Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

10KAFLI

Konungurinn hreinsar þjóna sína trúarlega

Konungurinn hreinsar þjóna sína trúarlega

Í ÞESSUM KAFLA

Jesús hefur fágað og hreinsað fylgjendur sína trúarlega. Hvernig og hvers vegna?

1-3. Hvað gerði Jesús þegar hann horfði upp á spillinguna sem átti sér stað í musterinu?

 JESÚS bar mikla virðingu fyrir musterinu í Jerúsalem því að hann vissi hvaða hlutverki það þjónaði. Musterið hafði lengi verið miðstöð sannrar tilbeiðslu á jörð. En tilbeiðslan á hinum heilaga Guði Jehóva þurfti að vera hrein. Hugsaðu þér hvernig Jesú hlýtur að hafa verið innanbrjósts þegar hann kom í musterið hinn 10. nísan árið 33 og horfði upp á spillinguna sem átti sér stað. Hvað var um að vera? – Lestu Matteus 21:12, 13.

2 Ágjarnir kaupmenn og víxlarar höfðu komið sér fyrir í forgarði heiðingjanna. Þeir misnotuðu sér aðstöðu sína og græddu á fólki sem kom til að færa Jehóva fórnir. a Jesús „rak út alla sem voru að selja þar og kaupa“. Hann „hratt um borðum víxlaranna“ og fordæmdi þessa eigingjörnu menn fyrir að gera hús föður síns að „ræningjabæli“. (Samanber Nehemíabók 13:7-9.) Þannig sýndi Jesús virðingu fyrir musterinu og því hlutverki sem það þjónaði. Tilbeiðslan á föður hans varð að vera hrein.

3 Öldum síðar, eftir að Jesús tók völd sem konungur, hreinsaði hann musteri á nýjan leik. Allir sem vilja tilbiðja Jehóva á réttan hátt gera það í þessu musteri. Um hvaða musteri er að ræða?

Að hreinsa „syni Leví“

4, 5. (a) Hvernig voru andasmurðir fylgjendur Jesú hreinsaðir og fágaðir frá 1914 fram á fyrri hluta árs 1919? (b) Var hreinsun þjóna Guðs og fágun þá lokið? Skýrðu svarið.

4 Eins og fram kom í 2. kafla þessarar bókar kom Jesús með föður sínum til að rannsaka andlega musterið eftir að hann tók völd sem konungur árið 1914. Andlega musterið er það fyrirkomulag sem Jehóva hefur gert til að við getum tilbeðið hann á réttan hátt. b Rannsóknin leiddi í ljós að hinir andasmurðu, ‚synir Leví‘, þurftu að hreinsast. (Mal. 3:1-3) Jehóva leyfði að þjónar sínir gengju í gegnum ýmsar prófraunir og erfiðleika frá 1914 fram á fyrri hluta árs 1919 til að hreinsa þá og fága. Eldraunin hreinsaði hina andasmurðu og þeir voru nú óðfúsir að styðja konunginn Messías.

5 Var þá búið að hreinsa og fága þjóna Guðs endanlega? Nei. Fyrir atbeina konungsins Messíasar hefur Jehóva hjálpað þjónum sínum jafnt og þétt að vera hreinir svo að þeir fengju að þjóna honum áfram í andlega musterinu. Í næstu tveim köflum skoðum við hvernig hann hefur hreinsað þá og fágað siðferðilega og skipulagslega allt frá því að síðustu dagar hófust. En fyrst skulum við ræða um trúarlega hreinsun þeirra. Það styrkir trúna að sjá hvað Jesús hefur gert, bæði með augljósum hætti og bak við tjöldin, til að hjálpa fylgjendum sínum að vera trúarlega hreinir.

„Hreinsið yður“

6. Hvað er fólgið í því að vera trúarlega hreinn, samanber fyrirmæli Jehóva til útlægra Gyðinga?

6 Hvað er trúarlegur hreinleiki? Til að svara því skulum við líta á það sem Jehóva sagði við útlæga Gyðinga sem voru í þann mund að yfirgefa Babýlon á sjöttu öld f.Kr. (Lestu Jesaja 52:11.) Útlagarnir sneru heim til Jerúsalem fyrst og fremst til að endurreisa musterið og sanna tilbeiðslu. (Esra. 1:2-4) Jehóva vildi ekki að þjónar sínir tækju með sér snefil af trúardýrkun Babýlonar. Fyrirmælin, sem hann gaf þeim, voru þríþætt: „Snertið ekkert óhreint, haldið burt frá borginni“ og „hreinsið yður“. Hin hreina tilbeiðsla á Jehóva má ekki vera smituð af falskri trúardýrkun. Hver er þá niðurstaðan? Að vera trúarlega hreinn er fólgið í því að vera laus við kenningar og siði falskra trúarbragða.

