Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu Jehóva af öllu hjarta

Treystu Jehóva af öllu hjarta

Treystu Jehóva af öllu hjarta

„Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér.“ — SÁLMUR 9:11.

1, 2. Á hvaða gagnslausa hluti treystir fólk til að fá öryggi?

ÞAÐ er margt sem ógnar velferð okkar og því er eðlilegt að leita eftir einhverju eða einhverjum sem getur veitt okkur öryggi. Sumir telja að framtíðin sé tryggð með peningum. En það er ekki mikla vernd að fá í peningum. Biblían segir: „Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur.“ (Orðskviðirnir 11:28) Aðrir leita til mennskra leiðtoga. En jafnvel bestu leiðtogar gera mistök, og að lokum deyja þeir allir. Í Biblíunni eru þessi viturlegu orð: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ (Sálmur 146:3) Þessi innblásnu orð vara okkur einnig við að treysta eingöngu á eigin mátt því að við erum sjálf ekkert annað en menn.

2 Jesaja spámaður gagnrýndi leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar fyrir að gera „lygi að hæli“ sínu. (Jesaja 28:15-17) Þeir gerðu stjórnmálabandalög við nágrannaþjóðir í leit sinni að öryggi. Slík bandalög voru óáreiðanleg — lygi. Margir trúarleiðtogar okkar tíma rækta líka vináttubönd við stjórnmálaleiðtoga. Þessi bandalög munu einnig reynast „lygi.“ (Opinberunarbókin 17:16, 17) Þau veita ekki varanlegt öryggi.

Jósúa og Kaleb gáfu gott fordæmi

3, 4. Hvernig var frásögn Jósúa og Kalebs ólík frásögn hinna njósnaranna tíu?

3 Hvar ættum við þá að leita eftir öryggi? Á sama stað og Jósúa og Kaleb leituðu á dögum Móse. Stuttu eftir frelsun Ísraelsmanna úr Egyptalandi var þjóðin reiðubúin að halda inn í fyrirheitna landið, Kanaan. Tólf njósnarar voru sendir til að kanna landið og eftir 40 daga komu þeir til baka til að gefa skýrslu um ferðina. Aðeins tveir þeirra, Jósúa og Kaleb, töluðu jákvætt um möguleika Ísraelsmanna í Kanaanlandi. Hinir voru sammála um að landið væri hið ágætasta en sögðu: „Það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög . . . Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér.“ — 4. Mósebók 13:27, 28, 31.

4 Ísraelsmenn snerust á sveif með njósnurunum tíu og urðu svo hræddir að þeir fóru að mögla gegn Móse. Jósúa og Kaleb sögðu loks af mikilli tilfinningu: „Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland. Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið.“ (4. Mósebók 14:6-9) Ísraelsmenn neituðu samt sem áður að hlusta og fyrir vikið var þeim meinað að ganga inn í fyrirheitna landið á þeim tíma.

5. Hvers vegna voru Jósúa og Kaleb jákvæðir?

5 Hvers vegna voru Jósúa og Kaleb jákvæðir en hinir njósnararnir tíu neikvæðir? Allir 12 sáu sömu rammgerðu borgirnar og rótgrónu þjóðirnar. Og það var alveg rétt hjá njósnurunum tíu að Ísraelsmenn voru ekki nógu sterkir til að vinna landið. Jósúa og Kaleb gerðu sér einnig grein fyrir því. En hinir sáu hlutina frá mannlegum bæjardyrum. Jósúa og Kaleb treystu hins vegar á Jehóva. Þeir höfðu séð máttarverk hans í Egyptalandi, við Rauðahafið og rætur Sínaífjalls. Rahab í Jeríkó þurfti ekki annað en fréttir af þessum atburðum til að hætta lífi sínu í þágu fólks Jehóva nokkrum áratugum síðar. (Jósúabók 2:1-24; 6:22-25) Jósúa og Kaleb voru sjónarvottar að verkum Jehóva og treystu því fullkomlega að hann héldi áfram að berjast fyrir fólk sitt. Fjórum áratugum síðar var traust þeirra réttlætt þegar ný kynslóð Ísraelsmanna hélt inn í Kanaan undir stjórn Jósúa og vann landið.

