Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Pössum við saman?

Pössum við saman?

KAFLI 3

Pössum við saman?

Gefðu þér nokkrar mínútur til að svara þessum spurningum:

Hvaða eiginleika finnst þér tilvonandi maki þinn þurfa að hafa? Settu við fjögur atriði á listanum hér að neðan sem þér finnst mikilvægust.

□ Myndarlegur □ Andlega sinnaður

□ Aðlaðandi □ Áreiðanlegur

□ Vinsæll □ Með gott siðferði

□ Fyndinn □ Vinnur að markmiðum sínum

Varstu hrifinn af einhverjum þegar þú varst yngri? Settu × við það atriði á listanum sem þér fannst mest aðlaðandi við þann einstakling á þeim tíma.

ÞAÐ er ekkert rangt við neinn af þessum eiginleikum. Hver þeirra hefur sína kosti. En ertu ekki sammála því að þegar maður er skotinn í einhverjum á unglinsárunum hugsar maður meira um hið yfirborðskennda eins og eiginleikana sem standa í vinstri dálknum?

En eftir því sem þú þroskast ferðu að gera þér grein fyrir að eiginleikarnir í hægri dálkinum skipta meira máli. Tökum dæmi. Þú kemst kannski að því að sætasta stelpan í hverfinu er ekki endilega sú áreiðanlegasta eða að vinsælasti strákurinn í bekknum er ekki endilega með gott siðferði. Ef þú ert komin(n) yfir æskublómann horfirðu ekki bara á yfirborðskennda eiginleika þegar þú spyrð þig: Pössum við saman?

Að þekkja sjálfan sig fyrst

Áður en þú veltir fyrir þér hvort þið passið saman er nauðsynlegt að þekkja sjálfan sig vel. Svaraðu eftirfarandi spurningum til að kynnast þér betur:

Hverjir eru styrkleikar mínir? ․․․․․

Hverjir eru veikleikar mínir? ․․․․․

Hvaða tilfinningalegu og andlegu þarfir hef ég? ․․․․․

Það er alls ekki auðvelt að þekkja sjálfan sig vel, en spurningar eins og þessar hér að ofan geta hjálpað þér. Því betur sem þú þekkir þig þeim mun betur ertu í stakk búin(n) til að finna maka sem eykur styrkleika þína frekar en veikleika. * Hvað ef þú heldur að þú sért búin(n) að finna þessa manneskju?

Dugar hver sem er?

„Mætti ég fá að kynnast þér aðeins betur?“ Annaðhvort fá þessi orð þig til að hörfa undan eða hoppa af gleði — allt eftir því hver spyr. Segjum að þú svarir játandi. Hvernig geturðu komist að því hvort kærasti þinn eða kærasta sé rétta manneskjan fyrir þig?

Tökum dæmi. Þig langar til að kaupa þér nýja skó. Þú ferð í verslun og kemur auga á skó sem þér líst vel á. Þú mátar þá en kemst að því — þér til mikilla vonbrigða — að þeir eru of þröngir. Hvað gerirðu? Kaupirðu skóna samt sem áður eða leitarðu að öðrum? Það væri augljóslega betra að setja þá aftur í hilluna og reyna að finna aðra. Það er ekki mikið vit í því að ganga í skóm sem passa ekki á þig.

Þetta er svipað þegar þú velur þér lífsförunaut. Þú átt örugglega eftir að rekast á fleiri en einn sem þér líst vel á. En það dugar ekki bara hver sem er. Þú vilt einhvern sem þér líður vel með — einhvern sem passar við þinn persónuleika og hefur svipuð markmið og þú. (1. Mósebók 2:18; Matteus 19:4-6) Hefurðu fundið einhvern slíkan? Ef svo er, hvernig geturðu verið viss um að þessi manneskja sé sú rétta fyrir þig?

Skoðaðu undir yfirborðið

Til að svara síðustu spurningunni skaltu líta aðeins nánar á kærasta þinn eða kærustu. En passaðu þig. Þú gætir freistast til að sjá bara það sem þig langar til að sjá. Gefðu þér því tíma. Reyndu að komast að innra eðli hans eða hennar. Þetta getur kostað þig töluvert erfiði. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru. Tökum dæmi. Segjum að þú viljir kaupa bíl. Hversu vel skoðarðu bílinn? Myndirðu bara hugsa um hvernig hann lítur út? Væri ekki skynsamlegra að skoða hann aðeins betur og reyna að fá eins miklar upplýsingar um ástand vélarinnar og þú getur?

