Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýndu ást og virðingu með því að hafa taum á tungunni

Sýndu ást og virðingu með því að hafa taum á tungunni

Sýndu ást og virðingu með því að hafa taum á tungunni

„Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:33.

1, 2. Hvaða mikilvægrar spurningar ætti allt gift fólk að spyrja sig og hvers vegna?

SETJUM sem svo að þér væri fenginn pakki í gjafaumbúðum. Pakkinn er merktur: „Brothætt“. Hvernig myndirðu meðhöndla hann? Þú myndir áreiðanlega gæta þess að hann yrði ekki fyrir hnjaski. Hvað um hjónabandið sem er gjöf frá Guði?

2 Ísraelska ekkjan Naomí sagði ungu konunum Orpu og Rut: „Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ (Rutarbók 1:3-9) Biblían segir um góða eiginkonu: „Hús og auður er arfur frá feðrunum, en skynsöm kona er gjöf frá Drottni.“ (Orðskviðirnir 19:14) Ef þú ert í hjónabandi þarftu að líta á maka þinn sem gjöf frá Guði. Hvernig ferðu með þessa gjöf?

3. Hvaða ráðum Páls ættu hjón að fylgja?

3 Páll postuli sagði í bréfi til kristinna manna á fyrstu öld: „Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu [það er að segja djúpa virðingu] fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:33) Við skulum kanna hvernig hjón geta farið eftir þessum ráðum í sambandi við notkun tungunnar.

Tungan er ‚óhemja‘

4. Hvernig er hægt að beita tungunni til góðs eða til ills?

4 Biblíuritarinn Jakob kallar tunguna „óhemju, sem er full af banvænu eitri“. (Jakobsbréfið 3:8) Jakob vissi að taumlaus tunga er skaðræðisgripur. Hann þekkti eflaust orðskviðinn sem líkir hugsunarlausum orðum við „spjótsstungur“. Sami orðskviður segir hins vegar að ‚tunga hinna vitru græði‘. (Orðskviðirnir 12:18) Já, orð geta haft sterk áhrif. Þau geta verið særandi eða græðandi. Hvaða áhrif hafa orð þín á maka þinn? Hverju ætli maki þinni myndi svara ef þú spyrðir hann?

5, 6. Hvað veldur því að sumir eiga erfitt með að hafa taum á tungu sinni?

5 Ef farið er að bera á meiðandi orðum í hjónabandinu er hægt að ráða bót á því. En það gerist ekki áreynslulaust. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þið eigið í höggi við ófullkomleika holdsins. Syndin, sem við höfum tekið í arf, hefur neikvæð áhrif á það hvernig við hugsum hvert um annað og tölum hvert við annað. „Hrasi einhver ekki í orði,“ skrifaði Jakob, „þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ — Jakobsbréfið 3:2.

6 Það er ekki aðeins ófullkomleikinn sem ýtir undir það að við misnotum tunguna heldur einnig uppeldi okkar. Sumir ólust upp á heimili þar sem foreldrarnir voru „ósáttfúsir . . . taumlausir [eða] grimmir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Börn, sem alast upp í slíku umhverfi, sýna oft sömu einkenni þegar þau verða fullorðin. En auðvitað getum við ekki afsakað skaðleg orð með því að við séum ófullkomin eða höfum ekki fengið nógu gott uppeldi. Hins vegar er gott að gera sér grein fyrir þessu því að það auðveldar okkur að skilja hvers vegna sumir eiga erfiðara en aðrir með að halda aftur af skaðlegum orðum.

‚Leggið af allt baktal‘

7. Hvað átti Pétur við þegar hann hvatti kristna menn til að ‚leggja af allt baktal‘?

7 Hver sem ástæðan er fyrir meiðandi orðum hjóna geta þau verið vísbending um að eitthvað vanti upp á kærleikann og virðinguna milli þeirra. Pétur postuli hafði ærna ástæðu til að hvetja kristna menn til að ‚leggja af allt baktal‘. (1. Pétursbréf 2:1) Gríska orðið, sem er þýtt „baktal“, merkir ‚móðgandi orðbragð‘. Það felur í sér hugmyndina að ‚láta orð dynja á fólki‘. Lýsir þetta ekki vel þeim áhrifum sem taumlaus tunga hefur?

8, 9. Hvað getur hlotist af hryssingslegum orðum og af hverju ættu hjón að forðast þau?

8 Það virðist ef til vill ekki mjög alvarlegt mál að hreyta ónotum í maka sinn en veltum fyrir okkur þeim áhrifum sem það getur haft. Að kalla maka sinn heimskan, latan eða eigingjarnan gefur í skyn að það sé hægt að lýsa með einu orði hvaða mann hann hafi að geyma — og það niðrandi orði. Það er ljótt að gera það. Og ekki er fallegt að alhæfa um galla maka síns. Er ekki fulldjúpt í árinni tekið að segja við maka sinn: „Þú ert alltaf seinn“ eða: „Þú hlustar aldrei á mig“? Slíkar alhæfingar hljóta að hafa þau áhrif að makinn fari í vörn. Og þá er stutt í rifrildi. — Jakobsbréfið 3:5.

