Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðsríki skarar fram úr á öllum sviðum

Guðsríki skarar fram úr á öllum sviðum

JESÚS KRISTUR sagði fylgjendum sínum: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Þessi bæn, sem er oftast nefnd faðirvorið, segir hver sé tilgangur Guðsríkis.

Nafn Guðs verður helgað með tilkomu Guðsríkis. Það verður hreinsað af allri þeirri smán sem uppreisn Satans og mannsins hefur haft í för með sér. Þetta er mikilvægt þar sem hamingja allra vitiborinna sköpunarvera stendur og fellur með því að helga nafn Guðs og viðurkenna rétt hans til að stjórna. — Opinberunarbókin 4:11.

Auk þess er Guðsríki stofnsett til að ‚vilji Guðs verði, svo á jörðu sem á himni‘. Hver er vilji hans? Að endurheimta sambandið milli sín og mannkynsins sem Adam glataði. Guðsríki þjónar einnig þeim tilgangi alheimsdrottnarans Jehóva að koma á paradís á jörð þar sem guðrækið fólk getur notið eilífs lífs. Guðsríki mun gera að engu allan þann skaða sem hefur hlotist af upphaflegu syndinni og mun þjóna í samræmi við kærleiksríkan tilgang Guðs með jörðina. (1. Jóhannesarbréf 3:8) Meginboðskapur Biblíunnar er tilkoma Guðsríkis og það sem það mun framkvæma.

Á hvaða sviðum skarar það fram úr?

Guðsríki er raunveruleg og valdamikil stjórn. Daníel spámaður gaf okkur innsýn í hve öflug hún er. Hann spáði: ‚Guð himnanna mun hefja ríki sem mun knosa og að engu gjöra öll ríki‘ manna. Guðsríki mun „standa að eilífu,“ ólíkt mannlegum stjórnum sem hafa komið og farið í rás sögunnar. (Daníel 2:44). Þar með er ekki öll sagan sögð því að þetta ríki skarar á öllum sviðum fram úr hvers konar stjórnum manna.

Konungur Guðsríkis skarar fram úr.

Hver er konungurinn? Daníel „dreymdi . . . draum, og sýnir bar fyrir hann“ og hann sá að „einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist“. Og hann var leiddur fyrir almáttugan Guð og „honum var gefið vald, heiður og ríki“ sem aldrei liði undir lok. (Daníel 7:1, 13, 14) Þessi mannsonur er Jesús Kristur — Messías. (Matteus 16:13-17) Jehóva Guð útnefndi son sinn, Jesú, sem konung ríkis síns. Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann við hina illu farísea: „Guðs ríki er meðal yðar“ sem þýddi að verðandi konungur þess væri mitt á meðal þeirra. — Lúkas 17:21, neðanmáls.

Getur nokkur maður jafnast á við Jesú sem stjórnandi? Jesús hefur þegar sýnt fram á að hann er fullkomlega réttlátur, áreiðanlegur og umburðalyndur leiðtogi. Í guðspjöllunum er honum lýst sem athafnamanni en jafnframt sem hlýjum og tilfinninganæmum. (Matteus 4:23; Markús 1:40, 41; 6:31-34; Lúkas 7:11-17) Og nú er Jesús upprisinn og er hvorki undirorpinn dauðanum né öðrum mannlegum takmörkunum. — Jesaja 9:6, 7.

Jesús og meðkonungar hans stjórna frá himnum.

Daníel sá í draumsýn sinni að „ríki og vald“ myndi „gefið verða heilögum lýð“. (Daníel 7:27) Jesús ríkir ekki einn síns liðs. Hann hefur aðra með sér sem eiga að stjórna sem konungar og þjóna sem prestar. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 20:6) Jóhannes postuli skrifaði: „Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir . . . þeir sem út eru leystir frá jörðunni.“ — Opinberunarbókin 14:1-3.

Lambið er Jesús Kristur eftir að hann er orðinn konungur Guðsríkis. (Jóhannes 1:29; Opinberunarbókin 22:3) Með Síonfjalli er átt við himininn. * (Hebreabréfið 12:22) Stjórnarsetur Jesú og 144.000 meðstjórnenda hans er á himnum. Þeir sitja hátt yfir jörðinni og hafa fulla yfirsýn yfir hana. Þar sem aðsetur stjórnarinnar er á himnum er hún einnig kölluð ‚himnaríki‘. (Lúkas 8:10; Matteus 13:11) Engin vopn, ekki einu sinni kjarnorkuvopn, geta ógnað og steypt þessari himnesku stjórn. Hún er ósigrandi og mun ná þeim tilgangi sem Jehóva ætlaði henni. — Hebreabréfið 12:28.

