Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

14. KAFLI

‚Við höfum tekið einróma ákvörðun‘

‚Við höfum tekið einróma ákvörðun‘

Hið stjórnandi ráð kemst að niðurstöðu og það skapar einingu meðal safnaðanna

Byggt á Postulasögunni 15:13–35

1, 2. (a) Hvaða alvarlegu spurninga þarf hið stjórnandi ráð fyrstu aldar að taka afstöðu til? (b) Hvað hjálpar þessum bræðrum að komast að réttri niðurstöðu?

 SPENNA liggur í loftinu. Postularnir og öldungarnir sem eru samankomnir í herbergi nokkru í Jerúsalem horfa hver á annan. Þeir skynja að stundin er runnin upp. Umskurðardeilan hefur vakið alvarlegar spurningar. Þurfa kristnir menn að fylgja Móselögunum? Á að gera einhvern greinarmun á kristnum mönnum af hópi Gyðinga og af þjóðunum?

2 Bræðurnir sem fara með forystuna hafa skoðað málið vel og vandlega. Þeir hafa rætt um spádóma í orði Guðs og líka sannfærandi vitnisburð sjónarvotta sem sýnir að Jehóva hefur blessað kristna menn af þjóðunum. Allir hafa fengið tækifæri til að tjá sig. Sönnunargögnin benda öll í sömu átt. Andi Jehóva vísar greinilega veginn. Ætla bræðurnir að fylgja leiðsögn hans?

3. Hvaða gagn höfum við af því að skoða 15. kafla Postulasögunnar?

3 Það þarf sterka trú og hugrekki til að meðtaka leiðsögn heilags anda í þessu máli. Hætta er á að hatur trúarleiðtoga Gyðinga færist í aukana. Einnig má búast við andstöðu innan safnaðarins frá mönnum sem vilja skylda fólk Guðs til að fara að fylgja Móselögunum á ný. Hvað ætlar ráðið að gera? Við skoðum það í framhaldinu og sjáum einnig hvernig þessir bræður gáfu fordæmi sem hið stjórnandi ráð Votta Jehóva fylgir nú á dögum. Við þurfum líka að fylgja fordæmi þeirra þegar við tökum ákvarðanir eða glímum við erfiðleika í daglega lífinu.

„Það er í samræmi við orð spámannanna“ (Post. 15:13–21)

4, 5. Hvaða vers vitnaði Jakob í?

4 Lærisveinninn Jakob, hálfbróðir Jesú, tók nú til máls. a Svo virðist sem hann hafi verið fundarstjóri ráðsins við þetta tækifæri. Hann dregur saman það sem allir í ráðinu virðast vera sammála um. Jakob segir við viðstadda: „Símeon hefur greint ítarlega frá hvernig Guð sneri sér að þjóðunum í fyrsta sinn og valdi úr hópi þeirra fólk til að bera nafn sitt. Það er í samræmi við orð spámannanna.“ – Post. 15:14, 15.

5 Það sem Símeon, það er Símon Pétur, sagði og rök Barnabasar og Páls minntu Jakob sennilega á viðeigandi vers sem vörpuðu ljósi á málið. (Jóh. 14:26) Eftir að hafa nefnt að það sem fram var komið væri „í samræmi við orð spámannanna“ vitnar Jakob í Amos 9:11, 12. Bók Amosar taldist til þess hluta Hebresku ritninganna sem var almennt kallaður „spámennirnir“. (Matt. 22:40; Post. 15:16–18) Við tökum eftir að tilvitnun Jakobs er orðuð svolítið öðruvísi en það sem stendur í bók Amosar núna. Líklega hefur Jakob vitnað í Sjötíumannaþýðinguna sem var grísk þýðing Hebresku ritninganna.

6. Hvernig vörpuðu Ritningarnar ljósi á umskurðarmálið?

6 Jehóva hafði látið Amos spámann segja fyrir að sá tími kæmi að hann endurreisti „hús Davíðs“ og átti þá við að hann myndi gefa afkomanda Davíðs konungdóm og stofna Messíasarríkið. (Esek. 21:26, 27) Ætlaði Jehóva eingöngu að nota Gyðingaþjóðina í þetta sinn eins og áður? Nei. Í spádóminum er sagt að „fólki af öllum þjóðum“ yrði safnað saman og það yrði ‚fólk sem bæri nafn Guðs‘. Munum að Pétur var nýbúinn að benda á að Guð „gerði alls engan greinarmun á því [trúuðu fólki af þjóðunum] og okkur [kristnum Gyðingum] heldur hreinsaði hjörtu þess með trúnni“. (Post. 15:9) Það er með öðrum orðum vilji Guðs að bæði Gyðingar og fólk af þjóðunum erfi ríkið. (Rómv. 8:17; Ef. 2:17–19) Hvergi í innblásnum spádómum var gefið í skyn að kristnir menn af þjóðunum þyrftu fyrst að láta umskerast eða snúast til Gyðingatrúar.

