Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sólkerfið — hvernig varð það til?

Sólkerfið — hvernig varð það til?

Sólkerfið — hvernig varð það til?

SÁ HLUTI alheimsins, sem við búum í, er einstakur fyrir margra hluta sakir. Sólkerfið okkar er mitt á milli tveggja þyrilarma í Vetrarbrautinni og tiltölulega fáar stjörnur á næsta leiti. Nálega allar stjörnur, sem við sjáum að nóttu, eru svo fjarlægar að þær sjást aðeins sem ljósdeplar þegar horft er á þær í öflugustu stjörnusjónaukum. Er þetta heppileg staðsetning?

Ef sólkerfið væri nær miðju Vetrarbrautarinnar myndi stjörnumergðin þar hafa skaðleg áhrif á okkur. Sporbraut jarðar myndi sennilega raskast og það myndi hafa afdrifarík áhrif á líf okkar mannanna. Sólkerfið virðist vera nákvæmlega rétt staðsett í Vetrarbrautinni til að afstýra þessari hættu og mörgum öðrum. Ef það væri nær miðju Vetrarbrautarinnar gæti það farið gegnum gasský og ofhitnað og það væri jafnframt óvarið fyrir sprengistjörnum og banvænni geislun af öðrum orsökum.

Sólin er stjarna sem hentar þörfum okkar eins og best verður á kosið. Ljósafl hennar er stöðugt, hún er langlíf og er hvorki of stór né of heit. Langflestar stjörnur í Vetrarbrautinni eru miklu minni en sólin og gefa hvorki frá sér hentugt ljós né hæfilegan varma til að viðhalda lífi á reikistjörnu á borð við jörðina. Flestar stjörnur eru auk þess bundnar aðdráttarafli við eina eða fleiri stjörnur svo að þær snúast hver um aðra. Sólin okkar er hins vegar óháð öðrum stjörnum. Það er afar ólíklegt að sólkerfið væri stöðugt ef tvær eða fleiri sólir toguðu í það með aðdráttarafli sínu.

Annað sem gerir að verkum að sólkerfið okkar er einstakt er staðsetning ytri reikistjarnanna. Sporbrautir þessara risastóru reikistjarna eru næstum hringlaga og aðdráttarafl þeirra hefur sáralítil áhrif á innri reikistjörnurnar sem eru með fast yfirborð eins og jörðin. * Ytri reikistjörnurnar vernda þær innri með því að draga til sín hættulega hluti og sveigja þá af braut. „Svo er gaskenndum risareikistjörnum eins og Júpíter að þakka að smástirni og halastjörnur lenda sárasjaldan á okkur.“ Þetta kemur fram í bókinni Rare Earth — Why Complex Life Is Uncommon in the Universe eftir Peter D. Ward og Donald Brownlee. Fundist hafa önnur sólkerfi með risareikistjörnum. Sporbrautir flestra risanna eru hins vegar þannig að smærri reikistjörnum líkum jörðinni myndi stafa hætta af þeim.

Hlutverk tunglsins

Tunglið hefur frá fornu fari vakið lotningu manna. Það hefur veitt ljóðskáldum og tónskáldum ómældan innblástur. Forn-hebreskt ljóðskáld lýsir tunglinu til dæmis svo að það skuli „standa að eilífu“ og kallar það „hið trausta vitni skýjum ofar“. — Sálmur 89:38, Biblíurit, ný þýðing 2003.

Tunglið hefur sín áhrif á lífið á jörðinni af því að aðdráttarafl þess á stóran þátt í sjávarföllunum, en sjávarföllin eru talin einn af meginþáttum hafstraumanna sem hafa gríðarleg áhrif á veðurfar jarðar.

Annað hlutverk tunglsins er það að aðdráttarafl þess heldur möndulhalla jarðar stöðugum. Ef tunglsins nyti ekki við myndi möndulhallinn sveiflast frá „næstum 0 gráðum upp í 85 gráður“ á löngu tímabili, að sögn vísindatímaritsins Nature. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig lífið væri á jörðinni ef snúningsmöndull hennar hallaðist ekki. Þá færum við á mis við unaðsleg árstíðaskiptin og stórlega myndi draga úr úrkomu. Möndulhallinn kemur einnig í veg fyrir að það verði sums staðar of heitt og sums staðar of kalt á jörðinni til að menn geti búið þar. „Hið stöðuga loftslag á jörðinni á sér óvenjulega orsök: nærveru tunglsins,“ segir stjörnufræðingurinn Jacques Laskar. Og tunglið hefur þessi jafnvægisáhrif vegna þess að það er stórt miðað við jörðina, hlutfallslega stærra en tungl risareikistjarnanna.

