Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stöndum gegn Satan, þá mun hann flýja

Stöndum gegn Satan, þá mun hann flýja

Stöndum gegn Satan, þá mun hann flýja

„Gefið yður . . . Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:7.

1, 2. (a) Hvaða einkenni djöfulsins er lýst í 14. kafla Jesajabókar? (b) Hvaða spurningar ætlum við að ræða?

DJÖFULLINN er ímynd hrokans. Stærilæti hans er vel lýst með orðum Jesaja spámanns. Meira en öld áður en Babýlon varð heimsveldi eru þjóð Guðs lögð í munn eftirfarandi orð um „konunginn í Babýlon“: „Þú, sem sagðir í hjarta þínu: ‚Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs [konungum af ætt Davíðs] vil ég reisa veldistól minn! . . . Ég vil . . . gjörast líkur Hinum hæsta!‘“ (Jesaja 14:3, 4, 12-15; 4. Mósebók 24:17) Hroki konungsins í Babýlon er keimlíkur hugarfari Satans sem er „guð þessarar aldar“. (2. Korintubréf 4:4) En hroki Satans mun enda með ósköpum, rétt eins og konungsætt Babýlonar hlaut smánarleg endalok.

2 En meðan Satan er til má vel vera að spurningar eins og þessar leiti á okkur: Ættum við að óttast Satan? Af hverju egnir hann fólk til að ofsækja kristna menn? Hvernig getum við haldið vöku okkar svo að Satan nái ekki að tæla okkur?

Ættum við að óttast djöfulinn?

3, 4. Af hverju eru andasmurðir kristnir menn og félagar þeirra óhræddir við djöfulinn?

3 Orð Jesú Krists eru einkar hughreystandi fyrir andasmurða kristna menn: „Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ (Opinberunarbókin 2:10) Hinir andasmurðu óttast ekki djöfulinn og hið sama er að segja um félaga þeirra sem hafa jarðneska von. Það er ekki því að þakka að þeim sé hugrekkið meðfætt heldur stafar það af því að þeir óttast Guð og „leita hælis í skugga vængja [hans]“. — Sálmur 34:10; 36:8.

4 Lærisveinar Jesú Krists á fyrstu öld voru óhræddir og voru trúfastir allt til dauða þótt þeir þyrftu að þjást. Þeir hræddust ekki Satan djöfulinn því að þeir vissu að Jehóva yfirgefur aldrei þá sem eru honum trúir. Hinir andasmurðu og vígðir félagar þeirra nú á tímum eru sama sinnis. Þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir eru þeirra staðráðnir í að vera ráðvandir Guði. Páll postuli gaf þó í skyn að djöfullinn gæti orðið fólki að bana. Gefur það okkur ekki ástæðu til að vera óttaslegin?

5. Hvað lærum við af Hebreabréfinu 2:14, 15?

5 Páll sagði að Jesús hefði fengið „hlutdeild“ í holdi og blóði „til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi“. (Hebreabréfið 2:14, 15) Satan hefur „mátt dauðans“. Hann náði tangarhaldi á Júdasi Ískaríot og notaði síðan leiðtoga Gyðinga og Rómverja til að fá Jesú tekinn af lífi. (Lúkas 22:3; Jóhannes 13:26, 27) Með fórnardauða sínum frelsar Jesús hins vegar syndugt mannkyn úr klóm Satans og opnar okkur möguleika á eilífu lífi. — Jóhannes 3:16.

6, 7. Að hve miklu leyti hefur djöfullinn mátt dauðans?

6 Að hve miklu leyti hefur djöfullinn mátt dauðans? Allar götur síðan hann fór út á braut illskunnar hafa lygar hans og lævísi valdið dauða meðal manna vegna þess að Adam syndgaði og arfleiddi mannkynið að synd og dauða. (Rómverjabréfið 5:12) Auk þess hafa þjónar Satans á jörðinni ofsótt tilbiðjendur Jehóva og stundum orðið þeim að bana líkt og þeir fengu Jesú Krist tekinn af lífi.