7, 8. (a) Hvaða tillögu bar Jakob fram? (b) Hvernig eigum við að skilja orð Jakobs?

7 Jakob bar fram eftirfarandi tillögu byggða á þessum biblíulegu rökum og þeim vitnisburði sem hann hafði heyrt: „Ég tel því að ekki skuli íþyngja fólki af þjóðunum sem snýr sér til Guðs heldur skrifa því að það skuli halda sig frá öllu sem er óhreint af völdum skurðgoða, frá kynferðislegu siðleysi, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. Frá fornu fari hefur það sem Móse skrifaði verið boðað í hverri borg því að það er lesið upp í samkunduhúsum á hverjum hvíldardegi.“ – Post. 15:19–21.

8 Þegar Jakob sagði „ég tel því“, fór hann þá út fyrir valdsvið sitt – kannski af því að hann var fundarstjóri – og ákvað upp á sitt eindæmi hvernig ætti að útkljá málið? Alls ekki! Orð Jakobs, „ég tel,“ bera með sér að hann var ekki að reyna að taka ákvörðun fyrir allt ráðið. Hann var einfaldlega að bera fram tillögu til umhugsunar byggða á þeim rökum sem hann hafði heyrt og því sem Ritningarnar sögðu um málið.

9. Hvaða kosti hafði tillaga Jakobs?

9 Var tillaga Jakobs góð? Greinilega, því að postularnir og öldungarnir samþykktu hana. Hvaða kosti hafði hún? Annars vegar myndi þetta ekki „íþyngja“ kristnum mönnum af þjóðunum því að þeir þyrftu þá ekki að fylgja Móselögunum. (Post. 15:19) Hins vegar myndi þessi úrskurður taka tillit til samvisku kristinna Gyðinga sem höfðu árum saman heyrt „það sem Móse skrifaði … lesið upp í samkunduhúsum á hverjum hvíldardegi“. b (Post. 15:21) Tillaga Jakobs myndi styrkja böndin milli kristinna manna af hópi Gyðinga og af þjóðunum. Síðast en ekki síst myndi ákvörðunin gleðja Jehóva Guð og samræmast fyrirætlun hans. Þetta var frábær leið til þess að leysa mál sem ógnaði einingu og velferð alls safnaðarins. Þetta er líka frábær fyrirmynd fyrir þjóna Guðs nú á dögum.

Albert Schroeder flytur ræðu á alþjóðamóti árið 1998.

10. Hvernig líkir hið stjórnandi ráð okkar daga eftir ráðinu á fyrstu öld?

10 Eins og fram kom í síðasta kafla líkir stjórnandi ráð Votta Jehóva nú á dögum eftir ráðinu á fyrstu öld og leitar leiðsagnar hjá Jehóva, Drottni alheims, og Jesú Kristi, höfði safnaðarins, í öllum málum. c (1. Kor. 11:3) Hvernig? Albert D. Schroeder sat í hinu stjórnandi ráði frá 1974 þar til jarðnesku lífi hans lauk í mars 2006. Hann sagði: „Hið stjórnandi ráð fundar á miðvikudögum og fundurinn hefst með bæn um leiðsögn anda Jehóva. Ráðið leggur sig fram um að láta allar umræður og allar ákvarðanir samræmast orði Guðs, Biblíunni.“ Milton G. Henschel sat lengi í hinu stjórnandi ráði og lauk jarðlífi sínu í mars 2003. Hann lagði mikilvæga spurningu fyrir 101. útskriftarhóp Biblíuskólans Gíleað. „Eru til nokkur önnur samtök á jörð þar sem stjórnin leitar til Biblíunnar, orðs Guðs, áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar?“ Svarið er augljóst.

