Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ályktun Jehóva bregst ekki

Ályktun Jehóva bregst ekki

Ályktun Jehóva bregst ekki

„Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: ‚Þú ert sonur minn. . . . Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð.‘“ — SÁLMUR 2:7, 8.

1. Hvaða munur er á fyrirætlunum Guðs og fyrirætlunum þjóðanna?

JEHÓVA GUÐ hefur ákveðna fyrirætlun í huga með mannkynið og jörðina. Þjóðirnar hafa líka sínar fyrirætlanir. Þessar fyrirætlanir eru af gerólíkum toga. Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að Guð segir: „Svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ Fyrirætlun Guðs fær örugglega framgang því að hann segir í framhaldinu: „Eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:9-11.

2, 3. Hvað kemur skýrt fram í öðrum sálminum og hvaða spurningar eru bornar fram?

2 Í öðrum sálminum kemur skýrt fram að fyrirætlun Guðs með messíasarkonunginn nær fram að ganga. Undir innblæstri spáði Davíð konungur í Ísrael til forna, sem orti sálminn, að koma myndi ákveðinn tími þegar þjóðirnar myndu „geisa“ í miklu uppnámi. Stjórnendur þeirra myndu ganga fram gegn Jehóva Guði og hans smurða. En sálmaritarinn söng líka: „Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: ‚Þú ert sonur minn. . . . Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.‘“ — Sálmur 2:7, 8.

3 Hvaða þýðingu hefur ályktun Jehóva fyrir þjóðirnar? Hvernig snertir hún mannkynið í heild? Og hvaða áhrif hafa þessir atburðir á alla guðhrædda lesendur annars sálmsins?

Þjóðirnar geisa

4. Hver eru meginatriði Sálms 2:1, 2?

4 Í upphafsorðum sálmsins talar ritarinn um hegðun þjóðanna og stjórnenda þeirra: „Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð? Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða.“ — Sálmur 2:1, 2. *

5, 6. Á hvaða fánýtu ráð hyggja þjóðirnar?

5 Á hvaða fánýtu ráð hyggja þjóðirnar nú á dögum? Í stað þess að viðurkenna Guðs smurða, Messías eða Krist, hyggja þjóðirnar á ráð til að viðhalda valdi sínu. Orðin í öðrum sálminum uppfylltust einnig á fyrstu öldinni þegar yfirvöld Gyðinga og Rómaveldis unnu saman að því að lífláta Jesús Krist, verðandi konung Guðsríkis. Aðaluppfyllingin átti sér hins vegar stað árið 1914 þegar Jesús var skipaður konungur á himnum. Síðan þá hefur engin ríkisstjórn á jörðinni viðurkennt skipaðan konung Guðs.

6 Við hvað átti sálmaritarinn þegar hann spurði „hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð“? Fyrirætlun þeirra er fánýt því að hún bregst örugglega. Þjóðirnar geta ekki komið á friði og einingu á jörðinni. Samt sem áður ganga þær svo langt að standa gegn stjórn Guðs. Sameiginlega hafa þær meira að segja tekið fjandsamlega afstöðu gegn hinum hæsta og hans smurða. Hvílík fáviska!

Sigrandi konungur Jehóva

7. Hvernig heimfærðu fylgjendur Jesú á fyrstu öldinni Sálm 2:1, 2?

7 Fylgjendur Jesú heimfærðu orðin í Sálmi 2:1, 2 á hann. Þegar þeir voru ofsóttir fyrir trú sína báðu þeir: „Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er, þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð? Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða. Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes [Antípas] og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels.“ (Postulasagan 4:24-27; Lúkas 23:1-12) * Já, á fyrstu öldinni var gert samsæri gegn Jesú, smurðum þjóni Jehóva. En sálmurinn átti sér aðra uppfyllingu öldum síðar.

