Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju þarf ég að stríða við veikindi?

Af hverju þarf ég að stríða við veikindi?

KAFLI 8

Af hverju þarf ég að stríða við veikindi?

„Þegar maður er ungur líður manni eins og maður sé ósigrandi. En síðan verður maður allt í einu alvarlega veikur og þá hverfur sú tilfinning. Manni líður eins og maður hafi orðið gamall á einni nóttu.“ — Jason.

ÞEGAR Jason var 18 ára komst hann að raun um að hann væri með Crohns-sjúkdóm en það er sársaukafullur bólgusjúkdómur í þörmum sem dregur úr manni þrótt. Ef til vill glímir þú líka við langvarandi veikindi eða fötlun. Athafnir sem aðrir taka sem sjálfsögðum hlut — eins og að klæða sig, borða eða að fara í skólann — geta reynt gríðarlega mikið á þig.

Ef þú glímir við langvarandi veikindi gæti þér liðið eins og þú sért í fangelsi og hafir takmarkað frelsi. Kannski finnurðu til einmanaleika. Þú gætir jafnvel farið að hugsa hvort þú hafir brotið gegn Guði eða hvort Guð sé að prófa hollustu þína. En í Biblíunni segir: „Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Veikindi eru bara hluti af daglegu lífi manna nú á dögum og „tími og tilviljun“ mætir okkur öllum. — Prédikarinn 9:11.

Það er gott að vita að Guð hefur lofað nýjum heimi þar sem „enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ (Jesaja 33:24) Þeir sem hafa dáið verða jafnvel reistir upp svo að þeir fái tækifæri til að lifa í þessum nýja heimi. (Jóhannes 5:28, 29) En hvernig geturðu gert það besta úr aðstæðum þínum þangað til?

Reyndu að hugsa jákvætt. Í Biblíunni segir: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót.“ (Orðskviðirnir 17:22) Sumum gæti fundist gleði og hlátur vera óviðeigandi þegar einhver glímir við alvarlegan sjúkdóm. En gott skopskyn og ánægjulegur félagsskapur getur verið hressandi og aukið lífslöngun þína. Hugleiddu því hvernig þú getir gert lífið ánægjulegra. Mundu að gleði kemur frá Guði og er einn af eiginleikunum sem mynda ávöxt andans. (Galatabréfið 5:22) Andi Guðs getur hjálpað þér að viðhalda gleðinni þegar þú tekst á við veikindin. — Sálmur 41:4.

Settu þér raunhæf markmið. „Hjá hinum hógværu er viska,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 11:2) Hógværð hjálpar þér að þekkja takmörk þín og vera hvorki of kærulaus né of varkár. Tökum dæmi. Ef heilsan leyfir getur hæfileg hreyfing hjálpað þér að líða betur. Þess vegna bjóða sjúkrastofnanir oft upp á sjúkraþjálfun fyrir ungt fólk. Í mörgum tilvikum stuðlar góð hreyfing ekki aðeins að betri heilsu heldur léttir líka lundina. Það sem skiptir máli er að þú metir aðstæður þínar af raunsæi og setjir þér raunhæf markmið.

Lærðu að taka ummælum annarra. Hvað ef einhver segir eitthvað um veikindi þín eða fötlun sem særir þig? Í Biblíunni segir: „Gefðu ekki . . . gaum öllum þeim orðum sem töluð eru.“ (Prédikarinn 7:21) Stundum er best að leiða hugsunarlaus ummæli hjá sér. Þú gætir líka reynt að koma í veg fyrir að slíkt komi upp. Ef þú sérð til dæmis að aðrir eru vandræðalegir í kringum þig af því að þú ert í hjólastól gætirðu brotið ísinn og sagt: „Þú ert kannski að velta fyrir þér hvers vegna ég er í hjólastól. Viltu vita af hverju?“

Gefstu ekki upp. Þegar Jesús þoldi miklar þjáningar hugsaði hann ekki um sársaukann heldur bað til Guðs, treysti honum og einbeitti sér að þeirri gleði sem hann átti í vændum. (Hebreabréfið 12:2) Hann lærði af þessari erfiðu reynslu. (Hebreabréfið 4:15, 16; 5:7-9) Hann þáði hjálp og hughreystingu. (Lúkas 22:43) Hann hugsaði um velferð annarra í stað þess að einblína á eigin erfiðleika. — Lúkas 23:39-43; Jóhannes 19:26, 27.

