Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

10. KAFLI

Solomon Rules Wisely

Solomon Rules Wisely

Jehóva gefur Salómon konungi viturt hjarta. Undir stjórn hans búa Ísraelsmenn við frið og velsæld sem aldrei fyrr.

HVERNIG væri lífið ef heil þjóð og valdhafi hennar virti Jehóva sem æðsta Drottin og hlýddi lögum hans? Þessari spurningu var svarað í 40 ára stjórnartíð Salómons.

Fyrir dauða sinn felur Davíð Salómon, syni sínum, að taka við konungdómi af sér. Guð birtist Salómon í draumi og býður honum að bera fram bón. Salómon biður um vitsmuni og þekkingu til að dæma af sanngirni og visku í málum þjóðarinnar. Þessi bón er Jehóva að skapi og hann gefur Salómon hyggið og skynugt hjarta. Jehóva heitir einnig að gefa honum auðlegð, heiður og langlífi ef hann þjóni honum dyggilega.

Salómon verður frægur fyrir viturlega dóma sína. Einu sinni deila tvær konur um nýfæddan dreng og segjast báðar eiga hann. Salómon fyrirskipar að drengurinn skuli höggvinn í tvennt og konunum gefinn hvor sinn helmingur. Önnur konan samþykkir en móðirin biður barninu vægðar þegar í stað og vill að hin konan fái það. Þá veit Salómon að umhyggjusama konan er móðir drengsins og skipar að hún skuli fá hann. Fréttin af þessum dómi berst út um allan Ísrael og þjóðin gerir sér grein fyrir að viska Guðs býr í Salómon.

Eitt af mestu afrekum Salómons var musterið sem hann reisti handa Jehóva. Þetta var glæsileg bygging og varð tilbeiðslumiðstöð Ísraelsmanna í Jerúsalem. Þegar musterið var vígt bað Salómon: „Jafnvel himinninn og himnar himnanna rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef byggt.“ — 1. Konungabók 8:⁠27.

Orðstír Salómons barst víða um lönd, jafnvel alla leið til Saba í Arabíu. Drottningin af Saba lagði í langt ferðalag til að sjá dýrð og auðlegð Salómons með eigin augum og kynna sér visku hans. Svo hrifin var hún af visku hans og velmegun Ísraelsmanna að hún lofaði Jehóva fyrir að setja svona vitran konung til valda. Með blessun Jehóva einkennist stjórnartíð Salómons af friði og velmegun sem á sér enga hliðstæðu í sögu Forn-Ísraels.

Salómon hélt því miður ekki áfram að lifa í samræmi við visku Jehóva. Hann tók sér hundruð eiginkvenna í trássi við fyrirmæli Guðs. Margar þeirra tilbáðu framandi guði. Smám saman sveigðu þær hjarta hans frá Jehóva og tók hann þá að dýrka skurðgoð. Jehóva sagði honum að hluti ríkisins yrði tekinn frá honum. Vegna fyrirheitsins sem Davíð, faðir Salómons, fékk yrði þó hluti ríkisins áfram undir stjórn konungsættar hans. Þrátt fyrir fráhvarf Salómons stóð Jehóva við sáttmálann um ríkið sem hann hafði gert við Davíð.

— Byggt á 1. Konungabók 1. til 11. kafla, 2. Kroníkubók 1. til 9. kafla og 5. Mósebók 17:⁠17.