Að finna sér maka er auðvitað miklu alvarlegra mál en að velja sér bíl. Samt eru margir sem skoða ekki undir yfirborðið heldur benda bara strax á það sem þeir eiga sameiginlegt: „Við höfum sama tónlistarsmekk.“ „Við höfum gaman að sömu hlutunum.“ „Við erum sammála um allt!“ En ef þú ert komin(n) yfir æskublómann er hins vegar líklegt að þú horfir ekki aðeins á það sem er á yfirborðinu. Þú áttar þig á að þú þarft að kynnast ,hinum hulda manni hjartans‘. — 1. Pétursbréf 3:4; Efesusbréfið 3:16.

Í stað þess að einblína á það sem þið eruð sammála um gæti verið lærdómsríkt að athuga hvað gerist þegar þið eruð ósammála. Með öðrum orðum: Hvernig tekst kærasti þinn eða kærasta á við ágreining? Heldur hann eða hún fast í sitt, fær reiðiköst eða notar ljótt orðbragð? (Galatabréfið 5:19, 20; Kólossubréfið 3:8) Eða sýnir hann eða hún sanngirni og er fús til að gefa eftir til að halda friðinn þegar málið snýst ekki um rétt eða rangt heldur persónulegan smekk? — Jakobsbréfið 3:17.

Það er annað sem gott er að hugsa um. Er viðkomandi stjórnsamur, ráðríkur eða afbrýðisamur? Heimtar hann að fá að vita allt sem þú gerir? „Ég heyri stundum um pör sem rífast vegna þess að annað þeirra vill að hitt láti stöðugt vita af sér,“ segir Nicole. „Ég held að það viti ekki á gott.“ — 1. Korintubréf 13:4.

Atriðin, sem nefnd hafa verið, tengjast öll persónuleika og hegðun. En mannorð kærasta þíns eða kærustu getur líka leitt margt í ljós. Hvernig líta aðrir á hann eða hana? Kannski væri gott að spyrja þá sem hafa þekkt hann eða hana um einhvern tíma, til dæmis þroskað fólk í söfnuðinum. Þannig geturðu komist að því hvort viðkomandi hafi „gott orð“ á sér. — Postulasagan 16:1, 2.

Það gæti verið gott að skrifa niður hvernig þér finnst kærasti þinn eða kærasta standa sig á þeim sviðum sem við höfum fjallað um. Kannski kemstu að einhverju sem þú hefur ekki tekið eftir áður.

Persónuleiki ․․․․․

Hegðun ․․․․․

Mannorð ․․․․․

Það gæti líka verið gagnlegt fyrir þig að skoða  rammann „Yrði hann góður eiginmaður?“ á bls. 39 eða  „Yrði hún góð eiginkona?“ á bls. 40. Spurningarnar þar geta hjálpað þér að komast að því hvort kærasti þinn eða kærasta sé heppilegur maki.

En hvað ef þú kemst að því eftir að hafa skoðað málin að þessi einstaklingur sé ekki sá rétti fyrir þig? Þá stendurðu frammi fyrir alvarlegri spurningu.

Ættum við að hætta saman?

Stundum er það fyrir bestu að slíta sambandinu. Tökum Jill sem dæmi. „Fyrst var ég mjög upp með mér að kærasti minn skyldi hafa stöðugar áhyggjur af því hvar ég væri, hvað ég væri að gera og með hverjum ég væri. En svo kom að því að ég mátti ekki vera með neinum öðrum en honum. Hann varð jafnvel afbrýðisamur þegar ég var með fjölskyldunni — sérstaklega föður mínum. Þegar ég sleit sambandinu fann ég fyrir miklu létti.“

Sara hefur svipaða sögu að segja. Hún fór að taka eftir því að Jóhann, kærastinn hennar, var kaldhæðinn, kröfuharður og ruddalegur. „Einu sinni kom hann þrem tímum of seint að sækja mig,“ segir Sara. „Hann hunsaði mömmu mína þegar hún kom til dyra og sagði síðan: ,Förum, við erum sein.‘ Hann sagði ekki ,ég er seinn‘, heldur ,við erum sein‘. Hann hefði átt að biðjast afsökunar og útskýra af hverju hann var seinn. Síðast en ekki síst hefði hann átt að sýna mömmu virðingu!“ Að sjálfsögðu þarf sambandið ekki að enda þótt öðru ykkar verði á mistök í eitt skipti. (Sálmur 130:3) En þegar Sara áttaði sig á að Jóhann var ókurteis að eðlisfari en ekki bara í þetta eina skipti ákvað hún að slíta sambandinu.

