Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 3. Mósebókar

Höfuðþættir 3. Mósebókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 3. Mósebókar

EKKI er liðið ár síðan Ísraelsmenn voru frelsaðir úr ánauð í Egyptalandi. Jehóva hefur komið á þjóðskipulagi hjá þeim og þeir eru á leið til Kanaanlands sem á að vera heimkynni heilagrar þjóðar. En líferni Kanaaníta er ákaflega spillt og trúarsiðir þeirra sömuleiðis. Þess vegna setur hinn sanni Guð Ísraelsmönnum lög sem skilja þá frá öðrum þjóðum þannig að þeir geti þjónað honum. Þessi lög eru skráð í 3. Mósebók. Bókin er skrifuð af spámanninum Móse í Sínaíeyðimörk, sennilega árið 1512 f.o.t., og spannar ekki nema einn tunglmánuð. (2. Mósebók 40:17; 4. Mósebók 1:1-3) Hvað eftir annað hvetur Jehóva dýrkendur sína til að vera heilagir. — 3. Mósebók 11:44; 19:2; 20:7, 26.

Vottar Jehóva nú á tímum eru ekki settir undir lögmálið sem Guð gaf fyrir milligöngu Móse. Það féll úr gildi með dauða Jesú Krists. (Rómverjabréfið 6:14; Efesusbréfið 2:11-16) Við getum engu að síður haft gagn af lagaákvæðunum, sem er að finna í 3. Mósebók, því að þau kenna okkur margt um tilbeiðsluna á Jehóva, Guði okkar.

HEILAGAR FÓRNIR — SJÁLFVILJA- OG SKYLDUFÓRNIR

(3. Mósebók 1:1–7:38)

Sumar af þeim fórnum, sem kveðið var á um í lögmálinu, voru sjálfviljafórnir en aðrar voru skyldufórnir. Brennifórnin var til dæmis sjálfviljafórn. Hún var gefin Guði í heild, rétt eins og Jesús Kristur gaf líf sitt að fullu sem lausnarfórn og gerði það fúslega. Heillafórnin var samfélagsfórn. Hluti hennar var færður Guði á altarinu en presturinn át hluta og sá sem færði fórnina hluta. Minningarhátíðin um dauða Krists er sömuleiðis samfélagsmáltíð andasmurðra kristinna manna. — 1. Korintubréf 10:16-22.

Syndafórnir og sektarfórnir voru skyldufórnir. Sú fyrri var færð til að friðþægja fyrir syndir sem drýgðar voru óviljandi. Sú síðari var færð til friðþægingar þegar gengið var á rétt annarra eða til að veita iðrandi syndara ákveðin réttindi á ný — eða þá hvort tveggja. Þá voru færðar fórnir af mjöli sem viðurkenning á örlæti Jehóva. Allt er þetta áhugavert fyrir okkur af því að fórnirnar, sem kveðið var á um í lögmálinu, bentu fram til Jesú Krists og fórnar hans, eða til gagnsins af henni. — Hebreabréfið 8:3-6; 9:9-14; 10:5-10.

Biblíuspurningar og svör:

2:11, 12 — Hvers vegna mátti ekki ‚brenna hunang sem eldfórn‘ handa Jehóva? Hér getur ekki verið átt við hunang býflugna. Að vísu mátti ekki ‚brenna það sem eldfórn‘ en það tilheyrði engu að síður „frumgróða af . . . öllum jarðargróða“. (2. Kroníkubók 31:5) Hér virðist átt við ávaxtahunang eða síróp. Það gat gerjast þannig að það mátti ekki færa það að fórn á altarinu.

2:13 — Hvers vegna átti að salta „allar matfórnir“? Þetta var ekki gert til að bragðbæta fórnirnar. Salt er notað um heim allan sem rotvarnarefni. Sennilega var það borið fram með fórnunum vegna þess að það táknaði að þær væru óskemmdar og óspilltar.

Lærdómur:

3:17. Fitan var álitin besti partur skepnunnar þannig að bannið við því að borða hana hefur innprentað Ísraelsmönnum að hið besta tilheyrði Jehóva. (1. Mósebók 45:18) Þetta minnir okkur á að við ættum að gefa Jehóva það allra besta. — Orðskviðirnir 3:9, 10; Kólossubréfið 3:23, 24.

7:26, 27. Ísraelsmenn máttu ekki neyta blóðs. Guð lítur á blóð sem tákn lífsins. „Líf líkamans er í blóðinu,“ segir í 3. Mósebók 17:11. Sannir guðsdýrkendur þurfa enn þann dag í dag að halda sig frá blóði. — Postulasagan 15:28, 29.

