Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðsríki og framkvæmdir þess

Guðsríki og framkvæmdir þess

„Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — MATTEUS 6:10.

1. Hvaða þýðingu hefur koma Guðsríkis?

ÞEGAR Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um komu ríkis Guðs vissi hann að koma þess myndi binda enda á stjórnir manna, sem höfðu verið óháðar Guði um þúsundir ára. Allan þann tíma fóru menn á jörðinni yfirleitt ekki eftir vilja Guðs. (Sálmur 147:19, 20) En þegar Guðsríki verður stofnsett á himnum verður alls staðar farið að vilja Guðs. Tími stórkostlegra breytinga nálgast þegar himnesk stjórn Guðs tekur yfir stjórnir manna.

2. Hvaða breytingar eiga sér stað þegar stjórn Guðsríkis tekur yfir stjórnir manna?

2 Jesús kallaði tímabilið þegar þessar breytingar eiga sér stað ‚þá miklu þrengingu sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘ (Matteus 24:21) Biblían skýrir ekki frá því hve langt tímabilið eigi að vera en hörmungarnar, sem verða á þeim tíma, munu verða meiri en heimurinn hefur nokkurn tíma fyrr orðið vitni að. Í upphafi þrengingarinnar miklu gerist atburður sem verður reiðarslag fyrir flesta jarðarbúa: eyðing allra falskra trúarbragða. En vottum Jehóva bregður ekki því að þeir hafa búist við þessu í langan tíma. (Opinberunarbókin 17:1, 15-17; 18:1-24) Þrengingunni miklu lýkur í Harmagedón þegar Guðsríkið gereyðir kerfi Satans. — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14, 16.

3. Hvernig lýsir Jeremía örlögum óhlýðinna manna?

3 Hvað hefur það í för með sér fyrir þá „sem þekkja ekki Guð, og [fyrir] þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu“ um Guðsríki á himnum í höndum Krists? (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Í biblíuspádómi segir: „Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar. Þeir sem [Jehóva] hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.“ — Jeremía 25:32, 33.

Illskan tekur enda

4. Hvers vegna er það fullkomlega réttlátt að Jehóva bindi enda á þetta illa heimskerfi?

4 Jehóva hefur umborið illskuna í þúsundir ára, nógu lengi til að réttsinnað fólk áttar sig á að stjórnir manna eru hreinasta hörmung. Á 20. öldinni eingöngu féllu til dæmis yfir 150 milljónir manna í styrjöldum, uppreisnum og öðrum borgaralegum óeirðum samkvæmt einni heimild. Mannleg grimmd kom sérstaklega fram í síðari heimstyrjöldinni þegar um 50 milljónir manna voru drepnar þar á meðal margir sem hlutu hryllilegan dauðdaga í fangabúðum nasista. Biblían sagði réttilega fyrir að „vondir menn og svikarar [myndu] magnast í vonskunni“ á okkar tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Nú á tímum geisar taumlaust siðleysi, glæpir, ofbeldi, spilling og lítilsvirðing fyrir siðferðiskröfum Guðs. Það er því fullkomlega réttlátt að Jehóva bindi enda á þetta illa heimskerfi.

5, 6. Lýsið grimmdinni í Kanaanlandi til forna.

5 Heimsástandið nú á tímum er líkt því sem var í Kanaan fyrir um 3500 árum. Í Biblíunni er sagt: „Allt sem andstyggilegt er [Jehóva], það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.“ (5. Mósebók 12:31) Jehóva sagði Ísraelsþjóðinni: „Það [er] vegna guðleysis þessara þjóða, að [Jehóva] Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér.“ (5. Mósebók 9:5) Biblíufræðingurinn Henry H. Halley bendir á: „Dýrkun Baals, Astarte og annarra guða Kanverja fólst í yfirgengilegu kynsvalli; musteri þeirra voru spillingarbæli.“

6 Halley sýndi fram á hvað illska þeirra var orðin gróf þar sem fornleifafræðingar höfðu á einu slíku svæði „fundið fjölda kerja sem innihéldu leifar barna er hafði verið fórnað Baal.“ Hann sagði: „Allt svæðið reyndist vera grafreitur nýfæddra barna. . . . Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum sem helgiathöfn frammi fyrir þeim; og síðan með því að myrða frumgetin börn sín að fórn handa þessum sömu guðum. Svo virðist sem Kanaanland hafi að verulegu leyti orðið eins konar Sódóma og Gómorra á landsvísu. . . . Átti siðmenning, er einkenndist af jafnviðurstyggilegum sora og grimmd, sér nokkurn tilverurétt? . . . Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“

Að erfa jörðina

7, 8. Hvernig ætlar Guð að hreinsa jörðina?

