Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

21. KAFLI

Ríki Guðs ryður óvinum sínum úr vegi

Ríki Guðs ryður óvinum sínum úr vegi

Í ÞESSUM KAFLA

Atburðir sem eru undanfari stríðsins við Harmagedón.

1, 2. (a) Hvað sýnir og sannar að konungur okkar hefur verið við völd síðan 1914? (b) Um hvað er rætt í þessum kafla?

 ÞAÐ hefur styrkt trú okkar að skoða það sem ríki Guðs hefur afrekað meðan óvinir þess eru enn við völd. (Sálm. 110:2) Konungurinn hefur vakið upp heilan her fúsra boðbera. Hann hefur hreinsað og fágað fylgjendur sína trúarlega og siðferðilega. Og við erum sameinuð út um allan heim þó að óvinir okkar hafi hamast við að reyna að sundra okkur. Þessi afrek Guðsríkis og mörg önnur, sem við höfum rætt um, eru óyggjandi rök fyrir því að konungur okkar hafi ríkt meðal óvina ríkis síns síðan 1914.

2 Ríki Guðs á eftir að vinna enn meiri afrek í náinni framtíð. Það mun ‚koma‘ til að ‚eyða óvinum sínum og gera þá að engu‘. (Matt. 6:10; Dan. 2:44) En áður en það verður gerast aðrir markverðir atburðir. Hvaða atburðir eru það? Það kemur fram í ýmsum biblíuspádómum. Við skulum líta á nokkra af þessum spádómum og kanna hvað gerist í náinni framtíð.

Undanfari ‚snögglegrar tortímingar‘

3. Hver er fyrsti atburðurinn sem við bíðum eftir?

3 Yfirlýsing um frið. Páll postuli lýsir fyrsta atburðinum, sem við bíðum eftir, í bréfi til safnaðarins í Þessaloníku. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.) Í bréfinu nefnir Páll ‚dag Drottins‘ Jehóva sem hefst með árásinni á ‚Babýlon hina miklu‘. (Opinb. 17:5) En rétt áður en dagur Jehóva rennur upp lýsa þjóðirnar yfir ‚friði og engri hættu‘. Hér getur verið átt við eina mikla yfirlýsingu eða röð yfirlýsinga. Ætli leiðtogar trúarbragðanna eigi hlutdeild í henni? Þeir tilheyra heiminum þannig að það má vel vera að þeir taki undir með þjóðunum og lýsi yfir „heill“ og friði. (Jer. 6:14; 23:16, 17; Opinb. 17:1, 2) Þessi yfirlýsing um frið og enga hættu verður merki þess að dagur Jehóva sé að renna upp. Óvinir Guðsríkis „munu alls ekki undan komast“.

4. Hvernig er það til góðs fyrir okkur að skilja spádóm Páls um að lýst verði yfir friði og engri hættu?

4 Hvernig er það til góðs fyrir okkur að skilja þennan spádóm? Páll segir: „Þið ... eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur.“ (1. Þess. 5:3, 4) Ólíkt fólki almennt skiljum við í hvað stefnir. Hvernig rætist spádómurinn um frið og enga hættu? Við vitum ekki í smáatriðum hvernig það gerist heldur verðum við að bíða og sjá hvernig heimsmálin þróast. Við skulum því ‚vaka og vera allsgáð‘. – 1. Þess. 5:6; Sef. 3:8.

Þrengingin mikla hefst

5. Með hverju hefst ‚þrengingin mikla‘?

5 Árás á trúarbrögðin. Eins og þú manst skrifaði Páll: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ Rétt eftir að eldingu slær niður heyrist þruma. Eins er það með yfirlýsinguna um ‚frið og enga hættu‘. Það fylgir ‚snöggleg tortíming‘ strax í kjölfar hennar. Hvað tortímist? Fyrst er það „Babýlon hin mikla“, heimsveldi falskra trúarbragða, sem er einnig kölluð „skækjan“. (Opinb. 17:5, 6, 15) ‚Þrengingin mikla‘ hefst með því að kirkjufélögum kristna heimsins og öðrum falstrúarbrögðum verður útrýmt. (Matt. 24:21; 2. Þess. 2:8) Þessi atburður kemur mörgum í opna skjöldu. Hvers vegna? Vegna þess að fram að þeim tíma telur „skækjan“ að hún sé „drottning“ og heldur að ‚sorg muni hún aldrei sjá‘. En hún uppgötvar óvænt að það var sjálfsblekking. Hún verður afmáð skyndilega, eins og væri „á einum degi“. – Opinb. 18:7, 8.

