Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég varið trú mína á Guð?

Hvernig get ég varið trú mína á Guð?

KAFLI 36

Hvernig get ég varið trú mína á Guð?

Hvað kemur helst í veg fyrir að þú segir skólafélaga frá trú þinni?

□ Hef ekki næga biblíuþekkingu

□ Óttast stríðni

□ Veit ekki hvernig ég ætti að byrja samtalið

Hvernig finnst þér auðveldast að tjá trú þína?

□ Með því að tala við einn nemanda í einrúmi

□ Með því að tala fyrir framan allan bekkinn

□ Með því að skrifa um trú mína í skólaritgerð

Skrifaðu nafn skólafélaga sem þú heldur að myndi vilja tala um Biblíuna ef þú vissir hvernig þú ættir að hefja samtalið. ․․․․․

GUÐ er sennilega ekki vinsælasta umræðuefnið hjá skólasystkinum þínum. Ef maður nefnir nánast allt annað — íþróttir, föt eða hitt kynið — fara af stað líflegar umræður. En ef maður fer að tala um Guð kemur líklega vandræðaleg þögn.

Það þýðir samt ekki að jafnaldrar þínir trúi ekki á Guð, margir unglingar eru trúaðir. En sumum finnst vandræðalegt að tala um trúmál. Þeir hugsa kannski að það sé hallærislegt.

Hvað um þig?

Ef þú hikar við að tala við skólafélaga þína um Guð er það skiljanlegt. Engum finnst gaman að fá höfnun og ekki er það nú skárra að vera strítt. Gæti það gerst ef þú talar um trú þína? Já, það er möguleiki. En jafnaldrar þínir gætu líka komið þér á óvart. Margir þeirra leita að svörum við spurningum eins og: Hvert stefnir þessi heimur? Og af hverju eru öll þessi vandamál? Það er ekki ólíklegt að jafnaldra þína langi frekar að tala um þessi mál við einhvern á sama aldri en við einhvern fullorðinn.

Engu að síður gæti þér fundist erfitt að tala við aðra krakka um trúmál. En þú þarft samt ekki að virka eins og einhver ofstækismaður og þú þarft heldur ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa alltaf að koma með fullkomin svör. Að tala um trú þína er eins og að spila á hljóðfæri. Erfitt í fyrstu? Örugglega. En það verður auðveldara með æfingunni og viðleitnin skilar sér. En hvernig geturðu hafið samræðurnar?

Þú getur oftast fundið eitthvað þægilegt til að byrja á. Ef krakkarnir í skólanum eru að tala um eitthvað sem hefur verið í fréttum nýlega geturðu komið inn á hvað Biblían segi um málið. Þú gætir líka reynt að tala bara við einn skólafélaga. Mörgum ungum vottum hefur auk þess reynst vel að setja biblíutengt rit á skólaborðið sitt til að athuga hvort einhver í bekknum veiti því athygli. Oftast gerist það og þá eru samræður komnar í gang.

Hverja af þessum aðferðum gætir þú prófað? ․․․․․

Dettur þér í hug önnur leið til að tala við skólafélaga um trú þína? Skrifaðu hana þá hér fyrir neðan.

․․․․․

Stundum gefa skólaverkefni þér tækifæri til að segja frá trú þinni. Hvað gætirðu til dæmis gert þegar fjallað er um þróunarkenninguna? Hvernig geturðu varið trú þína á sköpun?

Að verja trú þína á sköpun

„Þegar fjallað var um þróunarkenninguna í bekknum stangaðist það á við allt sem mér hafði verið kennt,“ segir unglingur að nafni Ryan. „Þróun var sett fram sem staðreynd og það dró úr mér kjarkinn.“ Rakel hefur svipaða sögu að segja. „Ég varð dauðhrædd þegar félagsfræðikennarinn sagði að í næsta tíma myndum við ræða um þróunarkenninguna,“ segir hún. „Ég vissi að ég þyrfti að útskýra fyrir bekknum hver afstaða mín væri til þessa umdeilda málefnis.“

Hvernig líður þér þegar rætt er um þróun í skólastofunni? Þú trúir að Guð hafi „skapað alla hluti“. (Opinberunarbókin 4:11) Þú sérð allt í kringum þig sannanir fyrir því að til sé vitiborinn hönnuður. En í skólabókunum er því haldið fram að lífið hafi þróast og það sama segir kennarinn. Átt þú nú að fara að mótmæla „sérfræðingunum“?

Þú getur verið viss um að það eru fleiri en þú sem trúa ekki á þróunarkenninguna. Staðreyndin er sú að margir vísindamenn viðurkenna hana ekki. Og það sama má segja um marga kennara og nemendur.

En til þess að geta varið trú þína á sköpun verðurðu að vita hvað Biblían kennir í raun og veru. Það er alveg óþarfi að gera mikið mál úr hlutum sem ekki er fjallað beint um í Biblíunni. Tökum nokkur dæmi.