9 Hryssingsleg orð reyna á hjónabandið og það getur haft alvarlegar afleiðingar ef hjón hreyta ónotum hvort í annað þegar þau tala saman. Í Orðskviðunum 25:24 segir: „Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.“ Hið sama má auðvitað segja um þrasgjarnan eiginmann. Meiðandi orð frá öðru hvoru hjónanna veikja smám saman tengslin milli þeirra og geta valdið því að eiginmanni eða eiginkonu finnist þau ekki elskuð eða jafnvel ekki elskuverð. Ljóst er að það er mikilvægt að hafa taum á tungunni. En hvernig er það hægt?

‚Hafðu taumhald á tungunni‘

10. Hvers vegna er mikilvægt að hafa stjórn á tungu sinni?

10 „Tunguna getur enginn maður tamið,“ segir í Jakobsbréfinu 3:8. Við ættum engu að síður gera okkar besta til að hafa taumhald á tungunni rétt eins og reiðmaður notar beisli til að hafa stjórn á hesti. „Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.“ (Jakobsbréfið 1:26; 3:2, 3) Af þessum orðum má sjá að það er alvarlegt mál hvernig maður notar tunguna. Það hefur ekki aðeins áhrif á sambandið við makann heldur einnig á samband manns við Jehóva Guð. — 1. Pétursbréf 3:7.

11. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að smávægilegur ágreiningur endi með rifrildi?

11 Það er viturlegt að taka eftir því hvernig maður talar við maka sinn. Ef spenna myndast milli ykkar hjónanna skaltu reyna að draga úr henni. Í 1. Mósebók 27:46–28:4 segir frá stöðu sem kom upp hjá Ísak og Rebekku, eiginkonu hans: „Rebekka mælti við Ísak: Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?“ Ekkert bendir til þess að Ísak hafi svarað henni hranalega. Hann sendi Jakob, son þeirra, burt til að finna sér guðhrædda konu sem ólíklegt var að yrði Rebekku til mæðu. Setjum sem svo að hjón verði ósátt. Hægt er að koma í veg fyrir að smávægilegur ágreiningur endi með rifrildi með því einu að segja frekar „ég“ en „þú“. Í stað þess að segja: „Þú gerir aldrei neitt með mér!“ mætti segja: „Ég vildi að við gætum verið meira saman.“ Einbeittu þér að vandamálinu í stað þess að einblína á manneskjuna. Berstu gegn þeirri tilhneigingu að reyna að ákvarða hvort ykkar hafi rétt fyrir sér og hvort hafi á röngu að standa. „Keppum . . . eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar,“ segir í Rómverjabréfinu 14:19.

Forðastu beiskju, ofsa og reiði

12. Um hvað ættum við að biðja til að hafa taumhald á tungunni og hvers vegna?

12 Til að hafa taumhald á tungunni er ekki nóg að gæta orða sinna því að orðin eiga sér ekki upptök í munninum heldur hjartanu. Jesús sagði: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ (Lúkas 6:45) Til að hafa taum á tungunni gætirðu þess vegna þurft að biðja eins og Davíð: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ — Sálmur 51:12.

13. Hvernig getur beiskja, ofsi og reiði verið kveikjan að meiðandi orðum?

13 Páll hvatti kristna menn í Efesus til að forðast bæði skaðleg orð og hvatirnar að baki þeim. Hann skrifaði: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Efesusbréfið 4:31) Við tökum eftir að Páll minnist á ‚beiskju, ofsa og reiði‘ áður en hann nefnir „hávaða og lastmæli“. Ef reiði kraumar innra með okkur er hætta á að hún brjótist út í meiðandi orðum. Þú ættir að spyrja þig: El ég á beiskju og reiði í hjarta mér? Er ég „reiðigjarn“? (Orðskviðirnir 29:22) Ef svo er skaltu biðja um hjálp Guðs til að sýna sjálfstjórn og til að sigrast á þessari tilhneigingu þannig að þú getir haft hemil á reiðinni. „Syndgið ekki,“ segir í Sálmi 4:5. „Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir.“ Ef þú kemst í uppnám og óttast að þú sért að missa stjórn á þér skaltu fylgja hvatningunni í Orðskviðunum 17:14: „Lát . . . af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ Dragðu þig í hlé um stund uns hættan er liðin hjá.