6. Hver eða hvað ræðst á ‚Babýlon hina miklu‘?

6 Hver eða hvað ræðst á ‚Babýlon hina miklu‘? Í Opinberunarbókinni segir að það sé ‚dýr með tíu horn‘. Af spádóminum má ráða að þetta dýr tákni Sameinuðu þjóðirnar. Hornin tíu tákna öll núverandi ríki sem styðja þetta ‚skarlatsrauða dýr‘. (Opinb. 17:3, 5, 11, 12) Hve mikilli eyðileggingu veldur dýrið með árás sinni? Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna láta greipar sópa um auðæfi skækjunnar, rífa hana í sig og „brenna hana í eldi“. – Lestu Opinberunarbókina 17:16. a

7. Hvernig rættust orð Jesú í Matteusi 24:21, 22 á fyrstu öld og hvernig rætast þau í framtíðinni?

7 Dagarnir styttir. Konungurinn opinberaði hvað gerist þessu næst í þrengingunni miklu. Hann sagði: „Vegna hinna útvöldu verða þeir dagar styttir.“ (Lestu Matteus 24:21, 22.) Orð Jesú rættust í smáum mæli árið 66 þegar Jehóva ‚stytti‘ árás rómverska hersins á Jerúsalem. (Mark. 13:20) Kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu komust þar af leiðandi af. Hvað gerist þá á heimsmælikvarða í þrengingunni miklu? Fyrir atbeina konungsins „styttir“ Jehóva árás Sameinuðu þjóðanna á trúarbrögðin til að sönn trú tortímist ekki ásamt falstrúnni. Hin eina sanna trú stendur því eftir þegar öllum fölskum trúarbrögðum er rutt úr vegi. (Sálm. 96:5) Við skulum nú athuga hvað gerist eftir að þessi hluti þrengingarinnar miklu er liðinn hjá.

Aðdragandi Harmagedón

8, 9. Hvers konar fyrirbæri kann Jesús að hafa átt við og hvernig bregst fólk við þeim?

8 Í spádómi Jesú um síðustu daga kemur fram að nokkrir mikilvægir atburðir eigi sér stað á þessu tímabili áður en Harmagedón brestur á. Fyrstu tveir atburðirnir, sem við skoðum, eru báðir nefndir í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar. – Lestu Matteus 24:29-31; Mark. 13:23-27; Lúk. 21:25-28.

9 Fyrirbæri á himni. Í spádómi Jesú segir: „Sólin [mun] sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni.“ Ekki leita menn til trúarleiðtoganna því að það er ekki lengur litið á þá sem leiðarljós. Er Jesús einnig að lýsa yfirnáttúrlegum fyrirbærum á himni? Það er hugsanlegt. (Jes. 13:9-11; Jóel 2:1; 3:3, 4) Hvernig bregst fólk við því sem fyrir augu ber? Menn verða ‚angistarfullir og ráðalausir‘. (Lúk. 21:25; Sef. 1:17) Óvinir Guðsríkis, jafnt konungar sem þrælar, „falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun“ og hlaupa í skjól. En þeir finna hvergi nógu gott skjól til að komast undan reiði konungsins. – Lúk. 21:26; 23:30; Opinb. 6:15-17.

10. Hvaða dóm fellir Jesús og hvernig bregðast stuðningsmenn og andstæðingar Guðsríkis við?

10 Dómur felldur. Allir óvinir Guðsríkis neyðast þá til að horfa upp á atburð sem eykur enn á angist þeirra. Jesús segir: „Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.“ (Mark. 13:26) Jesús sýnir mátt sinn með yfirnáttúrlegum hætti og það er merki þess að hann sé kominn til að fella dóm. Annars staðar í sama spádómi um síðustu daga gefur Jesús nánari upplýsingar um dóminn sem verður felldur á þeim tíma. Þær er að finna í dæmisögunni um sauðina og hafrana. (Lestu Matteus 25:31-33, 46.) Dyggir stuðningsmenn Guðsríkis fá þann úrskurð að þeir séu ‚sauðir‘. Þeir ‚rétta úr sér og bera höfuðið hátt‘ því að þeir vita að ‚lausn þeirra er í nánd‘. (Lúk. 21:28) Andstæðingar Guðsríkis fá hins vegar þann dóm að þeir séu ‚hafrar‘. Þeir „hefja kveinstafi“ því að þeir átta sig á að þeir „fara til eilífrar refsingar“, það er að segja eyðingar. – Matt. 24:30; Opinb. 1:7.

11. Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við kynnum okkur komandi atburði?

