eiga í þessari glímu að minnsta kosti frá því að þeir vígjast Guði. Það er ekkert undarlegt að Páll skuli hafa talið nauðsynlegt að hvetja kristna menn í Efesus þrívegis til að vera staðfastir. — Efesusbréfið 6:11, 13, 14.

9. (a) Hvers vegna beita Satan og illu andarnir alls konar ‚vélabrögðum‘? (b) Af hverju reynir Satan að spilla hugsun okkar og hvernig getum við staðist það? (Sjá rammagreinina „ Gættu þín á lævísum brögðum Satans“.) (c) Hvaða vélabragð skoðum við núna?

9 Lævís brögð. Páll hvetur kristna menn til að standast „vélabrögð“ Satans. (Efesusbréfið 6:11) Við tökum eftir að orðið stendur í fleirtölu. Illu andarnir beita ekki bara einu lævísu bragði heldur mörgum tegundum og þeir hafa gilda ástæðu til. Sumir þjónar Guðs hafa staðist ákveðna prófraun en fallið í annarri. Satan og illu andarnir fylgjast því grannt með hegðun okkar til að finna veikasta blettinn. Þeir notfæra sér síðan hvern þann veikleika sem við höfum til að spilla sambandi okkar við Guð. Sem betur fer þekkjum við margar af aðferðum Satans því að þeim er lýst í Biblíunni. (2. Korintubréf 2:11) Fyrr í þessari bók var fjallað um efnishyggju, skaðlegan félagsskap og kynferðislegt siðleysi. Nú beinum við athyglinni að enn einu vélabragði Satans — spíritisma.

SPÍRITISMI — SVIK VIÐ GUÐ

10. (a) Hvað er spíritismi? (b) Hvernig lítur Jehóva á spíritisma og hvernig lítur þú á hann?

10 Sá sem leggur stund á spíritisma setur sig í beint samband við illa anda. Spíritismi er meðal annars fólginn í spám, göldrum, særingum og því að leita til framliðinna. Eins og við vitum mætavel er spíritismi „viðurstyggð“ í augum Jehóva. (5. Mósebók 18:10-12; Opinberunarbókin 21:8) Við verðum líka að hafa „andstyggð á hinu vonda“ svo að það er óhugsandi fyrir okkur að sækjast eftir félagsskap illra anda. (Rómverjabréfið 12:9) Það væru svívirðileg svik við Jehóva, föður okkar á himnum!

11. Af hverju væri það sætur sigur fyrir Satan ef hann gæti tælt okkur út í spíritisma? Lýstu með dæmi.

11 En einmitt vegna þess að það er vítaverð sviksemi við Jehóva að koma nálægt spíritisma er Satan staðráðinn í að fá eitthvert okkar til þess. Hann vinnur sætan sigur í hvert sinn sem honum tekst að tæla einn kristinn mann út í spíritisma. Hvernig þá? Hugsum okkur eftirfarandi samlíkingu: Ef hægt væri að fá hermann til að svíkja herdeild sína, gerast liðhlaupi og ganga í lið með óvininum myndi það gleðja yfirmann óvinasveitanna. Kannski myndi hann hampa liðhlaupanum sem sigurtákni í þeim tilgangi að smána fyrrverandi yfirmann hermannsins. Ef kristinn maður færi að stunda spíritisma væri hann fúslega og vitandi vits að yfirgefa Jehóva og beygja sig undir beina stjórn Satans. Hugsaðu þér hve það myndi gleðja Satan að hampa liðhlaupanum sem sigurtákni. Viljum við færa Satan djöflinum slíkan sigur upp í hendurnar? Auðvitað ekki! Við erum engir svikarar.

SPURNINGAR TIL AÐ VEKJA EFASEMDIR

12. Hvaða aðferð notar Satan til að hafa áhrif á afstöðu okkar til spíritisma?

12 Svo framarlega sem við höfum andstyggð á spíritisma getur Satan ekki notað hann til að tæla okkur. Hann veit að hann þarf að breyta hugsunarhætti okkar. Hann reynir því að rugla okkur í ríminu svo að við förum að „kalla hið illa gott og hið góða illt“. (Jesaja 5:20) Til þess beitir hann þrautreyndri aðferð — hann varpar fram spurningum til að vekja efasemdir.

13. Hvernig hefur Satan beitt spurningum til að vekja efasemdir?

13 Taktu eftir hvernig Satan notaði þessa aðferð til forna. Hann spurði Evu meðan hún var í Eden: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Þegar englarnir komu saman til fundar á himnum á dögum Jobs spurði Satan: „Er Job guðhræddur að ástæðulausu?“ Um það leyti sem Jesús hóf þjónustu sína á jörð ögraði Satan honum og sagði: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Hugsaðu þér — Satan vogaði sér að gera gys að því sem Jehóva hafði sjálfur sagt um sex vikum áður: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ — 1. Mósebók 3:1; Jobsbók 1:9; Matteus 3:17; 4:3.