7 Við skulum samt ekki ímynda okkur að djöfullinn geti drepið hvern þann sem hann vill. Guð verndar þá sem tilheyra honum og leyfir Satan aldrei að afmá alla sanna guðsdýrkendur af jörðinni. (Rómverjabréfið 14:8) Jehóva leyfir að vísu að allir þjónar sínir séu ofsóttir og hann hindrar ekki að sum okkar deyi í árásum Satans. En þeim sem geymdir eru í „minnisbók“ Guðs er veitt unaðsleg von í Biblíunni — von um upprisu — og djöfullinn getur ekki með nokkru móti komið í veg fyrir að hún verði að veruleika. — Malakí 3:16; Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15.

Af hverju ofsækir Satan okkur?

8. Af hverju ofsækir Satan þjóna Guðs?

8 Ef við erum dyggir þjónar Guðs er ákveðin ástæða fyrir því að Satan ofsækir okkur. Það er markmið hans að fá okkur til að víkja frá trúnni. Við eigum dýrmætt samband við föður okkar á himnum og Satan vill fyrir alla muni spilla því. Það ætti ekki að koma okkur á óvart. Jehóva sagði það fyrir í Eden að fjandskapur yrði milli táknrænnar ‚konu‘ sinnar og ‚höggormsins‘ og milli „sæðis“ beggja. (1. Mósebók 3:14, 15) Biblían kallar djöfulinn ‚hinn gamla höggorm‘ og segir að hann hafi nauman tíma til umráða og sé ævareiður. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Meðan fjandskapurinn milli „sæðis“ beggja helst mega dyggir þjónar Jehóva búast við ofsóknum. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Gerirðu þér grein fyrir því hvaða ástæða liggur að baki því að Satan ofsækir okkur?

9, 10. Hvaða deilumál hefur djöfullinn vakið upp og hvernig tengist breytni mannanna því?

9 Satan hefur vakið upp deilu um drottinvaldið yfir alheiminum. Samhliða henni hefur hann dregið í efa ráðvendni allra manna gagnvart skaparanum. Satan ofsótti hinn réttláta Job af því að hann vildi reyna að gera hann ótrúan Guði. Eiginkona Jobs og þrír „hvimleiðir huggarar“ hans þjónuðu markmiðum djöfulsins á þeim tíma. Satan ögraði Guði, eins og fram kemur í Jobsbók, og fullyrti að enginn maður myndi vera Guði trúr ef á hann reyndi. En Job varðveitti ráðvendni sína og sannaði Satan lygara. (Jobsbók 1:8–2:9; 16:2; 27:5; 31:6) Djöfullinn ofsækir votta Jehóva nú á dögum til að reyna að brjóta niður trúfesti þeirra og sanna að hann hafi rétt fyrir sér.

10 Við vitum að djöfullinn ofsækir okkur af því að hann vill umfram allt gera okkur ótrú Guði. En þessi vitneskja getur í rauninni auðveldað okkur að vera hugrökk og örugg. (5. Mósebók 31:6) Jehóva Guð er Drottinn alheims og hann hjálpar okkur að vera ráðvönd. Leggjum okkur alltaf fram um að gleðja hjarta Jehóva með því að vera honum trú þannig að hann geti svarað smánaranum mikla, Satan djöflinum. — Orðskviðirnir 27:11.

„Frelsa oss frá hinum vonda“

11. Hvað merkir beiðnin: „Eigi leið þú oss í freistni“?

11 Það er ekki einfalt mál að vera ráðvandur. Til að vera það er nauðsynlegt að vera bænrækinn. Orðin í faðirvorinu eru sérlega gagnleg. Jesús sagði meðal annars: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matteus 6:13, neðanmáls) Jehóva freistar okkur ekki til að syndga. (Jakobsbréfið 1:13) Biblían talar hins vegar stundum um að hann geri eitthvað eða valdi einhverju í þeirri merkingu að hann leyfi það. (Rutarbók 1:20, 21) Með því að biðja eins og Jesús hvatti okkur til erum við að biðja Jehóva að leyfa ekki að við verðum freistingu að bráð. Og Jehóva leyfir það ekki því að okkur er lofað í Biblíunni: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ — 1. Korintubréf 10:13.