Guðsríki á dygga fulltrúa á jörð.

Hvernig vitum við það? Í Sálmi 45:17 segir: „Þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.“ Í þessum spádómi vísar „þú“ til sonar Guðs. (Sálmur 45:7, 8; Hebreabréfið 1:7, 8) Jesús Kristur skipar því sjálfur þessa höfðingja. Það má treysta því að þeir fari dyggilega eftir leiðbeiningum hans. Nú þegar eru hæfir menn skipaðir öldungar í kristna söfnuðinum og þeir læra að þeir eiga ekki að „drottna yfir“ trúsystkinum sínum heldur vernda þau, uppörva og hughreysta. — Matteus 20:25-28; Jesaja 32:2.

Þegnar Guðsríkis eru réttlátir.

Þeir eru grandvarir og hreinskilnir í augum Guðs. (Orðskviðirnir 2:21, 22) „Hinir hógværu fá landið til eignar,“ segir í Biblíunni, og „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) Þegnar Guðsríkis eru hógværir — námfúsir og auðmjúkir, mildir og nærgætnir. Þeir hafa brennandi áhuga á andlegum málum. (Matteus 4:4) Þá langar til að gera það sem er rétt og fara eftir leiðbeiningum Guðs.

Lög Guðsríkis skara fram úr.

Lög og ákvæði, sem gilda í ríki Guðs, koma frá Jehóva Guði sjálfum. Þau setja okkur ekki neinar óréttlátar skorður heldur eru okkur til góðs. (Sálmur 19:8-12) Margir njóta nú þegar góðs af því að lifa eftir réttlátum kröfum Jehóva. Til dæmis verður fjölskyldulífið farsælla þegar farið er eftir leiðbeiningum Biblíunnar til eiginmanna, eiginkvenna og barna. (Efesusbréfið 5:33–6:3) Við tengjumst öðrum sterkari böndum með því að hlýða fyrirmælunum: „Íklæðist . . . elskunni“. (Kólossubréfið 3:13, 14) Með því að lifa eftir meginreglum Biblíunnar temjum við okkur einnig góðar starfsvenjur og sjáum peninga í réttu ljósi. (Orðskviðirnir 13:4; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Við verndum heilsuna með því að forðast ofdrykkju, kynferðislegt siðleysi, reykingar og fíkniefni. — Orðskviðirnir 7:21-23; 23:29, 30; 2. Korintubréf 7:1.

Guðsríki er stjórn sem Guð hefur sett á. Konungur þess — Messías, Jesús Kristur — og allir meðstjórnendur hans eru ábyrgir gagnvart Guði að halda réttlát lög hans og kærleiksrík ákvæði. Þegnar Guðsríkis, þar með taldir jarðneskir fulltrúar þess, hafa unun af því að lifa samkvæmt þessum lögum. Guð er þannig stjórnendum og þegnum Guðsríkis efst í huga. Um er að ræða raunverulegt guðræði, það er að segja stjórn í höndum Guðs. Ríki hans tekst að framkvæma þann tilgang sem því er ætlað. En hvenær tekur Guðsríki, einnig þekkt sem Messíasarríkið, til starfa?

Guðsríki tekur til starfa

Af orðum Jesú má skilja hvenær Guðsríki tekur til starfa. Hann sagði: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:24) Jerúsalem var eina borgin í heiminum sem tengdist beinlínis nafni Guðs. (1. Konungabók 11:36; Matteus 5:35) Hún var höfuðborg jarðnesks konungsríkis sem Guð viðurkenndi og studdi. Þessi borg átti að verða fótum troðin af þjóðunum að því leyti að veraldlegar stjórnir áttu eftir að stöðva stjórn Guðs yfir þegnum sínum tímabundið. Hvenær átti það að gerast?

Síðasta konunginum, sem sat á veldisstóli Jehóva í Jerúsalem, var sagt: „Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna . . . Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.“ (Esekíel 21:25-27) Kórónan yrði tekin af höfði þessa konungs og hlé yrði á yfirráðum Guðs yfir þegnum sínum á jörðinni. Þetta gerðist 607 f.Kr. þegar Babýloníumenn lögðu Jerúsalem í eyði. Á ‚tímum heiðingjanna‘, sem fylgdu í kjölfarið, yrði enginn fulltrúi stjórnar Guðs á jörðinni. Þegar þessir tímar væru liðnir myndi Jehóva gefa þeim valdið „sem hefir réttinn“ til að stjórna — Jesú Kristi. Hve langt yrði það tímabil?

