Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. KAFLI

Árangur boðunarinnar – akrarnir eru „fullþroskaðir til uppskeru“

Árangur boðunarinnar – akrarnir eru „fullþroskaðir til uppskeru“

Í ÞESSUM KAFLA

Jehóva hefur látið sáðkorn fagnaðarerindisins um ríkið vaxa.

1, 2. (a) Hvers vegna eru lærisveinarnir ekki með á nótunum? (b) Um hvers konar uppskeru er Jesús að tala?

 LÆRISVEINARNIR eru ekki alveg með á nótunum. Jesús er rétt búinn að segja við þá: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ Þeir horfa í áttina sem hann bendir en sjá aðeins græna akra með nýsprottnu byggi. ‚Hvaða uppskeru?‘ hugsa þeir sennilega. ‚Það eru nokkrir mánuðir fram að uppskerunni.‘ – Jóh. 4:35.

2 En Jesús er ekki að tala um bókstaflega uppskeru. Hann er að kenna lærisveinunum tvö mikilvæg atriði varðandi táknræna uppskeru – það er að segja uppskeru af fólki. Hvað vill hann kenna þeim? Við skulum skoða frásöguna nánar til að leita svars við því.

Hvatning til starfa og loforð um fögnuð

3. (a) Hver var hugsanlega kveikjan að því að Jesús sagði að akrarnir væru „fullþroskaðir til uppskeru“? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvernig skýrði Jesús orð sín?

3 Það var undir lok ársins 30 sem Jesús átti þetta samtal við lærisveina sína í grennd við borgina Síkar í Samaríu. Lærisveinarnir höfðu haldið inn í borgina en Jesús orðið eftir við brunn þar sem hann ræddi um andleg sannindi við konu nokkra. Konan var fljót að átta sig á gildi þess sem hann kenndi henni. Þegar lærisveinarnir komu aftur flýtti konan sér til Síkar til að segja nágrönnum sínum frá þeim merkilegu sannindum sem hún hafði lært. Áhugi þeirra vaknaði og margir þeirra flýttu sér til fundar við Jesú við brunninn. Það var hugsanlega þá, þegar Jesús horfði yfir akrana og sá hóp Samverja nálgast, sem hann sagði: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ a Til að skýra fyrir lærisveinunum að hann væri ekki að tala um uppskeru í bókstaflegri merkingu bætti hann við: „Sá sem upp sker ... safnar ávexti til eilífs lífs.“ – Jóh. 4:5-30, 36.

4. (a) Hvaða tvö atriði varðandi uppskeruna kenndi Jesús lærisveinunum? (b) Hvaða spurningar verða ræddar í framhaldinu?

4 Hvaða tvö mikilvægu atriði varðandi hina táknrænu uppskeru kenndi Jesús lærisveinunum? Í fyrsta lagi að það lægi mikið á. Þegar hann sagði að ‚akrarnir væru fullþroskaðir til uppskeru‘ var hann að hvetja fylgjendur sína til starfa. Til að leggja áherslu á hve verkið væri áríðandi bætti hann við: „Sá sem upp sker tekur þegar laun.“ Uppskeran var hafin og það mátti engan tíma missa. Í öðru lagi myndu verkamennirnir fagna. Þeir sem sá og þeir sem uppskera ‚samfagna‘ að sögn Jesú. (Jóh. 4:35b, 36) Jesús hlýtur að hafa fagnað þegar hann sá að „margir Samverjar ... trúðu á hann“, og lærisveinarnir myndu sömuleiðis fagna þegar þeir ynnu af heilum hug að uppskerunni. (Jóh. 4:39-42) Þessi frásaga frá fyrstu öld hefur mikla þýðingu fyrir okkur vegna þess að hún lýsir vel því sem gerist núna á mesta uppskerutíma mannkynssögunnar. Hvenær hófst uppskeran í nútímanum? Hverjir taka þátt í henni? Og hver hefur árangurinn orðið?