12. Af hverju biðjum við: „Frelsa oss frá hinum vonda“?

12 Eftir að Jesús er búinn að nefna freistingu segir hann í framhaldinu: „Frelsa oss frá hinum vonda.“ Í sumum biblíuþýðingum stendur: „Frelsa oss frá illu“ (eins og gert er í meginmáli íslensku biblíunnar frá 1981) eða „Vernda okkur gegn illu“. (Contemporary English Version) En í Biblíunni vísar orðalagið ‚frelsa frá‘ fyrst og fremst til fólks og í Matteusarguðspjalli er djöfullinn nefndur „freistarinn“, það er að segja persóna. (Matteus 4:3, 11) Það er því mikilvægt að biðja Jehóva að frelsa okkur frá „hinum vonda“, Satan djöflinum. Satan reynir að stjórna okkur með lagni og kænsku þannig að við syndgum gegn Guði. (1. Þessaloníkubréf 3:5) Þegar við biðjum: „Frelsa oss frá hinum vonda,“ erum við að biðja föðurinn á himnum að leiðbeina okkur og hjálpa þannig að við látum djöfulinn ekki tæla okkur.

Látum Satan ekki tæla okkur

13, 14. Af hverju þurftu Korintumenn að taka rétt á málum manns í söfnuðinum sem hafði verið siðlaus?

13 Páll hvatti kristna menn í Korintu til að fyrirgefa. Hann skrifaði: „Hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka. Og það sem ég hef fyrirgefið, hafi ég þurft að fyrirgefa nokkuð, þá hefur það verið vegna yðar fyrir augliti Krists, til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.“ (2. Korintubréf 2:10, 11) Djöfullinn getur vélað okkur og tælt með ýmsu móti. En af hvaða tilefni skrifaði Páll orðin hér að ofan?

14 Páll hafði ávítað Korintumenn fyrir að leyfa siðlausum manni að vera í söfnuðinum. Satan hlýtur að hafa verið ánægður með að þeir skyldu umbera ‚slíkan saurlifnað, sem jafnvel gerðist ekki meðal heiðingja,‘ vegna þess að það var hneisa fyrir söfnuðinn. Syndaranum var að lokum vikið úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:1-5, 11-13) Síðar iðraðist maðurinn. Ef Korintumenn vildu ekki fyrirgefa honum og taka hann inn í söfnuðinn á ný tækist djöflinum að tæla þá á annan hátt. Þá væru þeir orðnir harðir og miskunnarlausir eins og Satan. Ef maðurinn, sem nú iðraðist, ‚sykki niður í allt of mikla hryggð‘ og gæfist alveg upp bæru öldungarnir öðrum fremur nokkra ábyrgð á því gagnvart Jehóva, Guði miskunnarinnar. (2. Korintubréf 2:7; Jakobsbréfið 2:13; 3:1) Enginn sannkristinn maður vill líkjast Satan og vera grimmur, harður og miskunnarlaus.

Alvæpni Guðs verndar

15. Í hvaða hernaði eigum við og undir hverju er sigurinn kominn?

15 Við þurfum að heyja andlegan hernað gegn andaverum vonskunnar ef við viljum að Guð frelsi okkur frá djöflinum. Til að sigra slíkt ofurefli þurfum við að klæðast „alvæpni Guðs“. (Efesusbréfið 6:11-18) Alvæpni Guðs er meðal annars fólgið í því að vera klæddur „brynju réttlætisins“. (Efesusbréfið 6:14) Sál konungur í Forn-Ísrael óhlýðnaðist Guði með þeim afleiðingum að heilagur andi var tekinn frá honum. (1. Samúelsbók 15:22, 23) En ef við ástundum réttlæti og berum alvæpni Guðs höfum við heilagan anda hans og þá vernd sem við þurfum gegn Satan og illu öndunum. — Orðskviðirnir 18:10.