Í Daníelsbók segir: „Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum . . . uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar.“ (Daníel 4:23) Eins og við munum sjá eru hinar „sjö tíðir“, sem hér eru nefndar, jafnlangar og „tímar heiðingjanna“.

Í Biblíunni eru tré stundum látin tákna einstaka menn, valdhafa og konunga. (Sálmur 1:3; Jeremía 17:7, 8; Esekíel 31. kafli) Hið táknræna tré „mátti sjá . . . alla vega frá endimörkum jarðarinnar“. (Daníel 4:11) Ríkið, sem tréð táknaði og var höggvið upp og bundið, náði „um alla jörðina“, það er að segja yfir öll ríki jarðarinnar. (Daníel 4:17, 20, 22) Þetta tré táknar því alheimsdrottinvald Guðs, einkum er varðar jörðina. Þessi stjórn birtist um tíma þegar Jehóva setti upp konungdæmi í Ísrael. Hið táknræna tré var höggvið niður og járn- og eirfjötrar bundnir um stubbinn til að koma í veg fyrir frekari vöxt. Þetta gaf til kynna að konungsstjórn Guðs á jörð myndi hætta að starfa og það gerðist 607 f.Kr. — en ekki til frambúðar. Tréð yrði fjötrað þar til „sjö tíðir“ væru liðnar. Í lok þess tímabils myndi Jehóva láta stjórnina í hendur löglegs erfingja, Jesú Krists. Það er greinilegt að hinar „sjö tíðir“ og „tímar heiðingjanna“ eiga við sama tímabil.

Með hjálp Biblíunnar er hægt að reikna út hve ‚tíðirnar sjö‘ eru langar. Þær jafngilda 1260 dögum, það er að segja ‚tíð (einni tíð) og tíðum (tveim tíðum) og hálfri tíð‘ — samanlagt þremur og hálfri „tíð“. (Opinberunarbókin 12:6, 14, Biblían 1912) Tvöföld þessi tala, sjö tíðir, jafngildir þá 2520 dögum.

Þegar taldir eru 2520 bókstaflegir dagar frá 607 f.Kr. er komið að árinu 600 f.Kr. En hinar sjö tíðir stóðu miklu lengur. Þær stóðu enn yfir þegar Jesús talaði um ‚tíma heiðingjanna‘. Hinar sjö tíðir eru því spádómlegar. Í Biblíunni er notuð reglan „eitt ár fyrir hvern dag“ og hana verður því að nota. (4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6) Hinar sjö tíðir, sem veraldlegir valdhafar ráða yfir jörðinni án íhlutunar Guðsríkis, eru því 2520 ár. Með því að telja 2520 ár frá 607 f.Kr. er komið til ársins 1914 e.Kr. Það er árið sem „tímar heiðingjanna“, eða hinar sjö tíðir, tóku enda. Það merkir að Jesús Kristur tók að stjórna sem konungur Guðsríkis árið 1914.

„Til komi þitt ríki“

Nú hefur Messíasarríkið verið stofnað á himni. Ættum við þá að halda áfram að biðja um að það komi eins og Jesús kenndi lærisveinum sínum í faðirvorinu? (Matteus 6:9, 10) Já, það ættum við að gera. Þessi bæn er viðeigandi og í fullu gildi. Guðsríki á enn eftir að láta að fullu til sín taka hér á jörðinni.

Trúfastir menn munu njóta mikillar blessunar þegar að því kemur. Í Biblíunni segir: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim“ og „hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Þeir sem þóknast Guði munu njóta eilífs lífs. (Jóhannes 17:3) Meðan við bíðum eftir því að þetta rætist og aðrir dásamlegir spádómar uppfyllist skulum við halda áfram að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘. — Matteus 6:33.

^ gr. 10 Davíð konungur í Ísrael til forna tók vígi hins jarðneska Síonsfjalls af Jebúsítum og gerði þar höfuðborg sína. (2. Samúelsbók 5:6, 7, 9) Einnig flutti hann þangað örkina helgu. (2. Samúelsbók 6:17) Þar sem örkin tengdist nærveru Jehóva var talað um Síon sem dvalarstað Guðs og var hún því viðeigandi tákn himinsins. — 2. Mósebók 25:22; 3. Mósebók 16:2; Sálmur 9:12; Opinberunarbókin 11:19.