Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 09

Bænin hjálpar þér að nálgast Guð

Bænin hjálpar þér að nálgast Guð

Finnst þér þú stundum þurfa á leiðsögn að halda? Vantar þig svör við mikilvægum spurningum? Vantar þig huggun eða hughreystingu? Langar þig að eiga nánara samband við Jehóva? Bænin getur hjálpað þér með allt þetta. En hvernig eigum við að biðja? Hlustar Guð á allar bænir? Hvað geturðu gert til að vera viss um að hann heyri þínar bænir? Skoðum málið.

1. Hvert eigum við að beina bænum okkar og um hvað getum við beðið?

Jesús kenndi að við ættum aðeins að biðja til föður okkar á himnum. Jesús bað sjálfur til Jehóva. Hann sagði: „Þannig skuluð þið biðja: ‚Faðir okkar á himnum …‘“ (Matteus 6:9) Við styrkjum samband okkar við Jehóva með því að biðja til hans.

Við getum talað við Guð í bæn um nánast hvað sem er. Bænir okkar þurfa að sjálfsögðu að vera í samræmi við vilja Guðs til að hann svari þeim. ‚Guð heyrir okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Jesús nefndi dæmi um það sem er viðeigandi að biðja um. (Lestu Matteus 6:9–13.) Við getum beðið um það sem snertir okkur persónulega, en við ættum líka að muna eftir að þakka Guði fyrir það sem hann hefur gert fyrir okkur og biðja hann að hjálpa öðrum.

2. Hvernig eigum við að biðja?

Biblían hvetur okkur til að ‚úthella hjörtum okkar fyrir Guði‘. (Sálmur 62:8) Bænir okkar eiga því að vera einlægar. Við getum beðið upphátt eða í hljóði og í hvaða líkamsstöðu sem sýnir virðingu. Við getum beðið hvar og hvenær sem er.

3. Hvernig svarar Guð bænum okkar?

Hann gerir það á ýmsa vegu. Jehóva hefur gefið okkur orð sitt, Biblíuna, og þar finnum við oft svör við spurningum okkar. Að lesa í orði Guðs ‚gerir hinn óreynda vitran‘. (Sálmur 19:7; lestu Jakobsbréfið 1:5.) Jehóva getur gefið okkur hugarfrið þegar við glímum við vandamál. Og hann getur fengið þjóna sína til að hjálpa okkur þegar við þurfum á því að halda.

KAFAÐU DÝPRA

Skoðaðu hvernig þú getur beðið innilegra bæna sem eru Guði þóknanlegar og kynntu þér hvernig bænin getur gagnast þér.

4. Bænir okkar til Guðs þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði

Hvað ræður því hvort Guð hafi velþóknun á bænum okkar? Spilið MYNDBANDIÐ.

Jehóva vill að við biðjum til hans. Lesið Sálm 65:2 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Heldurðu að sá „sem heyrir bænir“ vilji að þú biðjir til hans? Hvers vegna?

Ef við viljum að Guð heyri bænir okkar verðum við að reyna að lifa í samræmi við meginreglur hans. Lesið Míka 3:4 og 1. Pétursbréf 3:12 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað getum við gert til að vera viss um að Jehóva hlusti á bænir okkar?

Menn biðja oft Guð um sigur beggja megin víglínunnar í stríði. Er rökrétt að ætla að Guð svari slíkum bænum?

5. Bænir okkar ættu að koma frá hjartanu

Sumum hefur verið kennt að fara með sömu bænirnar aftur og aftur. En vill Guð að við biðjum þannig til hans? Lesið Matteus 6:7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvernig geturðu komist hjá því að „fara með sömu orðin aftur og aftur“ í bænum þínum?

Hugsaðu um eitthvað ákveðið á hverjum degi sem þú getur þakkað Jehóva fyrir. Ef þú gerir það í heila viku hefurðu gert sjö mismunandi atriði að bænarefni.

Góður faðir vill að barn sitt segi honum hvað því liggur á hjarta. Jehóva vill sömuleiðis að við biðjum til hans frá hjartanu.

6. Bænin er gjöf frá Guði

Hvernig getur bænin gefið okkur styrk, bæði þegar vel gengur og illa? Spilið MYNDBANDIÐ.

Biblían lofar því að bænin veiti okkur hugarfrið. Lesið Filippíbréfið 4:6, 7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvernig hjálpar bænin okkur þó að hún losi okkur ekki alltaf við vandamál okkar?

  • Hvað myndir þú vilja tala við Guð um í bæn?

Vissir þú?

Orðið „amen“ merkir ‚verði svo‘ eða ‚vissulega‘. „Amen“ hefur verið sagt í lok bæna allt frá biblíutímanum. – 1. Kroníkubók 16:36.

7. Gefðu þér tíma til að biðja

Stundum getum við verið svo upptekin að við gleymum að biðja. Hversu mikilvæg var bænin fyrir Jesú? Lesið Matteus 14:23 og Markús 1:35 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvað gerði Jesús til að hafa tíma til að biðja?

  • Hvenær getur þú tekið þér tíma til að biðja?

SUMIR SEGJA: „Bænin er bara leið til að láta manni líða betur.“

  • Hvað myndir þú segja við því?

SAMANTEKT

Einlægar bænir gera okkur nánari Guði, veita okkur hugarfrið og gefa okkur þann styrk sem við þurfum til að þóknast Jehóva.

Upprifjun

  • Hvert eigum við að beina bænum okkar?

  • Hvernig ættum við að biðja?

  • Hvaða gagn höfum við af bæninni?

Markmið

KANNAÐU

Skoðaðu svörin við algengum spurningum um bænina.

„Sjö spurningum um bænina svarað“ (Greinar úr Varðturninum)

Lestu um hvers vegna þú ættir að biðja og hvernig þú getur gert bænir þínar innihaldsríkari.

„Af hverju ætti ég að fara með bænir?“ (Vefgrein)

Kynntu þér hvað Biblían segir um það hvert við eigum að beina bænum okkar.

„Ætti ég að biðja til dýrlinga?“ (Vefgrein)

Taktu eftir í þessu tónlistarmyndbandi hvort það skiptir máli hvar eða hvenær við biðjum.

Ég get beðið til Guðs hvar sem er (1:22)