16. Hvernig getum við notið stöðugrar verndar gegn andaverum vonskunnar?

16 Við þurfum meðal annars að lesa og nema orð Guðs að staðaldri til að njóta stöðugrar verndar gegn andaverum vonskunnar, og nota vel þau rit sem hinn „trúi og hyggni ráðsmaður“ lætur í té. (Lúkas 12:42) Þannig fyllum við hugann af heilnæmu, andlegu efni eins og Páll ráðlagði þegar hann sagði: „Bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

17. Hvað hjálpar okkur að vera dugmiklir boðberar fagnaðarerindisins?

17 Jehóva gerir okkur kleift að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins“. (Efesusbréfið 6:15) Ef við tökum að staðaldri þátt í safnaðarsamkomum verðum við fær í að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Það er einkar ánægjulegt að mega hjálpa öðrum að kynnast sannleika Guðs og hljóta andlegt frelsi. (Jóhannes 8:32) ‚Sverð andans, sem er Guðs orð,‘ er nauðsynlegt til að verjast falskenningum og „brjóta niður vígi“. (Efesusbréfið 6:17; 2. Korintubréf 10:4, 5) Með því að beita orði Guðs, Biblíunni, fagmannlega eigum við auðveldara með að kenna öðrum sannleikann og það verndar okkur gegn klækjabrögðum Satans.

18. Hvernig getum við „staðist vélabrögð djöfulsins“?

18 Páll hefur eftirfarandi formála að umræðu sinni um andlegu herklæðin: „Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:10, 11) Gríska orðið, sem þýtt er „staðist“, vísar til hermanns sem hopar ekki. Við hopum ekki í andlegum hernaði okkar enda þótt Satan beiti alls konar vélabrögðum til að reyna að spilla einingu okkar og kenningum eða gera okkur ótrú Guði. En árásir Satans hafa ekki heppnast hingað til og munu aldrei heppnast. *

Stöndum gegn djöflinum, þá mun hann flýja

19. Nefndu eina leið til að berjast gegn Satan.

19 Við getum borið hærri hlut í andlega hernaðinum gegn Satan og illu öndunum sem lúta stjórn hans. Það er engin ástæða til að vera hrædd við Satan því að lærisveinninn Jakob skrifaði: „Gefið yður . . . Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréfið 4:7) Ein leið til að berjast gegn Satan og illu öndunum, sem fylgja honum, er að koma hvorki nálægt dulspeki eða kukli né þeim sem leggja stund á slíkt. Í Biblíunni kemur skýrt fram að þjónar Jehóva mega ekki leita fyrirboða eða stunda stjörnuspeki, spásagnir eða spíritisma. Ef við erum sterk í trúnni og stundum hana af kappi þurfum við ekki að óttast að einhver beiti göldrum eða særingum gegn okkur. — 4. Mósebók 23:23; 5. Mósebók 18:10-12; Jesaja 47:12-15; Postulasagan 19:18-20.

20. Hvernig getum við staðið gegn djöflinum?

20 Við stöndum gegn Satan djöflinum með því að fylgja sannleika Biblíunnar og mælikvarða hennar, og með því að taka einarða afstöðu gegn Satan. Hann er guð heimsins þannig að heimurinn fylgir honum að málum. (2. Korintubréf 4:4) Þess vegna vísum við á bug því sem einkennir heiminn svo sem drambi, eigingirni, siðleysi, ofbeldi og efnishyggju. Þegar djöfullinn freistaði Jesú í eyðimörkinni stóðst Jesús árásir hans með því að vitna í Ritninguna. Og djöfullinn flúði. (Matteus 4:4, 7, 10, 11) Hann mun sömuleiðis flýja okkur ef við lútum Jehóva í einu og öllu, treystum á hann og erum bænrækin. (Efesusbréfið 6:18) Enginn, ekki einu sinni djöfullinn, getur unnið okkur varanlegt tjón af því að við njótum stuðnings Jehóva Guðs og sonar hans. — Sálmur 91:9-11.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Nánari upplýsingar um hið andlega alvæpni Guðs er að finna í Varðturninum 1. nóvember 2004, bls. 13-18.

Hvert er svarið?

• Ættum við að óttast Satan djöfulinn?

• Af hverju ofsækir Satan kristna menn?

• Hvers vegna biðjum við Guð að frelsa okkur frá „hinum vonda“?

• Hvernig getum við sigrað í andlegum hernaði okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 17]

Fylgjendur Krists á fyrstu öld voru óttalausir og trúfastir allt til dauða.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Djöfullinn getur ekki komið í veg fyrir að Jehóva reisi upp frá dauðum þá sem hann geymir í minni sér.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Biður þú Guð að frelsa þig frá „hinum vonda“?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Klæðist þú „alvæpni Guðs“?