Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 46

Hvers vegna ættirðu að vígjast Jehóva og láta skírast?

Hvers vegna ættirðu að vígjast Jehóva og láta skírast?

Þú vígir líf þitt Jehóva með því að lofa honum í bæn að þú ætlir að tilbiðja hann einan og láta vilja hans ganga fyrir í lífi þínu. (Sálmur 40:8) Eftir það læturðu skírast. Með því sýnirðu öðrum að þú hafir vígt þig Jehóva. Ákvörðunin um að vígja líf þitt Jehóva er mikilvægasta ákvörðun sem þú tekur og hún gerbreytir lífi þínu. Hvað getur hvatt þig til að taka þessa stóru ákvörðun?

1. Hvað fær mann til að vígja sig Jehóva?

Við vígjumst Jehóva vegna þess að við elskum hann. (1. Jóhannesarbréf 4:10, 19) Biblían hvetur okkur: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:30) Við sýnum bæði í orði og verki að við elskum Guð. Kærleikur okkar til Jehóva fær okkur til að vígjast honum og láta skírast rétt eins og par sem elskar hvort annað innilega giftir sig.

2. Hvaða gjafir gefur Jehóva skírðum vottum sínum?

Þegar þú lætur skírast verðurðu hluti af fjölskyldu Jehóva. Þá finnurðu fyrir kærleika hans á marga vegu og samband þitt við hann verður enn nánara. (Lestu Malakí 3:16–18.) Jehóva verður faðir þinn og þú eignast systkini um allan heim sem elska hann og elska þig. (Lestu Markús 10:29, 30.) Þú þarft að sjálfsögðu að stíga ákveðin skref áður en þú lætur skírast. Þú þarft að kynnast Jehóva, elska hann og trúa á son hans. Síðan þarftu að vígja líf þitt Jehóva. Ef þú stígur þessi skref og lætur skírast ertu á veginum til eilífs líf. Orð Guðs segir: „Skírnin … bjargar einnig ykkur núna.“1. Pétursbréf 3:21.

KAFAÐU DÝPRA

Skoðaðu hvers vegna er mikilvægt að þú vígir þig Jehóva og látir skírast.

3. Við verðum öll að ákveða hverjum við ætlum að þjóna

Í Ísrael til forna héldu sumir að þeir gætu bæði tilbeðið Jehóva og falsguðinn Baal. En Jehóva sendi spámanninn Elía til að leiðrétta þessa ranghugmynd. Lesið 1. Konungabók 18:21 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvaða ákvörðun þurftu Ísraelsmenn að taka?

Við þurfum að ákveða hverjum við ætlum að þjóna rétt eins og Ísraelsmenn. Lesið Lúkas 16:13 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvers vegna getum við ekki tilbeðið Jehóva og einhvern eða eitthvað annað?

  • Hvernig sýnum við Jehóva að við veljum að tilbiðja hann?

4. Hugleiddu hversu heitt Jehóva elskar þig

Jehóva hefur gefið okkur margar dýrmætar gjafir. Hvað getum við gefið honum? Spilið MYNDBANDIÐ.

Á hvaða vegu hefur Jehóva sýnt að hann elskar þig? Lesið Sálm 104:14, 15 og 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvaða gjafir frá Jehóva ertu sérstaklega þakklátur fyrir?

  • Hvaða tilfinningar í garð Jehóva vekja þessar gjafir með þér?

Þegar við fáum gjöf sem við kunnum vel að meta langar okkur að sýna þeim sem gaf okkur hana þakklæti. Lesið 5. Mósebók 16:17 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað langar þig að gefa Jehóva þegar þú hugsar um allt sem hann hefur gert fyrir þig?

5. Þegar þú vígir þig Jehóva blessar hann þig á marga vegu

Margir telja að frægð, frami eða peningar veiti þeim hamingju. Er það rétt? Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvers vegna lagði íþróttamaðurinn skóna á hilluna þó að hann hefði mjög gaman af því að spila fótbolta?

  • Hann ákvað að helga líf sitt Jehóva, en ekki fótbolta. Finnst þér hann hafa tekið rétta ákvörðun? Hvers vegna?

Áður en Páll postuli gerðist kristinn sóttist hann eftir mikilsmetnu starfi. Hann hafði numið lög Gyðinga hjá virtum kennara. En hann sagði skilið við það til að gerast kristinn. Sá hann eftir því? Lesið Filippíbréfið 3:8 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvers vegna sagði Páll að það sem hann gerði áður en hann varð kristinn væri „tómt sorp“?

  • Hvað fékk hann í staðinn?

  • Finnst þér eitthvað annað sem þú gætir tekið þér fyrir hendur í lífinu jafnast á við það að þjóna Jehóva?

Páll fékk mun meira en hann sagði skilið við þegar hann gerðist kristinn.

SUMIR SEGJA: „Það er óskynsamlegt að helga líf sitt Guði.“

  • Hvers vegna finnst þér rökrétt að vígja líf þitt Jehóva?

SAMANTEKT

Kærleikur fær okkur til að vígja okkur Jehóva og láta skírast.

Upprifjun

  • Hvers vegna á Jehóva skilið að við elskum hann og tilbiðjum af heilum hug?

  • Hvernig umbunar Jehóva skírðum vottum sínum?

  • Langar þig til að vígja líf þitt Jehóva?

Markmið

KANNAÐU

Sjáðu hvers vegna söngkona og íþróttamaður ákváðu að vígja líf sitt Jehóva.

Ungt fólk spyr – hvernig ætla ég að nota líf mitt? (6:52)

Kynntu þér fleiri ástæður til að vígjast Jehóva.

„Af hverju ættirðu að vígjast Jehóva?“ (Varðturninn 15. janúar 2010)

Taktu eftir gleði þeirra sem vígja líf sitt Jehóva í þessu tónlistarmyndbandi.

Ég gef þér líf mitt (4:30)

Lestu söguna „Í mörg ár velti ég því fyrir mér hvers vegna við erum hérna“ og taktu eftir hvað fékk konu til að hugsa um hvernig hún forgangsraðaði.

„Biblían breytir lífi fólks“ (Grein úr Varðturninum)