Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Kæri samverkamaður í þjónustu Guðsríkis:

ÍMYNDAÐU þér að þú tilheyrir Betelfjölskyldunni í Brooklyn. Þú situr á þínum venjulega stað við morgunverðarborðið föstudaginn 2. október 1914 og bíður þess að bróðir Charles T. Russell gangi í salinn. Skyndilega opnast dyrnar og bróðir Russell birtist. Hann dokar við eitt andartak eins og hann er vanur og heilsar Betelfjölskyldunni glaðlega: „Góðan daginn, öllsömul.“ En í stað þess að ganga beint til sætis við endann á borðinu klappar hann saman höndunum og segir: „Tímar heiðingjanna eru á enda, konungar þeirra hafa runnið sitt skeið.“ Þú ræður þér varla fyrir gleði. Þú hefur hlakkað lengi til þessarar stundar. Öll Betelfjölskyldan fagnar þessum spennandi tíðindum með löngu og áköfu lófataki.

Um öld er liðin síðan bróðir Russell sagði þessi sögulegu orð. Hverju hefur ríki Guðs áorkað síðan? Það er ekkert smáræði. Fyrir atbeina ríkis síns hefur Jehóva fágað, hreinsað og menntað þjóna sína jafnt og þétt. Þeir voru aðeins nokkur þúsund árið 1914 en eru nú næstum átta milljónir. Hefur þú ekki notið góðs af þessari menntun á ótal vegu?

Við heyrum oft trúsystkini segja: „Himnavagn Jehóva er á hraðri ferð,“ og það er öldungis rétt. En sannleikurinn er sá að himnavagninn, sem táknar ósýnilegan hluta alheimssafnaðar Jehóva, hefur verið á fleygiferð síðan 1914 eins og vel má sjá af lestri þessarar bókar. Boðberum Guðsríkis er mikið í mun að boða fagnaðarerindið um allan heim og þeir hafa bryddað upp á alls konar nýjungum til að koma því á framfæri. Þeir hafa notað dagblöð, gengið um götur með upplýsingaspjöld, notað kvikmyndir og litskyggnur, boðunarspjöld, grammófóna, útvarp og meira að segja Netið.

Jehóva hefur blessað starf okkar og við getum nú gefið út aðlaðandi biblíuskýringarit á meira en 670 tungumálum og boðið þau hverjum sem er án endurgjalds. Fórnfúsir sjálfboðaliðar vinna við að reisa ríkissali, mótshallir og deildarskrifstofur, bæði í efnameiri löndum og löndum með takmörkuð fjárráð. Og þegar hamfarir verða eru bræður og systur fljót á vettvang til að liðsinna þeim sem eiga um sárt að binda. Þau sýna sanna bróðurást „í andstreymi“. – Orðskv. 17:17.

Prestar og aðrir andstæðingar eiga það stundum til að ,misnota lögin‘ og valda okkur erfiðleikum. En það styrkir trúna að sjá hvernig tilraunir þeirra hafa mistekist æ ofan í æ og „orðið fagnaðarerindinu til eflingar“. – Sálm. 94:20; Fil. 1:12.

Það er heiður að mega starfa með ykkur því að við erum öll „hjú“ konungsins Jesú. Okkur þykir ákaflega vænt um ykkur öll. Það er bæn okkar að efni þessarar bókar verði ykkur hjálp til að meta andlega arfleifð okkar meir en nokkru sinni fyrr. – Matt. 24:45.

Við óskum ykkur alls hins besta.

Bræður ykkar,

Stjórnandi ráð Votta Jehóva