Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

20. KAFLI

Jesús Kristur líflátinn

Jesús Kristur líflátinn

Jesús stofnar til nýrrar hátíðar. Hann er svikinn og tekinn af lífi.

JESÚS hefur prédikað og kennt í þrjú og hálft ár og veit að tími hans á jörð er á enda. Trúarleiðtogar Gyðinga hafa gert samsæri um að ráða hann af dögum en óttast uppþot meðal almennings sem trúir að hann sé spámaður. Satan tekst að hafa áhrif á Júdas Ískaríot, einn af postulunum 12, þannig að hann svíkur Jesú. Trúarleiðtogarnir bjóðast til að greiða Júdasi 30 silfurpeninga fyrir að svíkja Jesú í hendur þeirra.

Jesús heldur páska ásamt postulunum kvöldið áður en hann er líflátinn. Eftir að hafa látið Júdas fara stofnar hann til nýrrar hátíðar sem kallast kvöldmáltíð Drottins. Hann tekur brauðhleif, fer með bæn og gefur postulunum 11 brauðið. „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn,“ segir hann. „Gerið þetta í mína minningu.“ Eins gerir hann með bikar af víni og segir: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.“ — Lúkas 22:​19, 20.

Jesús hefur margt að segja postulunum þetta kvöld. Hann gefur þeim nýtt boðorð þess efnis að þeir sýni hver öðrum óeigingjarnan kærleika. „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars,“ segir hann. (Jóhannes 13:​34, 35) Hann hvetur þá til að skelfast ekki í hjörtum sínum vegna þeirra átakanlegu atburða sem séu fram undan og biður innilega fyrir þeim. Þeir syngja saman lofsöng og ganga síðan út í náttmyrkrið.

Í Getsemanegarðinum krýpur Jesús á kné og úthellir hjarta sínu fyrir Guði í bæn. Innan skamms kemur vopnaður hópur hermanna, presta og fleiri til að handtaka hann. Júdas bendir á hver sé Jesús með því að ganga fram og kyssa hann. Hermennirnir binda Jesú en postularnir flýja.

Jesús er leiddur fyrir hæstarétt Gyðinga og lýsir yfir að hann sé sonur Guðs. Rétturinn dæmir hann sekan um guðlast og telur hann dauðasekan. Síðan er farið með hann til rómverska landstjórans Pontíusar Pílatusar. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Jesús hafi ekki gerst sekur um nokkurn glæp en afhendir hann samt mannfjöldanum sem heimtar að hann sé tekinn af lífi.

Farið er með Jesú til Golgata þar sem rómverskir hermenn negla hann á aftökustaur. Það skellur á myrkur um hábjartan dag. Jesús deyr síðdegis þann dag og mikill jarðskjálfti verður. Hann er lagður í gröf sem höggvin er í klett. Daginn eftir láta prestarnir innsigla gröfina og setja verði við grafarmunnann. Átti Jesús að liggja áfram í gröf sinni? Nei, mesta kraftaverkið á eftir að eiga sér stað.

— Byggt á Matteusi 26. og 27. kafla, Markúsi 14. og 15. kafla, Lúkasi 22. og 23. kafla og Jóhannesi 12. til 19. kafla.

^ gr. 15 Nánar er fjallað um gildi fórnarinnar, sem Jesús færði með dauða sínum, í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.