Hvers vegna við eigum að treysta skilyrðislaust á Jehóva

6. Hvers vegna eru kristnir menn undir þrýstingi og á hvað ættu þeir að setja traust sitt?

6 Á þessum ,örðugu tíðum‘ stöndum við, líkt og Ísraelsmenn, frammi fyrir óvinum sem eru okkur ofviða. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þrýst er á okkur siðferðilega, andlega og stundum jafnvel líkamlega. Við getum ekki staðist þennan þrýsting ein okkar liðs þar sem hann á upptök sín hjá ofurmannlegri veru, Satan djöflinum. (Efesusbréfið 6:12; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvert getum við þá snúið okkur? Trúfastur maður sagði í bæn til Jehóva forðum daga: „Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér.“ (Sálmur 9:10, 11) Ef við þekkjum Jehóva í raun og veru og skiljum fyrir hvað nafn hans stendur treystum við á hann eins örugglega og Jósúa og Kaleb. — Jóhannes 17:3

7, 8. (a) Hvernig gefur sköpunarverkið okkur ástæðu til að treysta á Jehóva? (b) Hvaða ástæðu gefur Biblían okkur til að treysta á Jehóva?

7 Hvers vegna ættum við að treysta á Jehóva? Jósúa og Kaleb gerðu það að hluta til vegna þess að þeir höfðu orðið vitni að því hve máttugur hann er. Það höfum við líka. Hugsaðu til dæmis um sköpunarverk Jehóva, þar á meðal alheiminn með milljörðum vetrarbrauta. Þau gífurlegu náttúruöfl, sem Jehóva ræður yfir, sýna svo að ekki verður um villst að Jehóva er hinn almáttugi. Þegar við virðum fyrir okkur undur sköpunarverksins getum við ekki annað en verið sammála Job sem sagði um Jehóva: „Hver vill þá aftra honum, hver vill segja við hann: ,Hvað gjörir þú?‘“ (Jobsbók 9:12) Ef Jehóva er með okkur þurfum við í rauninni engan að hræðast í öllum alheiminum. — Rómverjabréfið 8:31.

8 Hugsaðu líka um orð Jehóva, Biblíuna, sem er óþrjótandi viskubrunnur. Biblían er kröftug og getur hjálpað okkur að hætta rangri breytni og samræma líf okkar vilja hans. (Hebreabréfið 4:12) Það er í Biblíunni sem við lærum að þekkja Jehóva með nafni og skilja hvað nafn hans merkir. (2. Mósebók 3:14) Við komumst að raun um að Jehóva getur orðið hvað sem hann vill — ástríkur faðir, réttlátur dómari eða sigursæll stríðsmaður — til að uppfylla tilgang sinn. Og við verðum vitni að því hvernig orð hans rætist alltaf. Er við nemum orð Guðs segjum við eins og sálmaritarinn: „Þínu orði treysti ég.“ — Sálmur 119:42; Jesaja 40:8.

9. Hvernig styrkja lausnargjaldið og upprisa Jesú traust okkar á Jehóva?

9 Lausnargjaldið er önnur ástæða til að treysta á Jehóva. (Matteus 20:28) Það er stórkostlegt að Guð skuli hafa sent ástkæran son sinn til að deyja sem lausnargjald fyrir okkur! Og lausnargjaldið er sannarlega kröftugt. Það hylur syndir allra manna sem iðrast og snúa sér til Jehóva í einlægni. (Jóhannes 3:16; Hebreabréfið 6:10; 1. Jóhannesarbréf 4:16, 19) Upprisa Jesú var einn þáttur í að greiða lausnargjaldið. Þetta kraftaverk, sem hundruð manna urðu vitni að, gefur okkur enn ríkari ástæðu til að treysta á Jehóva. Það er trygging fyrir því að vonir okkar endi ekki með vonbrigðum. — Postulasagan 17:31; Rómverjabréfið 5:5; 1. Korintubréf 15:3-8.

10. Hvaða persónulegar ástæður höfum við til að treysta á Jehóva?

10 Þetta eru aðeins fáeinar ástæður fyrir því að við getum og ættum að leggja allt okkar traust á Jehóva. Ástæðurnar eru mun fleiri og sumar persónulegar. Til dæmis lendum við öll öðru hverju í erfiðum kringumstæðum. Þegar við leitum eftir leiðsögn Guðs til að takast á við þær sjáum við hve gagnleg leiðsögn hans er. (Jakobsbréfið 1:5-8) Við fáum því meira traust á Jehóva því betur sem við reiðum okkur á hann í daglega lífinu og sjáum góðan árangur af því.

Davíð treysti á Jehóva

11. Þrátt fyrir hvaða aðstæður treysti Davíð á Jehóva?

11 Davíð í Ísrael til forna treysti á Jehóva. Sál konungur hafði í hótunum við hann og sóttist eftir lífi hans og öflugur her Filista herjaði á Ísrael. En Davíð bjargaðist og bar jafnvel sigur úr býtum. Hvers vegna? Hann segir sjálfur: „Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?“ (Sálmur 27:1) Ef við sýnum svipað traust á Jehóva munum við einnig hrósa sigri.