‚Þeir ákváðu að velja menn og senda þá‘ (Post. 15:22–29)

11. Hvernig voru söfnuðirnir upplýstir um ákvörðun hins stjórnandi ráðs?

11 Hið stjórnandi ráð í Jerúsalem hafði komist að einróma niðurstöðu í umskurðarmálinu. En til að eining yrði í öllum söfnuðunum þurfti að koma niðurstöðunni á framfæri á skýran, jákvæðan og hvetjandi hátt. Hvernig var hægt að gera það? Í frásögunni segir: „Postularnir og öldungarnir ákváðu þá ásamt öllum söfnuðinum að velja menn úr sínum hópi og senda þá með Páli og Barnabasi til Antíokkíu. Þeir sendu Júdas, sem var kallaður Barsabbas, og Sílas en þeir voru forystumenn meðal bræðranna.“ Auk þess var skrifað bréf og sent með mönnunum svo að hægt væri að lesa það í öllum söfnuðunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu. – Post. 15:22–26.

12, 13. Hverju var áorkað með því að senda (a) Júdas og Sílas? (b) bréf frá hinu stjórnandi ráði?

12 Júdas og Sílas voru „forystumenn meðal bræðranna“ og fyllilega hæfir til að vera fulltrúar hins stjórnandi ráðs. Bræðurnir fjórir í sendinefndinni áttu að sýna söfnuðunum fram á að þeir kæmu ekki aðeins með svar við upphaflegu spurningunni heldur voru þeir með nýjar leiðbeiningar frá hinu stjórnandi ráði. Að þessir ‚völdu menn‘ voru í sendinefndinni var til þess fallið að styrkja tengslin milli kristinna Gyðinga í Jerúsalem og kristinna manna af þjóðunum úti í söfnuðunum. Þetta var skynsamleg og kærleiksrík ráðstöfun. Hún stuðlaði eflaust að friði og einingu meðal þjóna Guðs.

13 Í bréfinu fengu kristnir menn af þjóðunum ekki aðeins skýrar leiðbeiningar um umskurðarmálið heldur einnig um það sem þeir þurftu að gera til að hljóta velþóknun Jehóva og blessun. Kjarni bréfsins var þessi: „Það er niðurstaða heilags anda og okkar að leggja ekki frekari byrðar á ykkur en þetta sem er nauðsynlegt: að þið haldið ykkur frá því sem hefur verið fórnað skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og kynferðislegu siðleysi. Ef þið forðist þetta vegnar ykkur vel. Verið sælir.“ – Post. 15:28, 29.

14. Hvernig geta þjónar Jehóva verið sameinaðir í sundruðum heimi nútímans?

14 Vottar Jehóva nú á dögum eru sameinaðir um allan heim. Við höfum sömu trúarskoðanir og störfum að því sama þó við séum meira en 8.000.000 talsins og skiptumst í meira en 100.000 söfnuði. Hvernig er það hægt, sérstaklega í ljósi þess hve sundraður heimurinn er? Einingin stafar fyrst og fremst af skýrum og ótvíræðum leiðbeiningum sem Jesús Kristur, höfuð safnaðarins, veitir fyrir milligöngu ‚hins trúa og skynsama þjóns‘, það er að segja stjórnandi ráðs. (Matt. 24:45–47) Það má líka rekja eininguna til þess að bræður og systur um allan heim fylgja leiðbeiningunum fúslega.

Þeir „glöddust yfir þessari hvatningu“ (Post. 15:30–35)

15, 16. Hvernig brugðust söfnuðirnir við leiðbeiningum hins stjórnandi ráðs og hvers vegna?

15 Postulasagan greinir síðan frá því að þegar sendinefndin frá Jerúsalem kom til Antíokkíu hafi hún ‚kallað saman alla lærisveinana og afhent þeim bréfið‘. Hvernig brugðust þeir við leiðbeiningum hins stjórnandi ráðs? „Þeir lásu [bréfið] og glöddust yfir þessari hvatningu.“ (Post. 15:30, 31) Júdas og Sílas ‚fluttu auk þess margar ræður og hvöttu þannig bræðurna og systurnar og styrktu þau‘. Í þeim skilningi voru þeir „spámenn“, rétt eins og Barnabas, Páll og fleiri – en orðið er notað um þá sem kunngerðu vilja Guðs. – Post. 13:1; 15:32; 2. Mós. 7:1, 2.

