Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

6. KAFLI

Davíð var ekki hræddur

Davíð var ekki hræddur

Hvað gerirðu þegar þú ert hræddur? – Talarðu þá kannski við mömmu þína og pabba? Það er líka til annar sem getur alltaf hjálpað þér. Hann er sterkari en allir aðrir. Veistu hver það er? – Það er Jehóva Guð. Við skulum nú tala um ungan mann í Biblíunni sem hét Davíð. Hann vissi að Jehóva myndi alltaf hjálpa sér og þess vegna var hann ekki hræddur.

Foreldrar Davíðs kenndu honum að elska Jehóva frá því að hann var lítið barn. Það hjálpaði honum að vera ekki hræddur, meira að segja þegar hann var í hættu staddur. Hann vissi að Jehóva var vinur sinn og að hann myndi hjálpa sér. Einu sinni þegar Davíð var að passa kindur kom stórt ljón og tók eitt lambið. Veistu hvað Davíð gerði þá? Hann hljóp á eftir ljóninu, greip í makkann á því og drap það! Og þegar skógarbjörn réðst á kindurnar hans, drap Davíð hann líka! Hver heldurðu að hafi hjálpað Davíð? – Það var Jehóva.

Davíð var líka mjög hugrakkur þegar Ísraelsmenn börðust við þjóð sem hét Filistear. Einn hermaður Filistea var rosalega stór, hann var risi! Hann hét Golíat. Þessi risi gerði grín að hermönnum Ísraels og líka að Jehóva. Hann skoraði á hermenn Ísraels að koma og berjast við sig. En enginn Ísraelsmaður þorði að berjast við hann. Þegar Davíð frétti það sagði hann við Golíat: ,Ég skal berjast við þig! Jehóva hjálpar mér og ég mun sigra þig!‘ Var Davíð ekki hugrakkur? – Jú, hann var mjög hugrakkur. Veistu hvað gerðist svo?

Davíð tók slöngvuna sína og fimm steina og fór til að berjast við risann. Þegar Golíat sá að Davíð var bara unglingur gerði hann líka grín að honum. En Davíð sagði við hann: ,Þú kemur á móti mér með sverð en ég kem á móti þér í nafni Jehóva!‘ Síðan setti hann stein í slöngvuna, hljóp í átt að risanum og kastaði steininum í hann. Steinninn hitti Golíat beint í ennið og hann datt dauður niður. Filistearnir urðu svo hræddir að þeir hlupu allir í burtu. Hvernig gat Davíð, sem var bara unglingur, sigrað risa? – Jehóva hjálpaði honum. Jehóva var miklu sterkari en þessi risi.

Davíð var ekki hræddur því að hann vissi að Jehóva myndi hjálpa sér.

Hvað geturðu lært af sögunni um Davíð? – Jehóva er miklu sterkari en allir aðrir. Og hann er líka vinur þinn. Mundu þess vegna að Jehóva getur hjálpað þér að vera hugrakkur þegar þú verður hræddur.

LESTU Í BIBLÍUNNI ÞINNI