14. (a) Hvernig reynir Satan að vekja efasemdir um skaðsemi spíritisma? (b) Um hvað verður nú fjallað?

14 Satan beitir svipuðum aðferðum núna til að reyna að gera okkur efins um að spíritismi sé eins vondur og sagt er í Biblíunni. Því miður hefur honum tekist að vekja efasemdir í hugum sumra. Þeir hafa farið að draga í efa að vissar tegundir spíritisma séu skaðlegar. Þeir hugsa eiginlega með sér: „Er þetta satt?“ (2. Korintubréf 11:3) Hvernig er hægt að hjálpa þeim að breyta hugsunarhætti sínum? Hvernig getum við tryggt að Satan takist ekki að blekkja okkur? Til að svara því skulum við líta á tvö svið sem Satan hefur tekist að menga kænlega með spíritisma. Þetta eru afþreying og heilsuvernd.

SATAN NOTFÆRIR SÉR LANGANIR OKKAR OG ÞARFIR

15. (a) Hvernig er gjarnan litið á spíritisma í hinum vestræna heimi? (b) Hvernig hafa sumir kristnir menn látið afstöðu heimsins til spíritisma hafa áhrif á sig?

15 Dulspeki, galdrar og aðrar tegundir spíritisma eru ekki teknar mjög alvarlega nú orðið, einkum í hinum vestræna heimi. Í kvikmyndum, bókum, sjónvarpsþáttum og tölvuleikjum er djöfladýrkun af ýmsu tagi sett fram sem fyndin og skaðlaus skemmtun. Þess eru dæmi að kvikmyndir og bækur með dulrænum söguþræði nái svo gríðarlegum vinsældum að stofnaðir séu aðdáendaklúbbar. Illum öndum hefur greinilega tekist að gera lítið úr hættunni sem fylgir dulrænum iðkunum. Hafa þjónar Guðs orðið fyrir áhrifum af þessari þróun? Já, sumir hverjir. Hvernig þá? „Ég tók ekki þátt í spíritisma þó að ég hafi horft á kvikmyndina,“ sagði vottur nokkur eftir að hafa horft á kvikmynd með dulrænu inntaki. Af hverju er þetta hættulegur hugsunarháttur?

16. Af hverju er hættulegt að velja sér afþreyingarefni sem snýst meira eða minna um spíritískar iðkanir?

16 Auðvitað er munur á því að stunda beinlínis spíritisma og horfa á hann en það er ekki þar með sagt að það sé hættulaust að horfa á slíkt efni. Lítum nánar á málið. Í orði Guðs er gefið til kynna að hvorki Satan né illu andarnir geti lesið hugsanir okkar. * Eins og áður hefur komið fram þurfa illu andarnir að fylgjast náið með atferli okkar til að þefa uppi hvernig við hugsum og koma auga á hvar samband okkar við Jehóva sé veikt. Meðal annars geta þeir séð hvað við veljum okkur til afþreyingar. Þegar kristinn maður sýnir með hegðun sinni að hann hefur gaman af kvikmyndum eða bókum sem fjalla um andamiðla, álög, andsetið fólk eða annað efni af spíritískum toga er hann að senda illu öndunum ákveðin skilaboð. Hann er í rauninni að vekja athygli þeirra á því hvar varnirnar séu veikar! Í framhaldi af því gætu illu andarnir átt til að herða glímutökin og notfæra sér veikleikana, sem hann sýndi af sér, uns þeim hefur tekist að fella hann. Þess eru dæmi að fólk hafi fyrst fengið áhuga á spíritisma við það að horfa á afþreyingarefni með sterku ívafi af því tagi og síðan farið að stunda spíritisma. — Galatabréfið 6:7.

Nýttu þér stuðning Jehóva þegar þú átt við veikindi að stríða.

17. Hvaða vélabragði beitir Satan ef til vill gegn þeim sem eiga við veikindi að stríða?

17 Satan reynir ekki aðeins að notfæra sér það að við þörfnumst afþreyingar heldur einnig að við þurfum að hugsa um heilsuna. Þjónn Guðs getur orðið örvilnaður ef heilsunni hrakar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans til að fá lækningu meina sinna. (Markús 5:25, 26) Það getur gefið Satan og illu öndunum kærkomið tækifæri til að gera atlögu. Þeir vita að í Biblíunni er varað við því að leita eftir „hjálp illvirkja“. (Jesaja 31:2) Illu andarnir reyna kannski að freista hins þjáða til að loka augunum fyrir þessari viðvörun og leita í örvæntingu eftir meðferð þar sem beitt er einhverjum „dulrænum öflum“ — spíritisma — en það er auðvitað „hjálp illvirkja“. (Jesaja 1:13, New World Translation) Ef illu öndunum tekst að beita þessu vélabragði gæti það veikt samband hins þjáða við Guð. Hvernig þá?

