Hoppa beint í efnið

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Þiggja vottar Jehóva einhverja blóðþætti?

Eftirfarandi svar er endurnýtt úr Varðturninum 1. júlí 2000.

Meginsvarið við spurningunni er það að vottar Jehóva þiggja ekki blóð. Það er bjargföst sannfæring okkar að lögum Guðs um blóð verði ekki breytt til að þóknast breytilegum skoðunum manna. En óneitanlega vakna nýjar spurningar þessu tengdar af því að nú er hægt að skilja blóðið í fjóra meginhluta og ýmsa undirþætti. Þegar kristinn maður veltir fyrir sér hvort hann þiggur einhvern þeirra ætti hann að líta á fleira en hugsanlega áhættu og gagnsemi. Hann ætti að hugsa alvarlega um ábendingar Biblíunnar og hugsanleg áhrif þess sem hann gerir á samband sitt við alvaldan Guð.

Meginatriðin eru sáraeinföld, og til glöggvunar skulum við líta á málið í biblíulegu samhengi, sögulegu og læknisfræðilegu.

Jehóva Guð sagði Nóa, sameiginlegum forföður okkar, að blóð skyldi meðhöndlað sem mjög sérstakt efni. (1. Mósebók 9:3, 4) Síðar gaf hann Ísraelsmönnum lögmál sem bar glöggt vitni um heilagleika blóðsins: „Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, – gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu.“ Ef Ísraelsmaður hafnaði lögum Guðs gat hann spillt öðrum svo að Guð bætti við: „[Ég vil] uppræta hann úr þjóð sinni.“ (3. Mósebók 17:10) Löngu síðar komust postularnir og öldungarnir að þeirri niðurstöðu á fundi í Jerúsalem að kristnir menn yrðu að ,halda sig frá blóði‘. Það var jafnmikilvægt og að halda sig frá siðleysi og skurðgoðadýrkun. – Postulasagan 15:28, 29.

Hvað skyldi það hafa merkt á þeim tíma að ,halda sig frá‘ einhverju? Það merkti að kristnir menn neyttu ekki blóðs, hvort heldur það var ferskt eða storkið, og þeir átu ekki kjöt af skepnu sem ekki hafði verið blóðguð. Það útilokaði matvörur sem blóði var bætt í, svo sem blóðpylsur. Það var brot á lögum Guðs að neyta nokkurs af því tagi. – 1. Samúelsbók 14:32, 33.

Rit Tertúllíanusar (á annarri og þriðju öld) bera með sér að fornmenn flökraði yfirleitt ekki við því að neyta blóðs. Kristnir menn höfðu ranglega verið sakaðir um að neyta blóðs og Tertúllíanus benti þá á ættflokka sem innsigluðu samkomulag með því að bragða á blóði. Hann nefndi að sumir hafi drukkið „ferskt blóð hinna seku með græðgisþorsta við sýningar á leikvanginum ... til að læknast af flogaveiki“.

En jafnvel þótt einstaka Rómverjar hafi gert þetta í lækningaskyni var það rangt í augum kristinna manna: „Við neytum ekki einu sinni blóðs dýranna við máltíðir okkar,“ skrifaði Tertúllíanus. Rómverjar reyndu ráðvendni sannkristinna manna með því að bjóða þeim mat sem innihélt blóð. Tertúllíanus bætir við: „Nú spyr ég ykkur: Hvernig víkur því við að þið, sem eruð öruggir um [að kristna menn] hrylli við dýrablóði, skuluð ætla þá sólgna í mannablóð?“

Fáir nútímamenn myndu ætla að það gæti brotið í bága við lög Guðs að þiggja blóðgjöf. Vottar Jehóva vilja vissulega lifa en eru engu að síður bundnir af lögum hans um blóð. Hvað þýðir það í ljósi þeirra lækningaaðferða sem nú er beitt?

