Hoppa beint í efnið

Lofaðu skaparann með því að setja þér andleg markmið

Lofaðu skaparann með því að setja þér andleg markmið

Lofaðu skaparann með því að setja þér andleg markmið

„ÞEGAR maður veit ekki að hvaða höfn hann stefnir er enginn vindur réttur vindur.“ Þessi orð, sem talið er að rómverskur heimspekingur frá fyrstu öld hafi sagt, benda á hve mikilvægt er að setja sér markmið til að hafa stefnu í lífinu.

Í Biblíunni eru dæmi um menn sem unnu markvisst að markmiðum sínum. Nói vann í um 50 ár við að ,smíða örk til að bjarga heimilisfólki sínu‘. Spámaðurinn Móse „hafði launin stöðugt fyrir augum sér“. (Hebreabréfið 11:7, 26) Eftirmaður Móse, Jósúa, fékk það verkefni frá Guði að sigra Kanaansland. – 5. Mósebók 3:21, 22, 28; Jósúabók 12:7–24.

Jesús sagði að ,fagnaðarboðskapurinn um ríkið yrði boðaður um alla jörðina‘ og það hefur eflaust haft mikil áhrif á það hvaða markmið Páll postuli setti sér á fyrstu öld. (Matteus 24:14) Páll átti stóran þátt í að stofna kristna söfnuði um Litlu-Asíu þvera og endilanga og allt til Evrópu vegna þess að hann fékk hvatningu frá Jesú beint og í sýnum, þar á meðal um verkefnið að „bera nafn [Jesú] til þjóðanna“. – Postulasagan 9:15; Kólossubréfið 1:23.

Þjónar Jehóva hafa alltaf sett sér göfug markmið og náð þeim Guði til dýrðar. Hvernig getum við sett okkur andleg markmið nú á dögum? Hvaða markmið getum við sett okkur og hvernig getum við unnið að þeim?

Mikilvægi réttra hvata

Það er hægt að setja sér markmið á nánast öllum sviðum lífsins. Og margt fólk í heiminum er duglegt við að setja sér markmið. En andleg markmið eru ekki það sama og framagirni í heiminum. Aðalhvötin á bak við mörg markmið sem fólk í heiminum setur sér er þráhyggjulöngun í ríkidæmi og óseðjandi hungur í valdastöðu. Það væru mikil mistök að vinna að því marki að öðlast vald eða komast í áberandi stöðu. Markmið sem lofa Jehóva Guð eru nátengd tilbeiðslu okkar á honum og tengjast hagsmunum Guðsríkis. (Matteus 6:33) Hvatirnar að baki slíkum markmiðum er kærleikur til Guðs og til náungans og þau hjálpa okkur að sýna guðrækni. – Matteus 22:37–39; 1. Tímóteusarbréf 4:7.

Hvatir okkar ættu að vera réttar þegar við setjum okkur andleg markmið og vinnum að þeim, hvort sem þau eru að fá fleiri verkefni í söfnuðinum eða taka framförum á persónulegum grundvelli. En stundum náum við ekki markmiðum okkar þó að við höfum réttar hvatir. Hvernig getum við sett okkur markmið og aukið líkurnar á að við náum þeim?

Sterk löngun er mikilvæg

Hugsum um það hvernig Jehóva fór að því að skapa alheiminn. Jehóva skilgreindi tímaskilin á sköpuninni með því að segja: „Það varð kvöld og það varð morgunn.“ (1. Mósebók 1:5, 8, 13, 19, 23, 31) Í byrjum hvers sköpunartímabils hafði hann skýr markmið fyrir daginn. Og Guð framfylgdi tilgangi sínum sem var að skapa. (Opinberunarbókin 4:11) „Þegar [Jehóva] ætlar sér eitthvað gerir hann það,“ sagði Job. (Jobsbók 23:13) Það hlýtur að hafa verið mjög gefandi fyrir Jehóva að sjá „allt sem hann hafði gert“ og lýsa yfir að það væri „mjög gott“. – 1. Mósebók 1:31.

Við verðum líka að hafa sterka löngun í að ná markmiðum okkar ef þau eiga að verða að verukeika. Hvað vekur með okkur þessa sterku löngun? Jafnvel þegar jörðin var auð og tóm gat Jehóva séð fyrir sér hvernig hún yrði – fallegur gimsteinn í geimnum sem færði honum lof og heiður. Á svipaðan hátt getur það að íhuga hver árangurinn verður vakið með okkur löngun til að ná markmiði okkar. Nítján ára ungur maður að nafni Tony er dæmi um það. Hann gleymdi aldrei fyrstu heimsókn sinni á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Vestur-Evrópu. Þaðan í frá velti Tony stöðugt fyrir sér hvernig væri að búa og þjóna á slíkum stað. Tony hætti aldrei að hugsa um þennan möguleika og hann vann að því markmiði. Hann var yfir sig ánægður þegar umsókn hans um að þjóna á deildarskrifstofunni var samþykkt nokkrum árum síðar.