Konungurinn fer með forystu í mesta uppskerustarfi sögunnar

5. Hver fer með forystu í mesta uppskerustarfi sögunnar og hvernig ber sýn Jóhannesar með sér að mikið liggi á?

5 Í sýn, sem Jóhannes postuli sá, opinberar Jehóva að hann hafi falið Jesú forystuna í uppskerustarfi sem er á heimsmælikvarða. (Lestu Opinberunarbókina 14:14-16.) Í sýninni ber Jesús kórónu og heldur á sigð. Gullkórónan á höfði hans staðfestir að hann sé konungur. Beitta sigðin í hendi hans lýsir honum sem uppskerumanni. Engillinn segir að ‚kornið sé þroskað‘. Þannig leggur Jehóva áherslu á að mikið liggi á. Já, „uppskerutíminn“ er hafinn. Það má engan tíma missa. „Beittu sigð þinni,“ segir Jehóva og Jesús gerir það. Hann bregður sigðinni og sker upp á jörðinni til að safna saman fólki. Þessi hrífandi sýn minnir okkur enn og aftur á að akrarnir eru „fullþroskaðir til uppskeru“. Gerir sýnin okkur kleift að tímasetja hvenær þessi mikla uppskera hófst? Já.

6. (a) Hvenær hófst kornskurðartíminn? (b) Hvenær hófust sjálf uppskerustörfin á jörð? Skýrðu svarið.

6 Jesús ber kórónu í sýn Jóhannesar í 14. kafla Opinberunarbókarinnar (sjá 14. vers). Þegar hann hófst handa við uppskeruna var hann því búinn að taka við konungdómi en það gerðist árið 1914. (Dan. 7:13, 14) Honum er sagt að hefja uppskeruna einhvern tíma eftir það (sjá 15. vers). Jesús lýsir sömu atburðarás í dæmisögunni um hveitiuppskeruna en þar segir hann: „Kornskurðurinn er endir veraldar.“ Kornskurðartíminn og tímabilið, sem er nefnt endir veraldar, hefjast því samtímis, það er að segja árið 1914. Sjálf uppskerustörfin hefjast síðar á kornskurðartímanum. (Matt. 13:30, 39) Þegar við lítum um öxl sjáum við að uppskerustörfin hófust nokkrum árum eftir að Jesús tók völd sem konungur. Hann vann við að hreinsa andasmurða fylgjendur sína frá 1914 fram á fyrri hluta 1919. (Mal. 3:1-3; 1. Pét. 4:17) Uppskerustörfin hófust síðan á jörð árið 1919. Án tafar fól Jesús hinum nýskipaða trúa þjóni að sjá til þess að bræður okkar og systur skildu hve áríðandi boðunin væri. Lítum nánar á málið.

7. (a) Hvaða rannsókn sýndi bræðrum okkar fram á að það væri áríðandi að boða fagnaðarerindið? (b) Hvað voru bræður okkar hvattir til að gera?

7 Í júlí 1920 stóð í Varðturninum: „Rannsókn á Ritningunni leiðir í ljós að kirkjunni er veittur sá mikli heiður að flytja boðskap um ríki Guðs.“ Bræðurnir skildu til dæmis með hliðsjón af spádómsorðum Jesaja að það þurfti að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. (Jes. 49:6; 52:7; 61:1-3) Þeir vissu ekki hvernig ætti að koma því til leiðar en treystu að Jehóva myndi gera þeim það kleift. (Lestu Jesaja 59:1.) Bræður okkar skildu nú betur hve áríðandi var að boða fagnaðarerindið og voru hvattir til að auka boðunina. Hvaða áhrif hafði það?

8. Hvaða tvö meginatriði varðandi boðunina skildu bræður okkar árið 1921?

8 Í desember 1921 sagði í Varðturninum: „Þetta hefur verið besta ár í sögu okkar og fleiri hafa heyrt boðskap sannleikans árið 1921 en nokkru sinni fyrr.“ Síðan sagði: „Enn er margt ógert ... við skulum gera það með glöðu hjarta.“ Við tökum eftir að bræður okkar áttuðu sig á sömu tveim meginatriðum varðandi boðunina og Jesús sýndi postulunum fram á: Það er áríðandi að boða fagnaðarerindið og boðberarnir eru glaðir.

9. (a) Hvað sagði um uppskerustarfið í Varðturninum árið 1954 og hvers vegna? (b) Hvernig hefur boðberum fjölgað víða um lönd síðastliðin 50 ár? (Sjá yfirlitið „ Fjölgun boðbera víða um heim“.)