Hvað ef þú kemst að því, líkt og Jill og Sara, að kærasti þinn eða kærasta er ekki heppilegur maki? Þá skaltu ekki hunsa tilfinningar þínar! Þótt það sé erfitt að kyngja því gæti verið best fyrir ykkur að hætta saman. Í Orðskviðunum 22:3 segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ Ef þú verður var við eitt eða fleiri af hættumerkjunum sem nefnd eru á bls. 39 og 40 væri best að slíta sambandinu — að minnsta kosti þangað til hinn aðilinn er búinn að leiðrétta vandamálið. Það er ekki auðvelt að hætta saman. En hjónaband er varanlegt samband. Það er miklu betra að þola skammvinnan sársauka núna en að sjá eftir því alla ævi að hafa valið sér rangan lífsförunaut.

Hvernig er best að fara að?

Hvernig ættirðu að fara að því að slíta sambandinu? Í fyrsta lagi skaltu velja heppilegar aðstæður til að ræða málin. Hverjar gætu þær verið? Veltu fyrir þér hvernig þú myndir vilja að komið væri fram við þig við slíkar aðstæður. (Matteus 7:12) Myndirðu vilja fá fréttirnar fyrir framan aðra? Líklega ekki. Það væri ekki heppilegt að slíta sambandinu með SMS-skilaboðum, tölvupósti eða með því að tala inn á símsvara eða talhólf nema það sé óhjákvæmilegt vegna aðstæðna. Veldu frekar stað og stund sem gerir ykkur mögulegt að ræða saman um þetta alvarlega mál.

Hvað ættirðu svo að segja? Páll postuli hvatti kristna menn til að ,tala sannleika‘ hver við annan. (Efesusbréfið 4:25) Það er best að vera nærgætin(n) en samt ákveðin(n). Segðu skýrt hvers vegna þér finnst þetta samband ekki ganga upp. Það er alger óþarfi að telja upp langan lista af göllum sem hinn hefur eða láta rigna yfir hann gagnrýni. Í stað þess að segja „þú gerir aldrei“ þetta eða „þú ert alltaf“ svona væri betra að tala um það hvernig þér líður — „ég þarf á einhverjum að halda sem . . .“ eða „mér finnst að við ættum að hætta saman vegna þess að . . .“

Þetta er ekki rétti tíminn til að vera óákveðin(n) eða leyfa hinum aðilanum að breyta skoðun þinni. Mundu að það eru alvarlegar ástæður fyrir því að þú vilt slíta sambandinu. Vertu því á verði ef kærasti þinn eða kærasta reynir að fá þig til að skipta um skoðun með lúmskum aðferðum. Ung kona að nafni Lára segir: „Eftir að ég sleit sambandinu við kærastann lét hann alltaf eins og hann væri mjög niðurdreginn. Ég held að hann hafi gert þetta til að ég vorkenndi honum. Og mér leið illa út af þessu. En ég lét hegðun hans ekki fá mig til að skipta um skoðun.“ Þú verður, líkt og Lára, að vita hvað þú vilt og halda þér við ákvörðun þína. Láttu nei þitt vera nei. — Jakobsbréfið 5:12.

Eftir sambandsslitin

Láttu það ekki koma þér á óvart þótt þú verðir miður þín í einhvern tíma eftir að þið hættið saman. Þér á kannski eftir að líða eins og sálmaritaranum sem sagði: „Ég er beygður og mjög bugaður, eigra um harmandi daginn langan.“ (Sálmur 38:7) Ef til vill eiga velviljaðir vinir eftir að hvetja þig til að gefa sambandinu annað tækifæri. En vertu varkár. Þú verður að lifa með ákvörðunum þínum — ekki vinir þínir. Stattu því fast á þínu — jafnvel þótt þér líði illa yfir því sem hefur gerst.

