Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

15. KAFLI

Spámaður í útlegð fær innsýn í framtíðina

Spámaður í útlegð fær innsýn í framtíðina

Daníel flytur spádóma um ríki Guðs og komu Messíasar. Babýlon fellur.

DANÍEL er fluttur í útlegð til Babýlonar áður en Jerúsalem er eytt. Hann er þá á unglingsaldri en er einstaklega ráðvandur. Hann og fleiri Gyðingar, sem voru fluttir í útlegð eftir að Júdaríkið féll, fengu visst frjálsræði af hendi fangara sinna. Daníel lifir langa ævi í Babýlon og Guð blessar hann ríkulega. Hann kemst meira að segja lifandi úr ljónagryfju, og fær að sjá sýnir sem gera honum kleift að sjá langt fram í tímann. Mikilvægustu spádómar Daníels fjalla um Messías og stjórn hans.

Daníel fær að vita hvenær Messías á að koma. Daníel er sagt hvenær þjóð Guðs megi búast við „komu hins smurða“, Messíasar. Það á að vera 69 vikum eftir að tilskipun er gefin um að múrar Jerúsalem skuli endurreistir og endurbyggðir. Venjuleg vika er sjö dagar en áravika er sjö ár. Tilskipunin er gefin löngu eftir daga Daníels, það er að segja árið 455 f.Kr. Þá hefjast hinar 69 „vikur“. Þær standa í 483 ár og þeim lýkur árið 29 e.Kr. Í framhaldinu könnum við hvað gerðist það ár. Daníel sér líka fyrir að Messías verði „afmáður“, það er að segja tekinn af lífi til að friðþægja fyrir syndir. — Daníel 9:​24-26.

Messías átti að verða konungur á himnum. Í óvenjulegri sýn fær Daníel að sjá atburði sem gerast á himnum. Hann sér einhvern „áþekkan mannssyni“ ganga fram fyrir hásæti Jehóva. Þetta er Messías. Jehóva veitir honum ‚valdið, tignina og konungdæmið‘. Þetta konungdæmi á að vera eilíft. Daníel fær að vita annað varðandi Messíasarríkið. Konungurinn á sér meðstjórnendur, hóp sem er kallaður ‚hinir heilögu Hins æðsta‘. — Daníel 7:​13, 14, 27.

Ríki Guðs á að eyða stjórnvöldum þessa heims. Guð gerir Daníel kleift að ráða draum sem olli Nebúkandnesari, konungi Babýlonar, hugarangri. Konungur hafði séð risastórt líkneski. Höfuðið var úr gulli, brjóst og handleggir úr silfri, kviður og lendar úr eiri, fótleggirnir úr járni en fæturnir að hluta úr járni og að hluta úr leir. Steinn losnar úr fjalli, lendir á brothættum fótum líkneskisins og mölvar það í smátt. Daníel útskýrir að líkneskið tákni heimsveldin hvert á fætur öðru langt fram í tímann. Gullhöfuðið táknar Babýlon. Daníel sér fyrir að á dögum síðasta heimsveldisins í þessum illa heimi láti ríki Guðs til sín taka. Það eyði þá öllum stjórnvöldum þessa heims en standi sjálft að eilífu. — Daníel 2. kafli.

Sem háaldraður maður fær Daníel að sjá Babýlon falla. Kýrus konungur vinnur borgina rétt eins og spámennirnir höfðu sagt fyrir. Skömmu síðar eru Gyðingar loks leystir úr útlegðinni. Landið hefur þá legið í eyði í nákvæmlega 70 ár eins og spáð hafði verið. Undir forystu dyggra landstjóra, presta og spámanna endurreisa Gyðingar að lokum Jerúsalem og musteri Jehóva. En hvað átti að gerast eftir að árin 483 væru liðin?

— Byggt á Daníelsbók.