Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hamingjusöm þrátt fyrir ofsóknir

Hamingjusöm þrátt fyrir ofsóknir

Hamingjusöm þrátt fyrir ofsóknir

„Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ — MATTEUS 5:11.

1. Um hvað fullvissaði Jesús fylgjendur sína í tengslum við gleði og ofsóknir?

ÞEGAR JESÚS sendi postulana í fyrsta skipti að prédika Guðsríki varaði hann þá við því að þeir myndu mæta andstöðu. Hann sagði: „Þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns.“ (Matteus 10:5-18, 22) Í fjallræðunni, sem hann flutti nokkru áður, hafði hann hins vegar fullvissað postulana og aðra um að slík andstaða þyrfti ekki að draga úr innri gleði þeirra. Jesús tengdi gleði meira að segja við það að vera ofsóttur fyrir að vera kristinn. En hvernig gátu ofsóknir veitt hamingju?

Ofsótt fyrir réttlætissakir

2. Hvers konar þjáningar veita okkur hamingju samkvæmt orðum Jesú og Péturs postula?

2 Áttunda sæluboðið, sem Jesús nefndi, var þetta: „Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.“ (Matteus 5:10) Þjáningar eru í sjálfu sér ekki neitt til að hreykja sér af. Pétur postuli skrifaði: „Hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.“ Hann sagði einnig: „Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við. En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.“ (1. Pétursbréf 2:20; 4:15, 16) Samkvæmt orðum Jesú veita þjáningar okkur hamingu þegar við líðum fyrir réttlætissakir.

3. (a) Hvað merkir það að vera ofsóttur fyrir réttlætissakir? (b) Hvaða áhrif höfðu ofsóknir á frumkristna menn?

3 Raunverulegt réttlæti er metið eftir því hvort við hlýðum vilja Guðs og boðorðum. Að þjást fyrir réttlætissakir merkir því að þjást vegna þess að við látum ekki undan þrýstingi til að brjóta gegn kröfum eða meginreglum Guðs. Leiðtogar Gyðinga ofsóttu postulana vegna þess að þeir vildu ekki hætta að prédika í nafni Jesú. (Postulasagan 4:18-20; 5:27-29, 40) Dró það úr gleði þeirra eða stöðvaði prédikunarstarfið? Nei, alls ekki. „Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:41, 42) Ofsóknirnar veittu þeim gleði og efldu kostgæfni þeirra í boðunarstarfinu. Seinna ofsóttu Rómverjar frumkristna menn vegna þess að þeir vildu ekki dýrka keisarann.

4. Nefndu nokkrar ástæður þess að kristnir menn hafa verið ofsóttir.

4 Nú á dögum hafa vottar Jehóva verið ofsóttir vegna þess að þeir vilja ekki hætta að prédika fagnaðarerindið um ríkið. (Matteus 24:14) Þegar safnaðarsamkomur þeirra eru bannaðar vilja þeir frekar þjást en að hætta að fylgja fyrirmælum Biblíunnar um að koma reglulega saman. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þeir hafa verið ofsóttir fyrir kristið hlutleysi sitt og fyrir að neita að misnota blóð. (Jóhannes 17:14; Postulasagan 15:28, 29) Engu að síður nýtur fólk Guðs nú á dögum innri friðar og hamingju því að það tekur afstöðu með því sem er rétt. — 1. Pétursbréf 3:14.

Smánuð vegna Krists

5. Hver er helsta ástæða þess að fólk Jehóva er ofsótt nú á dögum?

5 Níunda sæluboðið, sem Jesús nefndi í fjallræðunni, tengist líka ofsóknum. Hann sagði: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.“ (Matteus 5:11) Helsta ástæða þess að fólk Jehóva er ofsótt er sú að það er ekki hluti af þessu illa heimskerfi. Jesús sagði við lærisveinana: „Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Pétur postuli tók í sama streng þegar hann sagði: „Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.“ — 1. Pétursbréf 4:4.