Í kennslubókinni minni segir að jörðin og sólkerfið hafi verið til um milljarða ára. Í Biblíunni segir að jörðin og allur alheimurinn hafi verið til áður en fyrsti sköpunardagurinn hófst. Það getur því vel verið að jörðin og sólkerfið hafi verið til um milljarða ára. — 1. Mósebók 1:1.

Kennarinn minn segir að það hefði ekki verið hægt að skapa jörðina á aðeins sex dögum. Í Biblíunni segir ekki að hver sköpunardagur hafi verið bókstaflega einn sólarhringur.

Í bekknum mínum hefur verið rætt um mörg dæmi um hvernig dýr og menn hafi breyst með tímanum. Í Biblíunni segir að Guð hafi skapað lifandi verur „eftir þeirra tegundum“. (1. Mósebók 1:20, 21) Hún styður ekki þá hugmynd að líf hafi kviknað af lífvana efni eða að Guð hafi komið þróunarferlinu af stað með einni frumu. Hver ,tegund‘ býður samt upp á mikla fjölbreytni. Samkvæmt Biblíunni er því svigrúm fyrir vissar breytingar innan hverrar,tegundar‘.

Hugleiddu nú það sem komið hefur fram í þessum kafla og skrifaðu niður hvernig þú myndir svara ef kennari eða bekkjarfélagi segði:

„Það er vísindalega sannað að við urðum til við þróun.“ ․․․․․

„Ég trúi ekki á Guð vegna þess að ég get ekki séð hann.“ ․․․․․

Byggðu trúarskoðanir þínar á traustum grunni

Ef þú ert alin(n) upp af kristnum foreldrum trúirðu kannski á sköpun einfaldlega vegna þess að það er það sem þér hefur verið kennt. En núna þegar þú ert orðin(n) eldri viltu rannsaka málin svo að trú þín og tilbeiðsla byggist á traustum grunni. (Rómverjabréfið 12:1, New World Translation) Spyrðu þig þess vegna: Hvað sannfærir mig um að til sé skapari? Sam, 14 ára, hugleiðir hvernig mannslíkaminn er úr garði gerður. „Hann er svo margslunginn og flókinn,“ segir hann, „og allir líkamshlutarnir vinna svo vel saman. Mannslíkaminn getur ekki hafa þróast!“ Holly, 16 ára, er sammála þessu. „Frá því að ég greindist með sykursýki,“ segir hún, „hef ég lært margt um það hvernig líkaminn starfar. Það er til dæmis alveg stórkostlegt hvað briskirtillinn, sem er lítið líffæri bak við magann, gegnir stóru hlutverki í starfsemi blóðsins og annarra líffæra.“

Skrifaðu hér fyrir neðan þrjú atriði sem sannfæra þig um að til sé skapari.

1. ․․․․․

2. ․․․․․

3. ․․․․․

Það er engin ástæða til að fara hjá sér eða skammast sín þótt maður trúi á Guð og sköpun. Hugsaðu bara um sönnunargögnin. Það er mjög skynsamlegt að trúa því að við séum hönnuð af vitibornum skapara.

Þegar allt kemur til alls er það í raun þróun — ekki sköpun — sem krefst mikillar trúar, trúar á ótal kraftaverk án þess að nokkur hafi komið þar nærri. Þegar þú hefur hugleitt málið vandlega treystirðu þér örugglega betur til að verja trú þína á Guð.

Í NÆSTA KAFLA

Sumir jafnaldrar þínir láta skírast. Ert þú tilbúin(n) að stíga það skref?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir.“ — Rómverjabréfið 1:16.

RÁÐ

Hugsaðu um hvernig þú kemur fram þegar þú talar við aðra um trú þína. Ef þú ert vandræðaleg(ur) gætirðu verið að bjóða upp á að jafnaldrarnir geri grín að þér. En ef þú talar af öryggi — eins og skólafélagarnir myndu tala um skoðanir sínar — eru meiri líkur á að þeir beri virðingu fyrir þér.

VISSIR ÞÚ . . .?

Þegar kennarar eru beðnir um að sanna þróunarkenninguna verða þeir stundum að viðurkenna að þeir geta það ekki og átta sig á því að þeir hafa samþykkt þessa kenningu einungis vegna þess að þetta var það sem þeim var kennt.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til að koma af stað samræðum um Biblíuna við bekkjarfélaga gæti ég ․․․․․

Ef einhver spyr mig af hverju ég trúi á skapara ætla ég að segja ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Af hverju er mikilvægt að tala við aðra um trú sína?

● Hvernig væri auðveldast fyrir þig að segja kennurum og skólafélögum frá því að þú trúir á sköpun?

● Hvernig geturðu sýnt Guði, sem skapaði alla hluti, þakklæti þitt? — Postulasagan 17:26, 27.

[Innskot á bls. 299]

„Skólinn er starfssvæði sem aðeins við höfum aðgang að.“ — Iraida

[Mynd á bls. 298]

Það krefst vissrar færni að spila á hljóðfæri. Hið sama er að segja um það að tala um trú þína — en þú verður sífellt færari með æfingunni.

[Mynd á bls. 300, 301]

Þú getur unnið bug á óttanum við að verja trú þína.