Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn tilbeiðsla sameinar fólk

Sönn tilbeiðsla sameinar fólk

Sönn tilbeiðsla sameinar fólk

ÞÓ AÐ trúarbrögð sundri mannkyni á heildina litið getur tilbeiðsla á hinum eina sanna Guði sameinað fólk. Þegar Ísraelsmenn voru útvalin þjóð Guðs löðuðust margir heiðingjar að sannri tilbeiðslu. Rut hafnaði til dæmis guðum heimalands síns, Móabs, og sagði við Naomí: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Á fyrstu öldinni höfðu margir heiðingjar gerst tilbiðjendur hins sanna Guðs. (Postulasagan 13:48; 17:4) Seinna, þegar postular Jesú ferðuðust til fjarlægra staða og boðuðu fagnaðarerindið, sameinaðist fleira einlægt fólk í tilbeiðslu á hinum sanna Guði. Páll postuli sagði: „Þér sneruð yður til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði.“ (1. Þessaloníkubréf 1:9) Hefur tilbeiðsla á hinum sanna Guði slíkan sameiningarkraft nú á dögum?

Efahyggjumenn halda því fram að rangt sé að tala um „sanna tilbeiðslu“ eða „sannan Guð.“ Kannski hafa þeir þá skoðun vegna þess að þeir draga í efa að nokkurs staðar sé hægt að finna sannleika. En sannleiksleitandi fólk af ólíkum uppruna hefur gert sér grein fyrir því að tilbeiðsla byggist ekki á því hvað hverjum og einum hentar. Jehóva Guð, skapari allra hluta, er sá eini sem er tilbeiðsluverður. (Opinberunarbókin 4:11) Hann er hinn sanni Guð og hefur þann rétt að ákveða hvernig hann sé tilbeðinn.

Jehóva notar orð sitt Biblíuna til að benda okkur á kröfur sínar. Nú á dögum hafa næstum allir aðgang að Biblíunni í heild eða að hluta og sonur Guðs sagði: ‚Ef þið eruð stöðugir í orði mínu munuð þið þekkja sannleikann.‘ (Jóhannes 8:31, 32) Þannig sjáum við að hægt er að þekkja sannleikann. Og milljónir hjartahreinna manna af ólíkum trúaruppruna taka hugrakkar á móti sannleikanum og eru sameinaðar í sannri tilbeiðslu. — Matteus 28:19, 20; Opinberunarbókin 7:9, 10.

Eining um allan heim er veruleiki

Í Sefaníabók er eftirtektarverður spádómur sem talar um samsöfnun fólks af ólíkum uppruna. Þar segir: „Þá mun ég [Jehóva Guð] gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál til að þær ákalli allar nafn Jehóva og þjóni honum hlið við hlið.“ (Sefanía 3:9, NW) Þetta er falleg lýsing á fólki sem hefur breytt lífi sínu og þjónar Guði í sameiningu.

Hvenær átti þetta að gerast? Sefanía 3:8 segir: „Bíðið mín þess vegna — segir [Jehóva], — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.“ Já, á meðan Jehóva er að safna þjóðunum saman til að úthella yfir þær brennandi reiði sinni gefur hann hinum auðmjúku nýtt, hreint tungumál. Þetta er að gerast núna því að alvaldur Jehóva er að safna öllum þjóðum saman til stríðsins við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16.

Jehóva gefur fólki sínu hreint tungumál til að sameina það. Þetta nýja tungumál er fólgið í réttum skilningi á sannleika Biblíunnar um Guð og tilgang hans. Að tala þetta hreina tungumál felur í sér að trúa sannleikanum, kenna hann öðrum og lifa í samræmi við lög Guðs og meginreglur. Þá verðum við að forðast stjórnmál sem sundra mönnum og uppræta úr huga okkar viðhorf sem einkenna þennan heim, eins og kynþáttahroka og sundrandi þjóðernishyggju. (Jóhannes 17:14; Postulasagan 10:34, 35) Allir hjartahreinir og sannleikselskandi menn geta lært þetta tungumál. Sjáum hvernig þessir fimm einstaklingar, sem nefndir voru í greininni á undan, eru núna sameinaðir í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði, Jehóva, þótt þeir hafi áður haft mjög ólíka trú.

