Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. KAFLI

Ísraelsmenn biðja um konung

Ísraelsmenn biðja um konung

Sál, fyrsti konungur Ísraels, reynist óhlýðinn. Davíð er skipaður í hans stað og Guð gerir sáttmála við hann um eilíft ríki.

SAMÚEL þjónar sem spámaður og dómari í Ísrael á eftir Samson. Ísraelsmenn sögðu honum að þeir vildu vera eins og aðrar þjóðir og fá mann fyrir konung. Með beiðni sinni lítilsvirtu þeir Jehóva en hann sagði þó Samúel að verða við ósk þeirra. Guð valdi hógværan mann sem hét Sál til að vera konungur. Þegar fram liðu stundir gerðist Sál hins vegar drambsamur og óhlýðinn. Jehóva hafnaði honum sem konungi og fól Samúel að velja annan í hans stað. Þetta var ungur maður sem hét Davíð. Hann myndi þó ekki taka við konungdómi fyrr en mörgum árum síðar.

Davíð er líklega enn þá unglingur þegar hann heimsækir bræður sína þar sem þeir þjóna í her Sáls konungs. Herinn er dauðhræddur við einn af óvinunum, risavaxinn mann sem heitir Golíat. Golíat þessi hæðist að Guði þeirra. Davíð er stórhneykslaður og tekur áskorun risans um að ganga á hólm við hann. Ungi maðurinn er aðeins vopnaður slöngvu og nokkrum steinum þegar hann gengur fram til að berjast við andstæðinginn sem er næstum þrír metrar á hæð. Golíat hæðist að Davíð en Davíð svarar að hann sé betur vopnaður en risinn því að hann berjist í nafni Jehóva Guðs. Síðan fellir hann Golíat með einum steini og heggur af honum höfuðið með sverði hans. Her Filistea er dauðskelkaður og leggur á flótta.

Í fyrstu er Sál stórhrifinn af hugrekki Davíðs og setur hann yfir herinn. En velgengni Davíðs er slík að fljótlega verður Sál heltekinn öfund. Davíð á fótum sínum fjör að launa og er á flótta árum saman. Hann er engu að síður hollur konunginum sem vill hann feigan, minnugur þess að Sál konungur er skipaður af Jehóva Guði. Að síðustu fellur Sál í bardaga. Áður en langt um líður er Davíð tekinn við konungdómi eins og Jehóva hafði lofað.

„Ég mun ævinlega styðja konunglegt hásæti hans.“ — 2. Samúelsbók 7:⁠13.

Davíð konungur þráði heitt að reisa Jehóva musteri en Jehóva sagði honum að einn af afkomendum hans myndi fá það verkefni. Það reyndist vera Salómon sonur hans. Guð umbunaði Davíð hins vegar með því að gera stórmerkan sáttmála við hann. Af honum á að koma konungsætt sem á engan sinn líka. Frelsarinn, niðjinn sem lofað var í Eden, á að lokum að koma af þessari ætt. Þetta er Messías, hinn smurði sem er skipaður af Jehóva Guði. Jehóva heitir því að Messías verði konungur stjórnar eða ríkis sem standi að eilífu.

Davíð er innilega þakklátur og dregur saman gríðarlega mikið af byggingarefni og dýrum málmum til musterisbyggingarinnar. Hann yrkir einnig fjölda innblásinna sálma. „Andi Drottins talaði af munni mínum, orð hans var mér á tungu,“ segir hann skömmu áður en hann deyr. — 2. Samúelsbók 23:⁠2.

— Byggt á 1. Samúelsbók, 2. Samúelsbók, 1. Kroníkubók, Jesaja 9:​7, Matteusi 21:​9, Lúkasi 1:32 og Jóhannesi 7:42.