11 Nokkrir þýðingarmiklir atburðir gerast eftir að Jesús hefur dæmt „allar þjóðir“ en áður en stríðið við Harmagedón skellur á. (Matt. 25:32) Við skulum kynna okkur tvo þessara atburða: Góg gerir árás og hinum útvöldu er safnað. Þegar við lítum á þessa tvo atburði þurfum við að hafa hugfast að Biblían tímasetur ekki nákvæmlega hvenær þeir gerast. Reyndar er líklegt að þeir skarist að einhverju marki.

12. Lýstu allsherjarárás Satans á ríki Guðs.

12 Allsherjarárás. Góg í Magóg gerir árás á þá sem eru eftir af hinum andasmurðu á jörð og á aðra sauði sem starfa með þeim. (Lestu Esekíel 38:2, 11.) Þessi atlaga gegn ríki Guðs verður síðasti bardagi Satans í stríðinu sem hann hefur háð gegn hinum andasmurðu síðan honum var úthýst af himnum. (Opinb. 12:7-9, 17) Eftir að kristni söfnuðurinn var endurreistur og byrjað var að safna hinum andasmurðu inn í söfnuðinn hefur Satan beitt öllum ráðum til að spilla þeim gæðum sem þeir hafa búið við í andlegu paradísinni – en án árangurs. (Matt. 13:30) Nú telur Satan sig hafa gullið tækifæri. Öll fölsk trúarbrögð eru horfin af sjónarsviðinu og þjónar Guðs virðast berskjaldaðir, „án varnarmúra og hafa hvorki hlið né slagbranda“. Hann egnir handbendi sín til að gera allsherjarárás á þá sem styðja ríki Guðs.

13. Hvernig skerst Jehóva í leikinn til að vernda þjóna sína?

13 Esekíel lýsir atburðarásinni. Í spádóminum segir um Góg: „Kemur þú ekki frá landi þínu lengst í norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi á hestum, mikill liðsafnaður og voldugur her? Þá munt þú halda upp eftir gegn lýð mínum ... eins og óveðursský til að hylja landið.“ (Esek. 38:15, 16) Ekkert virðist geta stöðvað Satan og voldugan her hans. Hvernig bregst Jehóva við? „Þann dag ... mun heiftin ólga í mér,“ segir Jehóva. „Ég mun bjóða út hvers kyns ógnum gegn Góg.“ (Esek. 38:18, 21; lestu Sakaría 2:12.) Jehóva skerst í leikinn til að vernda þjóna sína á jörð. Stríðið við Harmagedón er hafið.

14, 15. Hvað annað gerist einhvern tíma eftir að Satan gerir allsherjarárás?

14 Áður en við höldum lengra fram í tímann og könnum hvernig Jehóva ver þjóna sína í stríðinu við Harmagedón skulum við doka aðeins við og skoða annan mikilvægan atburð. Hann á sér stað á tímabilinu frá því að Satan gerir allsherjarárás þangað til Jehóva skerst í leikinn í Harmagedón. Eins og nefnt er í 11. grein er þetta sá atburður þegar Jesús safnar þeim sem eru eftir af hinum andasmurðu.

15 Hinum andasmurðu safnað. Þegar Matteus og Markús nefna það sem Jesús sagði um hina „útvöldu“, það er að segja andasmurða kristna menn, eru þeir að lýsa atburðarás sem á sér stað áður en Harmagedón skellur á. (Sjá grein 7.) Jesús talar um sjálfan sig sem konung og segir í spádómi: „Hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.“ (Mark. 13:27; Matt. 24:31) Hvað á Jesús við þegar hann talar um að safna hinum útvöldu, það er að segja þeim sem eru eftir af hinum andasmurðu á jörð? Hann á ekki við þá aðgerð að veita þeim lokainnsigli. Það á sér stað rétt áður en þrengingin mikla hefst. (Opinb. 7:1-3) Jesús er að tala um atburð sem á sér stað meðan þrengingin mikla stendur yfir. Einhvern tíma eftir að Satan ræðst á þjóna Guðs virðast hinir andasmurðu, sem eru eftir á jörð, vera kallaðir til himna.

16. Hvaða þátt eiga hinir andasmurðu á himnum í stríðinu við Harmagedón?

16 Hvernig tengist söfnun hinna andasmurðu næsta atburði, það er að segja Harmagedón? Tímasetning hennar gefur til kynna að hinir andasmurðu verði allir komnir til himna áður en stríð Guðs við Harmagedón hefst. Á himnum fá 144.000 meðstjórnendur Krists vald til að beita „járnsprota“ ásamt honum þegar hann eyðir öllum óvinum Guðsríkis. (Opinb. 2:26, 27) Hinir andasmurðu fylgja þá herkonunginum Kristi ásamt máttugum englum þegar hann ræðst gegn þeim ‚volduga her‘ sem er farinn að þrengja að bráð sinni – þjónum Jehóva. (Esek. 38:15) Þegar þessi miklu átök brjótast út er stríðið við Harmagedón hafið. – Opinb. 16:16.