HEILAGRI PRESTASTÉTT KOMIÐ Á FÓT

(3. Mósebók 8:1–10:20)

Prestunum var falið að annast öll skyldustörf varðandi fórnir og fórnfæringar. Guð mælti svo fyrir að Móse skyldi vígja Aron í embætti sem æðstaprest og syni hans fjóra sem undirpresta. Móse gerði eins og fyrir hann var lagt. Vígslan mun hafa staðið yfir í sjö daga en prestastéttin tók til starfa daginn eftir að henni lauk.

Biblíuspurningar og svör:

9:9 — Hvaða þýðingu hafði það að hella niður blóði við altarið og rjóða því á ýmsa hluti? Þetta var til merkis um að Jehóva viðurkenndi að blóð væri notað til friðþægingar. Friðþægingarskipulagið í heild byggðist á blóði. „Samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs,“ skrifaði Páll postuli. — Hebreabréfið 9:22.

10:1, 2 — Í hverju má ætla að synd Nadabs og Abíhús Aronssona hafi verið fólgin? Skömmu eftir að þeir Nadab og Abíhú tóku sér bessaleyfi við prestsstörfin bannaði Jehóva prestum að neyta víns eða áfengra drykkja meðan þeir þjónuðu í tjaldbúðinni. (3. Mósebók 10:9) Af þessu má álykta að hinir tveir synir Arons hafi verið undir áhrifum áfengis þegar umrætt atvik átti sér stað. Ástæðan fyrir dauða þeirra var hins vegar sú að þeir báru fram „óvígðan eld, sem hann [Jehóva] eigi hafði boðið þeim“.

Lærdómur:

10:1, 2Þjónar Jehóva, sem gegna ábyrgðarstörfum nú á dögum, verða að fylgja kröfum hans. Og þeir mega ekki sýna hroka eða ósvífni við skyldustörf.

10:9. Við ættum ekki að vera undir áhrifum áfengis þegar við gegnum skyldustörfum sem Guð hefur falið okkur.

HEILÖG TILBEIÐSLA ÚTHEIMTIR HREINLEIKA

(3. Mósebók 11:1–15:33)

Ákvæðin um hrein dýr og óhrein til matar var Ísraelsmönnum til góðs á tvo vegu. Þau drógu úr hættunni á skaðlegum sýkingum og skerptu mörkin milli Ísraelsmanna og þjóðanna umhverfis. Þá voru í lögunum ákvæði þess efnis að fólk yrði óhreint af því að snerta lík, ákvæði um hreinsun kvenna eftir barnsburð, ákvæði um meðferð holdsveiki og ákvæði um óhreinleika við útrennsli af kynfærum karla og kvenna. Prestar áttu að annast mál fólks sem varð óhreint af einhverjum orsökum.

Biblíuspurningar og svör:

12:2, 5 — Hvers vegna varð kona „óhrein“ af barnsburði? Getnaðarfærin áttu að gefa nýjum einstaklingi fullkomið líf. En arfgeng áhrif syndarinnar ollu því að lífið, sem barnið hlaut, var syndugt og ófullkomið. Tímabundinn ‚óhreinleiki‘ samfara barnsburði og fleiru, svo sem tíðablæðingum og sáðláti, minnti Ísraelsmenn á að syndin væri arfgeng. (3. Mósebók 15:16-24; Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12) Hreinsunarákvæðin vöktu Ísraelsmenn til vitundar um að færa þyrfti lausnarfórn til að upphefja synd mannkynsins og endurheimta fullkomleika þess. Lögmálið varð þannig „tyftari . . . þangað til Kristur kom“. — Galatabréfið 3:24.

15:16-18 — Hvers konar sáðlát er átt við í þessum versum? Hér virðist vera átt við sáðlát í svefni og við samfarir hjóna.

Lærdómur:

11:45. Jehóva Guð er heilagur og krefst þess að þeir sem þjóna honum séu það líka. Þeir verða að vera heilagir í hegðun og halda sér hreinum líkamlega og andlega. — 2. Korintubréf 7:1; 1. Pétursbréf 1:15, 16.

12:8. Jehóva leyfði fátækum að færa fugl að fórn í stað sauðkindar sem var mun dýrari. Hann er tillitssamur við fátæka.

