Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Auðsýnið í þekkingunni sjálfstjórn

Auðsýnið í þekkingunni sjálfstjórn

Auðsýnið í þekkingunni sjálfstjórn

‚Auðsýnið í þekkingunni sjálfsögun.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5-8.

1. Af hverju stafa mörg af vandamálum mannanna?

„SEGÐU bara nei.“ Á þessu var hamrað í herferð gegn fíkniefnaneyslu meðal ungs fólks sem gerð var í Bandaríkjunum fyrir fáeinum árum. Ástandið væri óneitanlega margfalt betra en það er ef allir segðu hreinlega nei, ekki aðeins við fíkniefnum heldur einnig við ofdrykkju, óskynsamlegu eða siðlausu líferni, óheiðarleika í viðskiptum og girndum holdsins. (Rómverjabréfið 13:14) En eins og allir vita getur verið erfitt að segja nei.

2. (a) Hvaða biblíudæmi sýna að það er ekkert nýtt að fólk eigi erfitt með að segja nei? (b) Hvaða áhrif ættu þessi dæmi að hafa á okkur?

2 Allir ófullkomnir menn eiga það sameiginlegt að þeir eiga erfitt með að sýna sjálfstjórn. Okkur ætti þess vegna að langa til að læra hvernig við getum sigrað í hverju því stríði sem við eigum í. Biblían segir frá fólki forðum daga sem lagði sig fram um að þjóna Guði en átti stundum erfitt með að segja nei. Þú manst líklega eftir Davíð og hjúskaparbroti hans með Batsebu. Synd hans leiddi til þess að lausaleiksbarnið, sem þau eignuðust, og eiginmaður Batsebu dóu þótt saklaus væru. (2. Samúelsbók 11:1-27; 12:15-18) Eða hugsaðu til Páls postula sem viðurkenndi opinskátt: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ (Rómverjabréfið 7:19) Kannast þú við þessa tilfinningu? Páll heldur áfram: „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ (Rómverjabréfið 7:22-24) Í Biblíunni eru frásagnir af fólki sem geta hvatt okkur til að halda áfram baráttunni við að sýna æ betri sjálfstjórn.

Við þurfum að læra sjálfstjórn

3. Hvers vegna getum við ekki reiknað með að það sé auðvelt að sýna sjálfstjórn?

3 Í 2. Pétursbréfi 1:5-7 er minnst á sjálfsögun eða sjálfstjórn í tengslum við trú, dyggð, þekkingu, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika. Enginn þessara góðu eiginleika er okkur algerlega meðfæddur heldur þurfum við að læra og temja okkur þá. Það kostar einbeitni og áreynslu að sýna þessa eiginleika svo vel sé. Við getum varla reiknað með að það sé auðveldara að sýna sjálfstjórn.

4. Hvers vegna finnst mörgum sjálfsögun ekki vera neitt vandamál og merki hvers er það?

4 Milljónum manna finnst sjálfsögun reyndar ekki vera neitt vandamál. Margir hegða sér eins og þeim sýnist. Vitandi eða óafvitandi leyfa þeir hinu ófullkomna holdi að segja sér fyrir verkum án þess að skeyta um afleiðingarnar — fyrir sjálfa þá eða aðra. (Júdasarbréfið 10) Það er deginum ljósara að margir geta hvorki sagt nei né vilja það, og þetta er merki þess að við lifum á „síðustu dögum“. Páll boðaði að þá myndu koma ‚örðugar tíðir. Mennirnir yrðu sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur og taumlausir.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.

5. Hvers vegna er sjálfstjórn vottum Jehóva hugstæð og hvaða ráð er enn í fullu gildi?

5 Vottar Jehóva gera sér fulla grein fyrir því að það er hægara sagt en gert að sýna sjálfstjórn. Þeir vita, líkt og Páll, að tilhneigingar hins ófullkomna holds stríða stundum gegn lönguninni til að þóknast Guði og lifa eftir mælikvarða hans. Þeim hefur því lengi verið hugstætt hvernig hægt sé að sigra í þessari baráttu. Árið 1916 var talað um í þessu tímariti að það væri „rétt af okkur að ná tökum á sjálfum okkur, hugsunum okkar, orðum og gerðum“. Lagt var til að lesandinn hefði Filippíbréfið 4:8 í huga. Ráðleggingar Guðs í þessari ritningargrein eru enn í fullu gildi þó að þær hafi upphaflega verið gefnar fyrir um það bil 2000 árum, og sennilega er erfiðara að fara eftir þeim núna en þá og erfiðara en það var árið 1916. Engu að síður leggja kristnir menn hart að sér við að hafna veraldlegum girndum, vitandi að þannig þóknast þeir skapara sínum.