9 Boðunin jókst enn á fjórða áratugnum eftir að þjónar Guðs skildu að mikill múgur annarra sauða myndi taka við boðskapnum um ríkið. (Jes. 55:5; Jóh. 10:16; Opinb. 7:9) Það hafði þau áhrif að boðberum fagnaðarerindisins fjölgaði úr 41.000 árið 1934 í 500.000 árið 1953. Í Varðturninum 1. desember 1954 var réttilega dregin eftirfarandi ályktun: „Það er andi Jehóva og krafturinn í orði hans sem hefur skilað þessari miklu uppskeru út um allan heim.“ b – Sak. 4:6.

 

FJÖLGUN BOÐBERA VÍÐA UM HEIM

Land

1962

1987

2013

Ástralía

15.927

46.170

66.023

Brasilía

26.390

216.216

756.455

Frakkland

18.452

96.954

124.029

Ítalía

6.929

149.870

247.251

Japan

2.491

120.722

217.154

Mexíkó

27.054

222.168

772.628

Nígería

33.956

133.899

344.342

Filippseyjar

36.829

101.735

181.236

Bandaríkin

289.135

780.676

1.203.642

Sambía

30.129

67.144

162.370

 

BIBLÍUNÁMSKEIÐUM FJÖLGAR

1950

234.952

1960

646.108

1970

1.146.378

1980

1.371.584

1990

3.624.091

2000

4.766.631

2010

8.058.359

Spáð um uppskeruna í dæmisögum

10, 11. Hvað er dregið fram í dæmisögunni um mustarðskornið?

10 Jesús segir dæmisögur um ríkið til að lýsa uppskerunni með myndríku máli. Lítum á dæmisögurnar um mustarðskornið og um súrdeigið. Við beinum athyglinni sérstaklega að því hvernig þær hafa uppfyllst á endalokatímanum.

11 Dæmisagan um mustarðskornið. Maður sáir mustarðskorni. Það vex og verður að tré þar sem fuglar leita skjóls. (Lestu Matteus 13:31, 32.) Hvað dregur dæmisagan fram varðandi fræið og það sem vex af því? (1) Vöxturinn er með ólíkindum. Mustarðskornið er „smærra hverju sáðkorni“ en það vex og verður að tré með ‚stórum greinum‘. (Mark. 4:31, 32) (2) Það er öruggt að tréð vex. „Eftir að [sáðkorninu] er sáð tekur það að spretta.“ Jesús segir ekki að það spretti kannski heldur að það ‚taki að spretta‘. Vöxturinn er óstöðvandi. (3) Vaxandi tréð laðar að sér fugla og veitir þeim skjól. „Fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“ Hvernig á þetta þrennt við um uppskeruna nú á tímum?

12. Hvernig á dæmisagan um mustarðskornið við um uppskeruna nú á dögum? (Sjá einnig súluritið „ Biblíunámskeiðum fjölgar“.)

12 (1) Umfang: Dæmisagan lýsir útbreiðslu boðskaparins um ríkið og vexti kristna safnaðarins. Síðan 1919 hefur kappsömum uppskerumönnum verið safnað inn í kristna söfnuðinn. Verkamennirnir voru fáir á þeim tíma en þeim fjölgaði hratt. Vöxturinn frá því snemma á síðustu öld fram á okkar daga hefur verið ótrúlegur. (Jes. 60:22) (2) Öruggur vöxtur: Vöxtur kristna safnaðarins hefur verið óstöðvandi. Þrátt fyrir harða andstöðu af hendi óvina Guðs hefur þetta örsmáa fræ vaxið og ýtt öllum hindrunum úr vegi. (Jes. 54:17) (3) Skjól: „Fuglar himins“, sem hreiðra sig í greinum trésins, tákna milljónir hjartahreinna manna í um það bil 240 löndum sem hafa tekið við boðskapnum um ríkið og sameinast kristna söfnuðinum. (Esek. 17:23) Þar fá þeir andlega fæðu, endurnæringu og vernd. – Jes. 32:1, 2; 54:13.

Dæmisagan um mustarðskornið sýnir að þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum njóta skjóls og verndar. (Sjá greinar 11, 12.)

13. Hvað dregur dæmisagan um súrdeigið fram varðandi vöxtinn?

13 Dæmisagan um súrdeigið. Kona blandar súrdeigi í mjöl og það sýrir allt deigið. (Lestu Matteus 13:33.) Hvað dregur þessi dæmisaga fram varðandi vöxtinn? Við skulum líta á tvennt: (1) Vöxturinn veldur breytingu. Súrdeigið olli gerjun í deiginu „uns það sýrðist allt“. (2) Vöxturinn nær út um allt. Súrdeigið sýrði alla ‚þrjá mæla mjölsins‘. Hvernig á þetta tvennt við um uppskeruna nú á tímum?