7. Hvaða boðleið hefur Jesús notað til að hjálpa fylgjendum sínum að vera trúarlega hreinir?

7 Skömmu eftir að Jesús tók völd sem konungur valdi hann augljósa boðleið sem hann hefur notað til að hjálpa fylgjendum sínum að vera trúarlega hreinir. Þessi boðleið er trúi og hyggni þjónninn sem Kristur skipaði til starfa árið 1919. (Matt. 24:45) Biblíunemendurnir voru þá búnir að losa sig við margar falstrúarkenningar. En þeir þurftu að hreinsast betur. Fyrir milligöngu trúa þjónsins hefur Kristur smám saman upplýst fylgjendur sína um ýmsar hátíðir og trúarsiði sem þeir þurftu að segja skilið við. (Orðskv. 4:18) Lítum á nokkur dæmi.

Eiga kristnir menn að halda jól?

8. Hvað vissu Biblíunemendurnir snemma varðandi jólin en á hverju áttuðu þeir sig ekki?

8 Biblíunemendurnir vissu snemma að jólin voru heiðin að uppruna og að Jesús fæddist ekki 25. desember. Í desember 1881 stóð í Varðturni Síonar: „Milljónir manna komu inn í kirkjuna úr heiðni. En breytingin var aðallega að nafninu til því að heiðnir prestar urðu kristnir prestar og heiðnar hátíðir fengu kristin nöfn. Jólin voru ein þeirra.“ Árið 1883 birtist grein í Varðturninum sem hét: „Hvenær fæddist Jesús?“ Þar voru færð rök fyrir því að Jesús hefði fæðst í byrjun október. c En Biblíunemendurnir áttuðu sig ekki á því á þeim tíma að þeir þyrftu að hætta að halda jól. Betelfjölskyldan í Brooklyn hélt meira að segja áfram að halda jól. En það breyttist upp úr 1926. Hvers vegna?

9. Að hvaða niðurstöðu komust Biblíunemendurnir varðandi jólin?

9 Eftir að hafa rannsakað málið vandlega komust Biblíunemendurnir að þeirri niðurstöðu að jólin og jólahefðirnar köstuðu í rauninni rýrð á Guð. Í blaðinu The Golden Age 14. desember 1927 birtist grein sem hét „Uppruni jólanna“. Þar kom fram að jólin væru heiðin hátíð, þau snerust um gleðskap og fælu í sér skurðgoðadýrkun. Tekið var fram í greininni að jólin væru ekki haldin að boði Krists, og henni lauk með þessum hnitmiðuðu orðum: „Staðreyndin er sú að heimurinn, holdið og djöfullinn eru fylgjandi því að halda þessa hátíð og viðhalda henni. Það eru eindregin og endanleg rök gegn því að þeir sem hafa helgað líf sitt Jehóva haldi jól.“ Það kemur ekki á óvart að Betelfjölskyldan hélt ekki jól í desember það ár – né nokkru sinni framar.

10. (a) Hvernig var jólahátíðin afhjúpuð rækilega í desember 1928? (Sjá einnig „ Uppruni og tilgangur jólanna“.) (b) Hvernig var þjónum Guðs bent á aðrar hátíðir og helgidaga sem þeir áttu að forðast? (Sjá „ Aðrir helgidagar og hátíðahöld afhjúpuð“ á bls. 105.)

10 Árið eftir voru jólin afhjúpuð með enn skýrari hætti. Bróðir Richard H. Barber, sem starfaði við aðalstöðvarnar, flutti útvarpserindi hinn 12. desember 1928 þar sem sýnt var fram á óhreinan uppruna þessarar hátíðar. Hvernig brugðust þjónar Guðs við þessum skýru leiðbeiningum frá aðalstöðvunum? Bróðir Charles Brandlein rifjar upp hvernig var fyrir hann og fjölskyldu hans að hætta að halda jól: „Þótti okkur miður að hætta að halda þessa heiðnu siði? Alls ekki ... Það var eins og að fara úr óhreinni flík og henda henni.“ Bróðir Henry A. Cantwell, sem síðar var farandhirðir, tók í sama streng: „Við vorum ánægð að geta sagt skilið við svona lagað til að sanna að við elskuðum Jehóva.“ Dyggir fylgjendur Krists voru fúsir til að gera nauðsynlegar breytingar og koma ekki nálægt hátíð sem átti uppruna sinn í óhreinni guðsdýrkun. d – Jóh. 15:19; 17:14.