7 Guð mun bráðlega hreinsa alla jörðina, alveg eins og Kanaanland, og gefa hana þeim sem gera vilja hans. „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Og sálmaritarinn segir: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:10, 11) Satan verður einnig fjarlægður ‚svo að hann leiði ekki framar þjóðirnar afvega allt til þess er fullnast þúsund árin.‘ (Opinberunarbókin 20:1-3) Já, „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

8 Jesús lýsti í hnotskurn hinni stórkostlegu von þeirra sem vilja lifa að eilífu á jörðinni: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Sennilega var hann að vitna í spádóminn í Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Jesús vissi að tilgangur Jehóva væri sá að réttlátir menn fengju að lifa í paradís á jörð að eilífu. Jehóva segir: „Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti . . . og ég gef þetta þeim, er mér þóknast.“ — Jeremía 27:5.

Stórkostlegur nýr heimur

9. Hvers konar heim mun Guð skapa?

9 Eftir Harmagedónstríðið rennur upp stórkostleg „ný jörð“ þar sem „réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Það verður gríðarlegur léttir fyrir þá sem lifa af Harmagedón að vera lausir við núverandi þjakandi heimskerfi. Það verður unaðslegt fyrir þá að ganga inn í réttlátt heimskerfi undir himneskri stjórn Guðsríkis og sjá fyrir sér stórkostlegar blessanir og eilíft líf. — Opinberunarbókin 7:9-17.

10. Hvaða slæma ástand tekur enda undir stjórn Guðsríkis?

10 Aldrei framar mun fólki verða ógnað með stríði, glæpum, hungri eða þá rándýrum. „Ég mun gjöra friðarsáttmála við [fólk mitt] og reka öll illdýri úr landinu . . . Og tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð.“ „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Esekíel 34:25-28; Míka 4:3, 4.

11. Hvernig getum við verið viss um að líkamlegir sjúkdómar verði úr sögunni?

11 Sjúkdómum, sorg og meira að segja dauða verður útrýmt. „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘ Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.“ (Jesaja 33:24) „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. . . . ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“ (Opinberunarbókin 21:4, 5) Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann að hann gat gert slíka hluti með þeim krafti sem Guð hafði veitt honum. Knúður af heilögum anda fór hann víðs vegar um landið til að lækna fatlaða og sjúka. — Matteus 15:30, 31.

12. Hvaða von er fyrir hina látnu?

12 Jesús fékk meiru áorkað. Hann reisti upp þá sem voru dánir. Hvernig brást auðmjúkt fólk við? Foreldrar 12 ára stúlku „urðu frá sér numdir af undrun“ þegar hann reisti hana upp. (Markús 5:42) Þetta var annað dæmi um það sem Jesús ætlar að gera um alla jörðina undir stjórn Guðsríkis því að þá „[munu] rísa upp bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Hugsaðu þér gleðina þegar látnir lifna við hópum saman og hitta aftur ástvini sína! Ekki er að efa að mikil kennsla mun verða veitt undir umsjón Guðsríkis „því að jörðin [mun verða] full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.

Drottinvald Jehóva réttlætt

13. Hvernig verður sýnt fram á réttmæti stjórnar Guðs?

13 Þegar þúsund ára stjórn Guðsríkis lýkur hafa mennirnir verið endurreistir til andlegs og líkamlegs fullkomleika. Jörðin verður paradís, einn samfelldur Edengarður . Friður, hamingja og öryggi ríkir í ástúðlegu samfélagi manna. Ekkert sambærilegt hefur þekkst í sögu mannkynsins áður en Guðsríki tók við stjórninni. Þá verður augljóst hve gífurlegur munur er á ömurlegum stjórnum manna síðastliðnar árþúsundir og stórfenglegri himneskri þúsund ára stjórn Guðsríkis. Stjórn Guðs hefur algera yfirburði að öllu leyti fyrir atbeina Guðsríkis. Réttur Guðs til að stjórna, drottinvald hans, hefur að fullu verið staðfestur.

14. Hvað verður um þá sem gera uppreisn í lok þúsund áranna?

14 Í lok þúsund áranna leyfir Jehóva fullkomnum mönnum að nota frjálsan vilja sinn til að velja hverjum þeir vilji þjóna. Biblían bendir á að ‚Satan verði leystur úr fangelsi sínu.‘ Hann reynir aftur að afvegaleiða mennina og einhverjir kjósa að verða óháðir Guði. Til að ‚þrengingin komi ekki tvisvar‘ eyðir Jehóva Satan, djöflum hans og öllum þeim sem gera uppreisn gegn drottinvaldi hans. Enginn getur haldið því fram að sá sem hlýtur eilífa eyðingu á þeim tíma hafi ekki haft tækifæri eða ófullkomleikinn hafi staðið í veginum. Nei, þeir verða eins og Adam og Eva sem kusu að gera uppreisn gegn réttlátri stjórn Guðs þótt fullkomin væru. — Opinberunarbókin 20:7-10; Nahúm 1:9.

