Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. KAFLI

Hjálpargögn við boðunina – rit gefin út til að nota um allan heim

Hjálpargögn við boðunina – rit gefin út til að nota um allan heim

Í ÞESSUM KAFLA

Jehóva sér okkur fyrir hjálpargögnum svo að við getum kennt einstaklingum af öllum þjóðum, ættflokkum og tungum.

1, 2. (a) Hvað stuðlaði að því að fagnaðarerindið breiddist út um Rómaveldi á fyrstu öld? (b) Hvernig sjáum við að Jehóva styður boðunina á okkar tímum? (Sjá greinina „ Fagnaðarerindi á meira en 670 tungumálum“.)

 AÐKOMUFÓLK í Jerúsalem trúði varla eigin eyrum. Galíleumenn töluðu reiprennandi erlend tungumál og boðskapurinn, sem þeir fluttu, hreif hugi áheyrenda. Þetta var á hvítasunnu árið 33 og lærisveinarnir höfðu vegna kraftaverks fengið þann hæfileika að geta talað ýmis erlend tungumál. Það var ótvíræð sönnun þess að Guð stóð með þeim. (Lestu Postulasöguna 2:1-8, 12, 15-17.) Fagnaðarerindið, sem þeir boðuðu þennan dag, náði til fólks af alls konar uppruna og breiddist síðan út um Rómaveldi. – Kól. 1:23.

2 Þjónar Guðs nú á tímum tala ekki erlend tungumál fyrir eitthvert kraftaverk. Þeir þýða hins vegar rit sín á meira en 670 tungumál og koma boðskapnum um ríkið til margfalt fleiri málhópa en var á fyrstu öld. (Post. 2:9-11) Þjónar Guðs hafa gefið út rit á svo mörgum tungumálum og í svo miklu magni að fagnaðarerindið um ríkið hefur náð til allra heimshorna. a Þetta er líka ótvíræð sönnun þess að konungurinn Jesús Kristur stjórni boðuninni eins og Jehóva fól honum. (Matt. 28:19, 20) Við skulum nú ræða um nokkur af þeim hjálpargögnum sem við höfum notað við boðunina síðastliðin 100 ár. Jafnhliða því skulum við kanna hvernig konungurinn hefur hvatt okkur jafnt og þétt til að sýna fólki áhuga og kenna orð Guðs. – 2. Tím. 2:2.

Konungurinn gerir þjónum sínum kleift að sá frækornum sannleikans

3. Hvers vegna notum við ýmiss konar hjálpargögn við boðunina?

3 Jesús líkti ‚orðinu um ríkið‘ við fræ og hjörtum fólks við jarðveg. (Matt. 13:18, 19) Garðyrkjumaður notar ýmis verkfæri til að mýkja jarðveginn og búa hann undir sáningu. Þjónar Jehóva hafa sömuleiðis notað margs konar verkfæri til að búa hjörtu milljóna manna undir að taka við boðskapnum um ríkið. Sum þessara verkfæra voru notuð um skamman tíma. Önnur hafa verið notuð lengi með góðum árangri, meðal annars bækur og tímarit. Í síðasta kafla ræddum við um aðferðir sem hafa verið notaðar til að ná til fjöldans. Ólíkt þeim flestum hafa öll þau hjálpargögn, sem rætt er um í þessum kafla, auðveldað boðberum fagnaðarerindisins að hafa samband við fólk augliti til auglitis. – Post. 5:42; 17:2, 3.

Grammófónar og hljóðbúnaður framleiddur á verkstæði í Toronto í Kanada.

4, 5. Hvernig notuðu boðberar hljómplötur en hvað varð út undan?

4 Ræður á hljómplötum. Á fjórða áratug síðustu aldar og fram á þann fimmta fóru boðberar um með grammófóna og spiluðu biblíutengdar ræður fyrir fólk. Ræðurnar voru innan við fimm mínútna langar. Plöturnar hétu sumar stuttum nöfnum eins og „Þrenning“, „Hreinsunareldur“ eða „Ríki Guðs“. Hvernig voru þær notaðar? Bróðir Clayton Woodworth, Jr., lét skírast í Bandaríkjunum árið 1930. Hann segir: „Ég var með lítinn upptrekktan grammófón í tösku. Hann var með armi sem ég þurfti að stilla á nákvæmlega réttan stað á brún plötunnar til að ræðan skilaði sér. Ég gekk að húsinu, opnaði töskuna, stillti arminn af og hringdi svo dyrabjöllunni. Þegar húsráðandinn kom til dyra sagði ég: ‚Ég er með mikilvægan boðskap sem mig langar að þú heyrir.‘“ Hver voru viðbrögðin? „Margir tóku þessu vel en sumir lokuðu bara dyrunum,“ segir Woodworth. „Stöku sinnum hélt fólk að ég væri að selja grammófóna.“

Árið 1940 var hægt að fá rúmlega 90 ræður á hljómplötum og meira en milljón plötur höfðu verið framleiddar.

