Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heilnæm afþreying sem endurnærir

Heilnæm afþreying sem endurnærir

Heilnæm afþreying sem endurnærir

„Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. KORINTUBRÉF 10:31.

1, 2. Hvers vegna má líta á afþreyingu sem „Guðs gjöf“ en hvaða beinskeyttu viðvörun veitir Biblían?

ÞAÐ er eðlilegt að vilja gera það sem veitir okkur gleði og ánægju. Jehóva er hinn sæli Guð og hann vill að við njótum lífsins. Hann hefur líka séð til þess að við getum gert það. (1. Tímóteusarbréf 1:11; 6:17) Hinn vitri konungur Salómon skrifaði: „Ég komst að raun um, að ekkert er betra . . . en að vera glaður. . . . En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — Prédikarinn 3:12, 13.

2 Þegar maður staldrar við og lítur yfir vel unnið verk er endurnærandi að gleðjast og fagna, sérstaklega ef það er gert með fjölskyldunni eða vinum. Það má réttilega líta á slíkar stundir sem „Guðs gjöf“. En þótt skaparinn sé svona örlátur gefur það okkur ekki leyfi til að hella okkur út í takmarkalausa skemmtun. Biblían fordæmir drykkjuskap, ofát og siðleysi og varar við því að þeir sem stundi slíkt muni ekki „Guðs ríki erfa“. — 1. Korintubréf 6:9, 10; Orðskviðirnir 23:20, 21; 1. Pétursbréf 4:1-4.

3. Hvernig getum við haldið okkur andlega vakandi og haft hinn mikla dag Jehóva efst í huga?

3 Við lifum á erfiðum tímum og það reynir meira en nokkru sinni fyrr á kristna menn að búa með skynsemi í spilltum heimi án þess að taka upp hegðun hans. (Jóhannes 17:15, 16) Eins og spáð var elskar fólk „munaðarlífið meira en Guð“ og gefur jafnvel engan gaum að sönnunum þess að þrengingin mikla sé skammt undan. (2. Tímóteusarbréf 3:4, 5; Matteus 24:21, 37-39) Jesús aðvaraði fylgjendur sína: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ (Lúkas 21:34, 35) Við erum þjónar Guðs og erum staðráðin í því að taka til okkar viðvörun Jesú. Við kappkostum að halda okkur andlega vakandi og hafa hinn mikla dag Jehóva efst í huga ólíkt þeim sem tilheyra hinum óguðlega heimi sem við búum í. — Sefanía 3:8; Lúkas 21:36.

4. (a) Af hverju er erfitt að finna viðeigandi afþreyingu? (b) Hvaða ráð í Efesusbréfinu 5:15, 16 ættum við að taka til okkar?

4 Það er ekki auðvelt að forðast allt það spillta sem við sjáum í heiminum því að Satan hefur gert það bæði eftirsóknarvert og aðgengilegt. Það er sérstaklega erfitt þegar við leitum okkur afþreyingar eða skemmtunar. Flest af því sem heimurinn býður upp á höfðar til ‚holdlegra girnda‘. (1. Pétursbréf 2:11) Skaðlega afþreyingu er að finna á almenningsstöðum en hún smýgur líka inn á heimilið í gegnum bækur og blöð, sjónvarpið, Netið og myndbönd. Orð Guðs hvetur kristna menn: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Við verðum að fylgja þessum viturlegu leiðbeiningum vandlega til að tryggja að skaðleg skemmtun tæli okkur ekki eða gleypi eða eyðileggi jafnvel samband okkar við Jehóva og leiði okkur til glötunar. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

5. Hvað veitir okkur mesta gleði og endurnæringu?

5 Þar sem kristnir menn lifa annasömu lífi er eðlilegt að þá langi stundum til að gera eitthvað sér til afþreyingar. Í Prédikaranum 3:4 segir: „Að hlæja hefir sinn tíma . . . og að dansa hefir sinn tíma“. Biblían talar greinilega ekki um afþreyingu sem tímasóun. Afþreying ætti að vera endurnærandi en hún ætti ekki skaða trú okkar eða trufla andlega dagskrá. Þroskaðir kristnir menn vita af reynslunni að mesta gleðin er fólgin í því að gefa af sér. Það hefur forgang í lífi þeirra að gera vilja Jehóva og þeir finna raunverulega ‚hvíld sálum sínum‘ þegar þeir taka á sig ljúft ok Krists. — Matteus 11:29, 30; Postulasagan 20:35.

