Hoppa beint í efnið

Jehóva er Guð sem er þess virði að þekkja

Jehóva er Guð sem er þess virði að þekkja

Jehóva er Guð sem er þess virði að þekkja

ERTU að fara á mis við eitthvað sem skiptir máli í lífinu? Svarið er já ef þú veist lítið um Guð. Hvers vegna? Vegna þess að það að kynnast Guði Biblíunnar er ákaflega gagnlegt eins og milljónir manna hafa uppgötvað. Það er bæði gagnlegt hér og nú og til frambúðar.

Jehóva Guð höfundur Biblíunnar vill að við kynnumst sér. Sálmaritarinn skrifaði: „Til að fólk megi vita að þú, sem heitir Jehóva, þú einn ert hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ Hann veit að það er okkur fyrir bestu að þekkja hann. „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ Hvaða gagn höfum við af því að þekkja hinn hæsta, Jehóva Guð? – Sálmur 83:18, NW; Jesaja 48:17.

Þegar við þekkjum Guð fáum við leiðsögn til að leysa vandamál dagslegs lífs. Við fáum einnig framtíðarvon og hugarfrið. Þegar við þekkjum Jehóva vel knýr það okkur líka til að breyta viðhorfum okkar til stóru málanna sem fólk um heim allan stendur frammi fyrir. Hvaða mál eru það?

Hefur líf þitt tilgang?

Mannkynið hefur tekið stórkostlegum framförum á sviði tækninnar en margir velta samt fyrir sér stóru spurningunum: Hvers vegna er ég hér? Hvert fer ég? Hver er tilgangur lífsins? Lífið skortir tilgang ef þessum spurningum er ekki svarað á fullnægjandi hátt. Finna margir fyrir slíkum skorti? Rannsókn sem var gerð í Þýskalandi á seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar leiddi í ljós að helmingi þátttakenda fannst lífið oft eða stundum vera tilgangslaust. Staðan er kannski svipuð þar sem þú býrð.

Það er erfitt að setja sér markmið án þess að sjá einhvern tilgang í lífinu. Margir reyna að bæta úr slíkum skorti með því að safna sér auði en tómleikinn getur samt sótt á þá. Það að hafa engan tilgang í lífinu hefur haft þau áhrif á suma að þeir vilja ekki lifa lengur. Ung og falleg kona fékk að reyna þetta. Samkvæmt International Herald Tribune var hún alin upp við „gífurlegt ríkidæmi og óþrjótandi möguleika“. En þótt hún lifði í vellystingum var hún einmana og henni fannst líf sitt innantómt. Hún tók svefnlyf og fannst síðan dáin. Þú þekkir kannski önnur svipuð dæmi.

Hefurðu heyrt þá fullyrðingu að vísindin geti sagt okkur allt um lífið? Vikuritið Die Woche segir: „Þótt vísindin geti vissulega verið sönn koma þau að litlu gagni þegar trú og siðferði eru annars vegar. Þróunarkenningin virðist ófullnægjandi og jafnvel skammtaeðlisfræði með sínum óútreiknanlega óstöðugleika veitir enga huggun eða öryggiskennd.“ Vísindalegar uppgötvanir hafa átt mikinn þátt í að lýsa lífinu í sínum ýmsu myndum og skýra hringrásir nátttúrunnar og þau ferli sem viðhalda lífinu. En vísindin geta ekki sagt okkur hvers vegna við erum hér og hvert við förum. Ef við setjum allt traust okkar á þau fáum við ekki svör við spurningum sem varða tilgang lífsins. Samkvæmt tímaritinu Süddeutsche Zeitung er fyrir vikið „útbreidd þörf á leiðsögn“.

Hver gæti verið betur í stakk búinn en skaparinn til að veita slíka leiðsögn? Hann hlýtur að vita hvers vegna við erum hér fyrst það var hann sem setti manninn á jörðina. Biblían útskýrir að Jehóva skapaði mennina þannig að þeir gætu uppfyllt jörðina og annast hana. Þeir áttu að endurspegla eiginleika hans í öllu sem þeir gerðu – eiginleika eins og réttlæti, visku og kærleika. Þegar við skiljum hvers vegna Jehóva skapaði okkur vitum við um leið hvers vegna við erum hér. – 1. Mósebók 1:26–28.