5 Árið 1940 var hægt að fá rúmlega 90 ræður á hljómplötum og meira en milljón plötur höfðu verið framleiddar. John E. Barr, sem síðar sat í hinu stjórnandi ráði, var brautryðjandi í Bretlandi á þeim tíma. Hann sagði: „Á árunum 1936 til 1945 var grammófónninn eins og tryggur félagi minn. Ég var jafnvel óöruggur ef ég hafði hann ekki meðferðis. Það var ákaflega hvetjandi að heyra rödd bróður Rutherfords þegar maður stóð við dyrnar. Það var eins og hann stæði við hlið manns. En auðvitað varð kennslan út undan þegar grammófónninn var notaður. Maður reyndi ekki eins að ná til hjartans hjá fólki.“

6, 7. (a) Hvaða kostir og ókostir fylgdu boðunarspjöldunum? (b) Í hvaða skilningi ‚gaf Jehóva okkur málið‘?

6 Boðunarspjöld. Árið 1933 var farið að hvetja boðbera til að nota boðunarspjöld þegar þeir störfuðu hús úr húsi. Spjöldin voru um 8 sinnum 13 sentímetrar að stærð. Á þeim var stutt kynning ásamt lýsingu á biblíutengdu lesefni sem húsráðandi gat fengið. Boðberinn rétti húsráðanda spjaldið og bað hann að lesa það. „Mér fannst gott að nota boðunarspjöldin,“ sagði Lilian Kammerud en hún var síðar trúboði í Púertó Ríkó og Argentínu. Hvers vegna tók hún þeim fagnandi? „Við kunnum ekki öll að fara með góða kynningu þannig að spjöldin hjálpuðu mér að venjast því að heimsækja fólk,“ segir hún.

Boðunarspjald (á ítölsku).

7 David Reusch, sem lét skírast árið 1918, sagði: „Boðunarspjöldin hjálpuðu bræðrum og systrum því að mjög fáum fannst þeir geta komið fyrir sig orði.“ En spjöldin höfðu sín takmörk. „Stundum hittum við fólk sem hélt að við gætum ekki talað,“ segir bróðir Reusch. „Í vissum skilningi voru mörg okkar ekki fær um að tala. En Jehóva var að búa okkur undir að koma að máli við fólk sem boðberar sínir. Bráðlega gaf hann okkur málið með því að kenna okkur að nota Biblíuna við dyrnar. Þar kom Boðunarskólinn til skjalanna en hann tók til starfa upp úr 1940.“ – Lestu Jeremía 1:6-9.

8. Hvernig getum við þegið kennslu hjá Jesú Kristi?

8 Bækur. Frá 1914 hafa þjónar Jehóva gefið út meira en 100 bækur sem fjalla um biblíutengd málefni. Sumar bækurnar voru samdar sérstaklega til að kenna boðberum að koma boðskapnum á framfæri á áhrifaríkan hátt. Anna Larsen býr í Danmörku og hefur verið boðberi í hér um bil 70 ár. Hún segir: „Jehóva notaði Boðunarskólann og tengdar bækur, sem við fengum, til að gera okkur að betri boðberum. Ég man eftir að fyrsta bókin var Theocratic Aid to Kingdom Publishers sem kom út árið 1945. Síðan kom bókin „Equipped for Every Good Work“ en hún var gefin út árið 1946. Núna höfum við bókina Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum sem við fengum árið 2001.“ Boðunarskólinn og bækur tengdar honum hafa átt ríkan þátt í að gera okkur hæf til að vera boðberar fagnaðarerindisins. (2. Kor. 3:5, 6) Hefurðu skráð þig í Boðunarskólann? Tekurðu Boðunarskólabókina með þér á samkomu í hverri viku og fylgist með í henni þegar umsjónarmaður skólans vitnar í hana? Ef þú gerir það leyfirðu Kristi að kenna þér og verður sjálfur betri kennari. – 2. Kor. 9:6; 2. Tím. 2:15.

9, 10. Hvernig hafa bækur verið góð leið til að sá frækornum sannleikans og vökva þau?

