Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Börn — hlýðið foreldrum ykkar

Börn — hlýðið foreldrum ykkar

Börn — hlýðið foreldrum ykkar

„Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:1.

1. Hvernig getur hlýðni verið þér til verndar?

VIÐ erum ef til vill á lífi núna vegna þess að við höfum verið hlýðin. Aðrir gætu hafa týnt lífi vegna þess að þeir hlýddu ekki. Hverju þurfum við að hlýða? Viðvörunum, til dæmis frá líkama okkar sem er „undursamlega skapaður“. (Sálmur 139:14) Við sjáum kannski þungbúin ský, heyrum drunur í fjarska og finnum að hárið verður rafmagnað. Ef þér hefur verið kennt að þetta séu merki um yfirvofandi storm, haglél og lífshættulegt þrumveður veistu að þú verður að leita skjóls.

2. Hvers vegna þurfa börn að fá viðvaranir og af hverju ættu þau að hlýða foreldrum sínum?

2 Þið börn þurfið að fá viðvaranir. Foreldrar ykkar bera ábyrgð á því að vara ykkur við hugsanlegum hættum. Þú manst ef til vill eftir að hafa heyrt: „Ekki koma við helluna. Hún er heit.“ „Ekki standa of nálægt vatnsbakkanum. Það er hættulegt.“ „Horfðu til beggja hliða áður en þú ferð yfir götuna.“ Því miður hafa sum börn slasast eða jafnvel dáið vegna þess að þau hlýddu ekki. „Það er rétt“ að hlýða foreldrum sínum. Það er líka mjög viturlegt. (Orðskviðirnir 8:33) Í öðrum ritningarstað segir að það sé Drottni okkar, Jesú Kristi, „þóknanlegt“. Já, Guð segir þér að hlýða foreldrum þínum. — Kólossubréfið 3:20, Biblían 1859; 1. Korintubréf 8:6.

Hlýðni veitir eilíf laun

3. Í hverju felst „hið sanna líf“ fyrir flest okkar og hvernig geta börn átt von um þetta líf?

3 Ef þú hlýðir foreldrum þínum verndar það þig núna og það getur líka veitt þér von um „hið sanna líf“ í framtíðinni. (1. Tímóteusarbréf 4:8; 6:19) Fyrir flest okkar er hið sanna líf fólgið í því að lifa að eilífu á jörðinni í nýjum heimi Guðs sem hann hefur lofað þeim sem fylgja boðorðum hans trúfastlega. Eitt mikilvægasta boðorðið er á þessa leið: „‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ‚til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘“ Þú verður því hamingjusamur ef þú hlýðir foreldrum þínum. Þá verður framtíð þín örugg og þú getur átt von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Efesusbréfið 6:2, 3.

4. Hvernig geta börn heiðrað Guð og hvernig njóta þau góðs af því?

4 Þegar þú heiðrar foreldra þína með því að hlýða þeim heiðrarðu líka Guð því að hann er sá sem segir þér að hlýða þeim. Þú nýtur líka sjálfur góðs af því. Í Biblíunni segir: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ (Jesaja 48:17; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Hvernig er hlýðni þér til góðs? Ef þú ert hlýðinn verða foreldrar þínir ánægðir og munu örugglega láta það í ljós og það mun gera líf þitt ánægjulegra. (Orðskviðirnir 23:22-25) En það sem meira máli skiptir er að faðir þinn á himnum verður ánægður og hann mun launa þér á stórkostlegan hátt. Við skulum athuga hvernig Jehóva blessaði og verndaði Jesú sem sagði: „Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ — Jóhannes 8:29.

Jesús var iðinn

5. Hvers vegna getum við treyst því að Jesús hafi verið iðinn og vinnusamur?

5 Jesús var frumburður Maríu, móður sinnar. Jósef, fósturfaðir hans, var trésmiður. Jesús varð einnig smiður og lærði iðnina greinilega af Jósef. (Matteus 13:55; Markús 6:3; Lúkas 1:26-31) Hvernig smiður heldurðu að hann hafi verið? Þegar hann var á himnum, áður en líf hans var flutt í móðurkvið Maríu fyrir kraftaverk, sagði hann sem persónugervingur viskunnar: „Þá stóð ég [Guði] við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern.“ Guð hafði velþóknun á Jesú sem var iðinn á himnum. Heldurðu ekki að Jesús hafi líka reynt að vera iðinn og duglegur sem smiður hér á jörðinni þegar hann var ungur maður? — Orðskviðirnir 8:30; Kólossubréfið 1:15, 16.