15. Hvers konar samband verður á milli Jehóva og trúfastra manna?

15 Sennilega kjósa langflestir að aðhyllast drottinvald Jehóva. Þegar öllum uppreisnarseggjum hefur verið tortímt standa hinir réttlátu frammi fyrir Jehóva, eftir að hafa staðist lokaprófið. Jehóva viðurkennir þessa trúföstu menn sem syni og dætur. Þeir ná aftur því sambandi við Guð sem Adam og Eva höfðu áður en þau gerðu uppreisn. Orðin í Rómverjabréfið 8:21 um að „sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna“ munu þess vegna uppfyllast. Spámaðurinn Jesaja boðaði: „[Guð] mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ — Jesaja 25:8.

Vonin um eilíft líf

16. Hvers vegna er viðeigandi að hlakka til þess að hljóta eilíft lífi?

16 Framtíðarhorfur trúfastra manna eru dásamlegar þar sem þeir vita að Guð mun að eilífu láta rigna niður til þeirra gnægð andlegra og efnislegra blessana. Sálmaritarinn segir með sanni: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:16) Jehóva hvetur jarðneska hópinn til að láta vonina um líf í paradís vera hluta af trúnni á sig. Enda þótt drottinvald Jehóva sé mikilvægast fer hann ekki fram á að fólk þjóni sér án þess að mega vænta umbunar. Í Biblíunni kemur alls staðar fram að hollustan við Guð og vonin um eilíft líf eru óaðskiljanleg og nauðsynlegir þættir í trú kristins manns á hann. „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6.

17. Hvernig sýndi Jesús fram á að það væri viðeigandi að láta vonina halda sér uppi?

17 Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Með þessu tengdi hann þekkinguna á Guði og tilgangi hans við umbunina sem fylgir henni. Sem dæmi sagði Jesús við misgerðarmanninn sem bað um að hann minntist sín í Guðsríki: ‚Þú skalt vera með mér í paradís.‛ (Lúkas 23:43, 44, NW) Hann sagði ekki manninum að trúa jafnvel þótt hann fengi enga umbun. Hann vissi að Jehóva vill að þjónar hans hafi von um eilíft líf í paradís á jörð til að þeir geti haldið út í margs konar prófraunum sem þeir verða fyrir í þessum heimi. Það er því mikilvæg hjálp fyrir þolgæði kristins manns að hlakka til launanna.

Guðsríki í framtíðinni

18, 19. Hvað verður um konunginn og Guðsríki í lok þúsundáraríkisins?

18 Hvaða hlutverki gegnir Jesús sem konungur og hinar 144.000 konunga og presta eftir þúsund árin, þar sem Guðsríki er tímabundin stjórn sem Jehóva notar til að gera jörðina og íbúa hennar fullkomna og sátta við sig? „Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.“ — 1. Korintubréf 15:24, 25.

19 Hvernig ber að skilja þá ritningarstaði sem tala um að Guðsríki muni vara að eilífu þar sem Kristur lætur það af hendi við Guð? Það sem Guðsríki áorkar stendur að eilífu. Kristur verður í heiðri hafður að eilífu fyrir hlutverk sitt í því að réttlæta drottinvald Guðs. En þar sem synd og dauði verða úr sögunni og mannkynið hefur verið endurleyst er ekki lengur þörf á honum sem endurlausnara. Þúsund ára stjórn Guðsríkis hefur einnig lokið verki sínu að öllu leyti svo að það verður ekki lengur þörf fyrir tímabundna stjórn Jehóva yfir hlýðnu mannkyni. Þar af leiðir að ‚Guð verður allt í öllu.‘ — 1. Korintubréf 15:28.

20. Hvernig getum við vitað hvað bíður Krists og hinna 144.000 í framtíðinni?

20 Hvert verður hlutverk Krists og meðstjórnenda hans að loknu þúsundáraríkinu? Þess er ekki getið í Biblíunni. En við getum verið viss um að í framtíðinni muni Jehóva fela þeim margs konar forréttindastörf innan sköpunarinnar. Megum við öll styðja drottinvald Jehóva núna og hljóta eilíft líf svo að við komumst að raun um hver tilgangur Jehóva er með konunginn, meðkonungana og prestana sem og hinn mikilfenglega alheim.