Jehóva „ber umhyggju“ fyrir þér

Hverjir svo sem erfiðleikar þínir eru máttu ekki halda að Guð meti þig minna en aðra. Þvert á móti metur Jehóva mikils þá sem leggja sig alla fram við að þóknast honum — þeir eru dýrmætir í augum hans. (Lúkas 12:7) Hann „ber umhyggju“ fyrir þér persónulega og vill gjarnan að þú þjónir honum þrátt fyrir veikindi þín eða fötlun. — 1. Pétursbréf 5:7.

Leyfðu því ekki ótta eða óöryggi að hindra að þú gerir það sem þú vilt gera og þarft að gera. Leitaðu alltaf stuðnings hjá Jehóva Guði. Hann veit hverjar þarfir þínar eru og skilur tilfinningar þínar. Auk þess getur hann veitt þér ,kraftinn mikla‘ til að hjálpa þér að halda út. (2. Korintubréf 4:7) Með tímanum gætirðu tileinkað þér jafn jákvætt viðhorf og Timothy en hann greindist með síþreytu þegar hann var 17 ára. Hann segir: „Eins og fram kemur í 1. Korintubréfi 10:13 lætur Jehóva okkur ekki ganga í gegnum meira en við getum borið. Mín rök eru þau að ef skaparinn er fullviss um að ég geti borið þessa erfiðleika ætti ég að vera það líka.“

Hvað ef einhver sem þú þekkir á við veikindi að stríða?

Hvað ef þú ert við góða heilsu en þekkir einhvern sem glímir við sjúkdóm eða fötlun? Hvernig getur þú komið til hjálpar? Aðalatriðið er að sýna hluttekningu og umhyggju. (1. Pétursbréf 3:8) Reyndu að skilja hvað viðkomandi er að ganga í gegnum. Reyndu að sjá erfiðleikana með hans augum en ekki þínum. Nína fæddist með hryggrauf en hún segir: „Þar sem ég er smávaxin og í hjólastól tala sumir við mig eins og ég sé barn og það finnst mér leiðinlegt. En aðrir setjast niður þegar þeir tala við mig svo að við séum í sömu augnhæð. Það finnst mér frábært!“

Ef þú horfir fram hjá veikindum þeirra eða fötlun muntu sjá að þeir eru ekkert ósvipaðir þér. Og hugsaðu þér — þú getur með orðum þínum miðlað þeim „af gjöfum andans“. Þegar þú gerir það hlýtur þú einnig blessun því að þið munið „uppörvast saman“. — Rómverjabréfið 1:11, 12.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 13 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ — Jesaja 33:24.

RÁÐ

Þekking dregur úr ótta við hið óþekkta. Reyndu því að fræðast eins mikið og þú getur um sjúkdóm þinn eða fötlun. Spyrðu lækninn þinn ítarlegra spurninga ef það er eitthvað sem þú skilur ekki nógu vel.

VISSIR ÞÚ . . .?

Veikindi þín eða fötlun er ekki refsing frá Guði heldur afleiðing ófullkomleikans sem við höfum öll erft frá Adam. — Rómverjabréfið 5:12.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til að hafa jákvæð viðhorf þrátt fyrir veikindi mín eða fötlun ætla ég að ․․․․․

Eitt raunhæft markmið, sem ég get sett mér, er að ․․․․․

Ef einhver segir eitthvað leiðinlegt við mig út af veikindum mínum eða fötlun get ég tekist á við það með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Hvernig geturðu notað efnið í þessum kafla til að hjálpa einhverjum sem glímir við fötlun eða langvarandi sjúkdóm?