6. (a) Hvers vegna heldurðu að Jesús hafi hjálpað til heima þegar hann var barn? (b) Hvernig geta börn líkt eftir Jesú?

6 Þegar Jesús var ungur hefur hann mjög sennilega farið í leiki eins og Biblían segir að börn hafi gert á þeim tímum. (Sakaría 8:5; Matteus 11:16, 17) En þú getur verið viss um að þar sem hann var elsta barnið í stórri fjölskyldu, sem hafði ekki mikið handa á milli, hafi hann örugglega þurft að sinna ákveðnum heimilisverkum auk þess að læra trésmíði af Jósef. Seinna fór Jesús að sinna prédikunarstarfinu, helgaði sig því og tók það fram yfir persónuleg þægindi. (Lúkas 9:58; Jóhannes 5:17) Sérðu hvernig þú getur líkt eftir Jesú? Biðja foreldrarnir þig stundum að taka til í herberginu eða sinna öðrum heimilisstörfum? Hvetja þau þig til að tilbiðja Guð með því að sækja samkomur og segja öðrum frá trú þinni? Hvernig heldurðu að Jesús hefði brugðist við ef hann hefði verið beðinn um eitthvað slíkt?

Duglegur biblíunemandi og kennari

7. (a) Hverjir gætu hafa verið samferða Jesú á páskahátíðina? (b) Hvar var Jesús þegar aðrir héldu heim á leið og hvers vegna?

7 Allir ísraelskir drengir og karlmenn áttu að fara til Jerúsalem til að tilbiðja Jehóva í musterinu á gyðingahátíðunum þremur. (5. Mósebók 16:16) Þegar Jesús var 12 ára hefur sennilega öll fjölskyldan farið til Jerúsalem á páskahátíðina, þar á meðal hálfsystkini hans. Samferða þeim voru hugsanlega Salóme, sem gæti hafa verið systir Maríu, Sebedeus, eiginmaður hennar, og synir þeirra Jakob og Jóhannes sem síðar urðu postular. * (Matteus 4:20, 21; 13:54-56; 27:56; Markús 15:40; Jóhannes 19:25) Á heimleiðinni gerðu Jósef og María ef til vill ráð fyrir að Jesús væri með ættingjum og tóku ekki strax eftir því að hann vantaði. Þrem dögum síðar fundu þau hann loksins í musterinu þar sem hann sat „mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá“. — Lúkas 2:44-46.

8. Hvað var Jesús að gera í musterinu og hvers vegna vakti það undrun fólks?

8 Hvað er átt við þegar sagt er að Jesús hafi verið að spyrja lærifeðurna? Sennilega var hann ekki bara að spyrja spurninga til að svala forvitni sinni eða afla upplýsinga. Gríska orðið sem hér er notað gæti átt við spurningar sem notaðar eru í réttarsal, meðal annars gagnspurningar. Já, frá unga aldri var Jesús duglegur biblíunemandi sem kom lærðum trúarleiðtogum á óvart. „Alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum,“ segir í Biblíunni. — Lúkas 2:47.

9. Hvernig geturðu tekið Jesú þér til fyrirmyndar í sambandi við biblíunám?

9 Af hverju heldurðu að Jesús hafi á unga aldri getað komið reyndum kennurum á óvart með biblíuþekkingu sinni? Að sjálfsögðu var hann þeirrar blessunar aðnjótandi að eiga guðhrædda foreldra sem kenndu honum boðorð Guðs frá blautu barnsbeini. (2. Mósebók 12:24-27; 5. Mósebók 6:6-9; Matteus 1:18-20) Við getum verið viss um að þegar Jesús var barn tók Jósef hann með sér í samkunduna til að hlusta á upplestur úr Ritningunni og umræður um hana. Ert þú einnig svo lánsamur að eiga foreldra sem veita þér biblíufræðslu og taka þig með á samkomur? Kanntu að meta það sem þau leggja á sig eins og Jesús mat viðleitni foreldra sinna? Segir þú öðrum frá því sem þú lærir eins og Jesús gerði?

Jesús var undirgefinn

10. (a) Af hverju hefðu foreldrar Jesú átt að vita hvar hann var? (b) Hvernig gaf Jesús börnum gott fordæmi?