6. (a) Hvers vegna eru leifarnar og félagar þeirra smánaðar og ofsóttar? (b) Draga þessar ofsóknir úr gleði okkar?

6 Við höfum þegar séð að frumkristnir menn voru ofsóttir vegna þess að þeir vildu ekki hætta að prédika í nafni Jesú. Kristur gaf fylgjendum sínum það verkefni að prédika og sagði: „Þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Trúfastar leifar andasmurðra bræðra Krists hafa sinnt þessu verkefni af kappi með aðstoð dyggra félaga sinna af hinum ‚mikla múgi‘. (Opinberunarbókin 7:9) Þess vegna heyr Satan stríð „við aðra afkomendur hennar [sæði ‚konunnar‘ sem táknar himneska hlutann af alheimssöfnuði Guðs], þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ (Opinberunarbókin 12:9, 17) Vottar Jehóva bera vitni um Jesú, konung Guðsríkis, sem nú er sestur að völdum og mun eyða öllum stjórnum manna sem standa í vegi fyrir réttlátum nýjum heimi Guðs. (Daníel 2:44; 2. Pétursbréf 3:13) Af þessum sökum erum við smánuð og ofsótt en við gleðjumst yfir því að þjást vegna nafns Krists. — 1. Pétursbréf 4:14.

7, 8. Hverju lugu andstæðingar upp á hina frumkristnu?

7 Jesús sagði að fylgjendur hans ættu að vera sælir jafnvel þótt menn ‚myndu ljúga á þá öllu illu hans vegna‘. (Matteus 5:11) Frumkristnir menn fengu svo sannarlega að reyna þetta. Þegar Páll postuli var í haldi í Róm einhvern tíma á árabilinu 59-61 sögðu leiðtogar Gyðinga um kristna menn: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Páll og Sílas voru ásakaðir um að koma „allri heimsbyggðinni í uppnám“ og „breyta gegn boðum keisarans“. — Postulasagan 17:6, 7.

8 Sagnfræðingurinn K. S. Latourette skrifaði um kristna menn á tímum rómverska heimsveldisins: „Ásakanirnar voru af ýmsum toga. Hinir kristnu voru kallaðir trúleysingjar vegna þess að þeir tóku ekki þátt í heiðnum siðum. Þar sem þeir héldu sér frá ýmsum viðburðum eins og heiðnum hátíðum og almennum skemmtunum . . . hélt fólk því fram að þeir væru mannhatarar. . . . Sagt var að bæði kynin hittust að nóttu til . . . og stunduðu kynferðislegt siðleysi. . . . Sú staðreynd að [minningarhátíðin um dauða Krists] var aðeins haldin í návist trúaðra ýtti undir þær sögusagnir að kristnir menn fórnuðu reglulega ungbarni og neyttu holds þess og blóðs.“ Auk þess voru frumkristnir menn ásakaðir um að vera á móti ríkisstjórninni því að þeir vildu ekki taka þátt í keisaradýrkun.

9. Hver voru viðbrögð frumkristinna manna þegar rangar ásakanir voru bornar upp á þá og hvernig er það nú á dögum?

9 Þessar röngu ásakanir komu ekki í veg fyrir að frumkristnir menn sinntu því starfi að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Árið 60 eða 61 gat Páll sagt að fagnaðarerindið ‚bæri ávöxt og yxi í öllum heiminum‘ og að prédikað hefði verið „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. (Kólossubréfið 1:5, 6, 23) Hið sama á sér stað nú á dögum. Rangar ásakanir eru bornar upp á votta Jehóva eins og hina frumkristnu. En prédikunarstarfið nú á dögum blómstrar og veitir þeim sem taka þátt í því mikla gleði.

Hamingjusöm þrátt fyrir ofsóknir eins og spámennirnir

10, 11. (a) Hvernig lauk Jesús umfjöllun sinni um níunda sæluboðið? (b) Af hverju voru spámennirnir ofsóttir? Nefndu dæmi.