Þau eru sameinuð í sannri tilbeiðslu

Þegar Fidelia, rómversk-kaþólska konan, keypti biblíu fyrir dóttur sína vegna skólaverkefnis bað hún prestinn að sýna sér í Biblíunni hvað orðið hefði um börnin hennar fimm sem dóu. „Hvílík vonbrigði,“ sagði hún. Þegar vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá henni spurði hún þá svipaðrar spurningar. Þegar hún las um ástand hinna dánu í sinni eigin biblíu sá hún hvernig kirkjan hafði blekkt hana. Hún lærði að hinir dánu vita ekki neitt og þjást því hvorki í forgarði vítis né á nokkrum öðrum stað. (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5) Fidelia henti öllum trúarlíkneskjum sínum, sagði sig úr kirkjunni og fór að nema Biblíuna. (1. Jóhannesarbréf 5:21) Undanfarin tíu ár hefur hún haft ánægju af því að kenna öðrum sannleika Ritningarinnar.

Tara fluttist frá Katmandú í Nepal til annars lands. Þar voru fá hindúahof þannig að hún fór í Meþódistakirkju í von um að geta fullnægt andlegri þörf sinni. En þar fékk hún engin svör við spurningum sínum um þjáningar manna. Seinna heimsóttu vottar Jehóva hana og buðu henni biblíunámskeið. „Ég áttaði mig á því að kærleiksríkur Guð gæti ekki verið ábyrgur fyrir öllum þjáningunum í heiminum,“ segir hún. „Ég var heilluð af tilhugsuninni um nýjan, friðsælan og sameinaðan heim.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Tara losaði sig við hindúalíkneskin og hætti að fylgja trúarlegum siðvenjum heimalandsins. Hún gerðist vottur Jehóva og naut þess að hjálpa öðrum að fullnægja andlegum þörfum sínum.

Fyrst þegar vottar Jehóva heimsóttu búddhatrúarmanninn Panya bjó hann í Bankok og hafði atvinnu af því að spá fyrir fólki. Hann segir: „Það var eins og hulu hefði verið svipt frá augum mér. Ég lærði af hverju ástandið núna er ólíkt því sem skaparinn ætlaði í upphafi. Ég komst að raun um hvernig hann ætlar að bæta allan þann skaða sem menn hafa valdið með því að hafna honum og drottinvaldi hans. Boðskapur Biblíunnar var sjálfum sér samkvæmur frá upphafi til enda. Ég fór að elska Jehóva sem persónu og það knúði mig til að gera það sem ég vissi að var rétt. Ég var óðfús að sýna öðrum muninn á visku manna og visku Guðs. Sönn viska hefur breytt lífi mínu.“

Virgil varð mjög efins í trúnni með tímanum. Í stað þess að biðja Guð um að hjálpa svörtu fólki og biðja fyrir samtökum sem honum fannst stuðla að hatri á hvítu fólki bað hann um sannleikann, hver sem hann væri og hvar sem hann væri. Hann segir: „Þegar ég vaknaði daginn eftir að hafa beðið svona innilega til Guðs fann ég blaðið Varðturninn í húsinu. . . . Einhver hlaut að hafa rennt því undir hurðina.“ Fljótlega var hann farinn að kynna sér Biblíuna af ákafa hjá Vottum Jehóva. Í framhaldinu segir hann: „Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem mér fannst ég vera ánægður. . . . Vonargeisli fór að skína innra með mér.“ Virgil gekk fljótlega í lið með þeim sem veita fólki hina einu sönnu von Biblíunnar.

Charo átti í erfiðleikum með börnin sín og var snortin þegar kona, sem heitir Gladys, hjálpaði henni með því að fara með henni á markaðinn. Gladys var vottur og með tímanum þáði Charo boð hennar um ókeypis heimabiblíunámskeið. Charo var yfir sig hrifin þegar hún sá í sinni eigin biblíu að ekki fari allir góðir menn til himna heldur muni Jehóva veita mönnum eilíft líf á jörðinni. (Sálmur 37:11, 29) Undanfarin 15 ár hefur Charo sjálf miðlað þessari von til annarra.

Ímyndið ykkur að öll jörðin væri byggð einlægu fólki sem væri sameinað í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði, Jehóva. Þetta er ekki bara óskhyggja heldur loforð Jehóva. Hann sagði fyrir milligöngu spámannsins Sefanía: ‚Ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni Jehóva. Þeir munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga og enginn mun styggja þá.‘ (Sefanía 3:12, 13) Ef þetta loforð höfðar til þín skaltu fylgja þessari hvatningu Biblíunnar: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — Sefanía 2:3.