Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

16. KAFLI

Messías kemur

Messías kemur

Jehóva staðfestir að Jesús frá Nasaret sé hinn langþráði Messías.

MYNDI Jehóva hjálpa fólki að bera kennsl á hinn fyrirheitna Messías? Já, lítum á hvað Guð gerði. Þetta var um fjórum öldum eftir að lokið var við að rita Gamla testamentið. Í norðurhluta Ísraels, í bænum Nasaret í Galíleu, býr ung kona sem heitir María. Dag einn fær hún óvænta heimsókn. Engill, sem heitir Gabríel, birtist henni og segir henni að Guð ætli að beita starfskrafti sínum, heilögum anda, til að láta hana fæða son enda þótt hún sé mey. Hann segir að þessi sonur verði hinn langþráði konungur sem eigi að ríkja að eilífu. Barnið verði sonur Guðs því að líf hans verði flutt frá himnum í móðurkvið hennar.

María er auðmjúk og tekur að sér þetta mikla verkefni. Unnusti hennar, smiðurinn Jósef, gengur að eiga hana eftir að Guð hefur sent engil til að fullvissa hann um að hún sé barnshafandi vegna heilags anda. En hvað um spádóminn þar sem segir að Messías eigi að fæðast í smábænum Betlehem? (Míka 5:⁠1) Það eru heilir 140 kílómetrar þangað!

Keisarinn í Róm gefur út tilskipun um að tekið skuli manntal. Fólk á að láta skrásetja sig í fæðingarbæ sínum. Bæði Jósef og María virðast vera ættuð frá Betlehem þannig að Jósef fer þangað með þungaða eiginkonu sína. (Lúkas 2:⁠3) María elur drenginn í fábrotnu gripahúsi og leggur hann í jötu. Guð sendir þá fjölda engla til að tilkynna hópi fjárhirða úti í haga að nýfædda barnið sé Kristur, hinn fyrirheitni Messías.

Fleiri áttu eftir að vitna um að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. Jesaja spámaður hafði sagt fyrir að maður myndi koma fram til að ryðja veginn og undirbúa starf Messíasar. (Jesaja 40:⁠3) Þessi fyrirrennari var Jóhannes skírari. Þegar hann sá Jesú koma til sín hrópaði hann: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.“ Sumir af lærisveinum Jóhannesar fylgdu Jesú þegar í stað. „Við höfum fundið Messías!“ sagði einn þeirra. — Jóhannes 1:​29, 36, 41.

Og fleira sannaði að Jesús væri Messías. Þegar Jóhannes skírði Jesú talaði Jehóva sjálfur af himni. Hann notaði heilagan anda til að skipa Jesú Messías og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:​16, 17) Hinn langþráði Messías var kominn!

Hvenær gerðist þetta? Árið 29 e.Kr., nákvæmlega þegar árin 483, sem Daníel talaði um, voru á enda. Þetta er ein af sönnunum þess að Jesús Kristur sé Messías, og sannanirnar eru óhrekjandi. En hvaða boðskap átti hann að boða meðan hann væri á jörðinni?

— Byggt á Matteusi 1. til 3. kafla, Markúsi 1. kafla, Lúkasi 2. kafla og Jóhannesi 1. kafla.