Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

„Þið ættuð að vera kennarar.“ (Hebr. 5:12) Hugsaðu þér! Jehóva, færasti kennari í alheiminum, býður okkur að fræða fólk um sig. Það er dýrmætur heiður og jafnframt mikil ábyrgð að kenna sannleikann um Jehóva, hvort heldur er í fjölskyldunni, söfnuðinum eða í boðuninni. Hvernig getum við axlað þessa ábyrgð með góðum árangri?

Svarið er að finna í orðum Páls til Tímóteusar: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna.“ Páll bætti síðan við: „Þegar þú gerir það muntu bæði frelsa sjálfan þig og áheyrendur þína.“ (1. Tím. 4:13, 16) Boðskapurinn sem þú færir fólki getur bjargað mannslífum. Þess vegna er brýnt að taka framförum í að lesa og kenna. Þessi bæklingur getur hjálpað þér að taka framförum. Skoðum nokkra þætti hans.

Á hverri blaðsíðu er tilvitnun í Biblíuna sem hefur að geyma meginreglu sem tengist þjálfunarliðnum eða dæmi um hvernig fara má að.

Jehóva er „lærifaðir“ okkar. (Jes. 30:20) Þessi bæklingur getur hjálpað þér að taka framförum í að lesa og kenna en gleymdu aldrei að boðskapurinn kemur frá Jehóva og hann laðar fólk að sér. (Jóh. 6:44) Biddu þess vegna oft um heilagan anda. Notaðu Biblíuna óspart. Beindu alltaf athyglinni að Jehóva en ekki sjálfum þér. Hjálpaðu áheyrendum þínum að rækta með sér sterkan kærleika til hans.

Þú hefur fengið tækifæri til að færa fólki mikilvægasta boðskap sem mannkynið hefur nokkurn tíma fengið. Við erum sannfærðir um að þú náir góðum árangri þegar þú treystir að „Guð gefi máttinn til þess“. – 1. Pét. 4:11.

Samkennarar ykkar,

stjórnandi ráð Votta Jehóva