Hvað er viðeigandi afþreying?

6, 7. Hvað getur hjálpað þér að ákveða hvað sé viðeigandi afþreying?

6 Hvernig getum við gengið úr skugga um að viss afþreying sé viðeigandi fyrir kristna menn? Foreldrar leiðbeina börnunum sínum og öldungar veita aðstoð eftir þörfum. En í rauninni ættu aðrir ekki að þurfa að segja okkur að ákveðin bók, kvikmynd, leikur, dans eða lag sé óviðeigandi. Páll sagði að þeir sem eru þroskaðir í trúnni hafi „tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14; 1. Korintubréf 14:20) Biblían gefur okkur leiðbeinandi meginreglur og biblíufrædd samviska þín getur hjálpað þér ef þú hlustar á hana. — 1. Tímóteusarbréf 1:19.

7 Jesús sagði: „Af ávextinum þekkist tréð.“ (Matteus 12:33) Við ættum að forðast alfarið afþreyingu sem gefur af sér slæman ávöxt til dæmis með því að ýta undir ofbeldi, siðleysi eða spíritisma. Afþreying er líka óviðeigandi ef hún ógnar lífi okkar eða heilsu, veldur fjárhagserfiðleikum, brýtur okkur niður eða hneykslar aðra. Páll postuli sagði í viðvörunartón að við syndgum ef við særum samvisku bróður okkar. Hann skrifaði: „Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi. Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.“ — 1. Korintubréf 8:12, 13.

8. Hvaða hættur fylgja tölvuleikjum og myndböndum?

8 Verslanir eru yfirfullar af tölvuleikjum og myndböndum. Sumt af þessu getur verið skaðlaus skemmtun en afþreying af þessu tagi snýst í auknum mæli um það sem Biblían fordæmir. Það er ekki bara skaðlaus skemmtun þegar þátttakendur í tölvuleik limlesta, drepa eða hegða sér á svívirðilegan hátt. Jehóva hatar þann sem „elskar ofbeldi“. (Sálmur 11:5, Biblíurit, ný þýðing 2003; Orðskviðirnir 3:31; Kólossubréfið 3:5, 6) Og ef viss leikur ýtir undir græðgi eða árásarhneigð, dregur úr þér alla orku eða sóar dýrmætum tíma, skaltu gera þér grein fyrir að hann stofnar trú þinni í hættu. Gerðu strax nauðsynlegar breytingar. — Matteus 18:8, 9.

Að sinna þörfinni fyrir afþreyingu á heilnæman hátt

9, 10. Hvað er hægt að gera til að sinna þörfinni fyrir afþreyingu?

9 Margt af því sem heimurinn býður upp á stangast á við meginreglur Biblíunnar og þess vegna velta sumir fyrir sér hvað sé viðeigandi afþreying. En það er hægt að finna ánægjulega afþreyingu, það krefst bara smá viðleitni og skipulagningar. Foreldrar verða sérstaklega að sýna fyrirhyggju. Margir hafa komið auga á góð tækifæri til afþreyingar innan fjölskyldunnar og safnaðarins. Það getur verið mjög uppbyggilegt og gefandi að borða saman í rólegheitum og segja frá því sem gerst hefur yfir daginn eða ræða um biblíulegt efni. Hægt er að fara í lautarferðir, viðeigandi leiki, útilegur eða gönguferðir. Heilnæm afþreying af þessu tagi getur verið skemmtileg og gefandi.

10 Öldungur og kona hans, sem hafa alið upp þrjú börn, segja: „Frá því að börnin voru mjög ung fengu þau að taka þátt í því að velja hvert fara ætti í fríinu. Af og til leyfðum við hverju barni að bjóða góðum vini með og það gerði fríið enn skemmtilegra. Við veittum börnunum viðurkenningu þegar þau náðu ákveðnum áfanga í lífinu. Stundum buðum við ættingjum og vinum úr söfnuðinum heim. Við grilluðum og fórum í leiki. Við keyrðum líka upp til fjalla og fórum í göngutúra og notuðum þá tækifærið til að læra um sköpunarverk Jehóva.“

11, 12. (a) Hvað getur þú haft í huga þegar þú skipuleggur afþreyingu? (b) Hvers konar samverustundir hafa reynst mörgum ógleymanlegar?