10 Jesús lauk umfjöllun sinni á níunda sæluboðinu með orðunum: „Verið glaðir. . . . Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (Matteus 5:12) Hin ótrúa Ísraelsþjóð tók illa á móti spámönnunum sem Jehóva sendi til að vara fólkið við og þeir voru oft ofsóttir. (Jeremía 7:25, 26) Páll postuli minntist á það þegar hann skrifaði: „Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá . . . spámönnunum. Fyrir trú . . . urðu [þeir] að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.“ — Hebreabréfið 11:32-38.

11 Í stjórnartíð hins illa Akabs og eiginkonu hans, Jesebelar, voru margir spámenn Jehóva drepnir með sverði. (1. Konungabók 18:4, 13; 19:10) Spámaðurinn Jeremía var settur í stokk og seinna var honum kastað í gryfju sem var full af leðju. (Jeremía 20:1, 2; 38:6) Spámanninum Daníel var kastað í ljónagryfju. (Daníel 6:16, 17) Allir þessir spámenn, sem voru uppi fyrir daga kristninnar, voru ofsóttir vegna þess að þeir vörðu sanna tilbeiðslu á Jehóva. Auk þess voru margir spámenn ofsóttir af trúarleiðtogum Gyðinga. Jesús kallaði fræðimennina og faríseana ‚syni þeirra, sem myrtu spámennina‘. — Matteus 23:31.

12. Hvers vegna líta vottar Jehóva á það sem heiður að vera ofsóttir á sama hátt og spámenn fortíðar?

12 Nú á dögum eru vottar Jehóva oft ofsóttir vegna þess að þeir prédika fagnaðarerindið um ríkið af kappi. Óvinir okkar saka okkur um „ágengt trúboð“ en við vitum að trúfastir tilbiðjendur Jehóva fyrr á öldum urðu fyrir svipaðri gagnrýni. (Jeremía 11:21; 20:8, 11) Við lítum á það sem heiður að þjást fyrir sömu sakir og trúfastir spámenn fortíðar. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ — Jakobsbréfið 5:10, 11.

Góðar ástæður til að vera hamingjusöm

13. (a) Hvers vegna draga ofsóknir ekki úr okkur kjark? (b) Hvað gerir okkur kleift að vera staðföst og um hvað vitnar það?

13 Ofsóknir draga alls ekki úr okkur kjark og það er hughreystandi fyrir okkur að vita að við fetum í fótspor spámanna, frumkristinna manna og meira að segja Jesú Krists. (1. Pétursbréf 2:21) Það veitir okkur djúpstæða ánægju að lesa í Biblíunni vers eins og þessi sem Pétur postuli skrifaði: „Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt. Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“ (1. Pétursbréf 4:12, 14) Við vitum af reynslunni að við getum aðeins staðið stöðug í ofsóknum vegna þess að andi Jehóva hvílir yfir okkur og gefur okkur styrk. Styrkurinn, sem við fáum frá heilögum anda, er sönnun þess að við njótum blessunar Jehóva og það veitir okkur mikla ánægju. — Sálmur 5:13; Filippíbréfið 1:27-29.

14. Hvaða ástæður höfum við til að fagna þegar við erum ofsótt fyrir réttlætissakir?

14 Þegar við mætum andstöðu og ofsóknum fyrir réttlætissakir er það einnig sönnun þess að við erum sannkristin og lifum guðrækilega. Það gefur okkur líka aðra ástæðu til að vera hamingjusöm. Páll postuli skrifaði: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Það veitir okkur mikla gleði að hugsa til þess að með því að vera ráðvönd í prófraunum veitum við svar við ásökunum Satans um að allar sköpunarverur Jehóva þjóni honum aðeins í eiginhagsmunaskyni. (Jobsbók 1:9-11; 2:3, 4) Við fögnum yfir því að eiga agnarlítinn þátt í því að verja drottinvald Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.