NAUÐSYNLEGT AÐ VARÐVEITA HREINLEIKA

(3. Mósebók 16:1–27:34)

Þýðingarmestu syndafórnirnar voru færðar á friðþægingardeginum einu sinni á ári. Fórnað var uxa fyrir prestana og ættkvísl Leví. Geithafri var fórnað fyrir þær ættkvíslir sem ekki gegndu prestsþjónustu. Annar hafur var sendur lifandi út í eyðimörkina eftir að syndir þjóðarinnar höfðu verið játaðar yfir honum. Litið var á hafrana tvo sem eina syndafórn. Allt vísaði þetta fram til þess að Jesú Kristi yrði fórnað og að hann myndi einnig taka burt syndirnar.

Ákvæðin um neyslu kjöts og um önnur mál minnir á að við þurfum að vera heilög í tilbeiðslunni á Jehóva. Í samræmi við það áttu prestarnir að vera heilagir. Hinar þrjár hátíðir ársins voru mikill fagnaðartími og kjörnar til að færa Jehóva þakkir. Jehóva setti fólki sínu jafnframt reglur um lastmæli gegn heilögu nafni sínu, um hvíldardagahald og fagnaðarár, um framkomu við fátæka og um meðferð þræla. Blessunin, sem myndi hljótast af því að hlýða Guði, er borin saman við bölvunina sem myndi hljótast af óhlýðni. Og þá eru ónefnd ákvæði um fórnir í tengslum við heit og matsgerð, um frumburði dýra og um að gefa tíund sem var ‚Drottni helguð‘.

Biblíuspurningar og svör:

19:27 — Hvað merkir bannið við því að ‚kringluskera höfuð sitt‘ og ‚skerða skeggrönd sína‘? Þetta ákvæði mun hafa átt að koma í veg fyrir að Gyðingar snyrtu skegg sitt eða hár eftir vissum heiðnum siðum. (Jeremía 9:25, 26; 25:23; 49:32) Þetta merkti hins vegar ekki að Gyðingar mættu alls ekki snyrta hár sitt og skegg. — 2. Samúelsbók 19:24.

25:35-37 — Mátti Ísraelsmaður aldrei taka vexti? Ef maður lánaði fé til viðskipta mátti hann taka vexti af því. Hins vegar bannaði lögmálið Ísraelsmönnum að taka vexti af lánum sem fólk tók í neyð. Það var rangt að hagnast á fjárkröggum náungans. — 2. Mósebók 22:25.

26:19 — Hvernig getur ‚himinninn verið sem járn og landið sem eir‘? Ef ekki rigndi væri himinninn yfir Kanaanlandi eins og harður járnhjúpur að sjá. Án regns fengi jörðin eirlita, ljósa áferð.

26:26 — Hvað er átt við með því að ‚tíu konur baki brauð í einum ofni‘? Að öllu jöfnu þurfti kona að hafa ofn út af fyrir sig til að baka handa sér og sínum. Þessi orð lýsa þvílíkum skorti að einn ofn myndi nægja til að afkasta öllum bakstri tíu kvenna. Þetta var ein af afleiðingum þess að varðveita ekki heilagleika.

Lærdómur:

20:9. Í augum Jehóva er hatur og illmennska ekki betri en morð. Þess vegna fyrirskipaði hann sömu refsingu við því að bölva foreldrum sínum og hreinlega myrða þá. Ætti þetta ekki að vera okkur hvatning til að elska trúsystkini okkar? — 1. Jóhannesarbréf 3:14, 15.

22:32; 24:10-16, 23. Við megum ekki lastmæla nafni Jehóva heldur ber okkur að lofa það og biðja þess að það helgist. — Sálmur 7:18; Matteus 6:9.

Áhrif 3. Mósebókar á tilbeiðslu okkar

Vottar Jehóva okkar tíma eru ekki settir undir lögmálið. (Galatabréfið 3:23-25) Hins vegar getur 3. Mósebók haft áhrif á tilbeiðslu okkar því að hún gefur okkur innsýn í afstöðu Jehóva til ýmissa mála.

Þegar þú býrð þig undir Boðunarskólann með því að lesa vikulega biblíulesturinn tekurðu eflaust vel eftir því að Guð krefst þess af þjónum sínum að þeir séu heilagir. Þriðja Mósebók getur hvatt þig til að gefa hinum hæsta ávallt þitt besta, til að vera alltaf heilagur og honum til lofs.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Fórnirnar, sem lögmálið kvað á um, bentu fram til Jesú Krists og fórnar hans.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hátíð ósýrðu brauðanna var fagnaðarhátíð.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Árlegar hátíðir eins og laufskálahátíðin voru kjörin tækifæri til að færa Jehóva þakkir.