Blóðgjafir urðu algengar eftir síðari heimsstyrjöldina en vottar Jehóva gerðu sér strax grein fyrir því að þær stríddu gegn lögum Guðs – og eru enn þeirrar skoðunar. En lækningaaðferðir breytast með tímanum. Í upphafi var yfirleitt gefið heilblóð en núna er að jafnaði gefinn einhver af blóðhlutunum fjórum: (1) rauðkornum, (2) hvítkornum, (3) blóðflögum eða (4) blóðvökva. Það fer eftir ástandi sjúklings hvort læknir vill gefa honum rauðkorn, hvítkorn, blóðflögur eða blóðvökva. Með því að gefa einungis þessa blóðhluta er hægt að deila einni einingu heilblóðs meðal nokkurra sjúklinga. Vottar Jehóva telja það brot á lögum Guðs að þiggja heilblóð eða einhvern þessara fjögurra blóðhluta. Það er eftirtektarvert að þessi biblíulega afstaða hefur verndað þá fyrir ýmsum hættum, þar á meðal sjúkdómum eins og lifrarbólgu og alnæmi sem geta borist með blóði.

En það er hægt að vinna ýmislegt fleira úr blóði en fjóra helstu blóðhlutana, svo að ýmsar spurningar vakna varðandi þá þætti sem unnir eru úr þeim. Hvernig eru þessir blóðþættir notaðir og hvað ætti kristinn maður að skoða þegar hann veltir fyrir sér hvort hann eigi að þiggja þá eða ekki?

Blóð er margbrotið. Jafnvel blóðvökvinn, sem er 90% vatn, inniheldur hormóna, ólífræn sölt, ensím og næringarefni í tugatali, þeirra á meðal steinefni og sykur. Í blóðvökvanum eru prótín svo sem albúmín, storkuþættir og mótefni gegn sjúkdómum. Storkuþáttur átta er til dæmis unninn úr blóðvökva og gefinn dreyrasjúkum til að stöðva blæðingar. Læknar gefa stundum ónæmisglóbúlín ef hætta er á að maður hafi smitast af ákveðnum sjúkdómum, en þau eru unnin úr blóðvökva fólks sem myndað hefur ónæmi gegn sjúkdómnum. Ýmis fleiri blóðvökvaprótín eru notuð við lækningar, en þessi dæmi sýna hvernig hægt er að vinna blóðþætti úr einum meginblóðhluta (í þessu tilfelli blóðvökva). *

Hægt er með svipuðum hætti að vinna ýmsa efnisþætti úr hinum blóðhlutunum (rauðkornum, hvítkornum og blóðflögum). Úr hvítkornum má til dæmis vinna interferón og interleúkín sem notuð eru gegn sumum tegundum krabbameins og veirusýkinga. Hægt er að vinna þátt úr blóðflögum sem flýtir fyrir því að sár grói. Og ýmis fleiri lyf eru í þróun þar sem blóðþættir koma við sögu (að minnsta kosti í byrjun). Gjöf þessara lyfja er ekki blóðhlutagjöf heldur er um að ræða smáa efnisþætti blóðhlutanna. Getur kristinn maður þegið slíka blóðþætti í sambandi við læknismeðferð? Við getum ekki svarað því af eða á. Biblían segir ekkert um það þannig að kristinn maður þarf að taka ákvörðun um það sjálfur frammi fyrir Guði og í sátt við samvisku sína.

Sumir þiggja ekki neitt sem unnið er úr blóði (ekki einu sinni þætti sem ætlað er að veita tímabundið, aðfengið ónæmi). Þannig skilja þeir fyrirmæli Guðs um að ,halda sér frá blóði‘. Þeir hugsa sem svo að lögmálið, sem hann gaf Ísrael, hafi kveðið á um að ,hella skyldi á jörðina‘ blóði sem tekið væri úr lifandi veru. (5. Mósebók 12:22–24) Hvað kemur það málinu við? Það þarf að safna blóði og meðhöndla það til að vinna úr því ónæmisglóbúlín, storkuþætti og annað þess háttar. Þess vegna hafna sumir slíkum blóðþáttum, rétt eins og þeir myndu hafna heilblóði eða blóðhlutunum fjórum. Það ber að virða einlæga afstöðu þeirra og samvisku.

Aðrir kristnir menn leyfa lækni að gefa sér blóðþætti sem unnir eru úr aðalblóðhlutunum, þó svo að þeir leyfi ekki gjöf heilblóðs, rauðkorna, hvítkorna, blóðflagna eða blóðvökva. Og innan þess ramma getur afstaða manna líka verið breytileg. Þó að einn þiggi sprautu af ónæmisglóbúlíni er ekki víst að hann þiggi blóðþætti sem unnir eru úr rauðkornum eða hvítkornum. En á hverju byggist sú afstaða sumra kristinna manna að þiggja blóðþætti?