12, 13. Hvernig sýndi Davíð fram á að við ættum að treysta á Jehóva þegar andstæðingar nota tunguna sem vopn gegn okkur?

12 Davíð sagði eitt sinn í bæn til Jehóva: „Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins. Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna, er hvetja [brýna] tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda.“ (Sálmur 64:2-5) Við vitum ekki með vissu hvað fékk Davíð til að skrifa þessi orð. En okkur er hins vegar fullkunnugt um það þegar andstæðingar ,brýna tungur sínar‘ og nota þær líkt og stríðsvopn. Þeir „skjóta“ rangfærslum eins og ,örvum‘ á ráðvanda kristna menn, annaðhvort í töluðu eða rituðu máli. Hvernig fer ef við höfum óbifanlegt traust á Jehóva?

13 Davíð heldur áfram: „Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir, og tunga þeirra verður þeim að falli. . . . Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum.“ (Sálmur 64:8-11) Þó svo að óvinir brýni tungu sína gegn okkur ,verður tunga þeirra þeim sjálfum að falli‘ fyrr eða síðar. Jehóva setur málin að lokum í jákvæðan farveg þannig að þeir sem hafa treyst á hann gleðjast yfir honum.

Hiskía var umbunað traust sitt

14. (a) Við hvaða hættulegu aðstæður treysti Hiskía á Jehóva? (b) Hvernig sýndi Hiskía að hann trúði ekki lygum Assýringa?

14 Hiskía konungi var líka umbunað fyrir að treysta á Jehóva. Í stjórnartíð hans stóð Jerúsalem ógn af hinum öfluga her Assýringa. Herinn hafði unnið sigur á fjölmörgum þjóðum. Hann var jafnvel búinn að vinna borgirnar í Júda og var Jerúsalem ein eftir. Sanheríb talaði digurbarkalega um að vinna hana líka. Hann sagði fyrir munn Rabsake, og það réttilega, að það væri til einskis að treysta á Egyptaland. En síðan sagði hann: „Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ‚Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.‘“ (Jesaja 37:10) Hiskía vissi hins vegar að Jehóva tælir ekki. Hann sagði því í bæn til Jehóva: „Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð.“ (Jesaja 37:20) Jehóva bænheyrði Hiskía. Á einni nóttu deyddi engill 185.000 assýrska hermenn. Jerúsalem var hlíft og Sanheríb steig aldrei framar fæti inn í Júda. Allir sem fréttu af þessum atburði skildu hve mikill Jehóva er.

15. Hvað er það eina sem mun hjálpa okkur að vera viðbúin erfiðleikum sem geta skollið á í þessum óstöðuga heimi?

15 Við eigum í stríði líkt og Hiskía. Okkar stríð er andlegt og við erum andlegir hermenn og verðum þess vegna að temja okkur rétt viðbrögð til að lifa af. Við verðum að sjá árásir fyrir og búa okkur undir þær þannig að við getum varist. (Efesusbréfið 6:11, 12, 17) Aðstæður geta breyst fyrirvaralaust í þessum óstöðuga heimi. Þjóðfélagsólga getur skyndilega brotist út. Trúfrelsi getur verið skert í löndum þar sem það hefur verið í hávegum haft. Það er aðeins eitt sem getur búið okkur undir hvaðeina sem fram undan er, og það er að byggja upp óhagganlegt traust á Jehóva líkt og Hiskía gerði.

Hvað merkir það að treysta á Jehóva?

16, 17. Hvernig sýnum við að við treystum á Jehóva?

16 Traust á Jehóva er meira en orðin tóm. Það varðar hjarta okkar og sannast af verkunum. Ef við treystum á Jehóva treystum við orði hans, Biblíunni, algerlega. Við lesum í henni á hverjum degi, hugleiðum það sem við lesum og leyfum því að leiðbeina okkur í lífinu. (Sálmur 119:105) Að treysta á Jehóva felur einnig í sér að treysta á kraft heilags anda. Við getum með hjálp heilags anda ræktað með okkur ávexti sem eru Jehóva þóknanlegir og unnið bug á rótgrónum löstum. (1. Korintubréf 6:11; Galatabréfið 5:22-24) Mörgum hefur tekist að hætta að reykja eða neyta eiturlyfja með hjálp heilags anda. Aðrir hafa hætt siðlausu líferni. Já, ef við treystum á Jehóva störfum við í hans krafti en ekki okkar eigin. — Efesusbréfið 3:14-18.