Hvað geturðu gert?

Hvað nú ef þú hefur hingað til ekki fundið fullnægjandi svör við spurningunum: Hvers vegna er ég hér? Hvert fer ég? Og hver er tilgangur lífsins? Biblían mælir með því að þú kynnist Jehóva náið. Jesús sagði reyndar: „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði, og þeim sem þú sendir, Jesú Kristi.“ Ræktaðu með þér sömu eiginleika og Guð býr yfir, sérstaklega kærleika, og settu þér það markmið að vera þegn Guðsríkis í höndum Messíasar. Þá öðlastu tilgang í lífinu og dásamlega og örugga von fyrir framtíðina. Og líklega færðu svör við stóru spurningunum sem áður ollu þér heilabrotum. – Jóhannes 17:3; Prédikarinn 12:13.

Hversu miklu máli skiptir þetta? Hans veit allt um það. * Á árum áður var trú hans á Guð óljós og hafði engin áhrif á daglegt líf. Lífið snerist um fíkniefni, siðlausar konur, smáglæpi og mótorhjól. En hann segir: „Lífið var innantómt og veitti ekki raunverulega ánægju.“ Á miðjum þrítugsaldri ákvað Hans að kynnast Guði persónulega með því að lesa Biblíuna vandlega. Þegar hann eignaðist náið samband við Jehóva og skildi hver væri tilgangur lífsins breytti hann um lífstíl og lét skírast sem vottur Jehóva. Hann hefur þjónað í fullu starfi undanfarin tíu ár. Hann segir: „Að þjóna Jehóva er besta lífið. Ekkert jafnast á við það. Að þekkja Jehóva hefur gefið lífinu tilgang.“

Auðvitað veltir fólk fleira fyrir sér en tilgangi lífsins. Eftir því sem ástandið í heiminum versnar leitar annað mikilvægt mál á fólk í sífellt meira mæli.

Hvers vegna gerðist þetta?

Þegar ógæfa dynur yfir hugsar sá sem fyrir verður gjarnan: „Hvers vegna gerðist þetta?“ Getan til að takast tilfinningalega á við erfiðleika er að miklu leyti háð því að vita svarið við þessari spurningu. Sársaukinn heldur áfram ef fullnægjandi svar vantar og sá sem þjáist getur orðið bitur. Tökum sem dæmi reynslu Bruni.

„Litla dóttir mín dó fyrir nokkrum árum,“ segir Bruni, móðir sem er nú á miðjum aldri. „Ég trúði á Guð þannig að ég leitaði huggunar hjá prestinum. Hann sagði að Guð hefði tekið Susanne til himna þar sem hún væri nú engill. Heimurinn hrundi þegar ég missti dóttur mína og nú hataði ég Guð fyrir að hafa tekið hana.“ Bruni fann til sársauka í mörg ár. „En þá sýndi vottur Jehóva mér út frá Biblíunni að ég hefði enga ástæðu til að hata Guð. Jehóva tók ekki Susanne til himna og hún er ekki engill. Veikindi hennar voru afleiðing af ófullkomleika manna. Susanne sefur dauðasvefni og bíður þess að Jehóva veki hana til lífs á ný. Ég komst líka að því að Jehóva skapaði mennina til að lifa að eilífu í paradís á jörð og að áform hans verði að veruleika innan skamms. Þegar ég fór að skilja hvers konar persóna Jehóva er styrkti það samband mitt við hann og dró úr sársaukanum.“ – Sálmur 37:29; Postulasagan 24:15; Rómverjabréfið 5:12.

Milljónir manna upplifa raunir af ýmsu tagi, eins og til dæmis erfiða lífsreynslu, stríð, hungursneyð eða náttúruhamfarir. Bruni létti þegar hún lærði af Biblíunni að erfiðleikar eru ekki Jehóva að kenna, að hann vildi aldrei að þjáningar yrðu hlutskipti mannkynsins og að hann bindur bráðlega enda á illsku. Vaxandi illska er raunar merki um að við lifum „á síðustu dögum“ þessa heims. Þessar stórkostlegu breytingarnar til hins betra, sem við þráum að sjá, eru skammt fram undan. – 2. Tímóteusarbréf 3:1–5; Matteus 24:7, 8.

