Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

16. KAFLI

Við söfnumst saman til að tilbiðja Guð

Við söfnumst saman til að tilbiðja Guð

Í ÞESSUM KAFLA

Samkomurnar eru okkur mikilvægar. Hér er rakið hvernig þær hafa þróast.

1. Hvaða hjálp fengu lærisveinarnir þegar þeir söfnuðust saman og hvers vegna þurftu þeir á henni að halda?

 LÆRISVEINARNIR söfnuðust saman skömmu eftir upprisu Jesú til að uppörva hver annan. Þeir læstu þó að sér af því að þeir óttuðust óvini sína. Mikið hlýtur þeim að hafa létt þegar Jesús birtist mitt á meðal þeirra og sagði: „Meðtakið heilagan anda.“ (Lestu Jóhannes 20:19-22.) Nokkru síðar komu lærisveinarnir saman á nýjan leik og Jehóva úthellti heilögum anda yfir þá. Það styrkti þá ekki lítið fyrir boðunina sem þeir áttu fyrir höndum. – Post. 2:1-7.

2. (a) Hvernig styrkir Jehóva okkur og hvers vegna þurfum við á því að halda? (b) Hvers vegna er tilbeiðslustund fjölskyldunnar mikilvæg? (Sjá neðanmálsgrein og greinina „ Tilbeiðslustund fjölskyldunnar“.)

2 Við stöndum að sumu leyti í svipuðum sporum og trúsystkini okkar á fyrstu öld. (1. Pét. 5:9) Stundum erum við kannski hrædd við menn. Og til að halda ótrauð áfram að boða fagnaðarerindið þurfum við að fá styrk frá Jehóva. (Ef. 6:10) Við fáum þennan styrk að miklu leyti á samkomum. Sem stendur getum við sótt tvær fræðandi samkomur í viku. Þetta eru opinberi fyrirlesturinn og Varðturnsnámið og svo samkoma um miðja vikuna sem nefnist Líf okkar og boðun. a Auk þess sækjum við á hverju ári umdæmismót, tvö svæðismót og minningarhátíðina um dauða Krists. Hvers vegna er mikilvægt að sækja allar þessar samkomur? Hvernig tóku samkomurnar á sig þá mynd sem við þekkjum núna? Hvernig lítum við á samkomurnar og hvað segir það um okkur?

Hvers vegna höldum við samkomur?

3, 4. Hvaða kröfu gerir Jehóva til þjóna sinna? Nefndu dæmi.

3 Jehóva hefur lengi gert þá kröfu til þjóna sinna að þeir safnist saman til að tilbiðja hann. Árið 1513 f.Kr. gaf hann Ísraelsmönnum lögmálið, og þar var ákvæði um vikulegan hvíldardag. Fjölskyldur áttu að nota daginn til að tilbiðja hann og fræðast um lögmál hans. (5. Mós. 5:12; 6:4-9) Þegar þjóðin hlýddi þessu ákvæði styrkti það fjölskyldurnar, þjóðin í heild var hrein í augum Guðs og sterk í trúnni. Ísraelsmenn misstu hins vegar velþóknun Jehóva þegar þeir fóru ekki eftir lögmálinu, svo sem ákvæðinu um að safnast reglulega saman til að tilbiðja hann. – 3. Mós. 10:11; 26:31-35; 2. Kron. 36:20, 21.

4 Við getum líka dregið lærdóm af Jesú. Hann var vanur að fara í samkunduhúsið á hvíldardeginum í hverri viku. (Lúk. 4:16) Eftir að Jesús var dáinn og upprisinn héldu lærisveinar hans áfram þeirri venju að safnast saman reglulega þó að hvíldardagslögin væru fallin úr gildi. (Post. 1:6, 12-14; 2:1-4; Rómv. 14:5; Kól. 2:13, 14) Kristnir menn á fyrstu öld fengu fræðslu og uppörvun á þessum samkomum, og jafnframt því færðu þeir Guði lofgerðarfórnir með söng, bænum og tilsvörum sínum. – Kól. 3:16; Hebr. 13:15.

Lærisveinar Jesú söfnuðust saman til að styrkja og uppörva hver annan.

5. Hvers vegna sækjum við samkomur í hverri viku og mót þrisvar á ári? (Sjá einnig greinina „ Árleg mót sem sameina þjóna Guðs“.)