Þú getur verið viss um að sársaukinn hverfur með tímanum. En þangað til er hægt að gera ýmislegt til að byggja sig upp og takast á við tilfinningar sínar. Hér koma nokkrar tillögur:

Segðu traustum vini hvernig þér líður. * (Orðskviðirnir 15:22) Talaðu við Jehóva um málið í bæn. (Sálmur 55:23) Reyndu að hafa nóg fyrir stafni. (1. Korintubréf 15:58) Einangraðu þig ekki! Farðu strax að umgangast fólk sem byggir þig upp. Reyndu að hafa hugann við jákvæða hluti. — Filippíbréfið 4:8.

Þegar fram líða stundir finnurðu ef til vill ástina á ný. Og þá mun fyrri reynsla þín án efa hjálpa þér að taka réttar ákvarðanir. Í þetta skiptið verður svarið kannski við spurningunni: Pössum við saman?

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 31 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Í NÆSTA KAFLA

Hvar þurfið þið að draga mörkin þegar þið sýnið hvort öðru væntumþykju?

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Þú getur lært enn meira um þig með því að hugleiða spurningarnar í 1. kafla undir millifyrirsögninni „Ertu tilbúin(n) til að giftast?“

^ gr. 45 Foreldrar þínir eða aðrir fullorðnir, eins og safnaðaröldungar, geta hjálpað. Kannski gengu þeir í gegnum svipaða hluti þegar þeir voru ungir.

LYKILRITNINGARSTADUR

„Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.“ — Orðskviðirnir 20:11.

RÁÐ

Gerið eitthvað saman sem dregur eiginleika ykkar fram í dagsljósið:

● Lesið og hugleiðið orð Guðs í sameiningu.

● Fylgist með hvað hinn aðilinn segir og gerir á safnaðarsamkomum og í boðunarstarfinu.

● Takið þátt í byggingarframkvæmdum og að ræsta ríkissalinn.

VISSIR ÞÚ . . .?

Rannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós að hjón, sem hafa ekki sömu trú, séu miklu líklegri til að skilja.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef ég laðast að einhverjum sem hefur ekki sömu trú og ég ætla ég að ․․․․․

Til að komast að því hvaða orðspor kærasti minn eða kærasta hefur get ég ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Hvaða eiginleikum býrð þú yfir sem myndu stuðla að góðu hjónabandi?

Hvaða eiginleika myndirðu vilja sjá í fari tilvonandi maka?

Hvaða vandamál gætu komið upp ef þú giftist einhverjum sem hefur aðra trú en þú?

Hvernig geturðu komist að því hvaða eiginleika og orðspor kærasti þinn eða kærasta hefur og hvernig hann eða hún hegðar sér?

[Innskot á bls. 37]

„Kærasti þinn eða kærasta mun koma fram við þig á sama hátt og hann eða hún kemur fram við fjölskyldu sína.“ — Tony

[Rammi á bls. 34]

„Dragið ekki ok með vantrúuðum“

„Dragið ekki ok með vantrúuðum.“ Líklega finnst þér þessi meginregla úr 2. Korintubréfi 6:14 hljóma skynsamlega. Þrátt fyrir það geturðu orðið hrifin(n) af einhverjum sem er ekki sömu trúar og þú. Hvers vegna? Stundum snýst þetta bara um líkamlegt aðdráttarafl. „Ég hitti alltaf eina stelpu í íþróttatíma,“ segir Mark. „Hún kom alltaf og talaði við mig. Við urðum strax vinir.“

Ef þú þekkir þig og veist að þú hefur rétt siðferðisgildi og ef þú hefur nægan þroska til að láta ekki stjórnast af tilfinningum — þá er augljóst hvað þú átt að gera. Manneskjan sem þú ert hrifin(n) af á ekki eftir að bæta vináttu þína við Guð — óháð því hversu há siðferðisgildi hún virðist hafa eða hversu aðlaðandi eða hrífandi hún er. — Jakobsbréfið 4:4.

Eins og Cindy komst að er ekki auðvelt að binda enda á sambandið ef maður er orðinn ástfanginn. „Ég grét á hverjum degi,“ segir hún. „Ég hugsaði stöðugt um þennan strák, líka á samkomum. Ég elskaði hann svo mikið að ég hugsaði að ég myndi frekar vilja deyja en að missa hann.“ En með tímanum sá hún viskuna í ráðum mömmu sinnar sem varaði hana við að eiga kærasta utan safnaðarins. „Það var gott að ég sleit sambandinu,“ segir hún. „Ég treysti Jehóva fullkomlega til að veita mér það sem ég þarf.“

Ert þú í svipaðri stöðu og Cindy? Þú þarft ekki að takast á við þetta upp á eigin spýtur. Þú getur talað við foreldra þína. Það gerði Jim þegar hann varð mjög hrifinn af stelpu í skólanum. „Að lokum bað ég foreldra mína um hjálp,“ segir hann. „Það var lykillinn að því að ég gat sigrast á þessum tilfinningum.“ Safnaðaröldungar geta líka aðstoðað þig. Hvers vegna ekki að tala við einn þeirra um það sem þú ert að ganga í gegnum? — Jesaja 32:1, 2.