14. Hvaða áhrif getur gremja haft á hjónaband?

14 Það er ekki auðvelt að halda ofsa og reiði í skefjum, einkum ef þau eru sprottin af „beiskju“ sem Páll kallar svo. Gríska orðið, sem Páll notar, hefur verið skilgreint sem ‚gremja sem hafnar sáttum‘ og ‚illgirni sem heldur reikning yfir ávirðingar‘. Ósætti getur hangið eins og þokubakki milli hjóna og verið langvarandi. Ef hjón hafa ekki ráðið að fullu fram úr þrætuefni sínu getur það ýtt undir kulda og fyrirlitningu. En það er tilgangslaust að ala með sér gremju yfir fyrri ávirðingum. Það er ekki hægt að breyta orðnum hlut. Við skulum gleyma misgerðum sem búið er að fyrirgefa. Kærleikurinn „er ekki langrækinn“. — 1. Korintubréf 13:4, 5.

15. Hvað getur hjálpað þeim sem eru vanir að vera með hranaleg orð á vörunum að breyta talsmáta sínum?

15 Segjum sem svo að þú hafir alist upp við hranaleg orð á heimilinu og hafir tamið þér þess háttar talsmáta. Þú getur breytt þér. Þú hefur nú þegar sett þér ákveðin takmörk á mörgum sviðum í lífinu þar sem þú leyfir þér hreinlega ekki að hegða þér á ákveðinn hátt. Hvar ætlarðu að setja mörkin í sambandi við tunguna? Ætlarðu að hætta áður en orðin verða meiðandi? Þú ættir að setja þér þau takmörk sem lýst er í Efesusbréfinu 4:29: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni.“ Til að gera það þarftu að ‚afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðast hinum nýja sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns‘. — Kólossubréfið 3:9, 10.

Hjón verða að ræða málin

16. Af hverju er það skaðlegt fyrir hjónabandið að neita að tala við maka sinn?

16 Það skilar litlum árangri en getur verið til tjóns að neita að tala við maka sinn. Reyndar er ekki alltaf um það að ræða að maður vilji refsa maka sínum heldur getur annað hjónanna verið svo vonsvikið og niðurdregið að það dragi sig inn í skel. En það gerir bara illt verra að tala ekki við maka sinn og leysir engan vanda. Eiginkona nokkur segir: „Þegar við förum að tala saman á nýjan leik ræðum við aldrei um vandamálið.“

17. Hvað ættu kristin hjón að gera ef spenna er á milli þeirra?

17 Það er ekki hægt að stytta sér leið til að vinna bug á langvarandi spennu milli hjóna. Orðskviðirnir 15:22 segja: „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ Þú þarft að setjast niður með maka þínum og ræða málin. Hlustaðu fyrir alla muni á makann með opnum huga og hjarta. Ef það virðist ekki vera hægt væri ráð að leita aðstoðar öldunganna í söfnuðinum. Þeir hafa þekkingu á Biblíunni og mikla reynslu af því að beita meginreglum hennar. Þeir eru eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum“. — Jesaja 32:2.

Þú getur unnið stríðið

18. Hvaða baráttu er lýst í Rómverjabréfinu 7:18-23?

18 Það kostar baráttu að ná taumhaldi á tungunni. Hið sama er að segja um það að hafa stjórn á gerðum sínum. Páll postuli sagði um baráttuna sem hann átti í: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.“ „Lögmál syndarinnar“ í limum okkar veldur því að við höfum tilhneigingu til að misnota tunguna og aðra limi líkamans. (Rómverjabréfið 7:18-23) En við verðum að halda baráttunni áfram — og við getum sigrað með hjálp Guðs.

19, 20. Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað hjónum að hafa taumhald á tungu sinni?

19 Hugsunarlaus og hranaleg orð eiga ekki heima í samskiptum einstaklinga sem elska og virða hver annan. Lítum á fordæmi Jesú Krists á þessu sviði. Aldrei óvirti hann lærisveinana með orðum sínum. Hann snupraði postulana ekki einu sinni síðasta kvöldið sem hann lifði á jörð þegar þeir fóru að metast um hver þeirra væri mestur. (Lúkas 22:24-27) „Þér menn,“ segir Biblían, „elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ — Efesusbréfið 5:25.

20 En hvað um eiginkonuna? Hún ætti að bera djúpa virðingu fyrir eiginmanni sínum. (Efesusbréfið 5:33) Myndi eiginkona, sem virðir mann sinn, æpa á hann og hreyta í hann fúkyrðum? Páll skrifaði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Eiginkona á að vera undirgefin manni sínum eins og Kristur er undirgefinn Guði. (Kólossubréfið 3:18) Auðvitað getur enginn ófullkominn maður líkt fullkomlega eftir Jesú en ef hjón leggja sig í líma við að „feta í hans fótspor“ hjálpar það þeim að sigra í baráttunni við tunguna. — 1. Pétursbréf 2:21.

Hvað lærðir þú?

• Hvernig getur taumlaus tunga skaðað hjónabandið?

• Af hverju er erfitt að hafa taumhald á tungunni?

• Hvað hjálpar okkur að hafa stjórn á orðum okkar?

• Hvað ættum við að gera þegar spenna myndast í hjónabandinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Öldungar veita ráð frá Biblíunni.