5 Þegar við sækjum samkomur í hverri viku og mótin þrisvar á ári fáum við líka styrk heilags anda, hvetjum hvert annað með því að tjá trú okkar og sýnum að við styðjum ríki Guðs. Við fáum tækifæri til að tilbiðja Jehóva með bænum okkar, svörum og söng, og það er ekki síður mikilvægt. Samkomurnar eru ekki endilega með sama sniði og var hjá Ísraelsmönnum og hjá kristnum mönnum á fyrstu öld, en þær eru jafn mikilvægar. Hvernig tóku samkomurnar á sig þá mynd sem við þekkjum núna?

Vikulegar samkomur sem hvetja til „kærleika og góðra verka“

6, 7. (a) Hvaða markmiði þjóna samkomurnar? (b) Hvernig voru samkomur skipulagðar með ólíkum hætti frá einum hópi til annars?

6 Þegar bróðir Charles Taze Russell tók að leita að sannleikanum í orði Guðs gerði hann sér grein fyrir að hann þyrfti að hitta aðra sem höfðu sama markmið. Hann skrifaði árið 1879: „Ásamt fleirum í Pittsburgh skipulagði ég og hélt utan um leshóp til að rannsaka Biblíuna. Við hittumst á hverjum sunnudegi.“ Lesendur Varðturns Síonar voru hvattir til að hittast, og árið 1881 voru haldnar samkomur í Pittsburgh í Pennsylvaníu alla sunnudaga og miðvikudaga. Í nóvember 1895 sagði í Varðturninum að markmiðið með samkomunum væri að efla „kristinn félagsskap, kærleika og samfélag“ og gefa viðstöddum tækifæri til að uppörva hver annan. – Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.

7 Árum saman voru samkomurnar haldnar misoft frá einum hópi biblíunemenda til annars, og voru með misjöfnu sniði. Sem dæmi má nefna að í bréfi frá hópi í Bandaríkjunum, sem var birt árið 1911, sagði: „Við höldum að minnsta kosti fimm samkomur í viku.“ Þær voru haldnar á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og tvisvar á sunnudögum. Árið 1914 var birt bréf frá hópi í Afríku. Þar sagði: „Við höldum samkomur tvisvar í mánuði. Þær hefjast á föstudegi og standa fram á sunnudag.“ Með tíð og tíma tóku samkomurnar þó á sig þá mynd sem við þekkjum núna. Við skulum fara í stuttu máli yfir sögu hverrar samkomu fyrir sig.

8. Um hvaða mál var meðal annars fjallað í ræðum snemma í sögu safnaðarins?

8 Opinber fyrirlestur. Árið 1880, árið eftir að bróðir Russell hóf útgáfu Varðturns Síonar, lagði hann upp í boðunarferð að fyrirmynd Jesú. (Lúk. 4:43) Á ferð sinni gaf hann fyrirmyndina að opinbera fyrirlestrinum eins og við þekkjum hann. Þegar tilkynnt var um ferð Russells í Varðturninum sagði að hann „myndi fúslega flytja ræður á almennum samkomum um mál sem varða ríki Guðs“. Árið 1911, eftir að stofnaðir höfðu verið söfnuðir í allmörgum löndum, voru þeir hvattir til að senda út góða ræðumenn til nærliggjandi svæða og flytja sex ræður sem fjölluðu um efni á borð við dóm Guðs og lausnargjaldið. Í lok hverrar ræðu var tilkynnt hver myndi flytja ræðu í vikunni á eftir og hvað hún héti.

9. Hvernig hafa opinberu fyrirlestrarnir breyst með árunum og hvað geturðu gert til að sem flestir hafi gagn af þeim?

9 Árið 1945 var tilkynnt í Varðturninum að gert yrði átak til að flytja opinbera fyrirlestra um allan heim. Fyrirlestrarnir voru átta og fjölluðu um „aðkallandi vandamál samtímans“. Áratugum saman fluttu ræðumenn ekki aðeins fyrirlestra byggða á efni sem hinn trúi þjónn lét í té heldur einnig um efni að eigin vali. En árið 1981 voru allir ræðumenn beðnir að byggja ræður sínar á uppköstum sem söfnuðirnir fengu send. b Fram að 1990 var gert ráð fyrir þátttöku áheyrenda eða sýnikennslu í sumum opinberum fyrirlestrum, en það ár voru gefnar nýjar leiðbeiningar og þaðan í frá átti að flytja þá eingöngu sem ræður. Í janúar 2008 varð sú breyting að ræðurnar voru styttar úr 45 mínútum í hálftíma. Vel undirbúnir fyrirlestrar styrkja enn þá trúna á orð Guðs og fræða okkur um margt sem varðar ríki hans, þó svo að þeir hafi breyst á ýmsan hátt með árunum. (1. Tím. 4:13, 16) Ertu duglegur að bjóða öðrum, þar á meðal þeim sem þú heimsækir og sýna áhuga, að hlusta á þessa mikilvægu, biblíutengdu fyrirlestra?