[Rammi/Mynd á bls. 39]

 Vinnublað

Yrði hann góður eiginmaður?

Persónuleiki

□ Hvernig fer hann með ábyrgð eða vald sem honum hefur verið falið? — Matteus 20:25, 26.

□ Hver eru markmið hans? — 1. Tímóteusarbréf 4:15.

□ Er hann að vinna að þessum markmiðum núna? — 1. Korintubréf 9:26, 27.

□ Hvernig kemur hann fram við fjölskyldu sína? — 2. Mósebók 20:12.

□ Hverjir eru vinir hans? — Orðskviðirnir 13:20.

□ Um hvað talar hann? — Lúkas 6:45.

□ Hvaða viðhorf hefur hann til peninga? — Hebreabréfið 13:5, 6.

□ Hvers konar afþreyingu hefur hann gaman af? — Sálmur 97:10.

□ Hvernig sýnir hann að hann elskar Jehóva? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Kostir

□ Er hann vinnusamur? — Orðskviðirnir 6:9-11.

□ Er hann ábyrgur í fjármálum? — Lúkas 14:28.

□ Hefur hann gott mannorð? — Postulasagan 16:1, 2.

□ Er hann tillitsamur? — Filippíbréfið 2:4.

Hættumerki

□ Reiðist hann auðveldlega? — Orðskviðirnir 22:24.

□ Reynir hann að tæla þig út í kynferðislegt siðleysi? — Galatabréfið 5:19.

□ Ræðst hann á aðra með orðum eða afli? — Efesusbréfið 4:31.

□ Þarf hann að nota áfengi til að skemmta sér? — Orðskviðirnir 20:1.

□ Er hann afbrýðisamur og upptekinn af sjálfum sér? — 1. Korintubréf 13:4, 5.

[Rammi/Mynd á bls. 40]

 Vinnublað

Yrði hún góð eiginkona?

Persónuleiki

□ Hvernig sýnir hún undirgefni í fjölskyldunni og söfnuðinum? — Efesusbréfið 5:21, 22.

□ Hvernig kemur hún fram við fjölskyldu sína? — 2. Mósebók 20:12.

□ Hverjir eru vinir hennar? — Orðskviðirnir 13:20.

□ Um hvað talar hún? — Lúkas 6:45.

□ Hvaða viðhorf hefur hún til peninga? — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

□ Hver eru markmið hennar? — 1. Tímóteusarbréf 4:15.

□ Er hún að vinna að þessum markmiðum núna? — 1. Korintubréf 9:26, 27.

□ Hvers konar afþreyingu hefur hún gaman af? — Sálmur 97:10.

□ Hvernig sýnir hún að hún elskar Jehóva? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Kostir

□ Er hún vinnusöm? — Orðskviðirnir 31:17, 19, 21, 22, 27.

□ Er hún ábyrg í fjármálum? — Orðskviðirnir 31:16, 18.

□ Hefur hún gott mannorð? — Rutarbók 3:11.

□ Er hún tillitssöm? — Orðskviðirnir 31:20.

Hættumerki

□ Er hún þrætugjörn? — Orðskviðirnir 21:19.

□ Reynir hún að tæla þig út í kynferðislegt siðleysi? — Galatabréfið 5:19.

□ Ræðst hún á aðra með orðum eða afli? — Efesusbréfið 4:31.

□ Þarf hún að nota áfengi til að skemmta sér? — Orðskviðirnir 20:1.

□ Er hún afbrýðisöm og upptekin af sjálfri sér? — 1. Korintubréf 13:4, 5.

[Mynd á bls. 30]

Það passa ekki á þig hvaða skór sem er og á sama hátt verður ekki hver sem er góður maki.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Finnst þér mikilvægt að skoða meira en útlitið þegar þú velur þér bíl? Er það ekki þeim mun mikilvægara þegar þú velur þér maka?