8. Hvernig á Sálmur 2:3 við þjóðirnar nú á dögum?

8 Þegar mennskir konungar eins og Davíð ríktu í Ísrael til forna söfnuðust heiðnar þjóðir saman gegn Guði og smurða konunginum sem hann hafði útvalið. En hvernig er þetta á okkar tíma? Þjóðir nútímans vilja ekki fylgja kröfum Jehóva og Messíasar. Það er því eins og þær segi: „Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.“ (Sálmur 2:3) Þjóðirnar og stjórnendur þeirra standa gegn hverjum þeim hömlum sem Guð og hans smurði setja. En auðvitað eru allar tilraunir til að brjóta slíka fjötra og varpa af sér slíkum viðjum til einskis.

Jehóva gerir gys að þeim

9, 10. Hvers vegna gerir Jehóva gys að þjóðunum?

9 Jehóva hefur ekki áhyggjur af því þótt valdhafar þjóðanna reyni að stjórna óháð honum. Í öðrum sálminum segir áfram: „Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.“ (Sálmur 2:4) Guð kemur fyrirætlun sinni til leiðar rétt eins og þessir valdhafar væru ekki til. Hann hlær að ósvífni þeirra og gerir gys að þeim. Þeir geta hreykt sér af fyrirætlunum sínum en Jehóva hæðist að þeim og vonlausri andstöðu þeirra.

10 Annars staðar í Sálmunum talar Davíð einnig um óvini sína og óvinaþjóðir og segir: „Þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina. Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að — ‚Hver heyrir?‘ En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.“ (Sálmur 59:6-9) Þjóðirnar berjast gegn Jehóva en hann hlær að hroka þeirra og ringulreiðinni þeirra á meðal.

11. Hvað gerist þegar þjóðirnar reyna að vinna gegn fyrirætlun Jehóva?

11 Orðin í öðrum sálminum styrkja trú okkar á að Jehóva geti tekist á við hvaðeina sem upp kemur. Við getum verið viss um að hann kemur vilja sínum alltaf til leiðar og yfirgefur aldrei trúa þjóna sína. (Sálmur 94:14) En hvað gerist þegar þjóðirnar reyna að vinna gegn fyrirætlun Jehóva? Í sálminum segir að Guð ‚tali til þeirra í reiði sinni‘ rétt eins og hávær þrumugnýr kveði við. Það er eins og eldingu slái niður þegar hann „skelfir þá í bræði sinni“. — Sálmur 2:5.

Guð skipar konung sinn

12. Um hvaða krýningu er talað í Sálmi 2:6?

12 Það sem Jehóva segir næst fyrir milligöngu sálmaritarans gerir þjóðirnar án efa órólegar. Hann lýsir yfir: „Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.“ (Sálmur 2:6) Síonfjall var hæð í Jerúsalem þar sem Davíð var skipaður konungur yfir öllu Ísraelslandi. En messíasarkonungurinn mun ekki sitja að völdum í þeirri borg né á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Jehóva hefur nú þegar skipað Jesú Krist messíasarkonung á hinu himneska Síonfjalli. — Opinberunarbókin 14:1.

13. Hvaða sáttmála gerði Jehóva við son sinn?

13 Nú talar messíasarkonungurinn. Hann segir: „Ég vil kunngjöra ályktun Drottins [sem hefur gert sáttmála um ríkið við son sinn]: Hann [Jehóva Guð] mælti við mig: ‚Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.‘“ (Sálmur 2:7) Kristur sagði við postulana um sáttmálann um Guðsríki: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér.“ — Lúkas 22:28, 29.

14. Af hverju má segja að Jesús hafi átt óvéfengjanlegan rétt á konungdóminum?

14 Eins og spáð hafði verið í Sálmi 2:7 kunngerði Jehóva að Jesús væri sonur hans. Þetta gerði hann bæði við skírn hans og með því að reisa hann upp til lífs á himnum. (Markús 1:9-11; Rómverjabréfið 1:4; Hebreabréfið 1:5; 5:5) Já, konungur himneska ríkisins er eingetinn sonur Guðs. (Jóhannes 3:16) Jesús var afkomandi Davíðs konungs og átti því óvéfengjanlegan rétt á konungdóminum. (2. Samúelsbók 7:4-17; Matteus 1:6, 16) Samkvæmt sálminum segir Guð við son sinn: „Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.“ — Sálmur 2:8.