9 Jehóva hefur einnig aðstoðað okkur með þeim hætti að söfnuðurinn hefur gefið út bækur til að auðvelda okkur að skýra aðalkenningar Biblíunnar. Bókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs var sérstaklega öflugt hjálpargagn. Hún kom út árið 1968 og áhrifin létu ekki á sér standa. Í Ríkisþjónustu okkar í nóvember 1968 stóð: „Eftirspurnin eftir Sannleiksbókinni hefur verið svo mikil að í september var bætt við næturvöktum í prentsmiðju Félagsins í Brooklyn.“ Síðan sagði í greininni: „Í ágúst fór eftirspurnin einni og hálfri milljón eintaka fram úr því sem hægt var að afgreiða.“ Árið 1982 var búið að prenta meira en 100 milljónir eintaka af Sannleiksbókinni á 116 tungumálum. Á 14 ára tímabili, frá 1968 til 1982, átti þessi bók sinn þátt í því að boðberum fjölgaði um meira en milljón. b

10 Árið 2005 kom út frábær kennslubók sem nefnist Hvað kennir Biblían? Prentaðar hafa verið um 200 milljónir eintaka á 256 tungumálum. Hvaða áhrif hefur þessi bók haft? Á aðeins sjö árum, frá 2005 til 2012, hefur boðberum fagnaðarerindisins fjölgað um 1,2 milljónir. Á sama tímabili hefur þeim sem þiggja aðstoð okkar við biblíunám fjölgað úr 6 milljónum í rúmlega 8,7 milljónir. Það leikur enginn vafi á því að Jehóva blessar okkur þegar við sáum frækornum sannleikans um ríki Guðs og vökvum þau. – Lestu 1. Korintubréf 3:6, 7.

11, 12. Fyrir hverja eru tímaritin okkar hugsuð, samanber versin sem vísað er í?

11 Tímarit. Upphaflega var Varðturninn fyrst og fremst ætlaður ‚litlu hjörðinni‘ sem hafði „köllun til himinsins“. (Lúk. 12:32; Hebr. 3:1) Hinn 1. október 1919 hleypti söfnuður Jehóva af stokkunum öðru tímariti en því var ætlað að höfða til almennings. Þetta blað varð svo vinsælt meðal Biblíunemendanna og almennings að það var árum saman prentað í miklu stærra upplagi en Varðturninn. Það var fyrst kallað The Golden Age. Árið 1937 var nafninu breytt í Consolation en síðan 1946 hefur það heitið Vaknið!

12 Útlit og brot tímaritanna Varðturnsins og Vaknið! hefur breyst með árunum en markmiðið hefur alltaf verið það sama – að kunngera ríki Guðs og styrkja trú fólks á Biblíuna. Varðturninn kemur nú út í tveim útgáfum, námsútgáfu og almennri útgáfu. Námsútgáfan er ætluð ‚hjúunum‘, það er að segja bæði ‚litlu hjörðinni‘ og ‚öðrum sauðum‘. c (Matt. 24:45; Jóh. 10:16) Almenna útgáfan er samin sérstaklega handa þeim sem þekkja ekki sannleikann en bera virðingu fyrir Biblíunni og Guði. (Post. 13:16) Vaknið! beinir máli sínu til þeirra sem vita lítið um Biblíuna og Jehóva, hinn sanna Guð. – Post. 17:22, 23.

13. Hvað finnst þér einstakt við útgáfu tímaritanna okkar? (Sjá einnig yfirlitið „ Heimsins útbreiddustu rit“.)

13 Í ársbyrjun 2014 voru prentaðar meira en 44 milljónir eintaka af Vaknið! og um 46 milljónir eintaka af Varðturninum á mánuði. Vaknið! var þá þýtt á hér um bil 100 tungumál og Varðturninn á meira en 200. Þau eru útbreiddustu tímarit í heimi og engin tímarit eru þýdd á jafn mörg tungumál. Þótt það sé í sjálfu sér heilmikið afrek ætti það ekki að koma okkur á óvart. Þessi tímarit hafa að geyma þann boðskap sem Jesús sagði að yrði boðaður um allan heim. – Matt. 24:14.

14. Fyrir hverju höfum við beitt okkur af kappi og hvers vegna?

14 Biblían. Árið 1896 breyttu bróðir Russell og samstarfsmenn hans nafni útgáfufélagsins sem þeir ráku til að gefa út biblíutengd rit. Þeir bættu við orðinu Biblía, og félagið hét þá Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn. Þetta var eðlileg breyting vegna þess að Biblían hefur alltaf verið helsta verkfærið til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið. (Lúk. 24:27) Í samræmi við heiti útgáfufélagsins hafa þjónar Guðs beitt sér mjög fyrir útbreiðslu Biblíunnar og biblíulestri. Sem dæmi má nefna að árið 1926 prentuðum við með okkar eigin prentvélum The Emphatic Diaglott sem er þýðing Benjamins Wilsons á Grísku ritningunum. Árið 1942 tókum við að prenta King James-biblíuna og dreifðum um 700.000 eintökum af henni. Aðeins tveim árum síðar tókum við að prenta American Standard Version en nafnið Jehóva stendur 6.823 sinnum í henni. Árið 1950 vorum við búin að dreifa meira en 250.000 eintökum.