6. Hvers vegna er engin ástæða til að örvænta þó að okkur gangi ekki eins hratt eða vel og við vildum að temja okkur sjálfstjórn?

6 Bindindi, það er að segja sjálfstjórn, er nefnt í Galatabréfinu 5:22, 23 sem hluti af ‚ávexti heilags anda‘. Það er okkur mjög til góðs að sýna sjálfstjórn ásamt ‚kærleika, gleði, friði, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku og hógværð‘. Eins og Pétur sagði kemur það í veg fyrir að við verðum ‚iðjulaus eða ávaxtalaus‘ í þjónustunni við Guð. (2. Pétursbréf 1:8) En við skulum ekki örvænta eða fordæma okkur þó að okkur takist ekki að sýna þessa eiginleika eins fljótt og vel og við vildum. Þú hefur sennilega orðið þess var að skólanemar læra mishratt. Starfsmenn eru líka misfljótir að læra ný verk á vinnustað. Fólk er að sama skapi misfljótt að tileinka sér kristna eiginleika. Mestu máli skiptir að halda áfram að leggja rækt við góða eiginleika sem best við getum með því að nýta okkur þá hjálp sem Jehóva veitir í orði sínu og í söfnuðinum. Aðalatriðið er að halda einbeitt áfram að bæta okkur. Hraðinn skiptir minna máli.

7. Hvað sýnir að sjálfstjórn er mikilvæg?

7 Þó að sjálfstjórn sé nefnd síðust af ávexti andans er hún engan veginn þýðingarminni en hinir. Síður en svo. Við skulum hafa hugfast að við gætum forðast öll ‚verk holdsins‘ ef við hefðum fullkomna sjálfstjórn. En ófullkomnum mönnum hættir til að láta einhver af verkum holdsins ná tökum á sér, hvort sem það er „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni [eða] flokkadráttur“. (Galatabréfið 5:19, 20) Þess vegna þurfum við að berjast án afláts og vera staðráðin í að uppræta óæskilegar tilhneigingar úr huga og hjarta.

Sumir eiga í sérlega erfiðri baráttu

8. Hvað getur gert sumum erfitt fyrir að sýna sjálfstjórn?

8 Sumir kristnir menn eiga erfiðara með að sýna sjálfstjórn en aðrir. Af hverju? Stundum má rekja það til uppeldis eða fyrri lífsreynslu. Við getum verið ánægð ef okkur finnst ekki erfitt að temja okkur sjálfstjórn. En auðvitað ættum við að vera skilningsrík og umhyggjusöm í garð þeirra sem eiga erfiðara með að sýna hana, jafnvel þó að framkoma þeirra valdi okkur einhverjum óþægindum. Sjálf erum við ófullkomin þannig að enginn hefur nokkra ástæðu til að vera sjálfbirgingslegur. — Rómverjabréfið 3:23; Efesusbréfið 4:2.

9. Hvaða veikleika eiga sumir við að stríða og hvenær sigrumst við fullkomlega á öllum veikleikum?

9 Lýsum þessu með dæmi: Við þekkjum kannski trúsystkini sem reyktu eða neyttu fíkniefna áður en þau tóku trú, og stundum eru þau gripin sterkri löngun í það sem þau neyttu áður fyrr. Sumir geta átt erfitt með að gæta hófs í mat eða áfengi. Öðrum gengur illa að hafa taum á tungunni og verður oft á að segja eitthvað sem þeir ættu ekki að segja. Það kostar einbeitni og áreynslu að aga sjálfan sig á þeim sviðum þar sem manni er áfátt. Af hverju? Jakobsbréfið 3:2 viðurkennir hreinskilnislega: „Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ Sumir finna fyrir sterkri löngun til að spila fjárhættuspil eða eiga erfitt með að hafa hemil á skapi sínu. Það tekur sinn tíma að læra að glíma við þessa veikleika eða aðra áþekka. Við getum bætt okkur verulega núna, en það er þó ekki fyrr en við verðum fullkomin sem rangar langanir verða upprættar til fulls. Þangað til þurfum við að leggja okkur fram um að sýna sjálfstjórn svo að við föllum ekki aftur í gamla farið og förum að lifa syndugu líferni. Við skulum hjálpa hvert öðru að gefast ekki upp í baráttunni. — Postulasagan 14:21, 22.