Stórbrotinn lokaþáttur þrengingarinnar miklu

Stríðið við Harmagedón hefst.

17. Hvað verður um ‚hafrana‘ í Harmagedón?

17 Dómi fullnægt. Stríðið við Harmagedón er lokaþáttur þrengingarinnar miklu. Jesús tekur þá að sér eitt verkefni til viðbótar. Hann dæmir ekki aðeins „allar þjóðir“ heldur fullnægir líka dóminum yfir öllum sem hann er áður búinn að dæma að séu ‚hafrar‘. (Matt. 25:32, 33) Konungurinn ‚slær þjóðirnar með bitru sverði‘. Allir sem líkjast höfrunum, jafnt háir sem lágir, „fara til eilífrar refsingar“ og tortímast. – Opinb. 19:15, 18; Matt. 25:46.

18. (a) Hvernig snýst taflið við í þágu ‚sauðanna‘? (b) Hvernig fullkomnar Jesús sigurinn?

18 Taflið hefur aldeilis snúist við hjá þeim sem Jesús úrskurðar að séu ‚sauðir‘. Við lá að voldugur her af ‚höfrum‘ Satans útrýmdi ‚miklum múgi‘ af ‚sauðum‘ Krists. Þeir virtust algerlega varnarlausir. En þegar óvinurinn gerir árás bjargast þeir og koma heilir „úr þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:9, 14) Eftir að Jesús hefur sigrað alla mennska óvini Guðsríkis og rutt þeim úr vegi kastar hann Satan og illu öndunum í undirdjúpið. Þar geta þeir ekkert aðhafst. Það er eins og þeir liggi í dauðadái í þúsund ár. – Lestu Opinberunarbókina 6:2; 20:1-3.

Hvernig undirbúum við okkur?

19, 20. Hvaða lærdóm getum við dregið af Jesaja 26:20 og 30:21?

19 Hvernig getum við búið okkur undir þá stórviðburði sem eru fram undan? Fyrir nokkrum árum stóð í Varðturninum: „Björgun verður undir hlýðni komin.“ Hvers vegna? Svarið er að finna í viðvörun Jehóva til Gyðinganna sem voru í útlegð í Babýlon endur fyrir löngu. Jehóva sagði fyrir að Babýlon yrði sigruð en hvað áttu þjónar hans að gera til að búa sig undir það? Jehóva sagði: „Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín og læstu dyrum á eftir þér, feldu þig skamma hríð uns reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Taktu eftir sagnorðunum í þessu versi: „Gakktu“, „læstu“, „feldu þig“. Þau standa öll í boðhætti – þetta eru skipanir. Gyðingar, sem hlýddu þessum skipunum, héldu sig innan dyra og urðu ekki á vegi innrásarhermannanna á götum úti. Þeir þurftu að hlýða fyrirmælum Jehóva til að bjargast. b

20 Hver er lærdómurinn? Til að komast lifandi gegnum atburðina fram undan þurfum við að hlýða fyrirmælum Jehóva, rétt eins og þjónar hans forðum daga. (Jes. 30:21) Við fáum fyrirmæli hans fyrir milligöngu safnaðarins. Við ættum því að temja okkur að hlýða fúslega þeim leiðbeiningum sem við fáum. (1. Jóh. 5:3) Ef við gerum það núna er líklegt að við hlýðum fúslega í framtíðinni og hljótum vernd Jehóva, föður okkar, og konungsins Jesú. (Sef. 2:3) Með vernd þeirra fáum við að sjá með eigin augum hvernig ríki Guðs ryður óvinum sínum úr vegi fyrir fullt og allt. Það verður ógleymanlegur atburður.

a Það virðist rökrétt að eyðing ‚Babýlonar hinnar miklu‘ sé fyrst og fremst fólgin í því að eyða trúarlegum stofnunum en ekki að trúarlega sinnuðu fólki verði útrýmt í stórum stíl. Flestir sem studdu Babýlon halda lífi þegar henni er tortímt, og líklegt er að þeir reyni þá, að minnsta kosti í orði kveðnu, að afneita tengslum við trúarbrögðin eins og ráða má af Sakaría 13:4-6.