15, 16. (a) Hvað hefur Nýheimsþýðingin til að bera sem þú kannt að meta? (Sjá greinina „ Þýðingu Biblíunnar hraðað“.) (b) Hvernig geturðu leyft Jehóva að snerta hjarta þitt?

15 Nýheimsþýðing Grísku ritninganna var gefin út árið 1950. Nýheimsþýðing heilagrar ritningar í heild sinni kom út í einu bindi árið 1961. Í þessari þýðingu er Jehóva sýndur sá heiður að nafn hans stendur alls staðar þar sem það er að finna í hebreska frumtextanum. Nafn Guðs stendur einnig 237 sinnum í meginmáli Grísku ritninganna í Nýheimsþýðingunni. Hún hefur verið endurskoðuð nokkrum sinnum, síðast árið 2013, til að tryggja að hún sé eins nákvæm og auðlesin og hægt er. Árið 2013 var búið að prenta meira en 201 milljón eintaka af Nýheimsþýðingunni í heild eða að hluta á 121 tungumáli.

16 Hvernig bregðast margir við þegar þeir lesa Nýheimsþýðinguna á móðurmáli sínu? Nepalskur maður segir: „Margir áttu erfitt með að skilja gömlu nepölsku þýðinguna sem við höfðum, vegna þess að hún er á forneskjulegu máli. En nú getum við skilið Biblíuna miklu betur af því að hún er þýdd á daglegt mál.“ Kona í Mið-Afríkulýðveldinu brast í grát þegar hún fór að lesa þýðinguna á sangó. „Þetta er málið sem snertir hjarta mitt,“ sagði hún. Líkt og þessi kona getum við öll leyft Jehóva að snerta hjarta okkar með því að lesa orð hans daglega. – Sálm. 1:2; Matt. 22:36, 37.

Þakklát fyrir hjálpargögn og kennslu

17. Hvernig geturðu sýnt að þú sért þakklátur fyrir hjálpargögnin og kennsluna sem þú færð, og hvaða áhrif hefur það?

17 Ertu þakklátur fyrir hjálpargögnin og kennsluna sem konungurinn Jesús Kristur hefur veitt okkur jafnt og þétt? Gefurðu þér tíma til að lesa ritin sem söfnuður Guðs gefur út og notarðu þau til að hjálpa öðrum? Þá geturðu sett þig í spor systur Opal Betler sem lét skírast 4. október 1914. Hún sagði: „Við Edward [eiginmaður hennar] notuðum grammófóna og boðunarspjöld. Við vitnuðum hús úr húsi með hjálp bóka, bæklinga og tímarita. Við tókum þátt í boðunarherferðum, gengum með upplýsingaskilti og dreifðum yfirlýsingum á prenti. Síðar var okkur kennt að fara í endurheimsóknir og halda biblíunámskeið heima hjá þeim sem sýndu áhuga. Við höfum verið önnum kafin og átt ánægjulega ævi.“ Jesús lofaði að þegnar sínir myndu hafa nóg fyrir stafni. Þeir myndu sá, uppskera og eiga ánægjulega daga. Milljónir manna þekkja það af eigin reynslu og geta tekið undir með systur Opal. – Lestu Jóhannes 4:35, 36.

18. Hvaða heiðurs njótum við?

18 Margir sem eru ekki enn farnir að þjóna konunginum Kristi hugsa ef til vill sem svo að þjónar Guðs séu nú „ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn“. (Post. 4:13) En hugsaðu þér. Konungurinn hefur gert þessa óbrotnu alþýðumenn að öflugum útgefendum. Þeir gefa út sum af útbreiddustu ritum í sögu mannkyns og þau sem eru þýdd á flest tungumál. En það er ekki síður mikilvægt að hann hefur kennt okkur og hvatt til að nota þessi hjálpargögn við að útbreiða fagnaðarerindið meðal allra þjóða. Það er ólýsanlegur heiður að mega vinna með Kristi að því að sá frækornum sannleikans og eiga þátt í uppskerunni í mynd nýrra lærisveina.

a Á síðasta áratug prentuðu þjónar Jehóva yfir 20 milljarða biblíutengdra rita. Meira en 2,7 milljarðar manna um heim allan hafa auk þess aðgang að Netinu og þar með að vefsetri okkar, jw.org.

b Af öðrum námsbókum, sem hafa hjálpað boðberum að kenna fólki sannleika Biblíunnar, má nefna bækurnar Harpa Guðs (gefin út 1921), „Guð skal reynast sannorður“ (gefin út 1946), Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð (gefin út 1982) og Þekking sem leiðir til eilífs lífs (gefin út 1995).

c Sjá Varðturninn 15. júlí 2013, bls. 23, grein 13, en þar er rætt hver ‚hjúin‘ eru samkvæmt núverandi skilningi okkar.