17 Traust á Jehóva merkir einnig að treysta þeim sem hann treystir. Jehóva hefur til dæmis falið ,trúum og hyggnum þjóni að gæta hagsmuna Guðsríkis hér á jörð. (Matteus 24:45-47) Við treystum á fyrirkomulag Jehóva og hunsum því ekki þessa útnefningu og reynum ekki að spjara okkur á eigin spýtur. Öldungar þjóna í söfnuðinum á þínu svæði og þeir eru útnefndir af heilögum anda, að sögn Páls postula. (Postulasagan 20:28) Með því að styðja öldungafyrirkomulagið í söfnuðinum sýnum við einnig að við treystum á Jehóva. — Hebreabréfið 13:17.

Fylgdu fordæmi Páls

18. Hvernig feta kristnir menn nú á tímum í fótspor Páls en á hvað treysta þeir ekki?

18 Páll postuli mátti þola þrýsting úr ýmsum áttum í þjónustu sinni, rétt eins og við. Á hans dögum var kristnin rangfærð fyrir yfirvöldum. Stundum leitaðist hann við að leiðrétta slíkar rangfærslur eða að vernda boðunarstarfið með lögum. (Postulasagan 28:19-22; Filippíbréfið 1:7) Kristnir menn nú á dögum fylgja fordæmi hans. Við reynum að upplýsa fólk um starf okkar hvar sem því verður við komið og með öllum tiltækum aðferðum. Og við vinnum að því að verja fagnaðarerindið og staðfesta það með lögum. Hins vegar leggjum við ekki allt okkar traust á slíka vinnu. Við vitum að velgengni okkar stendur hvorki né fellur með því að vinna dómsmál eða fá góða umfjöllun. Við leggjum traust okkar á Jehóva. Við minnumst hvatningar hans til Forn-Ísraels: „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ — Jesaja 30:15.

19. Hvernig hefur bræðrum okkar og systrum verið umbunað fyrir að treysta á Jehóva í ofsóknum?

19 Í nútímasögu Votta Jehóva hefur starf okkar stundum verið bannað eða takmarkað í Austur- og Vestur-Evrópu, sums staðar í Asíu og Afríku og löndum Suður- og Norður-Ameríku. Merkir það að það hafi ekki verið rétt að treysta á Jehóva? Nei, alls ekki. Jehóva hefur í kærleika sínum styrkt þá sem hafa borið hitann og þungann af hörðum ofsóknum sem hann hefur stundum leyft, tilgangi sínum til framdráttar. Ofsóknir hafa hjálpað mörgum kristnum mönnum að byggja upp sterka trú og þeir hafa lært að reiða sig á Guð.

20. Hvað gerum við aldrei þó að við njótum lagalegs frelsis?

20 Í flestum löndum höfum við hins vegar lagalega viðurkenningu og fáum stundum jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum. Við erum þakklát fyrir það og gerum okkur grein fyrir að þetta þjónar líka tilgangi Jehóva. Með blessun Jehóva notum við aukið frelsi til að þjóna honum fyrir opnum tjöldum og eftir bestu getu en ekki til að vænka hag okkar. Við reynum hins vegar aldrei að þóknast yfirvöldum með því að rjúfa hlutleysi okkar, gera minna í boðunarstarfinu eða að draga á einhvern annan hátt úr þjónustu okkar við Jehóva. Við erum þegnar Messíasarríkisins og styðjum drottinvald Jehóva á allan hátt. Von okkar er ekki byggð á þessu heimskerfi heldur á nýja heiminum þar sem hið himneska Messíasarríki verður eina stjórnin yfir allri jörðinni. Sprengjur, eldflaugar eða jafnvel kjarnorkuárásir geta ekki hreyft við þessu ríki eða skotið það niður af himnum. Það er ósigrandi og uppfyllir þann tilgang sem Jehóva ætlaði því. — Daníel 2:44; Hebreabréfið 12:28; Opinberunarbókin 6:2.

21. Hvað erum við ákveðin í að gera?

21 Páll segir: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ (Hebreabréfið 10:39) Þjónum því öll Jehóva allt til enda. Við höfum ærna ástæðu til að leggja allt okkar traust á Jehóva, nú og um alla eilífð. — Sálmur 37:3; 125:1.

Hvað lærðirðu?

• Hvers vegna voru Jósúa og Kaleb jákvæðir eftir njósnaferðina?

• Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að við ættum að treysta algerlega á Jehóva.

• Hvað merkir það að treysta á Jehóva?

• Hvað afstöðu erum við ákveðin í að taka þar sem við treystum á Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvers vegna komu Jósúa og Kaleb með jákvæðar fréttir?

[Myndir á blaðsíðu 16]

Sköpunarverkið gefur okkur ríka ástæðu til að treysta á Jehóva.

[Credit line]

Allar þrjár myndirnar: Með góðfúslegu leyfi Anglo-Australian Observatory, ljósmynd: David Malin.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Að treysta Jehóva merkir að treysta þeim sem hann treystir.