10-12. (a) Hvaða breytingar hafa orðið á Varðturnsnáminu? (b) Hvaða spurninga ættirðu að spyrja þig?

10 Varðturnsnám. Árið 1922 hvöttu svonefndir pílagrímar til þess að haldnar væru samkomur reglulega til að fara yfir efni í Varðturninum, en pílagrímarnir voru bræður sem Varðturnsfélagið sendi til safnaðanna til að flytja fyrirlestra og fara með forystu í boðuninni. Söfnuðirnir gerðu eins og hvatt var til og í fyrstu fór Varðturnsnámið fram annaðhvort í miðri viku eða á sunnudögum.

Varðturnsnám í Gana árið 1931.

11 Í Varðturninum 15. júní 1932 voru gefnar nánari leiðbeiningar um þessa samkomu. Yfirferðin, sem fram fór á Betelheimilinu, var höfð til fyrirmyndar. Í greininni sagði að bróðir ætti að stjórna samkomunni. Þrír bræður gátu setið fremst í salnum og skipst á að lesa efnisgreinarnar. Á þeim tíma voru ekki birtar námsspurningar í blaðinu og stjórnandinn átti að biðja áheyrendur að varpa fram spurningum um efnið. Fólk fékk síðan tækifæri til að svara spurningunum. Ef nánari skýringa var þörf var stjórnandanum bent á að gefa „stutta og hnitmiðaða“ skýringu.

12 Í fyrstu mátti hver söfnuður velja það tölublað sem flestir vildu fara yfir. Hinn 15. apríl 1933 var hins vegar lagt til í Varðturninum að allir söfnuðir notuðu nýjasta tölublaðið. Árið 1937 kom fram að námið skyldi fara fram á sunnudögum. Samkoman tók svo á sig núverandi mynd með leiðbeiningum sem birtust í blaðinu 1. október 1942. Tilkynnt var að spurningar yrðu birtar með námsgreinunum neðst á hverri síðu og þær ætti að nota þegar farið væri yfir efnið. Síðan sagði að samkoman ætti að taka eina klukkustund. Viðstaddir voru hvattir til að tjá sig „með eigin orðum“ en ekki lesa svarið beint upp úr greininni. Varðturnsnámið er enn þann dag í dag sú samkoma sem hinn trúi þjónn notar fyrst og fremst til að gefa okkur andlega fæðu á réttum tíma. (Matt. 24:45) Býrðu þig undir Varðturnsnámið í hverri viku? Og reynirðu að taka þátt í umræðunum ef kostur er?

13, 14. (a) Lýstu sögu safnaðarbiblíunámsins. (b) Hvað finnst þér ánægjulegt við þessa samkomu?

13 Safnaðarbiblíunám. Upp úr 1890 var búið að gefa út nokkur bindi í bókaröðinni Millennial Dawn (Dögun þúsundáraríkisins). Bróðir H. N. Rahn var biblíunemandi sem bjó í borginni Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum. Hann lagði til að stofnaðir væru biblíunámshópar sem hann kallaði „dögunarhópa“. Hóparnir hittust gjarnan á einkaheimilum og þessar samkomur voru nokkurs konar tilraun í fyrstu. Í september 1895 var búið að stofna dögunarhópa í mörgum borgum Bandaríkjanna. Í Varðturninum þann mánuð var lagt til að allir biblíunemendur héldu slíkar samkomur. Í blaðinu sagði að námsstjórinn ætti að vera góður lesari. Hann átti að lesa eina málsgrein og bíða síðan eftir að viðstaddir tjáðu sig um hana. Eftir að hafa lesið og rætt heila efnisgrein, málsgrein fyrir málsgrein, átti hann að fletta upp í Biblíunni og lesa versin sem vísað var til. Í lok hvers kafla áttu allir viðstaddir að gefa stutt yfirlit yfir efnið.

