Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað ef fjölskylda mín er fátæk?

Hvað ef fjölskylda mín er fátæk?

KAFLI 20

Hvað ef fjölskylda mín er fátæk?

Gregory er ungur maður sem býr í Austur-Evrópu. Hann hefur ekki efni á þeim fötum og tækjum sem sumir unglingar í Vestur-Evrópu geta keypt sér. Hann er svo svekktur yfir aðstæðum sínum að hann er að hugsa um að flytja til Austurríkis. Finnst þér Gregory vera fátækur?

□ Já □ Nei

Þúsundum kílómetra í burtu býr unglingur að nafni Loyiso. Hann á heima í sveitaþorpi í suðurhluta Afríku þar sem fjölskyldan býr í litlum kofa. Hann öfundar unglinga í nágrannabænum sem búa við „munað“ eins og rennandi vatn og rafmagn. Myndirðu segja að Loyiso væri fátækur?

□ Já □ Nei

ÞAÐ er nokkuð ljóst að orðið „fátækur“ er afstætt hugtak sem hefur mismunandi merkingu eftir löndum. Gregory finnst hann kannski vera fátækur en miðað við Loyiso býr hann við lúxus. Það er gott að átta sig á því að sama hversu fátækur maður er þá er líklegt að einhverjir aðrir hafi það verra en maður sjálfur. En ef maður á ekki almennileg föt fyrir skólann eða hefur jafnvel ekki rennandi vatn er kannski lítil huggun að vita að aðrir hafi minna.

Sumum unglingum, sem alast upp við fátækt, finnst þeir vera einskis virði og lægra settir en aðrir og þeir nota oft áfengi eða fíkniefni til að gleyma aðstæðum sínum. En það gerir bara illt verra að reyna að flýja raunveruleikann. Þeir sem misnota áfengi uppgötva að það bítur „sem höggormur og spýtir eitri sem naðra“. (Orðskviðirnir 23:32) María er fátæk stelpa í Suður-Afríku og er alin upp af einstæðu foreldri. Hún segir: „Þegar maður reynir að flýja raunveruleikann býr maður til fleiri vandamál en maður leysir.“

Þú notar kannski ekki áfengi eða fíkniefni til að lina sársaukann en ef til vill gerir þú þér engar vonir um að geta breytt aðstæðum þínum. Hvert geturðu snúið þér? Viturleg ráð Biblíunnar geta verið eins og lykill sem leysir þig úr fjötrum örvæntingar og þau hjálpa þér að breyta viðhorfum þínum til hins betra. Skoðum nánar hvernig.

Líttu á það jákvæða sem þú hefur

Eitt af því sem þú getur gert er að hugsa um það sem þú hefur en ekki það sem þig skortir. Heimili og kærleiksrík fjölskylda eru sannarlega verðmætari en peningar. Í Biblíunni segir: „Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinaut með hatri.“ (Orðskviðirnir 15:17) Kristnir unglingar hafa auk þess stuðning alls bræðrafélagsins og það er mjög dýrmætt. — 1. Pétursbréf 2:17.

Þú gætir líka reynt að sjá efnislegar eigur þínar í örlítið jákvæðara ljósi. Kannski býrðu í einföldu eða jafnvel fátæklegu húsi. Fötin þín eru ef til vill gömul, slitin eða bætt. Og þú gætir sennilega hugsað þér aðeins fjölbreyttara mataræði. En þarftu nýtískuleg föt eða glæsilegt hús til að þóknast Guði? Þarftu að fá sælkeramat til að lifa og halda heilsu? Í rauninni ekki. Páll postuli lærði mikilvæga lexíu í þessum málum. Hann upplifði bæði að vera ríkur og fátækur. (Filippíbréfið 4:12) Að hverju komst hann? „Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja,“ sagði hann. — 1. Tímóteusarbréf 6:8.

Eldred ólst upp á fátæku heimili í Suður-Afríku. Hann segir: „Við sættum okkur bara við það að fjölskyldan hefði úr litlu að spila og að við gætum ekki fengið allt sem okkur langaði í.“ Hann man að þegar skólabuxurnar hans voru orðnar slitnar bætti mamma hans þær bara — aftur og aftur og aftur! „Ég varð auðvitað fyrir smá stríðni,“ viðurkennir Eldred, „en aðalatriðið var að fötin okkar voru hrein og gerðu sitt gagn.“

Byggðu upp sjálfsvirðingu

Þegar James var 11 ára bjó hann með mömmu sinni og systur í fátækrahverfi nærri Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Þau áttu nánast ekkert. En samt bjó James yfir verðmætum — tíma og orku — sem hann notaði fúslega til að hjálpa öðrum. Um hverja helgi tók hann þátt í að byggja ríkissal Votta Jehóva í nágrenni sínu. Þannig hafði hann ekki aðeins eitthvað fyrir stafni heldur leið honum líka eins og hann hefði áorkað einhverju og það gaf honum sjálfsvirðingu. „Í lok hvers dags, sem ég vann við bygginguna, fann ég fyrir mikilli gleði innra með mér,“ segir hann.