11. Hvernig getum við sýnt að við styðjum konunginn Messías?

11 Þessir trúu biblíunemendur eru okkur góð fyrirmynd. Þegar við íhugum fordæmi þeirra ættum við að spyrja okkur: Hvernig lít ég á leiðbeiningarnar sem við fáum frá aðalstöðvunum? Er ég þakklátur fyrir þær og fer ég eftir þeim? Með því að hlýða fúslega styðjum við konunginn Messías en hann hefur falið hinum trúa þjóni að útbýta andlegri fæðu á réttum tíma. – Post. 16:4, 5.

Eiga kristnir menn að nota krossinn?

Kross- og kórónumerkið. (Sjá greinar 12 og 13.)

12. Hvernig litu Biblíunemendurnir á krossinn árum saman?

12 Árum saman töldu Biblíunemendurnir að krossinn væri viðeigandi tákn kristninnar. Þeir hugsuðu auðvitað ekki sem svo að þeir ættu að dýrka krossinn því að þeir vissu að það var rangt að dýrka skurðgoð. (1. Kor. 10:14; 1. Jóh. 5:21) Árið 1883 stóð blátt áfram í Varðturninum að „Guð hefði viðbjóð á allri skurðgoðadýrkun“. Í fyrstu sáu Biblíunemendurnir þó ekkert athugavert við að nota krossinn á viðeigandi hátt eins og þeir hugsuðu það. Þeir báru til dæmis nælu með krossi og kórónu og litu á hana sem nokkurs konar auðkenni. Þeir voru stoltir af því að bera hana og í hugum þeirra var hún tákn þess að þeir myndu hljóta kórónu lífsins ef þeir reyndust trúir allt til dauða. Árið 1891 var kross- og kórónumerki sett á forsíðu Varðturnsins.

13. Hvernig voru fylgjendur Krists upplýstir um krossinn og notkun hans? (Sjá einnig „ Upplýstir smám saman um notkun krossins“ á bls. 105.)

13 Biblíunemendunum þótti vænt um kross- og kórónumerkið. En nokkru fyrir 1930 var farið að upplýsa fylgjendur Krists markvisst um krossinn og notkun hans. Bróðir Grant Suiter, sem sat síðar í hinu stjórnandi ráði, rifjar upp það sem kom fram á móti í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum árið 1928: „Á mótinu var sýnt fram á að kross- og kórónumerkið væri ekki aðeins óþarft heldur beinlínis fráhrindandi.“ Á næstu árum var fjallað nánar um málið. Það var ljóst að krossinn átti alls ekki heima í hreinni guðsdýrkun.

14. Hvernig tóku þjónar Guðs þeim upplýsingum sem þeir fengu smám saman um krossinn?

14 Hvernig tóku þjónar Guðs þeim upplýsingum sem þeir fengu smám saman um krossinn? Héldu þeir áfram að nota kross- og kórónumerkið sem hafði verið þeim svo kært? „Við hættum fúslega að nota það þegar við skildum hvað það táknaði,“ sagði gamalreyndur þjónn Jehóva, Lela Roberts að nafni. Önnur trúföst systir, Ursula Serenco, talaði fyrir munn margra þegar hún sagði: „Við töldum einu sinni að krossinn táknaði dauða Drottins og kristna hollustu okkar en áttuðum okkur svo á að hann var í rauninni heiðið tákn. Við vorum þakklát fyrir að gata okkar varð sífellt bjartari, rétt eins og segir í Orðskviðunum 4:18.“ Dyggir fylgjendur Krists vildu ekki koma nálægt neinu sem var sótt í óhreina falstrú.

15, 16. Hvernig getum við sýnt að við séum staðráðin í að halda jarðneskum forgörðum andlegs musteris Jehóva hreinum?

15 Við erum sama sinnis. Við vitum og viðurkennum að Kristur hefur notað skýra og greinilega boðleið – hinn trúa og hyggna þjón – til að hjálpa fylgjendum sínum að vera trúarlega hreinir. Þegar hinn trúi þjónn varar okkur við hátíðum, siðum eða venjum, sem eru smitaðar af falstrú, drögum við ekki að hlýða leiðbeiningunum. Við erum staðráðin í að halda jarðneskum forgörðum andlegs musteris Jehóva hreinum, rétt eins og bræður okkar og systur sem voru uppi snemma á nærverutíma Krists.

16 Kristur hefur einnig unnið bak við tjöldin núna á síðustu dögum til að vernda söfnuðina fyrir fólki sem gæti haft spillandi áhrif. Hvernig hefur hann gert það? Lítum nánar á málið.