14 Samkoman hefur breytt um nafn nokkrum sinnum. Einu sinni var hópurinn kallaður Bereuhópur til biblíunáms og vísaði það til Berojumanna á fyrstu öld sem rannsökuðu ritningarnar vandlega. (Post. 17:11) Síðar breyttist nafnið í safnaðarbóknám. Nú nefnist það safnaðarbiblíunám og er haldið fyrir allan söfnuðinn í ríkissalnum en ekki í smærri hópum á einkaheimilum. Á liðnum áratugum hefur námsefnið verið sótt í ýmsar bækur, bæklinga og meira að segja greinar í Varðturninum. Allt frá upphafi hafa allir viðstaddir verið hvattir til að taka þátt í umræðunum. Þessi samkoma hefur hjálpað okkur mikið að bæta við biblíuþekkingu okkar. Býrðu þig að jafnaði undir þessa samkomu og tekurðu þátt í henni eftir bestu getu?

15. Hvert var hlutverk Boðunarskólans?

15 Boðunarskóli. „Mánudagskvöldið 16. febrúar 1942 var öllum bræðrum í Betelfjölskyldunni í Brooklyn boðið að skrá sig á námskeið sem var síðar kallað Boðunarskólinn.“ Carey Barber, sem starfaði við aðalstöðvarnar í New York á þeim tíma, sagði frá þessu en hann sat löngu síðar í hinu stjórnandi ráði. Hann sagði að skólinn væri „eitthvað það besta sem Jehóva hefur gert fyrir þjóna sína á síðari tímum“. Námskeiðið heppnaðist mjög vel. Bræðurnir tóku þvílíkum framförum í boðunar- og kennslutækni að frá 1943 var bæklingi, sem nefndist Course in Theocratic Ministry, dreift smám saman til safnaðanna. Hinn 1. júní 1943 stóð í Varðturninum að Boðunarskólinn hefði það hlutverk að kenna þjónum Guðs svo að þeir yrðu „betri boðberar og vottar Guðsríkis“. – 2. Tím. 2:15.

16, 17. Lærði fólk aðeins ræðu- og kennslutækni í Boðunarskólanum? Skýrðu svarið.

16 Fyrir marga var það hreint kvalræði í fyrstu að tala frammi fyrir fjölmennum hópi. Clayton Woodworth, Jr., rifjar upp hvernig honum leið þegar hann gekk í skólann árið 1943, en faðir hans var einn þeirra sem voru fangelsaðir á röngum forsendum með bróður Rutherford árið 1918. „Ég átti afar erfitt með að flytja ræður,“ segir hann. „Tungan virtist stækka, ég varð skraufþurr í munninum og var ýmist öskrandi eða skrækróma.“ En Clayton tók framförum og átti eftir að halda margar opinberar ræður. Hann lærði þó ekki aðeins tæknileg atriði í skólanum. Hann lærði líka hve mikilvægt væri að vera auðmjúkur og reiða sig á Jehóva. „Ég áttaði mig á að ræðumaðurinn sjálfur skiptir ekki máli,“ sagði hann. „En ef hann undirbýr sig vel og reiðir sig algerlega á Jehóva hlusta menn á hann með ánægju og læra eitthvað.“

17 Árið 1959 var systrum boðið að skrá sig í skólann. Systir Edna Bauer rifjar upp hvernig það var að heyra tilkynningu um það á móti sem hún sótti. „Ég man hve spenntar systurnar voru,“ segir hún. „Núna opnuðust þeim fleiri tækifæri.“ Hefur þú, hvort sem þú ert bróðir eða systir, gripið þetta tækifæri og skráð þig í Boðunarskólann til að fá kennslu frá Jehóva? – Lestu Jesaja 54:13.

18, 19. (a) Eftir hvaða fyrirmynd var þjónustusamkoman sniðin? (b) Hvers vegna syngjum við á samkomum? (Sjá greinina „ Að syngja um sannleikann“.)

18 Þjónustusamkoma. Árið 1919 var byrjað að halda samkomur til að skipuleggja boðunarstarfið. Á þeim tíma sóttu ekki allir í söfnuðinum þessar samkomur heldur aðeins þeir sem tóku beinan þátt í að dreifa ritum. Árið 1923 var byrjað að halda þjónustusamkomu einu sinni í mánuði og hún var ætluð öllum í söfnuðinum. Árið 1928 voru söfnuðir hvattir til að halda þjónustusamkomu í hverri viku, og árið 1935 hvatti Varðturninn alla söfnuðina til að byggja þjónustusamkomuna á upplýsingum sem birtar voru í ritinu Director (síðar kallað Informant og enn síðar Ríkisþjónusta okkar). Þessi samkoma varð fljótlega fastur liður á dagskrá allra safnaða.