16 Það er greinilegt að Jehóva blessaði ákvörðun hins stjórnandi ráðs. Hún var söfnuðunum til hvatningar. Hver var lykillinn að þessum góðu málalokum? Hann var fólginn í skýrum og tímabærum leiðbeiningum hins stjórnandi ráðs sem byggðust á orði Guðs og leiðsögn heilags anda. Þar við bættist að úrskurðinum var komið á framfæri við söfnuðina á kærleiksríkan og persónulegan hátt.

17. Hvaða fyrirmynd fylgja farandhirðar nú á dögum?

17 Hið stjórnandi ráð Votta Jehóva nú á tímum fer eins að og veitir bræðralaginu um allan heim tímabærar leiðbeiningar. Þegar ákvarðanir eru teknar er þeim komið skýrt og skilmerkilega á framfæri við söfnuðina, meðal annars fyrir milligöngu farandhirða. Þessir fórnfúsu bræður ferðast milli safnaða til að veita leiðbeiningar og hvetja safnaðarmenn. Þeir nota mikinn tíma í boðuninni eins og Páll og Barnabas sem „kenndu og boðuðu fagnaðarboðskapinn, orð Jehóva, ásamt mörgum öðrum“. (Post. 15:35) Þeir ‚flytja líka margar ræður‘ eins og Júdas og Sílas og hvetja þannig bræður og systur og styrkja þau.

18. Hvað þurfum við að gera til að hljóta blessun Jehóva?

18 Hvað um söfnuðina? Hvernig geta söfnuðirnir um alla jörð varðveitt frið og einingu þegar heimurinn er svona sundraður? Munum að það var lærisveinninn Jakob sem skrifaði síðar: „Viskan sem kemur ofan að er fyrst og fremst hrein, síðan friðsöm, sanngjörn, fús til að hlýða … Og réttlætið ber ávöxt þegar því er sáð við friðsæl skilyrði handa þeim sem stuðla að friði.“ (Jak. 3:17, 18) Við vitum ekki hvort Jakob hafði fundinn í Jerúsalem í huga. Hitt er ljóst af frásögunni í 15. kafla Postulasögunnar að við getum ekki notið blessunar Jehóva nema við séum einhuga og vinnum saman.

19, 20. (a) Hvernig sýndi það sig að nú ríkti friður og eining í söfnuðinum í Antíokkíu? (b) Hvað gátu Páll og Barnabas gert núna?

19 Augljóst var að nú ríkti friður og eining í söfnuðinum í Antíokkíu. Bræðurnir þar deildu ekki við bræðurna frá Jerúsalem heldur voru þakklátir fyrir að Júdas og Sílas skyldu vera sendir til þeirra. Í frásögunni segir: „Eftir að þeir höfðu verið þar um tíma sendu bræðurnir þá aftur til baka [það er, til Jerúsalem] og óskuðu þeim góðrar ferðar.“ d (Post. 15:33) Það hefur eflaust líka glatt bræðurna í Jerúsalem að heyra tvímenningana segja frá ferð sinni. Það var einstakri góðvild Jehóva að þakka að allt skyldi fara svona vel.

20 Páll og Barnabas voru um kyrrt í Antíokkíu og gátu nú einbeitt sér að því að fara með styrka forystu í boðuninni, ekki ósvipað og farandhirðar gera þegar þeir heimsækja söfnuði. (Post. 13:2, 3) Það er þjónum Jehóva til mikillar blessunar! En hvernig notaði Jehóva þessa ötulu trúboða í framhaldinu og blessaði þá? Við skoðum það í næsta kafla.

Við njótum góðs af andlegri fæðu sem hið stjórnandi ráð og fulltrúar þess sjá okkur fyrir.

a Sjá rammann „ Jakob – ‚bróðir Drottins‘“.

b Það var skynsamlegt af Jakobi að vísa í skrif Móse. Þau innihéldu Móselögin en líka upplýsingar um samskipti Guðs við menn og vilja hans með þá áður en lögin komu til. Af 1. Mósebók er til dæmis auðséð hvernig Guð lítur á blóð, hjúskaparbrot og skurðgoðadýrkun. (1. Mós. 9:3, 4; 20:2–9; 35:2, 4) Jehóva opinberaði þar meginreglur sem eru bindandi fyrir alla menn, bæði Gyðinga og fólk af öðrum þjóðum.

d Sumar biblíuþýðingar eru með 34. vers þar sem segir að Sílas hafi verið um kyrrt í Antíokkíu. (Biblían 2010, neðanmáls) Það virðist hins vegar vera síðari tíma viðbót.