10 Hvernig heldurðu að Maríu og Jósef hafi liðið þegar þau fundu Jesú loks í musterinu eftir 3 daga? Þeim var eflaust mjög létt. En Jesús virtist vera hissa á því að foreldrar hans hafi ekki vitað hvar hann var. Bæði vissu þau að Jesús hefði fæðst fyrir kraftaverk. Og þótt þau hafi ekki þekkt öll smáatriði hljóta þau að hafa vitað eitthvað um hlutverk hans í framtíðinni sem frelsara og stjórnanda í Guðsríki. (Matteus 1:21; Lúkas 1:32-35; 2:11) Þess vegna spurði Jesús þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En Jesús hlýddi samt foreldrum sínum og sneri með þeim heim til Nasaret. Í Biblíunni segir: „[Hann] var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.“ — Lúkas 2:48-51.

11. Hvað geturðu lært af fordæmi Jesú um hlýðni?

11 Finnst þér alltaf auðvelt að líkja eftir Jesú og hlýða foreldrum þínum? Eða finnst þér stundum eins og þau skilji ekki heim nútímans og þú vitir meira en þau? Kannski veistu meira um suma hluti eins og farsíma, tölvur eða aðra nútímatækni. En leiddu hugann að Jesú sem kom reyndum kennurum í opna skjöldu með ‚skilningi sínum og andsvörum‘. Þú ert eflaust sammála því að í samanburði við hann veistu ósköp lítið. Samt sem áður sýndi Jesús foreldrum sínum undirgefni. Það þýðir ekki endilega að hann hafi alltaf verið sammála ákvörðunum þeirra. En hann „var þeim hlýðinn“ — öll unglingsárin. Hvað heldurðu að þú getir lært af fordæmi hans? — 5. Mósebók 5:16, 29.

Áskorun að hlýða

12. Hvernig getur hlýðni bjargað lífi manns?

12 Það er ekki alltaf auðvelt að hlýða eins og sannaðist fyrir nokkrum árum þegar tvær stúlkur ætluðu að hlaupa yfir hraðbraut með sex akreinum í stað þess að nota göngubrúna. „Komdu John,“ sögðu þær við vin sinn sem hélt í átt að brúnni. „Kemurðu ekki með okkur?“ Þegar hann hikaði stríddi önnur stúlkan honum og sagði: „Þú ert bara skræfa.“ En þótt John væri ekki hræddur sagði hann: „Ég verð að hlýða mömmu.“ Stuttu seinna, þegar hann var á göngubrúnni, heyrði hann ískur í dekkjum og leit niður í því augnabliki sem stúlkurnar urðu fyrir bíl. Önnur þeirra dó og hin slasaðist svo illa að það þurfti að taka af henni annan fótlegginn. Móðir stúlknanna hafði sagt þeim að nota göngubrúna. Hún sagði síðar við móður Johns: „Ég vildi óska að þær hefðu verið jafn hlýðnar og sonur þinn.“ — Efesusbréfið 6:1.

13. (a) Hvers vegna ættirðu að hlýða foreldrum þínum? (b) Hvenær væri rétt af barni að fara ekki eftir því sem foreldrarnir segja?

13 Af hverju segir Guð: „Börn, hlýðið foreldrum yðar?“ Með því að hlýða foreldrunum ertu líka að hlýða Guði. Þar að auki eru foreldrarnir reyndari en þú. Til dæmis átti móðir Johns vinkonu sem missti barn þegar það reyndi að fara yfir þessa sömu hraðbraut fimm árum áður. Þótt það sé kannski ekki alltaf auðvelt að hlýða foreldrunum segir Guð að þú eigir að gera það. En ef foreldrar þínir eða aðrir segja þér að ljúga, stela eða gera eitthvað annað sem Guð hefur vanþóknun á verðurðu að „hlýða Guði [framar] en mönnum“. Biblían segir börnum að ‚hlýða foreldrum sínum vegna Drottins‘ og þess vegna ættu þau að hlýða þeim í öllu svo framarlega sem það samræmist lögum Guðs. — Postulasagan 5:29.