Annað árangursríkt starf er boðun fagnaðarerindisins hús úr húsi. (Matteus 24:14) Unglingar í söfnuði Votta Jehóva taka þátt í þessu starfi að staðaldri. Þannig geta þeir veitt öðrum von um betra líf í framtíðinni og einnig fengið aukna sjálfsvirðingu. Þeir fá reyndar ekki peninga fyrir þetta starf en munum hvað Jesús sagði við kristna menn í söfnuðinum í Smyrnu til forna. Þeir áttu frekar lítið af efnislegum eigum. En þar sem þeir voru mjög sterkir í trúnni gat Jesús sagt við söfnuðinn: „Ég þekki þrengingu þína og fátækt — en þú ert samt auðugur.“ Þar sem þeir sýndu í verki að þeir trúðu á úthellt blóð Jesú yrðu þeir að lokum auðugir og fengju kórónu lífsins — ódauðleika. — Opinberunarbókin 2:9, 10.

Horfðu fram á veginn

Þú getur eignast náið samband við Jehóva hvort sem þú átt mikið eða lítið. Í Biblíunni segir: „Ríkur og fátækur mætast en Drottinn skapaði báða.“ (Orðskviðirnir 22:2) Þessi staðreynd hefur hjálpað þúsundum ungra votta Jehóva að kljást við fátækt. Þeir skilja að hamingja byggist ekki á efnislegum eigum heldur því að verða vinur Jehóva Guðs. Hann tekur vel á móti öllum sem vilja þjóna honum og veitir þeim von um líf í framtíðinni í nýjum heimi sem er laus við alla fátækt. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Þangað til skaltu nota viturlega það sem þú hefur. Horfðu til framtíðar. Safnaðu andlegum fjársjóðum. (Matteus 6:19-21) Hugsaðu um fátæktina sem áskorun sem þú getur tekist á við!

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15.

RÁÐ

Haltu þig frá fjárhættu- spilum og reykingum og misnotaðu ekki áfengi. Þó að aðrir í fjölskyldunni hafi slæma ávana sem þessa skaltu setja þeim gott fordæmi með hegðun þinni.

VISSIR ÞÚ . . .?

Óháð aðstæðum þínum geturðu tamið þér nægjusemi með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. — Filippíbréfið 4:12, 13; 1. Tímóteusarbréf 6:8; Hebreabréfið 13:5.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Hvað á ég? ․․․․․

Ég ætla að nota þetta til að hjálpa öðrum með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Af hverju er það að vera „fátækur“ afstætt hugtak?

● Af hverju er óviturlegt að nota fíkniefni, áfengi eða önnur skaðleg efni til að flýja veruleikann?

● Hvað geturðu gert til að takast á við fátækt?

[Innskot á bls. 168]

„Þótt mér fyndist ég vera í fjötrum fátæktar áttaði ég mig á því að það væri engin lausn að stela eða verða meðlimur í götugengi. Margir jafnaldrar mínir, sem gerðu það, eru núna annaðhvort utangarðsmenn í þjóðfélaginu, þrælar áfengis og fíkniefna eða sitja í fangelsi.“— George

[Rammi/myndir á bls. 164]

Vinnublað

ætti ég að flytja til útlanda?

Suma unglinga langar til að flytja til útlanda til að þéna peninga annaðhvort fyrir sig eða til að styðja fjölskylduna. Aðrir flytja til að læra annað tungumál, auka menntun sína eða flýja vandamál heima fyrir. Sumir kristnir unglingar hafa flutt til landa þar sem er þörf fyrir fleiri boðbera. Það er nauðsynlegt að hugsa sig vel um áður en maður tekur ákvörðun um að flytja til annars lands. Ef þú ert að velta þessu fyrir þér skaltu lesa og hugleiða ritningarstaðina hér fyrir neðan. Skrifaðu niður á blað hvernig þú myndir svara þessum spurningum. Leggðu síðan málið fyrir Jehóva í bæn áður en þú tekur endanlega ákvörðun.

□ Hvaða lagalegu skilyrði þarf ég að uppfylla? — Rómverjabréfið 13:1.

□ Hver er heildarkostnaðurinn við að flytja til útlanda? — Lúkas 14:28.

□ Hvað geri ég núna sem sýnir að ég geti séð um sjálfa(n) mig erlendis? — Orðskviðirnir 13:4.

□ Hvaða ráð hef ég fengið frá fólki sem hefur búið erlendis? — Orðskviðirnir 1:5.

□ Hvað finnst foreldrum mínum um málið? — Orðskviðirnir 23:22.

□ Hvers vegna langar mig til að flytja til útlanda? — Galatabréfið 6:7, 8.

□ Ef ég ætla að búa með öðrum, munu þeir hvetja mig til að viðhalda góðum andlegum venjum? — Orðskviðirnir 13:20.

□ Hvaða siðferðilegu, líkamlegu og andlegu hættum gæti ég staðið frammi fyrir? — Orðskviðirnir 5:3, 4; 27:12; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

□ Hvað býst ég við að fá út úr því að búa í öðru landi — ef ég er alveg raunsæ(r)? — Orðskviðirnir 14:15.

[Mynd á bls. 167]

Ráð Biblíunnar geta verið eins og lykill sem leysir þig úr fjötrum örvæntingar.