Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru kraftaverk Jesú sannsöguleg eða skáldskapur?

Eru kraftaverk Jesú sannsöguleg eða skáldskapur?

Eru kraftaverk Jesú sannsöguleg eða skáldskapur?

„MENN [færðu] til hans [Jesú Krists] marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.“ (Matteus 8:16) „Hann [Jesús] vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ‚Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“ (Markús 4:39) Hvaða skoðun hefur þú á þessum frásögum? Trúirðu að þær lýsi raunverulegum, sannsögulegum atburðum eða heldurðu að þær séu líkingasögur, hrein og bein hjátrú og hindurvitni?

Nú á tímum efast margir stórlega um að kraftaverk Jesú séu söguleg sannindi. Á tímum stjörnusjónauka, smásjáa, geimkannana og erfðatækni virðist út í hött að segja frá kraftaverkum og yfirnáttúrlegum atburðum.

Sumum finnst frásögur af kraftaverkum vera fjarstæðukenndar eða einungis táknrænar. Rithöfundur, sem kveðst vera að rannsaka hinn „raunverulega“ Jesú Krist, segir frásögurnar um kraftaverk hans ekki vera annað en „markaðsbrellu“ til að breiða út kristna trú.

Aðrir líta á kraftaverk Jesú sem tómar blekkingar. Stundum er Jesús sjálfur sakaður um vélabrögð. Jústínus píslarvottur, sem var uppi á annarri öld, segir að hallmælendur Jesú hafi „jafnvel dirfst að kalla hann töframann og svikahrapp“. Enn aðrir fullyrða að Jesús „hafi ekki framkvæmt kraftaverk sín sem spámaður Gyðinga heldur sem töframaður, innvígður í heiðnu hofin“.

Hvað telst vera „óhugsandi“?

Þú telur ef til vill að slíkar efasemdir dragi fram grundvallarástæðu fyrir því að fólk er tregt til að trúa á kraftaverk. Þeim finnst beinlínis erfitt, jafnvel óhugsandi, að ímynda sér að yfirnáttúrleg öfl geti verið að verki. „Kraftaverk gerast bara ekki, svo einfalt er það,“ sagði ungur maður sem sagðist vera efasemdarmaður. Síðan vitnaði hann í orð skoska heimspekingsins Davids Humes, sem var uppi á átjándu öld, en hann skrifaði: „Kraftaverk stríða gegn náttúrulögmálunum.“

Margir fara samt varlega í sakirnar að fullyrða að ákveðin fyrirbæri séu óhugsandi. Í The World Book Encyclopedia er kraftaverk sagt vera „atburður sem ekki er hægt að skýra út frá þekktum náttúrulögmálum“. Samkvæmt þessari skilgreiningu hefðu geimferðir, þráðlaus fjarskipti og GPS-staðsetningartæki þótt „kraftaverk“ fyrir aðeins einni öld. Vissulega er óskynsamlegt að fullyrða að kraftaverk séu óhugsandi vegna þess eins að við getum ekki skýrt þau á grundvelli núverandi þekkingar.

En hvað kemur í ljós þegar við lítum nánar á nokkrar staðreyndir í Biblíunni í tengslum við kraftaverk sem eignuð eru Jesú Kristi? Eru kraftaverk Jesú sannsöguleg eða skáldskapur?