14. Af hverju er auðveldara fyrir fullkominn mann að vera hlýðinn en hvers vegna myndi hann þurfa að læra hlýðni?

14 Heldurðu að það væri alltaf auðvelt að hlýða foreldrum þínum ef þú værir fullkominn, það er að segja „óflekkaður [og] greindur frá syndurum“ eins og Jesús var? (Hebreabréfið 7:26) Ef þú værir fullkominn hefðirðu ekki þessu sömu tilhneigingu og þú hefur núna til að gera það sem er rangt. (1. Mósebók 8:21; Sálmur 51:7) Jesús þurfti meira að segja að læra ýmislegt um hlýðni. Í Biblíunni segir: „Þótt [Jesús] sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.“ (Hebreabréfið 5:8) Hvernig gerðu þjáningar Jesú honum kleift að læra hlýðni sem hann lærði ekki á himnum?

15, 16. Hvernig lærði Jesús hlýðni?

15 Með hjálp Jehóva vernduðu Jósef og María Jesú þegar hann var barn. (Matteus 2:7-23) En að lokum hætti Guð að vernda Jesú á yfirnáttúrulegan hátt. Jesús þjáðist svo mikið andlega og líkamlega að Biblían segir að hann hafi borið fram „með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp“. (Hebreabréfið 5:7) Hvenær gerðist það?

16 Þetta gerðist einkum síðustu klukkustundirnar sem Jesús lifði hér á jörð þegar Satan gerði allt sem hann gat til að brjóta ráðvendni hans á bak aftur. Jesús hafði greinilega svo miklar áhyggjur af því að dauði hans sem glæpamaður myndi sverta nafn Jehóva, að þegar hann baðst fyrir í Getsemanegarðinum varð „sveiti hans . . . eins og blóðdropar, er féllu á jörðina“. Nokkrum klukkustundum síðar var hann tekinn af lífi á kvalastaur, en það var svo sársaukafullt að hann bar fram bænir með „sárum kveinstöfum og táraföllum“. (Lúkas 22:42-44; Markús 15:34) Þannig „lærði hann hlýðni af því, sem hann leið“ og gladdi hjarta föður síns. Jesús er nú á himnum og finnur til með okkur þegar okkur reynist erfitt að vera hlýðin. — Orðskviðirnir 27:11; Hebreabréfið 2:18; 4:15.

Að læra hlýðni

17. Hvernig ættum við að líta á þann aga sem við fáum?

17 Þegar foreldrar þínir aga þig sýnir það að þau vilja þér vel — að þau elska þig. „Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?“ spyr Biblían. Væri ekki sorglegt ef foreldrar þínir elskuðu þig ekki nógu mikið til að gefa sér tíma til að leiðrétta þig? Það er eins með Jehóva. Hann agar þig af því að hann elskar þig. „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:7-11.

18. (a) Um hvað er kærleiksríkur agi merki? (b) Hvernig hefur þú orðið vitni að því að slíkur agi móti líf fólks til hins betra?

18 Konungur í Forn-Ísrael, sem Jesús minntist fyrir mikla visku, talaði um nauðsyn þess að foreldrar beittu kærleiksríkum aga. „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn,“ skrifaði Salómon, „en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ Hann sagði meira að segja að þeim sem fengi kærleiksríka leiðréttingu yrði bjargað frá dauðanum. (Orðskviðirnir 13:24; 23:13, 14; Matteus 12:42) Kristin kona minnist þess að þegar hún var barn og hagaði sér illa á samkomum hafi faðir hennar sagt henni að búast við að fá ögun þegar þau kæmu heim. Núna hugsar hún til föður síns með hlýhug því að hann veitti henni kærleiksríkan aga sem mótaði líf hennar til hins betra.

19. Hver er helsta ástæðan fyrir því að þú ættir að hlýða foreldrum þínum?

19 Ef foreldrar þínir elska þig nógu mikið til að taka sér tíma til að aga þig á kærleiksríkan hátt geturðu verið þakklátur fyrir það. Þú skalt hlýða þeim eins og Jesús Kristur, Drottinn okkar, hlýddi foreldrum sínum Jósef og Maríu. En umfram allt skaltu hlýða þeim því að Jehóva Guð segir þér að gera það. Það mun vera þér til góðs og verða til þess „að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“. — Efesusbréfið 6:2, 3.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 841. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvaða gagn hafa börn af því að hlýða foreldrum sínum?

• Hvernig gaf Jesús gott fordæmi með því að hlýða foreldrum sínum?

• Hvernig lærði Jesús hlýðni?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jesús var vel heima í Ritningunni þegar hann var tólf ára gamall.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Hvernig lærði Jesús hlýðni af því sem hann leið?