Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

Innblásin ljóð sem hughreysta og fræða

Innblásin ljóð sem hughreysta og fræða

Davíð og fleiri ortu sálma sem notaðir voru við tilbeiðslu. Í Sálmum Biblíunnar eru varðveittir 150 þeirra.

SÁLMARNIR eru stærsta bók Biblíunnar og eru safn helgra ljóða. Það tók um þúsund ár að gera bókina. Í Sálmunum er víða að finna djúpstæð og hjartnæm orð þar sem ritararnir lýsa trú sinni. Þar er lýst öllu litrófi mannlegra tilfinninga, allt frá gleði, lotningu og þakklæti til sorgar, harms og iðrunar. Ljóst er að sálmaskáldin treystu Jehóva og áttu innilegt samband við hann. Lítum á nokkur af helstu viðfangsefnum þessara ljóða.

Jehóva er Drottinn alheims og verðskuldar lof og tilbeiðslu. „Þú, sem berð nafnið Drottinn, þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni,“ stendur í Sálmi 83:19. Í allmörgum sálmum er Jehóva sungið lof fyrir sköpunarverk hans, svo sem stjörnuhimininn, dásemdir lífsins á jörðinni og undursamlega gerð mannslíkamans. (Sálmur 8, 19, 139, 148) Aðrir sálmar bera lof á Jehóva Guð fyrir að bjarga trúum þjónum sínum og vernda þá. (Sálmur 18, 97, 138) Og í sumum sálmum er Jehóva dásamaður fyrir réttlæti hans og fyrir að rétta hlut kúgaðra og refsa óguðlegum. — Sálmur 11, 68, 146.

Jehóva hjálpar þeim sem elska hann og hughreystir þá. Einn þekktasti sálmurinn er líklega Sálmur 23. Þar líkir Davíð Jehóva við ástríkan hirði sem leiðbeinir sauðum sínum, verndar þá og annast. Í Sálmi 65:3 eru þeir sem tilbiðja Guð minntir á að hann heyri bænir þeirra. Margir sem hafa gert sig seka um alvarlega synd hafa leitað hughreystingar í Sálmi 39 og 51. Þar lýsir Davíð djúpstæðri iðrun vegna synda sinna og lætur í ljós að hann treysti á fyrirgefningu Jehóva. Í Sálmi 55:23 er hvatning til að treysta á Jehóva og varpa öllum áhyggjum sínum á hann.

Jehóva mun breyta heiminum fyrir atbeina Messíasarríkisins. Í Sálmunum er víða fjallað beint eða óbeint um Messías, konung framtíðarinnar. Í Sálmi 2 er spáð að hann eyði þeim illu þjóðum sem berjast gegn honum. Í Sálmi 72 kemur fram að hann útrými hungri, ranglæti og kúgun. Í Sálmi 46:10 er boðað að Guð noti ríki Messíasar til að binda enda á styrjaldir og eyða öllum stríðsvopnum. Sálmur 37 upplýsir að óguðlegir hverfi af sjónarsviðinu en réttlátir búi á jörðinni að eilífu í friði og samlyndi.

— Byggt á Sálmunum.