Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég sigrast á einmanaleika?

Hvernig get ég sigrast á einmanaleika?

KAFLI 9

Hvernig get ég sigrast á einmanaleika?

Það er gott veður og þú hefur ekkert að gera. En það hafa hins vegar allir vinir þínir. Þeir eru að gera eitthvað skemmtilegt. Þú varst skilin(n) út undan eina ferðina enn. Það er nógu slæmt þegar manni er ekki boðið að vera með. En það sem gefið er í skyn með því er jafnvel enn verra. Kannski er eitthvað að mér, hugsarðu ef til vill. Hvers vegna vill enginn hafa mig með?

ÞÚ HEFUR kannski lent oftar en einu sinni í svipaðri aðstöðu og lýst er á blaðsíðunni hér til vinstri. Þér líður ef til vill eins og það sé stór gjá á milli þín og jafnaldra þinna. Þú stamar í hvert sinn sem þú reynir að tala við þá. Þegar þú hefur möguleika á því að blanda geði við þá tekur feimnin völdin. Af hverju er svona erfitt að blanda geði við aðra?

Í stað þess að sitja sem fastast þín megin gjárinnar geturðu reynt að byggja brýr yfir til hinna. Skoðum hvernig þú getur gert það.

Gjá 1: Neikvæð sjálfsmynd. Sumir unglingar gera stöðugt lítið úr sjálfum sér. Þeir eru sannfærðir um að engum líki við þá og að þeir hafi ekkert til málanna að leggja. Hugsar þú stundum þannig? Ef svo er skaltu hafa í huga að neikvæð sjálfsmynd dýpkar bara bilið á milli þín og jafnaldranna.

Brúin: Horfðu á kosti þína. (2. Korintubréf 11:6) Spyrðu þig: Hverjar eru mínar sterku hliðar? Hugsaðu um hvaða hæfileika eða góðu eiginleika þú hefur og skrifaðu þá hér fyrir neðan.

․․․․․

Þú hefur vissulega einhverja veikleika og það er gott að vera meðvitaður um þá. (1. Korintubréf 10:12) En þú hefur líka margt upp á að bjóða. Þegar þú þekkir kosti þína færðu það öryggi sem þú þarft til að losna við neikvæða sjálfsmynd.

Gjá 2: Feimni. Þú myndir gjarnan vilja tala við fólk en þegar tækifærið gefst er eins og þú getir ekki opnað munninn. „Ég er alltaf svo feimin,“ segir Elísabet sem er 19 ára. „Mér finnst rosalega erfitt að tala við fólk á safnaðarsamkomum og ég dáist að þeim sem geta það.“ Ef þú ert eins og Elísabet finnst þér kannski eins og það sé ómögulegt að byggja brú yfir þessa gjá.

Brúin: Sýndu öðrum einlægan áhuga. Hafðu ekki áhyggjur — þú þarft ekki að breyta um persónuleika og tala við alla! Byrjaðu á því að kynnast einni manneskju. „Einfaldar spurningar eins og ,Hvernig hefurðu það?‘ eða ,Hvernig gengur í vinnunni?‘ geta hjálpað manni að kynnast fólki betur,“ segir unglingur að nafni Jorge.

Hér er gott ráð: Takmarkaðu þig ekki við fólk á þínum aldri. Einhver bestu vinaböndin, sem talað er um í Biblíunni, voru milli fólks á mjög ólíkum aldri, eins og Rutar og Naomí, Davíðs og Jónatans, og Tímóteusar og Páls. (Rutarbók 1:16, 17; 1. Samúelsbók 18:1; 1. Korintubréf 4:17) Mundu líka að samtal gengur út á að skiptast á skoðunum en ekki að halda einræðu. Fólk kann að meta góðan hlustanda. Ef þú átt það til að vera feimin(n) er gott að muna að þú þarft ekki að halda uppi öllu samtalinu.

Skrifaðu niður nöfn tveggja fullorðinna sem þig langar til að kynnast betur.

․․․․․

Hvers vegna ekki að heilsa öðrum þeirra sem þú skrifaðir niður og brydda upp á samræðum? Því meir sem þú leggur þig fram um að kynnast öllum innan bræðrafélagsins þeim mun minni líkur eru á að þú verðir einmana. — 1. Pétursbréf 2:17, Biblían 1981.