Í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 1. febrúar 1994 var bent á að blóðvökvaprótín (blóðþættir) flyttust úr blóðrás móður yfir í blóðrás fósturs, þó svo að kerfin séu aðskilin. Barnið fær þannig verðmætt ónæmi með ónæmisglóbúlínum frá móður sinni. Þegar rauðkorn fóstursins ljúka eðlilegu æviskeiði sínu vinnur líkami þess úr blóðrauðanum sem ber súrefnið. Við það verður til gallrauði (bílírúbín) sem flyst gegnum fylgjuna yfir í blóðrás móðurinnar þar sem hann skilst út með öðrum úrgangsefnum. Þar eð blóðþættir geta borist milli einstaklinga með þessum eðlilega hætti finnst sumum í lagi að þiggja blóðþætti sem unnir eru úr blóðvökva eða blóðkornum.

Skiptir þetta kannski litlu máli úr því að skoðanir manna og samviska er ólík hvað þetta varðar? Nei, þetta er alvörumál en einfalt í sjálfu sér. Eins og fram kom hér á undan þiggja vottar Jehóva alls ekki gjöf heilblóðs eða blóðhluta. Biblían fyrirskipar kristnum mönnum að ,halda sig frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði og saurlifnaði‘. (Postulasagan 15:29) En þegar kemur að smáum efnisþáttum aðalblóðhlutanna þarf hver einstakur kristinn maður að gera það sem samviskan býður, eftir að hafa hugleitt málið vandlega og lagt það fyrir Guð í bæn.

Margir myndu þiggja hvaðeina sem virðist geta verið til hagsbóta þá stundina, jafnvel læknismeðferð sem vitað er að hefur vissar hættur í för með sér, eins og til dæmis blóðgjöf. Einlægur kristinn maður leitast við að sjá málið í víðara samhengi og taka yfirvegaða afstöðu þar sem horft er til fleiri atriða en hinna líkamlegu. Vottar Jehóva kunna vel að meta góða læknismeðferð og velta fyrir sér áhættu og gagnsemi hverrar meðferðar sem til greina kemur. En þegar í hlut eiga efni unnin úr blóði taka þeir mið af orðum Guðs, lífgjafans, og einkasambandi sínu við hann. – Sálmur 36:10.

Það er mikil blessun fyrir kristinn mann að bera sama traust til Guðs og sálmaritarinn sem sagði: „[Jehóva] Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir [Jehóva]. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik. [Jehóva] ... sæll er sá maður, sem treystir þér.“ – Sálmur 84:12, 13.

[Neðanmáls]

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. nóvember 1979 og 1. febrúar 1995. Lyfjafyrirtæki hafa þróað ýmis lyf sem framleidd eru með erfðatækni. Þau eru ekki unnin úr blóði og eru notuð í stað blóðþátta sem áður voru notaðir.

[Rammi]

SPURNINGAR SEM VIÐ GETUM SPURT LÆKNINN

Ef þú þarft að gangast undir skurðaðgerð eða læknismeðferð þar sem blóðgjöf gæti komið við sögu má spyrja:

Vita allir heilbrigðisstarfsmenn, sem hlut eiga að máli, að ég er vottur Jehóva og heimila ekki að mér sé gefið blóð (heilblóð, rauðkorn, hvítkorn, blóðflögur eða blóðvökvi) undir nokkrum kringumstæðum?

Ef læknir vill gefa lyf sem er hugsanlega unnið úr blóðvökva, rauðkornum, hvítkornum eða blóðflögum má spyrja:

Er lyfið unnið úr einhverjum af blóðhlutunum fjórum? Ef svo er, viltu skýra samsetningu þess fyrir mér?

Hve mikið yrði gefið af þessum blóðþætti og hvernig yrði hann gefinn?

Hvaða áhætta fylgir notkun lyfsins ef samviska mín myndi leyfa mér að þiggja það?

Hvaða önnur meðferð kemur til greina ef samviskan leyfir mér ekki að þiggja þennan blóðþátt?

Hvenær má ég láta þig vita um ákvörðun mína eftir að ég hef hugsað málið?