10. (a) Hvers vegna er það sérstök áreynsla fyrir suma að sýna sjálfstjórn í kynferðismálum? (b) Hvaða róttæka breytingu gerði bróðir nokkur? (Sjá rammagrein á bls. 14.)

10 Kynferðismál eru annað svið þar sem fólki getur reynst erfitt að sýna sjálfstjórn. Kynhvötin er í sjálfu sér þáttur í sköpunarverki Jehóva Guðs. En sumir eiga sérstaklega erfitt með að hemja þessa hvöt í samræmi við siðferðisreglur Guðs. Og það gerir illt verra að hjá sumum er kynhvötin með sterkasta móti. Við búum í kynóðum heimi sem kyndir undir ástríður manna á marga vegu. Þetta getur gert kristnum manni talsvert erfitt fyrir ef hann vill vera einhleypur, að minnsta kosti um tíma, til þess að geta þjónað Guði án þess að hjónaband trufli. (1. Korintubréf 7:32, 33, 37, 38) En Biblían segir að það sé ‚betra að ganga í hjónaband en að brenna af girnd‘ og í samræmi við það ákveða þeir kannski að ganga í hjónaband sem er auðvitað heiðvirt. En þeir eru jafnframt staðráðnir í að giftast ‚aðeins í Drottni‘ eins og Biblían ráðleggur. (1. Korintubréf 7:9, 39) Við getum verið viss um að það gleður Jehóva að þeir skuli leggja sig fram um að halda réttlátar meginreglur hans, og við njótum þess að umgangast sanna guðsdýrkendur sem eru svona ráðvandir og hreinlífir.

11. Hvernig getum við hjálpað bróður eða systur sem hefur áhuga á að giftast en hefur ekki átt kost á því?

11 En hvað er til ráða ef ekki tekst að finna viðeigandi maka? Hugsaðu þér vonbrigði þess sem þráir að giftast en hefur ekki átt kost á því. Hann horfir upp á vini sína ganga í hjónaband og hljóta vissa hamingju en sjálfur er hann enn að leita sér að maka við hæfi. Hjá sumum sem eru í þessari aðstöðu er sjálfsfróun viðvarandi vandamál. En hvað sem því líður viljum við ekki óafvitandi draga kjarkinn úr öðrum sem streitast við að vera hreinlífir. Við gætum óafvitandi haft letjandi áhrif með því að spyrja í hugsunarleysi: „Ætlarðu ekki að fara að gifta þig bráðum?“ Okkur gengur kannski ekkert illt til með því, en það er miklu betra að sýna sjálfstjórn og gæta tungunnar. (Sálmur 39:2) Hreinlífir einhleypingar okkar á meðal eiga skilið hlýlegt hrós. Við ættum að leitast við að hvetja en ekki letja. Við gætum til dæmis boðið einhleypu fólki að vera með þegar hópur þroskaðra einstaklinga hittist til að borða saman eða eiga heilnæman, kristinn félagsskap.

Sjálfstjórn í hjónabandinu

12. Hvers vegna er viss sjálfstjórn nauðsynleg jafnvel innan hjónabands?

12 Hjónaband breytir því ekki að sjálfstjórn er nauðsynleg í sambandi við kynlíf. Hjón geta til dæmis haft mjög ólíkar kynferðislegar þarfir. Annað hjónanna getur stundum verið þannig á sig komið líkamlega að eðlileg kynmök séu erfið eða komi alls ekki til greina. Og fyrri reynsla getur valdið því að öðru hjónanna finnist erfitt að fara eftir fyrirmælunum: „Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.“ Þegar svo ber undir þarf hinn aðilinn að sýna enn meiri sjálfstjórn. En bæði geta haft í huga hlýleg ráð Páls til hjóna: „Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.“ — 1. Korintubréf 7:3, 5.

13. Hvað getum við gert fyrir þá sem eru að berjast við að sýna sjálfstjórn?

13 Hjón geta verið þakklát ef þau hafa bæði lært að sýna viðeigandi sjálfstjórn varðandi kynlíf. En þau ættu líka að vera skilningsrík gagnvart trúsystkinum sem eiga enn í baráttu á þessu sviði. Við ættum aldrei að gleyma að biðja Jehóva að gefa trúsystkinum okkar innsæi, hugrekki og einbeitni til að halda áfram að berjast við að sýna sjálfstjórn og sigrast á óviðeigandi löngunum. — Filippíbréfið 4:6, 7.