Að síðustu má nefna að fylgihnöttur jarðar sér henni fyrir daufu ljósi að nóttu en minnst er á það hlutverk í fyrstu bók Biblíunnar. — 1. Mósebók 1:16.

Tilviljun eða sköpun?

Hvernig er hægt að skýra tilvist svona margra samverkandi þátta sem stuðla allir að því að hér sé bæði lífvænlegt og ánægjulegt að búa? Aðeins tvær skýringar virðast koma til greina. Önnur er sú að allt hafi þetta myndast af hreinni tilviljun og án nokkurs tilgangs. Hin er sú að það búi hugvit og tilgangur að baki.

Fyrir þúsundum ára var skráð í Heilaga ritningu að alheimurinn væri hannaður og gerður af viti bornum skapara, alvöldum Guði. Ef það er rétt merkir það að þær aðstæður, sem við búum við í sólkerfinu, hafi ekki myndast af hreinni tilviljun heldur séu þær úthugsaðar. Skaparinn hefur látið okkur í té skráða heimild um það hvernig hann gerði markvissar ráðstafanir til að búa jörðina undir líf. Þó að þessi skráða heimild sé um 3500 ára gömul kemur lýsing hennar í megindráttum heim og saman við lýsingu vísindamanna á því hvernig þeir telja sögu alheimsins vera. Þessa lýsingu er að finna í fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók. Lítum nánar á hana.

Sköpunarsaga Biblíunnar

„Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Fyrstu orð Biblíunnar lýsa tilurð sólkerfisins, þar á meðal jarðar, og tilurð stjarnanna í þeim milljörðum vetrarbrauta sem eru í alheiminum. Að sögn Biblíunnar var jörðin á sínum tíma „auð og tóm“. Þar voru engin meginlönd og ekkert þurrlendi með jarðvegi. En í sama versi kemur fram að á jörðinni hafi verið mikilvægasta forsenda þess að líf gæti þrifist hér, það er að segja nóg af vatni. Í Biblíunni segir: „Andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ — 1. Mósebók 1:2.

Til að vatn sé í fljótandi formi þarf reikistjarna að vera í hæfilegri fjarlægð frá sólu. „Á Mars er of kalt og á Venus of heitt en á jörðinni er hitastigið mátulegt,“ segir reikistjörnufræðingurinn Andrew Ingersoll. Sömuleiðis þarf að vera nægilegt ljós til að jurtir geti vaxið. Í sköpunarsögu Biblíunnar segir einmitt að snemma á sköpunartímanum hafi Guð látið sólarljósið þrengja sér gegnum þykk gufuský sem umluktu hafið eins og ungbarn sem er vafið „reifum“. — Jobsbók 38:4, 9; 1. Mósebók 1:3-5.

Í næsta versi 1. Mósebókar kemur fram að skaparinn hafi búið til það sem kallað er „festing“. (1. Mósebók 1:6-8) Hér er átt við gufuhvolfið með þeim lofttegundum sem tilheyra því.

Þessu næst segir Biblían að Guð hafi breytt yfirborði jarðar þannig að þurrlendið kæmi í ljós. (1. Mósebók 1:9, 10) Þetta hefur greinilega gerst þannig að jarðskorpan hefur krumpast og hreyfst til. Við þetta kunna að hafa myndast djúpar dældir og meginlöndin lyfst upp úr hafinu. — Sálmur 104:6-8.

Á einhverjum ótilgreindum tíma í sögu jarðar skapaði Guð smásæja svifþörunga í höfunum. Þessir einfrumungar, sem fjölga sér sjálfstætt, tóku að breyta koldíoxíði í næringarefni og losa súrefni út í andrúmsloftið. Þessu ferli hefur hraðað mjög á þriðja sköpunartímabilinu þegar gróðurinn, sem klæddi síðan þurrlendið, var skapaður. Þannig jókst hlutfall súrefnis í andrúmsloftinu svo að menn og dýr gætu viðhaldið sér með öndun. — 1. Mósebók 1:11, 12.

