Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. KAFLI

Paradís sköpuð handa manninum

Paradís sköpuð handa manninum

Guð skapar alheiminn og lífið á jörðinni. Hann skapar fullkominn karl og konu, kemur þeim fyrir í undurfögrum garði og gefur þeim ákveðin fyrirmæli.

„Í UPPHAFI skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:⁠1) Menn hafa kallað þetta frægustu inngangsorð sem skrifuð hafa verið. Með þessum einföldu en tignarlegu orðum er kynnt til sögunnar aðalpersóna Heilagrar ritningar — alvaldur Guð, Jehóva. Í fyrsta versi Biblíunnar kemur fram að Guð hafi skapað hinn víðáttumikla alheim ásamt jörðinni þar sem við búum. Í versunum á eftir segir frá því að Guð hafi síðan búið jörðina undir komu mannsins og skapað öll þau undur sem er að finna í náttúrunni. Þetta gerðist á sex löngum tímabilum sem eru kölluð dagar.

Maðurinn var mesta sköpunarverk Guðs á jörð. Nú var komin fram sköpunarvera sem var gerð eftir mynd Guðs — fær um að endurspegla eiginleika hans eins og kærleika og visku. Guð skapaði manninn af moldu jarðar. Hann nefndi hann Adam og setti hann í paradís, garðinn Eden. Það var Guð sjálfur sem plantaði þennan garð og fyllti hann af fallegum aldintrjám.

Guð vissi að það væri gott fyrir manninn að eiga sér maka. Hann tók rifbein úr Adam og myndaði af því konu sem hann leiddi til hans og gaf honum fyrir eiginkonu. Hún var síðar nefnd Eva. Adam var yfir sig hrifinn og sagði þessi ljóðrænu orð: „Loks er hér bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ Guð sagði: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ — 1. Mósebók 2:​22-24; 3:⁠20.

Adam og Eva fengu tvenn fyrirmæli frá Guði. Í fyrsta lagi áttu þau að annast jörðina og fylla hana smám saman afkomendum sínum. Í öðru lagi sagði Guð þeim að þau mættu ekki borða ávöxt af einu tré í öllum garðinum. Það var nefnt „skilningstré góðs og ills“. (1. Mósebók 2:17) Þau myndu deyja ef þau óhlýðnuðust. Með þessum fyrirmælum gaf Guð manninum og konunni tækifæri til að sýna að þau viðurkenndu hann sem stjórnanda sinn. Með því að vera hlýðin gætu þau jafnframt látið í ljós að þau væru þakklát Guði og elskuðu hann. Þau höfðu ærna ástæðu til að virða yfirráð hans. Og þau voru fullkomin og gallalaus. Í Biblíunni segir: „Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:⁠31.

— Byggt á 1. Mósebók 1. og 2. kafla.