Höldum áfram að hjálpa hvert öðru

14. Af hverju ættum við að sýna trúsystkinum okkar samúð og skilning?

14 Stundum getur verið erfitt að vera skilningsríkur gagnvart trúsystkini sem er að berjast við að sýna sjálfstjórn á einhverju sviði þar sem við eigum ekki í neinum vandræðum. En munum að fólk er ólíkt. Sumum er gjarnt að láta tilfinningarnar ráða ferðinni, öðrum ekki. Sumir eiga tiltölulega auðvelt með að hafa stjórn á sjálfum sér en öðrum finnst það erfiðara. En það er engin synd að eiga í baráttu. Trúsystkini okkar þurfa á skilningi okkar og samúð að halda. Við stuðlum meira að segja að eigin hamingju með því að vera miskunnsöm við þá sem eru að berjast við að sýna meiri sjálfstjórn. Þetta sést af orðum Jesú í Matteusi 5:7.

15. Hvers vegna eru orðin í Sálmi 130:3 ákaflega uppörvandi?

15 Gætum þess að dæma aldrei ranglega trúsystkini sem mistekst einhvern tíma að sýna kristna eiginleika. Það er ákaflega uppörvandi að vita til þess að Jehóva sér ekki aðeins þetta eina skipti sem okkur mistókst heldur einnig öll skiptin sem okkur mistókst ekki, jafnvel þó að trúsystkini okkar hafi ekki tekið eftir þeim. Orðin í Sálmi 130:3 eru einkar uppörvandi: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“

16, 17. (a) Hvernig getum við heimfært Galatabréfið 6:2, 5 upp á sjálfstjórn? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

16 Til að þóknast Jehóva verðum við hvert og eitt að temja okkur sjálfstjórn, en við megum líka treysta á hjálp trúsystkina okkar. Við þurfum auðvitað öll að bera okkar ábyrgð sjálf, en við erum engu að síður hvött til að hjálpa hvert öðru í glímunni við veikleika okkar. (Galatabréfið 6:2, 5) Við ættum að meta mikils foreldri, maka eða vin sem hindrar okkur í að fara á staði sem við ættum ekki að fara á, horfa á hluti sem við ættum ekki að horfa á eða gera eitthvað sem við ættum ekki að gera. Þau hjálpa okkur að sýna sjálfstjórn, að segja nei og meina það!

17 Margir kristnir menn eru eflaust sammála því sem við höfum sagt hingað til um sjálfstjórn, en þeim finnst þeir sjálfir þurfa að bæta sig verulega. Þeir vildu gjarnan sýna alla þá sjálfstjórn sem eðlilegt er að ætlast til af ófullkomnum mönnum. Er þér þannig innanbrjósts? Hvað geturðu þá gert til að þroska þennan ávöxt anda Guðs betur? Og hvernig getur það hjálpað þér að ná langtímamarkmiðum þínum sem kristinn maður? Við skoðum málið í næstu grein.

Manstu?

• Hvers vegna er mikilvægt fyrir kristna menn að temja sér sjálfstjórn?

• Hvers vegna eiga sumir erfiðara með að sýna sjálfstjórn en aðrir?

• Hvers vegna er sjálfstjórn nauðsynleg í hjónabandinu?

• Hvernig getum við hjálpað hvert öðru að temja okkur sjálfstjórn?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 14]

Hann lærði að segja nei

Vottur Jehóva í Þýskalandi starfaði sem tæknimaður hjá fjölmiðlafyrirtæki. Í starfi sínu þurfti hann að fylgjast með um 30 sjónvarps- og útvarpsþáttum. Þegar truflanir komu fram þurfti hann að skoða viðkomandi þátt sérstaklega til að finna orsökina. „Truflanirnar virtust nær undantekningarlaust koma fram á versta tíma, einmitt í miðju ofbeldis- eða kynlífsatriði. Ég var með þessi óheilnæmu atriði í huganum næstu daga eða vikur, rétt eins og þau væru brennimerkt í huga mér.“ Hann viðurkennir að þetta hafi haft slæm áhrif á andlegt hugarfar sitt: „Ég er frekar ör að eðlisfari þannig að ofbeldisatriðin gerðu mér erfitt fyrir að sýna sjálfstjórn. Kynlífsatriðin ollu spennu milli mín og konunnar. Þetta var dagleg barátta. Til að tapa ekki ákvað ég að leita mér að annarri vinnu, jafnvel þó að ég þyrfti að lækka í launum. Leitin bar árangur fyrir skömmu. Mér varð að ósk minni.“

[Mynd á blaðsíðu 13]

Þekkingin, sem fæst með biblíunámi, hjálpar okkur að sýna sjálfstjórn.