11 Getum við látið verða rúmgott í hjarta okkar sem einstaklingar eða fjölskyldur með því að hafa fleiri í huga þegar við skipuleggjum afþreyingu? Sumir gætu þurft á uppörvun að halda eins og til dæmis einhleypir, ekkjur eða einstæðir foreldrar. (Lúkas 14:12-14) Við getum líka boðið þeim sem eru nýir í trúnni en gætum þess samt að aðrir komist ekki í tæri við spillandi félagsskap. (2. Tímóteusarbréf 2:20, 21) Ef veikburða einstaklingur á erfitt með að fara út úr húsi mætti bjóðast til þess að fara með máltíð til hans og borða með honum. — Hebreabréfið 13:1, 2.

12 Við getum líka komið saman og borðað látlausa máltíð, sagt hvert öðru hvernig við kynntumst sannleikanum og hvað hefur gert okkur kleift að vera trúföst. Slíkar stundir hafa reynst mörgum ógleymanlegar. Það er hægt að brydda upp á biblíulegu umræðuefni sem allir taka þátt í, þar á meðal börnin. Tækifæri sem þessi ættu að endurnæra en ekki gera neinn vandræðalegan eða draga kjark úr þeim sem eru viðstaddir.

13. Hvernig gáfu Jesús og Páll okkur gott fordæmi í því að sýna og þiggja gestrisni?

13 Jesús gaf okkur gott fordæmi í því að sýna og þiggja gestrisni. Hann notaði þessi tækifæri alltaf til að vera andlega uppörvandi. (Lúkas 5:27-39; 10:42; 19:1-10; 24:28-32) Lærisveinarnir á fyrstu öld líktu eftir fordæmi hans. (Postulasagan 2:46, 47) Páll postuli skrifaði: „Ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist, eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.“ (Rómverjabréfið 1:11, 12) Þegar við komum saman ætti það líka alltaf að vera uppörvandi og hvetjandi. — Rómverjabréfið 12:13; 15:1, 2.

Til minnis og varnaðar

14. Hvers vegna er ekki mælt með fjölmennum boðum?

14 Það er ekki mælt með fjölmennum boðum því að erfitt er að hafa umsjón með þeim. Ef það truflar ekki andlegu dagskrána gætu nokkrar fjölskyldur farið saman í lautarferð eða leiki sem ýta ekki undir of mikinn keppnisanda. Þegar öldungar, safnaðarþjónar og aðrir þroskaðir einstaklingar eru viðstaddir geta þeir haft góð áhrif og samveran orðið enn ánægjulegri.

15. Af hverju er nauðsynlegt að gestgjafi sjái til þess að fylgst sé vel með öllu?

15 Þeir sem skipuleggja boð mega ekki gleyma því að góð umsjón er nauðsynleg. Eflaust hefur þú gaman af því að sýna gestrisni. Fyndist þér samt ekki leiðinlegt ef þú kæmist að því að vegna vanrækslu þinnar hefði gestur hneykslast á því sem átti sér stað á heimili þínu? Skoðum meginregluna í 5. Mósebók 22:8. Ísraelsmanni, sem byggði nýtt hús, var skylt að setja upp brjóstrið í kringum þakið sem var flatt og oft notað þegar tekið var á móti gestum. Af hverju? Í versinu segir: „Svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.“ Það sama á við um okkur. Það sem við gerum til að vernda gesti okkar ætti að vera gert með líkamlega og andlega velferð þeirra í huga, þótt við viljum ekki setja þeim óhóflegar hömlur.