14. Hvernig lýsir dæmisagan um súrdeigið uppskeru nútímans?

14 (1) Breytingin: Súrdeigið táknar boðskapinn um ríkið og mjölið táknar mannkynið. Boðskapurinn um ríki Guðs veldur breytingu í hjörtum einstaklinga eftir að þeir taka við boðskapnum, rétt eins og súrdeig breytir mjölinu eftir að þessu tvennu er blandað saman. (Rómv. 12:2) Súrdeigið (2) nær út um allt: Súrdeigið sýrir deigið og það lýsir útbreiðslu boðskaparins um ríkið. Súrdeigið vinnur á deiginu uns það hefur sýrt allt deigið eins og það leggur sig. Boðskapurinn um ríki Guðs hefur sömuleiðis náð „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) Þessi þáttur dæmisögunnar ber með sér að boðskapurinn um ríkið breiðist út um allt. Það gerist jafnvel í löndum þar sem starf okkar er bannað, þó svo að það beri ekki mikið á boðun okkar í þessum heimshlutum.

15. Hvernig hefur spádómurinn í Jesaja 60:5, 22 ræst? (Sjá einnig greinarnar „ Jehóva opnaði leiðina“ og „ Hvernig ‚hinn minnsti‘ varð að ‚voldugri þjóð‘“.)

15 Um 800 árum áður en Jesús sagði þessar dæmisögur sagði Jehóva fyrir á eftirminnilegan hátt hve umfangsmikil uppskera nútímans yrði og hvílíka gleði hún hefði í för með sér. c Jehóva lýsir fyrir munn Jesaja að fólk komi „langt að“ og streymi til safnaðar hans. Hann beinir orðum sínum til konu nokkurrar en hinir andasmurðu á jörð eru fulltrúar hennar. Hann segir: „Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði því að til þín hverfur auður hafsins og auðæfi þjóða berast þér.“ (Jes. 60:1, 4, 5, 9) Þetta eru orð að sönnu. Gamalreyndir þjónar Jehóva víða um lönd fyllast fögnuði þegar þeir sjá hve boðberum Guðsríkis hefur fjölgað úr fáeinum upp í þúsundir.

Hvers vegna hafa allir þjónar Jehóva ástæðu til að fagna?

16, 17. Nefndu eina ástæðu fyrir því að ‚sá sem sáir og sá sem upp sker‘ fagna saman. (Sjá einnig greinina „ Tvö smárit snertu hjörtu tveggja manna á Amasonsvæðinu“.)

16 Eins og þú manst sagði Jesús við postula sína: „Sá sem upp sker ... safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker.“ (Jóh. 4:36) Hvernig fögnum við saman þegar við vinnum að uppskerunni út um allan heim? Það er á nokkra vegu en hér skulum við líta á þrjá.

17 Í fyrsta lagi fögnum við að sjá þátt Jehóva í vextinum. Við sáum sáðkorni þegar við boðum boðskapinn um ríkið. (Matt. 13:18, 19) Við uppskerum þegar við hjálpum annarri manneskju að gerast lærisveinn Krists. Og við finnum öll fyrir djúpstæðri gleði þegar við fylgjumst með og dáumst að hvernig Jehóva lætur sáðkorn ríkis síns ‚gróa og vaxa‘. (Mark. 4:27, 28) Sum frækornin, sem við sáum, spíra og vaxa síðar og aðrir uppskera. Þú hefur kannski upplifað eitthvað svipað og Joan, bresk systir sem lét skírast fyrir 60 árum. Hún segir: „Ég hef hitt fólk sem sagði mér að ég hefði sáð frækorni í hjarta þess þegar ég boðaði því fagnaðarerindið fyrir mörgum árum. Aðrir vottar kenndu þeim síðar án þess að ég vissi af og hjálpuðu þeim að gerast þjónar Jehóva. Það gleður mig að frækornin, sem ég sáði, skuli hafa vaxið og gefið uppskeru.“ – Lestu 1. Korintubréf 3:6, 7.