Ef þú ert með langvarandi sjúkdóm hvaða jákvæðu staðreyndir geturðu hugleitt til að gera það besta úr aðstæðum þínum?

Hvernig vitum við að heilsuvandamál eru ekki merki um vanþóknun Guðs?

[Rammi/mynd á bls. 75]

DUSTIN, 22 ÁRA

„Ég man að ég grét í fanginu á mömmu þegar ég fékk að vita að ég yrði bundinn við hjólastól. Ég var bara átta ára.

Ég er með vöðvarýrnun. Ég þarf hjálp til að klæða mig, fara í sturtu og borða. Ég get ekki einu sinni lyft höndunum. Þrátt fyrir það hefur líf mitt verið innihaldsríkt og ánægjulegt og það er margt sem ég get verið þakklátur fyrir. Ég fer reglulega út í boðunarstarfið og er þjónn í söfnuðinum. Það hvarflar ekki að mér að hugsa sem svo að ég þurfi bara að ,þrauka‘. Það er alltaf nóg að gera í þjónustu Jehóva og eitthvað að hlakka til. Umfram allt hlakka ég til þess að fá að lifa í nýjum heimi Guðs þar sem ég mun ,stökkva eins og hjörtur.‘“ — Jesaja 35:6.

[Rammi/mynd á bls. 75]

TOMOKO, 21 ÁRS

„Þegar ég var aðeins fjögurra ára sagði læknirinn við mig: ,Þú verður að fá insúlínsprautur það sem eftir er ævinnar.‘

Það getur verið erfitt fyrir þann sem er með sykursýki að stjórna blóðsykrinum. Oft má ég ekki borða þegar ég vil og þegar ég vil ekki borða verð ég að gera það. Til þessa dags hef ég fengið um það bil 25.000 sprautur og er því komin með sigg á handleggi og læri. En foreldrar mínir hafa hjálpað mér að gera það besta úr aðstæðum mínum. Þau hafa alltaf verið glöð og jákvæð og þau kenndu mér að meta það sem andlegt er. Jehóva hefur verið mér góður. Þegar heilsan leyfði ákvað ég að sýna þakklæti mitt með því að hefja þjónustu í fullu starfi.“

[Rammi/mynd á bls. 76]

JAMES, 18 ÁRA

„Fólk veit ekki hvernig það á að bregðast við þegar það hittir einhvern sem er öðruvísi — og það er ég svo sannarlega.

Ég er með sjaldgæfan dvergvöxt. Fólk leggur mikla áherslu á útlitið þannig að ég er alltaf að reyna að sanna að ég sé ekki lítið barn með djúpa rödd. Í stað þess að vera leiður yfir því sem ég er ekki reyni ég að einbeita mér að því sem ég er. Ég nýt lífsins. Ég les í Biblíunni og bið Jehóva um stuðning. Fjölskylda mín er alltaf til staðar og tilbúin til að hvetja mig. Ég hlakka til þess tíma þegar Guð mun eyða öllum sjúkdómum. Þangað til lifi ég við fötlun mína en ég leyfi ekki fötluninni að verða líf mitt.“

[Rammi/mynd á bls. 76]

DANITRIA, 16 ÁRA

„Ég vissi að eitthvað var að þegar ég gat ekki einu sinni tekið upp vatnsglas án þess að finna til sársauka.

Vefjagigt er mjög sársaukafull og það er áskorun að lifa með þessum sjúkdómi. Mig langar til að gera það sama og vinir mínir en núna er allt mun erfiðara fyrir mig en áður. Jafnvel það að sofna tekur heila eilífð! En með hjálp Jehóva hef ég lært að takast á við þennan vanda. Ég hef meira að segja getað notað meiri tíma í boðunarstarfinu en venjulega og verið aðstoðarbrautryðjandi. Það var erfitt en mér tókst það. Ég reyni að gera mitt besta. Ég verð að ,hlusta‘ á líkamann og halda mér innan minna marka. Ef ég gleymi því hef ég alltaf mömmu til að minna mig á það.“

[Rammi/mynd á bls. 77]

ELYSIA, 20 ÁRA

„Ég var alltaf afburðanemandi. Núna finnst mér erfitt að lesa einfalda málsgrein og það getur gert mig niðurdregna.