19 Núna fáum við gagnlegar leiðbeiningar um boðunina á samkomu sem haldin er um miðja vikuna. (Matt. 10:5-13) Færð þú eintak af vinnubókinni? Lestu hana þá vandlega og nýtir þér tillögur hennar þegar þú boðar fagnaðarerindið?

Mikilvægasta samkoma ársins

Kristnir menn safnast saman árlega til að halda minningarhátíðina um dauða Krists, líkt og gert var á fyrstu öld. (Sjá grein 20.)

20-22. (a) Hvers vegna minnumst við dauða Jesú? (b) Hvaða gagn hefurðu af því að sækja minningarhátíðina ár hvert?

20 Jesús sagði fylgjendum sínum að minnast dauða síns þangað til hann kæmi. Minningarhátíðin um dauða Krists er haldin einu sinni á ári rétt eins og páskahátíðin var. (1. Kor. 11:23-26) Milljónir manna sækja samkomuna ár hvert. Hún minnir hina andasmurðu á þann heiður að vera samerfingjar Krists að ríki hans. (Rómv. 8:17) Og hún vekur djúpa virðingu annarra sauða fyrir konungi Guðsríkis og styrkir hollustu þeirra við hann. – Jóh. 10:16.

21 Bróðir Russell og samstarfsmenn hans gerðu sér grein fyrir að það væri mikilvægt að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega og þeir vissu að það ætti aðeins að gera það einu sinni á ári. Í apríl 1880 stóð í Varðturninum: „Mörg okkar hér í Pittsburgh hafa haft það fyrir venju ... að halda páska [minningarhátíðina] og neyta brauðsins og vínsins sem tákna líkama og blóð Drottins.“ Fljótlega var farið að halda mót í tengslum við minningarhátíðina. Elstu tölur um slíka samkomu eru frá 1889 en þá voru 225 viðstaddir og 22 létu skírast.

22 Við höldum ekki lengur mót í tengslum við minningarhátíðina. Hins vegar bjóðum við öllum í byggðarlaginu, hvar sem við búum, að sækja samkomuna með okkur í ríkissalnum eða í húsnæði sem er leigt til hátíðarinnar. Árið 2013 minntust rúmlega 19 milljónir manna dauða Jesú. Það er mjög ánægjulegt að geta sótt minningarhátíðina og geta líka boðið öðrum að vera með okkur þetta háheilaga kvöld. Ertu duglegur að bjóða eins mörgum og þú getur að vera viðstaddir minningarhátíðina á hverju ári?

Hvað leiðir hugarfar okkar í ljós?

23. Hvað finnst þér um að sækja samkomur?

23 Dyggir þjónar Jehóva líta ekki á það sem kvöð að sækja samkomur. (Hebr. 10:24, 25; 1. Jóh. 5:3) Davíð konungur hafði yndi af því að koma í helgidóminn þar sem Jehóva var tilbeðinn. (Sálm. 27:4) Hann hafði sérstaka ánægju af því að vera þar með öðrum sem elskuðu Guð. (Sálm. 35:18) Jesús hugsaði líkt og Davíð. Sem drengur hafði hann sterka löngun til að vera í helgidóminum þar sem faðir hans var tilbeðinn. – Lúk. 2:41-49.

Löngunin til að sækja samkomur leiðir í ljós hve raunverulegt ríki Guðs er í augum okkar.

24. Hvaða tækifæri fáum við þegar við sækjum samkomur?

24 Þegar við sækjum samkomur sýnum við að við elskum Jehóva og að okkur langi til að uppbyggja trúsystkini okkar. Við látum einnig í ljós að okkur langi til að læra að vera þegnar Guðsríkis því að það er fyrst og fremst á samkomum og mótum sem við lærum það. Auk þess er það á samkomunum sem við lærum að vinna eitt mikilvægasta verkið sem ríki Guðs stendur fyrir núna – að kenna fólki og gera það að lærisveinum konungsins Jesú Krists. Þar fáum við líka kraft til að halda verkinu áfram. (Lestu Matteus 28:19, 20.) Það leikur enginn vafi á að löngunin til að sækja samkomur leiðir í ljós hve raunverulegt ríki Guðs er í augum okkar. Við skulum alltaf hafa miklar mætur á samkomunum.

a Auk þess að sækja safnaðarsamkomur í hverri viku eru fjölskyldur og einstaklingar hvött til að gefa sér tíma til sameiginlegs náms eða sjálfsnáms.

b Árið 2013 voru í boði rúmlega 180 uppköst að opinberum fyrirlestrum.