Til að jarðvegurinn yrði frjósamur myndaði skaparinn fjölbreyttar örverur sem lifa í jörð. Þessar smásæju lífverur brjóta niður dautt efni og endurvinna frumefni sem jurtir þurfa til vaxtar og viðhalds. Sérhæfðir jarðvegsgerlar vinna köfnunarefni úr loftinu og binda það þannig að jurtir geti notað það sér til næringar. Þótt ótrúlegt sé geta verið heilir sex milljarðar örvera í einni hnefafylli af gróðurmold!

Í 1. Mósebók 1:14-19 er talað um að sól, tungl og stjörnur hafi verið gerð á fjórða sköpunartímabilinu. Við fyrstu sýn virðist þetta stangast á við skýringuna hér á undan. En höfum hugfast að Móse, sem skrifaði 1. Mósebók, lýsti sköpuninni eins og hún hefði horft við frá sjónarhóli manns ef einhver hefði verið á jörðinni. Hér er greinilega átt við það að sól, tungl og stjörnur hafi orðið sýnileg frá jörðu séð á þessum tíma.

Í sköpunarsögu Biblíunnar segir að sjávardýr hafi orðið til á fimmta sköpunartímabilinu og landdýr ásamt manninum á því sjötta. — 1. Mósebók 1:20-31.

Jörðin var gerð til að maðurinn gæti notið hennar

Virðist þér ekki að lífið á jörðinni, sem kom til eins og lýst er í sköpunarsögu Biblíunnar, hafi verið skapað til að við mennirnir gætum notið þess? Hefurðu einhvern tíma vaknað á sólríkum morgni, andað að þér fersku loftinu og verið þakklátur fyrir lífið? Hefurðu gengið um fallegan garð og teygað fegurð og angan blómanna? Eða hefurðu gengið gegnum aldingarð og tínt gómsæta ávexti? Ekkert af þessu er hægt nema eftirfarandi skilyrði séu fyrir hendi: (1) meira en nægur vatnsforði, (2) hæfilegur varmi og ljós frá sólinni, (3) andrúmsloft með réttri blöndu lofttegunda og (4) jarðvegur.

Þessar forsendur lífs — sem vantar á Mars, Venusi og hinum reikistjörnunum — urðu ekki til af neinni tilviljun heldur voru þær skapaðar af ýtrustu nákvæmni til að gera lífið á jörðinni sem ánægjulegast. Eins og bent er á í næstu grein kemur einnig fram í Biblíunni að skaparinn hafi gert hið fagra heimili okkar, jörðina, til að standa að eilífu.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Innri reikistjörnurnar, Merkúríus, Venus, Jörðin og Mars, eru með hörðu yfirborði en hinar stóru ytri reikistjörnur, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus, eru að miklu leyti gaskenndar.

[Rammi á blaðsíðu 6]

„Segjum að ég fengi það verkefni sem jarðfræðingur að skýra hugmyndir nútímamanna um uppruna jarðar og tilurð lífsins fyrir óbreyttum hirðingjum eins og ættbálkunum sem 1. Mósebók var skrifuð fyrir. Sennilega væri þá einna best að fylgja í stórum dráttum orðfæri fyrsta kaflans í 1. Mósebók.“ — Jarðfræðingurinn Wallace Pratt.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

EINKAR VEL STAÐSETT TIL STJÖRNUFRÆÐIRANNSÓKNA

Ef sólin væri annars staðar í Vetrarbrautinni hefðum við lakara útsýni til annarra stjarna. „Sólkerfi okkar er ... víðs fjarri svæðum með miklu ryki og ljósmengun þannig að við höfum ágætis útsýni bæði til nálægra stjarna og fjarlægra hluta alheimsins,“ að sögn bókarinnar The Privileged Planet.

Stærð tunglsins og fjarlægð frá jörðu er mátuleg til að tunglið nái að hylja sólskífuna þegar sólmyrkvi verður. Þetta fágæta en mikilfenglega náttúrufyrirbæri auðveldar stjörnufræðingum að rannsaka sólina og slíkar rannsóknir hafa gert þeim kleift að varpa ljósi á það hvers vegna stjörnur skína.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Massi tunglsins er nægur til að halda möndulhalla jarðar stöðugum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Líf þrífst á jörðinni vegna þess að hér er andrúmsloft, jarðvegur, nóg af vatni og hæfilega hlýtt og bjart.

[Rétthafi]

Hnöttur: Byggt á ljósmynd frá NASA; hveiti: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.