18. Hvaða ástæða til að gleðjast er nefnd í 1. Korintubréfi 3:8?

18 Í öðru lagi erum við glaðir verkamenn ef við höfum í huga að „sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu“, eins og Páll sagði. (1. Kor. 3:8) Launin fara eftir erfiðinu en ekki árangrinum. Það er hughreystandi fyrir þá sem boða fagnaðarerindið á svæðum þar sem fáir hlusta. Hver einasti vottur ber „mikinn ávöxt“ í augum Guðs ef hann tekur heilshugar þátt í sáningunni, og hann hefur þess vegna ástæðu til að gleðjast og fagna. – Jóh. 15:8; Matt. 13:23.

19. (a) Hvernig stuðlar spádómur Jesú í Matteusi 24:14 að gleði okkar? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast jafnvel þó að okkur takist ekki sjálfum að gera einhvern að lærisveini?

19 Í þriðja lagi fögnum við vegna þess að starf okkar er uppfylling á biblíuspádómi. Hverju svaraði Jesús þegar postularnir spurðu hann: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ Hann sagði þeim að þeir myndu meðal annars sjá það af því að fagnaðarerindið yrði boðað um allan heim. Átti hann þá við að gera fólk að lærisveinum? Nei, hann sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það.“ (Matt. 24:3, 14) Boðunin – sjálf sáningin – var eitt af merkjunum sem hann spáði. Þegar við boðum fagnaðarerindið um ríkið höfum við því hugfast að við gefum fólki tækifæri til að „heyra“ fagnaðarerindið jafnvel þó að okkur takist ekki að gera einhvern að lærisveini. d Óháð því hvernig fólk bregst við boðuninni tökum við þátt í að uppfylla spádóm Jesú og höfum þann heiður að vera „samverkamenn Guðs“. (1. Kor. 3:9) Það er sannarlega ástæða til að gleðjast og fagna.

„Frá sólarupprás til sólarlags“

20, 21. (a) Hvernig rætist Malakí 1:11? (b) Hvernig ætlar þú að leggja hönd á plóginn við uppskeruna og hvers vegna?

20 Jesús sýndi postulum sínum á fyrstu öld fram á að það væri áríðandi að vinna að uppskerunni. Hið sama hefur verið uppi á teningnum síðan 1919. Jesús hefur líka hjálpað fylgjendum sínum á okkar tímum að átta sig á hve áríðandi boðunin er. Fyrir vikið hafa þjónar Guðs hert sig við boðunina. Uppskerustarfið hefur verið óstöðvandi. Eins og Malakí spámaður boðaði er unnið að uppskerunni núna „frá sólarupprás til sólarlags“. (Mal. 1:11) Þeir sem sá og þeir sem uppskera starfa saman og gleðjast saman frá sólarupprás til sólarlags, frá austri til vesturs hvar sem þeir eru staddir á jörðinni. Við störfum líka af kappi myrkranna á milli – frá sólarupprás til sólarlags.

21 Hjörtu okkar „slá hraðar og fyllast fögnuði“ þegar við horfum um öxl og sjáum hvernig sá fámenni hópur þjóna Guðs, sem var fyrir 100 árum, er orðinn að „voldugri þjóð“. (Jes. 60:5, 22) Megi þessi gleði og kærleikur okkar til Jehóva, ‚Drottins uppskerunnar‘, vera hverju og einu okkar hvatning til að leggja okkar af mörkum við að ljúka mestu uppskeru sögunnar. – Lúk. 10:2.

a Samkvæmt frummálinu talaði Jesús um að akrarnir væru „hvítir til uppskeru“. Hugsanlegt er að Samverjarnir, sem Jesús sá nálgast, hafi klæðst hvítum skikkjum og hann hafi vísað óbeint til þess.

b Til að kynna þér betur þetta tímabil og næstu áratugi á eftir hvetjum við þig til að lesa bls. 425-520 í bókinni Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom. Þar segir frá uppskerustarfinu sem unnið var á árunum 1919 til 1992.

c Nánari upplýsingar um þennan myndræna spádóm er að finna í bókinni Spádómur Jesaja – ljós handa öllu mannkyni, 2. bindi, bls. 303-320.

d Biblíunemendurnir skildu þetta snemma. Í Varðturni Síonar 15. nóvember 1895 stóð: „Þótt ekki takist að safna nema litlu hveiti er að minnsta kosti hægt að vitna ríkulega um sannleikann ... Allir geta boðað fagnaðarerindið.“