Kynnstu Guði

Hans og Bruni höfðu óljósar hugmyndir um Guð. Þau trúðu á hann en vissu ekki mikið um hann. Þau höfðu mikið gagn af því að taka sér tíma til að kynnast honum náið. Þau fengu svör við stóru spurningunum sem fólk veltir fyrir sér og öðluðust fyrir vikið hugarfrið og örugga framtíðarvon. Milljónir þjóna Jehóva hafa svipaða reynslu.

Að kynnast Jehóva hefst á því að skoða Biblíuna vandlega því að hún segir okkur frá honum og til hvers hann ætlast af okkur. Sumir á fyrstu öld gerðu þetta. Lúkas, sem var sagnfræðingur og læknir, sagði um Gyðingana í söfnuðinum í Beroju í Grikklandi að þeir hefðu ‚tekið við orðinu [af Páli og Sílasi] af mesta áhuga og rannsakað Ritningarnar daglega til að kanna hvort það sem þeir heyrðu væri rétt‘. – Postulasagan 17:10, 11.

Frumkristnir menn komu líka saman í söfnuðum. (Postulasagan 2:41, 42, 46; 1. Korintubréf 1:1, 2; Galatabréfið 1:1, 2; 2. Þessaloníkubréf 1:1) Eins er nú á dögum. Vottar Jehóva hittast á safnaðarsamkomum sem eru gerðar til að hjálpa fólki að nálgast Jehóva og þjóna honum af gleði. En það hefur fleira gott í för með sér að eiga félagsskap við votta Jehóva. Fólk líkist sífellt meir þeim guði sem það tilbiður. Þess vegna sýna vottar Jehóva eiginleika sem Jehóva sjálfur býr yfir, þó svo að þeir geri það í takmörkuðum mæli. Við kynnumst því Jehóva enn betur þegar við eigum félagsskap við votta Jehóva. – Hebreabréfið 10:24, 25.

Það kostar vissulega viðleitni að kynnast Jehóva. En á það ekki við um margt sem þú vilt áorka í lífinu? Hugsaðu um allt sem íþróttamaður í fremstu röð leggur á sig. Franski skíðakappinn Jean-Claude Killy hefur unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikjum. Hann segir um þær fórnir sem þarf að færa til að ná árangri í heimsmeistarakeppni: „Maður þarf að skipuleggja 10 ár fram í tímann og hugsa um það daglega ár eftir ár ... Það er vinna alla daga allt árið um kring sem reynir á tilfinningalega og líkamlega.“ Allur þessi tími og erfiði til að taka þátt í keppni sem stendur kannski yfir í tíu mínútur! Það sem við fáum til baka þegar við kynnumst Jehóva er miklu meira og varanlegra.

Samband sem verður sífellt nánara

Það vill enginn missa af því sem skiptir máli í lífinu. Ef þér finnst líf þitt vanta tilgang eða þig langar að vita hvers vegna erfiðleikar dynja yfir skaltu vera ákveðinn í að kynnast Jehóva, Guði Biblíunnar. Það getur breytt lífi þínu varanlega til hins betra.

Hættum við einhvern tíma að læra um Jehóva? Þeir sem hafa þjónað honum áratugum saman finna enn til undrunar yfir því sem þeir hafa lært um hann en líka yfir nýju sem þeir læra. Það stuðlar að hamingju okkar og styrkir samband okkar við hann. Megum við taka undir með Páli postula sem skrifaði: „Hve ríkuleg er ekki blessun Guðs og djúpstæð viska hans og þekking! Dómar hans eru ofar okkar skilningi og vegir hans órekjandi. ‚Hver hefur kynnst huga Jehóva og hver hefur verið ráðgjafi hans?‘“ – Rómverjabréfið 11:33, 34.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Nöfnum hefur verið breytt.

[Innskot]

Fólk veltir fyrir sér sömu stóru spurningunum og fólk áður fyrr: Hvers vegna er ég hér? Hvert fer ég? Hver er tilgangur lífsins?

[Innskot]

„Þegar ég fór að skilja hvers konar persóna Jehóva er styrkti það samband mitt við hann.“

[Innskot]

„Að þjóna Jehóva er besta lífið. Ekkert jafnast á við það. Að þekkja Jehóva hefur gefið lífinu tilgang.“