18. Hvers konar meðferð hafnar kristinn maður og af hverju?

18 Jehóva sagði við Ísraelsmenn sem höfðu leitað á náðir dulrænna afla: „Þegar þér lyftið höndum yðar í átt til mín loka ég augunum og þótt þér biðjið margra bæna heyri ég ekki.“ (Jesaja 1:15) Við viljum auðvitað forðast hvaðeina sem gæti hindrað bænir okkar og dregið úr þeim stuðningi sem við fáum frá Jehóva — ekki síst þegar við eigum við veikindi að stríða. (Sálmur 41:4) Ef eitthvað bendir til þess að ákveðin greiningaraðferð eða meðferð sé með spíritísku ívafi ætti sannkristinn maður að hafna henni. * (Matteus 6:13) Þannig getur hann tryggt að Jehóva haldi áfram að styðja hann. — Sjá rammagreinina „ Er það í raun og veru spíritismi?“.

ÞEGAR SÖGUR AF ILLUM ÖNDUM ERU Á KREIKI

19. (a) Hvað hefur Satan talið mörgum trú um? (b) Hvaða sögur ættu sannkristnir menn ekki að breiða út?

19 Á Vesturlöndum er oft gert lítið úr hættunni á því að Satan geti haft áhrif en hið gagnstæða er uppi á teningnum víða annars staðar í heiminum. Þar hefur Satan tekist að telja mörgum trú um að hann hafi meira vald en hann hefur í raun. Sumir lifa í stöðugum ótta við illa anda. Sögur eru á kreiki um afrek þeirra. Margir hafa ánægju af að segja slíkar sögur og fólk er heillað af þeim. Ættum við líka að segja sögur af þessu tagi? Nei, það eru tvær ástæður fyrir því að þjónar hins sanna Guðs láta það vera.

20. Hvernig gæti maður útbreitt áróður Satans, jafnvel án þess að ætla sér það?

20 Í fyrsta lagi værum við að gera Satan greiða með því að bera úr sögur af afrekum illra anda. Hvernig þá? Í orði Guðs kemur fram að Satan er fær um að vinna ýmis furðuverk en við erum líka vöruð við því að hann beiti „lygatáknum“ og ‚blekkingum‘. (2. Þessaloníkubréf 2:9, 10) Hann er mikill blekkingameistari og veit hvernig hann á að hafa áhrif á hugi þeirra sem hallast að spíritisma og telja þeim trú um ýmislegt sem er ekki satt. Kannski trúir þetta fólk í einlægni að það hafi séð og heyrt vissa hluti og segir frá því. Þegar sögurnar berast síðan frá manni til manns verða þær stöðugt ýktari. Ef kristinn maður segði slíkar sögur væri hann í rauninni að reka erindi Satans sem er „lyginnar faðir“. Hann væri að útbreiða áróður Satans. — Jóhannes 8:44; 2. Tímóteusarbréf 2:16.

21. Að hverju eigum við að beina tali okkar?

21 Í öðru lagi, þó að kristinn maður hafi haft raunveruleg kynni af illum öndum áður fyrr ætti hann ekki að segja trúsystkinum sögur af því í sífellu. Eins og segir í Hebreabréfinu 12:2 eigum við að „[beina] sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar“. Við eigum sem sagt að beina athygli okkar að Kristi en ekki Satan. Það er athyglisvert að þegar Jesús var á jörðinni sagði hann lærisveinunum ekki sögur af illum öndum enda þótt hann hefði vissulega getað upplýst þá um hvað Satan getur og getur ekki. Jesús einbeitti sér að því að boða ríki Guðs. Við skulum því líkja eftir Jesú og postulunum og láta tal okkar snúast um „stórmerki Guðs“. — Postulasagan 2:11; Lúkas 8:1; Rómverjabréfið 1:11, 12.

22. Hvernig getum við stuðlað að ‚fögnuði á himni‘?

22 Satan beitir vissulega ýmiss konar vélabrögðum, þar á meðal spíritisma, til að reyna að skemma samband okkar við Jehóva. Ef við höfum hins vegar andstyggð á hinu vonda og höldum fast við hið góða gefum við djöflinum ekkert tækifæri til að veikja einbeitta andstöðu okkar gegn spíritisma í hvaða mynd sem er. (Efesusbréfið 4:27) Hugsaðu þér ‚fögnuðinn á himni‘ þegar við höldum áfram að standast „vélabrögð djöfulsins“ uns hann verður ekki framar til. — Efesusbréfið 6:11.

^ gr. 16 Satan er kallaður ýmsum nöfnum (andstæðingur, rógberi, afvegaleiðandi, freistari og lygari) en ekkert þeirra gefur í skyn að hann sé fær um að sjá inn í hjarta okkar og huga. Aftur á móti er talað um að Jehóva ‚prófi hjörtun‘ og Jesús ‚rannsaki nýrun og hjörtun‘. — Orðskviðirnir 17:3; Opinberunarbókin 2:23.

^ gr. 18 Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum, 1. maí 2006, bls. 15 -16, í enskri útgáfu blaðsins, 15. desember 1994, bls. 19-22, og greininni „The Bible’s Viewpoint: Your Choice of Medical Treatment — Does It Matter?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. janúar 2001.