15. Af hverju biður Jesús um að fá þjóðirnar að erfð?

15 Konungurinn, sonur Guðs, skipar næsthæstu stöðu á eftir Guði. Jesús hefur sannað sig trúfastan og áreiðanlegan þjón Jehóva. Auk þess hefur hann erfðarétt sem frumburður hans. Jesús Kristur er svo sannarlega „ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar“. (Kólossubréfið 1:15) Hann þarf aðeins að biðja og þá gefur Guð honum „þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali“. Jesús ber fram þessa bón vegna þess að hann ‚hefur yndi af mannanna börnum‘ og vill hrinda í framkvæmd vilja föður síns í tengslum við jörðina og mannkynið. — Orðskviðirnir 8:30, 31.

Ályktun Jehóva gegn þjóðunum

16, 17. Hvað eiga þjóðirnar í vændum samkvæmt Sálmi 2:9?

16 En hvað bíður þjóðanna fyrst annar sálmurinn er að uppfyllast núna við ósýnilega nærveru Jesú Krists? Konungurinn mun bráðlega hrinda því í framkvæmd sem Guð hefur lýst yfir: „Þú skalt mola þá [þjóðirnar] með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.“ — Sálmur 2:9.

17 Járnsprotar konunga til forna voru til tákns um konungleg yfirráð þeirra. Sumir sprotarnir voru gerðir úr járni eins og sá sem minnst er á í sálminum. Myndmálið, sem hér er notað, lýsir því hve auðvelt er fyrir konunginn Krist að eyða þjóðunum. Kröftugt högg með járnsprota myndi mylja leirker í svo smáa mola að ekki væri hægt að gera við það.

18, 19. Hvað þyrftu konungar jarðarinnar að gera til að fá velþóknun Guðs?

18 Geta valdhafar þjóðanna komist undan algerri eyðingu? Já, því að sálmaritarinn biður þá: „Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.“ (Sálmur 2:10) Konungar eru hvattir til að vera hyggnir og taka við leiðréttingu. Þeir ættu að gera sér ljóst hve innantóm áform þeirra eru í samanburði við það sem Guðsríki mun gera fyrir mannkynið.

19 Konungar jarðarinnar þyrftu að breyta lífsstefnu sinni til að hljóta velþóknun Guðs. Þeir eru hvattir: „Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.“ (Sálmur 2:11) Hvað myndi gerast ef þeir fylgdu þessari hvatningu? Í stað þess að „geisa“ í miklu uppnámi gætu þeir glaðst yfir framtíðarhorfunum sem messíasarkonungurinn veitir þeim. Stjórnendur jarðarinnar þyrftu að leggja af stoltið og hrokann sem þeir sýna í stjórnarháttum sínum. Þeir þyrftu líka að breyta sér tafarlaust, sýna hyggni og viðurkenna að drottinvald Jehóva er óviðjafnanlegt og að ekki er hægt að standa gegn mætti hans og messíasarkonungsins.

Hyllið soninn

20, 21. Hvað þýðir það að hylla soninn?

20 Í næsta versi annars sálmsins fá valdhafar þjóðanna miskunnsamt boð. Í stað þess að fylkjast saman í andstöðu er þeim ráðlagt: „Hyllið soninn, að hann [Jehóva Guð] reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu, því að skjótt bálast upp reiði hans.“ (Sálmur 2:12a) Það á að hlýða alvöldum Drottni Jehóva þegar hann opinberar ályktun sína. Stjórnendur jarðarinnar hefðu átt að hætta að ‚hyggja á fánýt ráð‘ þegar Guð skipaði son sinn í hásæti. Þeir hefðu átt að viðurkenna konunginn strax og sýna honum skilyrðislausa hlýðni.