Þeir „skilja vonda menn frá réttlátum“

17, 18. Hvað táknar eftirfarandi í dæmisögunni um netið: (a) að leggja netið í sjó, (b) að safna alls konar fiski, (c) að safna góðu fiskunum í ker og (d) að kasta burt óætu fiskunum?

17 Konungurinn Jesús Kristur hefur vakandi auga með söfnuðum þjóna Guðs út um allan heim. Hann og englarnir hafa verið að aðgreina fólk þó að við skiljum ekki nema að takmörkuðu leyti hvernig það fer fram. Jesús lýsti þessu í dæmisögunni um netið. (Lestu Matteus 13:47-50.) Hvað merkir dæmisagan?

Netið táknar boðun fagnaðarerindisins og sjórinn táknar allt mannkynið sem fær að heyra boðskapinn. (Sjá grein 18.)

18 ‚Net sem lagt er í sjó.‘ Netið táknar boðun fagnaðarerindisins og sjórinn táknar allt mannkynið sem fær að heyra boðskapinn. Netið „safnar alls kyns fiski“. Fagnaðarerindið laðar að alls konar fólk, bæði þá sem gera það sem þarf til að verða sannkristnir og einnig marga sem sýna einhvern áhuga í byrjun en taka aldrei eindregna afstöðu með hreinni tilbeiðslu. e „Safna þeim góðu í ker.“ Þeim sem eru einlægir er safnað í ker sem tákna söfnuðina og þar geta þeir tilbeðið Jehóva í hreinleika. „Óætu“ fiskunum kastað burt. Á síðustu dögum hafa Kristur og englarnir skilið „vonda menn frá réttlátum“. f Þeir sem eru ekki einlægir, og vilja kannski ekki sleppa röngum trúarskoðunum eða siðum, hafa því ekki fengið að menga söfnuðina. g

19. Hvað finnst þér um það sem Kristur hefur gert til að standa vörð um hreinleika þjóna Guðs og sannrar tilbeiðslu?

19 Er ekki traustvekjandi til þess að vita að konungurinn Jesús Kristur verndar þá sem hann hefur umsjón með? Og er það ekki hughreystandi að hann skuli hafa jafn brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu – og sönnum tilbiðjendum – eins og hann hafði þegar hann hreinsaði musterið á fyrstu öld? Við erum innilega þakklát fyrir að Kristur skuli hafa gætt þess vel að þjónar Guðs séu hreinir og hin sanna tilbeiðsla sömuleiðis. Við getum sýnt að við styðjum konunginn og ríki hans með því að eiga engin tengsl við falstrú.

a Aðkomnir Gyðingar þurftu að nota ákveðinn gjaldmiðil til að greiða hið árlega musterisgjald og víxlararnir tóku þóknun fyrir að skipta peningunum. Gestir þurftu ef til vill einnig að kaupa dýr til að fórna. Jesús kallaði kaupmennina „ræningja“, líklega vegna þess að þeir okruðu á fólki.

b Þjónar Jehóva á jörð tilbiðja hann í jarðneskum forgörðum hins mikla andlega musteris.

c Í greininni var bent á að sú hugmynd að Jesús hafi fæðst um vetur „samræmist illa frásögninni af fjárhirðum sem voru með hjarðir úti í haga“. – Lúk. 2:8.

d Bróðir Frederick W. Franz sagði í einkabréfi dagsettu 14. nóvember 1927: „Við höldum engin jól á þessu ári. Betelfjölskyldan hefur ákveðið að halda ekki jól héðan í frá.“ Fáeinum mánuðum síðar, í bréfi dagsettu 6. febrúar 1928, skrifaði bróðir Franz: „Drottinn er smám saman að hreinsa okkur af trúvillu Babýlonar djöfulsins.“

e Til hliðsjónar má nefna að árið 2013 voru boðberar flestir 7.965.954 en 19.241.252 sóttu hina árlegu minningarhátíð um dauða Krists.

f Að safna góðu fiskunum en henda þeim óætu er ekki það sama og að aðgreina sauðina og hafrana. (Matt. 25:31-46) Aðgreining sauðanna og hafranna, lokadómurinn yfir þeim, á sér stað í þrengingunni miklu sem er fram undan. Þangað til geta þeir sem óætu fiskarnir tákna snúið aftur til Jehóva og fengið að tilheyra einum af söfnuðunum sem kerin tákna. – Mal. 3:7.

g Að síðustu er þeim sem óætu fiskarnir tákna kastað í táknrænan eldsofn sem lýsir því að þeim verði eytt.