Félagsskapur við aðra sem hafa nú þegar náð ákveðnu markmiði getur líka vakið með okkur löngun til að vinna að því. Jayson, sem er þrítugur, hafði ekki ánægju af boðuninni snemma á unglingsárunum. En þegar hann hafði lokið skyldunámi gerðist hann kappsamur brautryðjandi og fór þannig að þjóna í fullu starfi. Hvað vakti með Jayson löngun til að gerast brautryðjandi? Hann segir: „Að tala við aðra sem höfðu verið brautryðjendur og vinna með þeim í boðuninni hafði sterk áhrif á mig.“

Það getur verið gott að skrifa niður markmiðin

Óljós hugmynd tekur á sig mynd þegar við höfum komið henni í orð. Salómon benti á að viðeigandi orð gætu verið máttug eins og broddstafir þegar kemur að stefnu í lífinu. (Prédikarinn 12:11) Þegar þau eru skrifuð niður hafa þau djúpstæð áhrif á huga og hjarta. Þess vegna sagði Jehóva konungum Ísraels að skrifa niður eigið eintak af lögbókinni. (5. Mósebók 17:18) Það getur því verið gott fyrir okkur að skrifa niður á blað markmið okkar, hvernig við ætlum að vinna að þeim, hindranir sem við búumst við á leiðinni og hvernig við getum yfirstigið þær. Það getur líka verið gott að koma auga á það á hvaða sviðum við verðum að afla okkur þekkingar og færni og hverjir geta aðstoðað og stutt okkur.

Að setja sér andleg markmið hafði góð áhrif á Geoffrey, en hann hefur lengi verið sérbrautryðjandi á afskekktu svæði í Asíu. Hann varð fyrir þeim harmleik að missa konuna sína skyndilega. Þegar Geoffrey var að aðlagast breyttum aðstæðum ákvað hann að einblína algerlega á brautryðjendastarfið með því að setja sér markmið. Hann skrifaði áætlun sína niður á blað, leitaði til Jehóva í bæn og setti sér það markmið að hefja þrjú biblíunámskeið fyrir mánaðarlok. Á hverjum degi hugsaði hann um hvernig hann færi að og á tíu daga fresti skoðaði hann hvernig honum miðaði áfram. Náði hann markmiði sínu? Hann gat glaður svarað því játandi með fjóra nýja biblíunemendur.

Settu þér skammtímamarkmið

Til að byrja með virðast sum markmið kannski of stór til að ná þeim. Fyrir Tony, sem minnst er á fyrr í greininni, var það eins og draumur að þjóna á deildarskrifstofu Votta Jehóva. Það var vegna þess að hann hafði farið dálítið út af sporinu og var ekki einu sinni búinn að vígja líf sitt Guði. En Tony ákvað að fara að lifa í samræmi við lög Jehóva og setti sér það markmið að verða hæfur til að láta skírast. Eftir að hafa náð því markmiði leitaðist hann við að gerast aðstoðarbrautryðjandi og svo brautryðjandi, og skrifaði á dagatalið hvenær hann áætlaði að byrja. Eftir að hafa verið brautryðjandi um nokkurt skeið virtist það ekki svo óraunhæft markmið að þjóna á deildarskrifstofunni.

Það getur líka reynst okkur vel að skipta langtímamarkmiðum okkar niður í nokkur skammtímamarkmið. Skammtímamarkmiðin geta auðveldað okkur leiðina að langtímamarkmiðinu. Þessi aðferð til að skoða árangur okkar reglulega getur hjálpað okkur að halda einbeitninni. Að biðja oft til Jehóva hjálpar okkur líka að halda okkur á réttri leið. „Biðjið stöðugt,“ sagði Páll postuli. – 1. Þessaloníkubréf 5:17.

Við þurfum að vera staðföst og sýna seiglu

Þrátt fyrir að hafa vel skipulagða áætlun og sterka löngun til að vinna að markmiðum okkar náum við þeim ekki endilega alltaf. Lærisveinninn Jóhannes Markús var líklega mjög vonsvikinn þegar Páll vildi ekki taka hann með í aðra trúboðsferð sína. (Postulasagan 15:37–40) Markús þurfti að læra af þessum vonbrigðum og aðlaga markmið sitt að aukinni þjónustu. Og hann gerði það. Páll talaði síðar vel um Markús og Markús átti náið samband við Pétur postula í Babýlon. (2. Tímóteusarbréf 4:11; 1. Pétursbréf 5:13) Ef til vill var mesti heiðurinn sem hann naut að skrifa innblásna frásögn af lífi og þjónustu Jesú.

Við getum líka þurft að takast á við bakslag þegar við vinnum að markmiðum okkar. Í stað þess að gefast upp skulum við endurskoða, endurmeta og endurstilla markmið okkar. Þegar upp koma hindranir verðum við að leggja okkur fram, vera staðföst og sýna seiglu. „Leggðu verk þín í hendur Jehóva, þá munu áform þín heppnast,“ sagði Salómon konungur. – Orðskviðirnir 16:3.

En stundum gera aðstæður okkur ómögulegt að ná ákveðnum markmiðum. Slæm heilsa eða fjölskylduábyrgð geta til dæmis sett okkur takmörk. Missum aldrei sjónar á að endamarkið er eilíft líf – á himni eða í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Filippíbréfið 3:13, 14) Hvernig náum við því? Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem gerir vilja Guðs lifir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Þó að aðstæður okkar geri okkur ekki kleift að ná ákveðnum markmiðum getum við samt ,borið djúpa virðingu fyrir hinum sanna Guði og haldið boðorð hans‘. (Prédikarinn 12:13) Andleg markmið hjálpa okkur að einbeita okkur að því að gera vilja Guðs. Við ættum því að nota þau til að lofa skapara okkar.

[Rammi]

Tillögur að andlegum markmiðum

○ Lesa daglega í biblíunni.

○ Lesa hvert tölublað af Varðturninum og Vaknið!

○ Bæta gæði bæna okkar.

○ Sýna eiginleika ávaxtar andans.

○ Sækjast eftir þjónustuverkefnum.

○ Taka framförum í að boða og kenna.

○ Verða færari í að boða trúna með síma, óformlega og á fyrirtækjasvæði.