21 Hebreska orðið, sem þýtt er „hyllið“ í Sálmi 2:12, þýðir „kyssið“. Þegar sálmurinn var saminn voru kossar tákn um vináttu og notaðir til að bjóða gesti velkomna. Kossar gátu einnig verið merki um tryggð og hollustu. (1. Samúelsbók 10:1) Í þessu versi sálmsins gefur Guð þjóðunum fyrirmæli um að kyssa eða hylla son sinn sem smurðan konung.

22. Hvaða viðvörun ættu valdhafar þjóðanna að taka til sín?

22 Það er móðgun við Guð að neita að viðurkenna vald konungsins sem hann hefur útnefnt. Þeir sem gera það viðurkenna hvorki alheimsdrottinvald Jehóva Guðs né hæfni hans til að velja besta stjórnanda mannkyns sem konung. Reiði Jehóva mun koma skyndilega yfir stjórnendur jarðarinnar þegar þeir reyna að koma áformum sínum í framkvæmd. „Skjótt bálast upp reiði hans“ — það er ekki hægt að standa gegn henni. Valdhafar þjóðanna ættu að vera þakklátir fyrir þessa viðvörun og taka hana til sín. Það gæti orðið þeim til lífs.

23. Hvað hefur fólk enn tíma til að gera?

23 Þessum áhrifamikla sálmi lýkur með orðunum: „Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum [Jehóva].“ (Sálmur 2:13b) Fólk hefur enn tíma til að leita skjóls, meira að segja stjórnendur sem hafa fylgt áformum þjóðanna. Þeir geta flúið til Jehóva sem veitir þeim hæli undir stjórn messíasarríkisins. En þeir verða að láta til skarar skríða áður en messíasarríkið knosar óvinaþjóðir sínar.

24. Hvernig getum við lifað ánægjulegra lífi, jafnvel í þessum erfiða heimi?

24 Ef við rannsökum Ritninguna af kappi og förum eftir leiðbeiningum hennar getum við lifað ánægjulegra lífi nú þegar í þessum erfiða heimi. Þannig getum við bætt samskiptin innan fjölskyldunnar og losað okkur undan ótta og mörgum þeim áhyggjum sem íþyngja fólki í heiminum. Við getum einnig verið viss um að við gleðjum skaparann ef við fylgjum meginreglum Biblíunnar. Enginn annar en alheimsdrottinn getur gefið okkur örugga von „bæði fyrir þetta líf og hið komanda“ þegar hann hefur hreinsað jörðina af þeim sem hafna stjórn Guðsríkis og standa gegn því sem rétt er. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

25. Við hverju getum við búist á okkar dögum fyrst ályktun Jehóva bregst ekki?

25 Ályktun Jehóva bregst ekki. Hann er skapari okkar og veit hvað er mannkyninu fyrir bestu. Hann mun koma fyrirætlun sinni til leiðar og blessa hlýðið mannkyn með friði, velsæld og varanlegu öryggi undir stjórn ríkis sonar síns. Spámaðurinn Daníel skrifaði um okkar tíma: „En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Það er því svo sannarlega kominn tími til að hylla soninn og þjóna alvöldum Drottni Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Upphaflega var Davíð konungur ‚hinn smurði‘ og „konungar jarðarinnar“ voru ráðamenn Filista sem fóru í hernað gegn honum.

^ gr. 7 Við sjáum einnig af öðrum ritningarstöðum í kristnu Grísku ritningunum að Jesús er Guðs smurði sem talað er um í öðrum sálminum. Þetta kemur í ljós þegar Sálmur 2:7 er borinn saman við Postulasöguna 13:32, 33 og Hebreabréfið 1:5; 5:5. Sjá einnig Sálm 2:9 og Opinberunarbókina 2:27.

Hvert er svarið?

• Á hvaða fánýtu ráð hyggja þjóðirnar?

• Af hverju gerir Jehóva gys að þjóðunum?

• Hver er ályktun Jehóva gegn þjóðunum?

• Við hvað er átt með orðunum „hyllið soninn“?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Davíð söng um sigrandi konung messíasarríkisins.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Ísraelsmenn og stjórnendur þeirra gerðu samsæri gegn Jesú Kristi.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Kristur hefur verið skipaður konungur á hinu himneska Síonfjalli.