Þegar maður er með síþreytu verða einfaldir hlutir erfiðir. Það getur jafnvel verið mér ofviða að fara fram úr rúminu á morgnana. En ég hef samt aldrei leyft veikindunum að yfirtaka persónuleika minn. Ég les í Biblíunni á hverjum degi jafnvel þótt það þýði að ég lesi aðeins fáein vers eða fái einhvern í fjölskyldunni til að lesa fyrir mig. Ég stend í þakkarskuld við fjölskylduna. Pabbi fórnaði meira að segja þjónustuverkefni á umdæmismóti til að geta hjálpað mér að sækja mótið. Hann kvartaði aldrei yfir því. Hann sagði að mikilvægasta verkefnið hans væri að annast fjölskylduna sína.“

[Rammi/mynd á bls. 77]

KATSUTOSHI, 20 ÁRA

„Skyndilega missi ég stjórn á mér, byrja að öskra og hristist ofsalega, kasta jafnvel hlutum til og frá og brýt eitthvað.

Ég hef verið með flogaveiki síðan ég var fimm ára og hef fengið flogaveikiköst allt að sjö sinnum í mánuði. Á hverjum degi verð ég að taka lyf sem gera það að verkum að ég þreytist auðveldlega. En ég reyni að hugsa um aðra, ekki bara sjálfan mig. Í söfnuðinum eru tveir boðberar á mínum aldri sem þjóna í fullu starfi og þeir hafa veitt mér mikinn stuðning. Þegar ég útskrifaðist úr skóla fór ég að taka meiri þátt í boðunarstarfinu. Flogaveiki er dagleg barátta. En þegar ég er niðurdreginn passa ég upp á að fá næga hvíld. Þá líður mér strax betur daginn eftir.“

[Rammi/mynd á bls. 78]

MATTHEW, 19 ÁRA

„Það er erfitt að fá virðingu jafnaldra sinna þegar þeim finnst maður ekki vera ,eðlilegur‘.

Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í íþróttum en ég get það ekki. Ég er með heilalömun og það er meira að segja erfitt fyrir mig að ganga. En ég reyni að hugsa ekki of mikið um það sem ég get ekki gert. Ég sökkvi mér niður í það sem ég get gert, eins og að lesa. Í ríkissalnum get ég verið ég sjálfur án þess að hafa áhyggjur af því að aðrir dæmi mig. Það er líka hughreystandi að vita að Jehóva metur mig fyrir það sem ég er, minn innri mann. Í rauninni lít ég ekki á mig sem fatlaðan. Ég þarf bara að takast á við sérstakar aðstæður.“

[Rammi/mynd á bls. 78]

MIKI, 25 ÁRA

„Ég var vön að stunda íþróttir. En á unglingsárunum var eins og ég yrði allt í einu gömul.

Ég fæddist með op á milli hjartahólfa. Einkennin komu fram þegar ég var unglingur. Ég fór í skurðaðgerð, en núna — sex árum síðar — verð ég enn fljótt þreytt og fæ þráláta höfuðverki. Þess vegna set ég mér skammtímamarkmið sem auðvelt er að ná. Mér hefur til dæmis tekist að vera boðberi í fullu starfi, að stórum hluta með því að skrifa bréf og vitna í gegnum síma. Veikindin hafa líka hjálpað mér að þroska með mér eiginleika sem ég hafði ekki áður eins og langlyndi og hógværð.“

[Mynd á bls. 74]

Langvarandi veikindi eða fötlun getur látið þér líða eins og þú sért í fangelsi — en Biblían veitir von um lausn.