16. Hvers þarf að gæta ef boðið er upp á áfengi þegar fólk kemur saman?

16 Ef boðið er upp á áfengi, þegar fólk kemur saman, ætti að gæta fyllstu varúðar. Margir kristnir gestgjafar ákveða að hafa ekki áfengi um hönd nema þeir geti sjálfir haft umsjón með neyslu gestanna. Það ætti ekki að leyfa neitt sem gæti hneykslað aðra eða fengið þá til að drekka of mikið. (Efesusbréfið 5:18, 19) Af ýmsum ástæðum gætu sumir gestir ákveðið að þiggja ekkert áfengi. Í mörgum löndum kveða lög á um að fólk megi ekki drekka áfengi fyrir ákveðinn aldur og kristnir menn fylgja lögum keisarans þótt þau geti stundum virst óþarflega ströng. — Rómverjabréfið 13:5.

17. (a) Af hverju er mikilvægt að gestgjafi sé afar vandfýsinn þegar tónlist er spiluð í samkvæmi? (b) Hvernig ætti að gæta siðsemi þegar boðið er upp á dans?

17 Gestgjafinn ætti að ganga úr skugga um að tónlist, dans og önnur skemmtun samræmist kristnum meginreglum. Tónlistarsmekkur fólks er mismunandi og margs konar tónlist er í boði. En stór hluti tónlistar nú til dags ýtir undir uppreisnaranda, siðleysi og ofbeldi. Við þurfum því að vera vandfýsin. Viðeigandi tónlist þarf ekki endilega að vera róleg en hún ætti ekki heldur að vera ögrandi eða klúr með áherslu á hávaða og þungan takt. Gættu þess að fela ekki einhverjum umsjón með tónlistinni sem skilur ekki nauðsyn þess að spila tónlistina ekki of hátt. Siðlaus dans þar sem áhersla er lögð á æsandi hreyfingar mjaðma og brjósta væri augljóslega ekki viðeigandi fyrir kristna menn. — 1. Tímóteusarbréf 2:8-10.

18. Hvernig geta foreldrar verndað börnin sín með því að fylgjast með félagslífi þeirra?

18 Þegar börn í söfnuðinum ákveða að hittast ættu foreldrar þeirra að vita hvað er á dagskrá og oftast væri viturlegt að fara með þeim. Því miður hafa sumir foreldrar leyft börnunum sínum að fara í eftirlitslausar veislur þar sem margir hafa leiðst út í siðleysi eða aðra óviðeigandi hegðun. (Efesusbréfið 6:1-4) Jafnvel þótt unglingar séu að nálgast tvítugt og hafi sýnt að þeir séu traustsins verðir þarf samt að hjálpa þeim að flýja „æskunnar girndir“. — 2. Tímóteusarbréf 2:22.

19. Hvaða staðreynd hjálpar okkur að einblína á það sem skiptir mestu máli í lífinu?

19 Heilnæm afþreying og skemmtun, sem stunduð er í hófi, getur verið endurnærandi og gert lífið ánægjulegra. Jehóva neitar okkur ekki um þessa gleði. En við vitum samt að í sjálfu sér hjálpar hvorki afþreying né skemmtun okkur að safna fjársjóði á himnum. (Matteus 6:19-21) Jesús leiddi lærisveinunum fyrir sjónir að það sem skipti mestu máli í lífinu væri að leita „fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis“ en ekki vera upptekinn, eins og heimurinn, af því sem við borðum, drekkum eða klæðumst. — Matteus 6:31-34.

20. Hvers geta trúfastir þjónar Jehóva vænst af hendi gjafara síns?

20 Já, hvort sem við ‚etum eða drekkum eða hvað sem við gerum‘ skulum við gera það „allt Guði til dýrðar“ og þakka gjafara okkar fyrir það góða sem við getum notið í hófi. (1. Korintubréf 10:31) Í paradís á jörð, sem er skammt undan, fáum við óþrjótandi tækifæri til að njóta til fulls örlætis Jehóva og félagsskapar þeirra sem uppfylla réttlátar kröfur hans. — Sálmur 145:16; Jesaja 25:6; 2. Korintubréf 7:1.

Manstu?

• Af hverju er erfitt fyrir kristna menn nú á dögum að finna heilnæma afþreyingu?

• Hvers konar afþreying hefur reynst kristnum fjölskyldum vel?

• Hvers þurfum við að gæta þegar við njótum heilnæmrar afþreyingar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Veldu afþreyingu sem gefur af sér góðan ávöxt.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Hvers konar afþreyingu forðast kristnir menn alfarið?