Gjá 3: Fráhrindandi hegðun. Þeir sem allt þykjast vita eru ávallt tilbúnir að móðga aðra, stríða þeim eða gera lítið úr þeim. Svo eru aðrir sem vilja alltaf vera ósammála hinum og þröngva skoðunum sínum upp á fólk. Þeir sem eru ,of réttlátir‘ eru fljótir til að dæma þá sem standast ekki kröfur þeirra. (Prédikarinn 7:16) Þér finnst örugglega óþolandi að vera innan um slíkt fólk. En gæti verið að gjá hafi myndast milli þín og jafnaldra þinna vegna þess að þú látir einmitt svona? Í Biblíunni segir: „Heimskinginn mælir mörg orð,“ og „málæðinu fylgja yfirsjónir.“ — Prédikarinn 10:14; Orðskviðirnir 10:19.

Brúin: Lærðu að sýna öðrum umhyggju. (1. Pétursbréf 3:8) Þótt þú sért ekki sammála viðmælanda þínum skaltu sýna þolinmæði og leyfa honum að tala. Reyndu að tala um það sem þið eruð sammála um. Ef þér finnst þú þurfa að láta í ljós að þú sért ósammála skaltu gera það á mildan og nærgætinn hátt.

Talaðu við aðra eins og þú vilt að aðrir tali við þig. Í Biblíunni er okkur ráðlagt að gera „allt án mögls og þráttunar“. (Filippíbréfið 2:14, Biblían 1859) Við fælum fólk bara í burtu ef við stöndum í óþarfa þrætum, gerum grín að öðrum, móðgum þá eða gagnrýnum. Fólki líkar miklu betur við okkur ef við fylgjum þessu ráði: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt.“ — Kólossubréfið 4:6.

Sama hvað það kostar?

Eftir þessa stuttu sjálfsrannsókn sérðu kannski hvernig þú getur brúað bilið sem hefur ef til vill myndast milli þín og annarra. Þú verður auðvitað að sýna raunsæi. Þú getur ekki gert ráð fyrir að öllum líki vel við þig. Jesús sagði að sumir myndu jafnvel hata þá sem gera hið rétta. (Jóhannes 15:19) Það borgar sig því ekki að reyna að eignast vini hvað sem það kostar.

Þú getur samt lagt þig fram um að vera vingjarnleg(ur) án þess að víkja frá kristnum meginreglum. Samúel, sem sagt er frá í Biblíunni, var staðráðinn í að gera það sem var rétt í augum Guðs. Með hvaða árangri? Hann „óx og dafnaði og var þekkur bæði Guði og mönnum“. (1. Samúelsbók 2:26) Með smá viðleitni getur þú það líka.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 8 OG 14 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Fjallað er meira um þetta efni á mynddisknum „Young People Ask — How Can I Make Real Friends?“ Hann er fáanlegur á yfir 40 tungumálum.

Í NÆSTA KAFLA

Besti vinur þinn breytist allt í einu í versta óvin þinn. Hvað geturðu gert?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Sá sem gefur öðrum að drekka fær þorsta sínum svalað.“ — Orðskviðirnir 11:25.

RÁÐ

Reyndu að halda samtalinu gangandi. Ef einhver spyr þig til dæmis hvort þú hafir haft það gott um helgina skaltu ekki bara segja já. Segðu af hverju þú hafðir það gott. Spyrðu síðan hinn aðilann hvað hann hafi gert.

VISSIR ÞÚ . . .?

Í Biblíunni er gefið til kynna að Móse, Jeremía og Tímóteus hafi verið feimnir. — 2. Mósebók 3:11, 13; 4:1, 10; Jeremía 1:6-8; 1. Tímóteusarbréf 4:12; 2. Tímóteusarbréf 1:6-8.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Það sem hindrar mig mest í að eignast vini er ․․․․․

Ég ætla að brúa þetta bil með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Af hverju gætu sumir í söfnuðinum verið einmana?

● Hvað getur hjálpað þér að sjá þig í réttu ljósi í stað þess að láta neikvæðar hugsanir hertaka þig?

● Hvernig myndirðu hughreysta yngra systkini sem er einmana?

[Innskot á bls. 88]

„Systir í söfnuðinum reyndi að vera vinkona mín en um tíma sýndi ég engin viðbrögð. Þegar ég loksins gerði það leið mér svo kjánalega! Hún hefur reynst ein besta vinkona mín þótt hún sé 25 árum eldri en ég.“ — María

[Mynd á bls. 87]

Þú getur brúað bilið á milli þín og jafnaldra þinna.