Fagnið yfir laununum

15, 16. (a) Hvaða ástæðu gaf Jesús okkur til að vera glöð og fagna? (b) Hvaða laun hljóta smurðir kristnir menn á himnum og hvernig verður félögum þeirra, ‚öðrum sauðum‘, einnig launað?

15 Jesús gaf okkur aðra ástæðu til að vera glöð yfir því að vera smánuð og ofsótt eins og spámennirnir forðum. Eftir að hann nefndi níunda sæluboðið sagði hann: „Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:12) Páll postuli skrifaði: „Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Já, þessi miklu laun eru lífið og við getum ekki áunnið okkur þau heldur fáum við þau að gjöf. Jesús sagði að launin væru „á himnum“ því að þau koma frá Jehóva.

16 Hinir smurðu fá „kórónu lífsins“ sem er í þeirra tilfelli ódauðlegt líf með Kristi á himnum. (Jakobsbréfið 1:12, 17) ‚Aðrir sauðir‘, sem hafa jarðneska von, hlakka til þess að hljóta eilíft líf í jarðneskri paradís. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 21:3-5) „Laun“ beggja hópanna eru óverðskulduð. Hinir smurðu og ‚aðrir sauðir‘ hljóta launin vegna „yfirgnæfanlegrar náðar Guðs“ sem snerti Pál svo djúpt að hann sagði: „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ — 2. Korintubréf 9:14, 15.

17. Hvers vegna getum við verið hamingjusöm og fagnað þrátt fyrir ofsóknir?

17 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum sem voru sumir hverjir grimmilega ofsóttir af Neró keisara stuttu seinna: „Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“ Hann sagði einnig: „Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni.“ (Rómverjabréfið 5:3-5; 12:12) Hvort sem við höfum himneska eða jarðneska von eru launin, sem við fáum fyrir trúfesti okkar, mun stórkostlegri en við eigum skilið. Við getum fagnað því að eiga von um að lifa að eilífu undir stjórn konungsins, Jesú Krists, til að þjóna kærleiksríkum föður okkar, Jehóva, og lofa hann.

18. Hvað má búast við að þjóðirnar geri þegar endirinn nálgast og hvað mun Jehóva gera?

18 Í sumum löndum hafa vottar Jehóva verið ofsóttir og eru það enn. Í spádómi sínum um endalok veraldar gaf Jesús sannkristnum mönnum þessa viðvörun: „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Nú, þegar endirinn færist nær, mun Satan fá þjóðirnar til að sýna hatur sitt á þjónum Jehóva. (Esekíel 38:10-12, 14-16) Þetta verður merki um að kominn sé tími Jehóva til að grípa inn í. „Ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.“ (Esekíel 38:23) Þannig mun Jehóva helga sitt mikla nafn sitt og frelsa fólk sitt undan ofsóknum. Við getum því sagt: „Sæll er sá maður, sem stenst.“ — Jakobsbréfið 1:12.

19. Hvað ættum við að gera á meðan við bíðum eftir hinum mikla degi Jehóva?

19 Nú, þegar hinn mikli dagur Jehóva nálgast óðfluga, skulum við vera glöð yfir því að vera virt þess „að þola háðung vegna nafns Jesú“. (2. Pétursbréf 3:10-13; Postulasagan 5:41) Við skulum, eins og hinir frumkristnu, halda stöðugt áfram að kenna og boða fagnaðarerindið um Jesú og ríkisstjórn hans á meðan við bíðum launanna í réttlátum nýjum heimi Jehóva. — Postulasagan 5:42; Jakobsbréfið 5:11.

Upprifjun

• Hvað merkir það að þjást fyrir réttlætissakir?

• Hvaða áhrif höfðu ofsóknir á frumkristna menn?

• Hvers vegna má segja að vottar Jehóva séu ofsóttir eins og spámennirnir forðum daga?

• Hvers vegna getum við verið glöð og fagnað þrátt fyrir ofsóknir?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

‚Sælir eruð þér, þá er menn smána yður og ofsækja.‘

[Rétthafi]

Hópur í fangelsi: Chicago Herald-American.